Hljóðbókasafn Íslands 40 ára!

Á árinu fagnaði Hljóðbókasafn Íslands 40 árum en stofnun safnsins miðast við reglugerð um Blindrabókasafn frá 7. maí 1982. Hátíðardagskrá var haldin í húsakynnum safnsins að Digranesvegi þann 7. maí en að auki var á afmælisári unnin heildarstefnumótun og sett upp sýning um Guðrúnu frá Lundi.

Gestir í afmælisfögnuði hlýða á tónlistaratriði frá Má Gunnarssyni og Ivu Marín Adrichem.

Upphafsárin

Fyrstu hljóðbækurnar eða fyrsti innlestur bóka verður til með segulbandstækninni á sjötta áratugnum. Farið er að lesa inn á segulbandsspólur á vegum Blindravinafélags Íslands í kringum 1955 og árið 1957 hófst sams konar lestur hjá Blindrafélaginu. Allir sem lásu inn gerðu það í sjálfboðavinnu og voru oft að lesa heima hjá sér við ærið misjafnar aðstæður.  Árið 1975 gerðu Blindrafélagið og Borgarbókasafn með sér samning um útgáfu og miðlun hljóðbóka. Borgarbókasafnið sá um skráningu og dreifingu en Blindrafélagið hljóðritaði bækurnar. Þarna verður til vísir að hljóðbókasafni undir heitinu Bókin heim og var staðsett í Sólheimasafni og síðar í Hólmgarði. Vegna vinsælda var síðan sett á laggirnar hljóðbókadeild innan Borgarbókasafns í tengslum við Blindrafélagið og fjölgaði hljóðbókum ár frá ári. Þessi deild þjónaði ekki eingöngu borgarbúum heldur landinu öllu.

Árið 1979 var farið að huga að þátttöku ríkisins enda höfðu Norðurlönd þá rekið blindrabókasöfn í mörg ár. Frumvarp um blindrabókasafn var samþykkt á Alþingi árið 1982 og Blindrabókasafn Íslands tók til starfa í byrjun árs 1983. Safnið var svo opnað í húsakynnum Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17 þann 22. febrúar 1984. Í upphafi voru framleidd 1-10 eintök af hverri bók og vandi safnsins fólst í því að of fáir titlar voru hjóðritaðir, í of fáum eintökum. Segulbandsspólur og síðar geisladiskar voru sendir um land allt og voru lánþegar afar þakklátir fyrir þessa þjónustu.

Safnið flyst svo að Digranesvegi 5 í Kópavogi árið 1994 í rúmgott húsnæði enda þurfti mikið rými undir allar snældurnar og geisladiskana. Bókakosturinn var framan af eingöngu á snældum og síðar geisladiskum og einnig var framleitt punktaletursefni en sú starfsemi var síðan flutt um áramótin 2008-2009 til Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Safnið stuðlar með starfsemi sinni að auknu læsi og bættu aðgengi að bókmenntum og uppfyllir fyrir hönd íslenska ríkisins ákvæði um réttindi fatlaðs fólks og jafnt aðgengi til náms.

Aðgengisbókasafn

Í fyrstu var safnið eingöngu hugsað fyrir blinda og sjónskerta en uppúr 1990 var starfsemin víkkuð út og farið var að taka við vottorðum frá fólki sem glímir við lesblindu í takt við það sem gerðist hjá systurstofnunum á Norðurlöndum. Á árunum 2008-2009 verður síðan aftur mikil breyting í starfseminni þegar hljóðritum var komið á stafrænt form og einnig var nafninu breytt árið 2013 og til varð Hljóðbókasafn Íslands.

Í dag hafa orðið miklar breytingar á stöðu hljóðbókarinnar sem er ekki lengur eingöngu framleidd til þess að gera prentaðar bækur aðgengilegar fyrir vissan hóp heldur orðin vinsæl sölu- og afþreyingarvara. Þessi breytta staða hefur gert það að verkum að systursöfnin á Norðurlöndum eru sum hver að breyta um nöfn í þeim tilgangi að skerpa á ímynd og hlutverki. Í stefnumótun fyrir Hljóðbókasafnið kom fram að nafnabreyting myndi gera hið sama hérlendis og minnka lýkurnar á misskilningi um hlutverk og fyrir hvaða hóp safnið starfar. Heiti eins og Aðgengisbókasafn eða Hljóð- og aðgengisbókasafn hafa komið upp.

Miklar breytingar hafa orðið í hljóðbókaútgáfu síðustu ár og sú þróun hefur áhrif á Hljóðbókasafn Íslands.

Lilja D. Alfreðsdóttir ráðherra menningarmála og Marín Guðrún Hrafnsdóttir forstöðumaður safnsins á afmælisfögnuði safnsins þann 5. maí sl.  Ráðherra fagnaði sérstaklega afar góðri útkomu safnsins í þjónustukönnununum.

Skýrt lagalegt hlutverk

Árið 2021 voru samþykktar breytingar á höfundalögum sem skilgreina nú betur hverjir eigi rétt á þjónustu safnsins, hvað eintak á aðgengilegu formi er og hvað viðurkennd eining, sem er ekki rekin í hagnaðarskyni, má gera.  Töluverð breyting varð á 19. grein laganna sem varðar takmarkanir á einkarétti til hagsbóta fyrir fólk með sjón- eða lestrarhömlun.  Þessar breytingar voru nauðsynlegar svo Ísland gæti fullgilt Marakess-sáttmálann um aðgengi blindra, sjónskertra og fólks sem glímir við lestrarhömlun að höfundarréttarvörðu efni þvert á landamæri. Sáttmálinn setur skýrar reglur um meðferð á höfundarrétti og einvörðungu er verið að opna á millisafnaaðgang til þeirra hópa sem á þurfa að halda og sem í tilviki Hljóðbókasafns Íslands hafa skilað inn vottorði um prentleturshömlun. Sáttmálinn birtir þó fyrst og síðast ríkan skilning á mannréttindum og nauðsyn þess að tryggja jafnt aðgengi að lesefni.

Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands