Nám í Upplýsingafræði

Kennsla í upplýsingafræði (áður bókasafns- og upplýsingafræði) er fer fram við Háskóla Íslands. Boðið er upp á meistara-, diplóma- og doktorsnám.

 

 

Lögverndað starfsheiti bókasafns- og upplýsingafræðinga

 

Þann 27. maí 1984 voru sett lög um starfsheiti bókasafnsfræðinga. Samkvæmt lögunum, sem eru nr. 97/1984 hafa þeir einir rétt til að kalla sig bókasafnsfræðinga sem hafa til þess tilskilið leyfi frá menntamálaráðherra.

Þáverandi stjórn Félags bókasafnsfræðinga beitti sér fyrir því að lögin voru sett og voru þau á sínum tíma talin mikilvægt skref í réttindabaráttu bókasafnsfræðinga, sjá  lögin frá 1984, nr. 97/1984.

Stjórn Upplýsingar – Félags bókasafns- og upplýsingafræðinga, stjórn Katalogosar – félags nema í bókasafns og upplýsingafræði ásamt stjórn Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU) skrifuðu í október árið 2000 sameiginlega beiðni til menntamálaráðuneytisins um að starfsheitinu væri breytt í takt við breytt starfssvið og starfsumhverfi bókasafnsfræðinga. Lögunum var breytt þann 25. apríl 2001 (lög nr. 21/2001). Samkvæmt þeim var starfsheitinu bókasafnsfræðingur breytt í bókasafns- og upplýsingafræðingur, sjá lögin frá 2001, nr 21/2001

Stjórn Upplýsingar hvetur eindregið alla þá sem hafa til þess réttindi að sækja um leyfi til að kalla sig bókasafns- og upplýsingafræðing. Stjórnin ætlast jafnframt til þess að lögverndun starfsheitisins sé virt og það ekki notað af öðrum en þeim sem til þess hafa aflað sér tilskilinna réttinda.

Til þess að fá leyfi til að kalla sig bókasafns- og upplýsingafræðing þarf að senda inn umsókn til Menntamálastofnunar með afriti af prófskírteinum. Menntamálastofnun gefur síðan út leyfisbréf til þeirra sem aflað hafa sér tilskilinnar menntunnar. Leyfisbréfið kostar kr. 8000 

Hér má finna eyðublað fyrir leyfisbréf bókasafns- og upplýsingafræðinga

 

Starfsheiti og lögverndun: Lögfræðilegt álit

Upplýsing fékk [síðla árs 2009] Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmann, til að gera lögfræðilegt álit varðandi notkun starfsheitanna bókasafnsfræðingur og upplýsingafræðingur. Í stuttu máli er niðurstaða hennar sú að hver einstaklingur sem til þess hefur leyfi má kalla sig bókasafnsfræðing, upplýsingafræðing eða hvoru tveggja.

Sá einstaklingur sem kýs að kalla sig annað hvort bókasafnsfræðing eða upplýsingafræðing og hefur til þess leyfi að kalla sig báðum heitunum, hlýtur líka að geta nýtt sér einungis annað heitið. Hann getur með því varla verið að villa á sér heimildir eða brjóta í bága við lög. Önnur notkun á starfsheitunum myndi leiða til villandi notkunar sem ekki getur hafa verið tilgangur löggjafans.

Lögverndun starfsheitis
Lögverndunin nær því bæði til hugtaksins bókasafnsfræðingur og til hugtaksins upplýsingafræðingur. Í raun og veru er lögverndun starfsheitisins eingöngu fólgin í orðanna hljóðan – þ.e. enginn getur kallað sig bókasafns- og /eða upplýsingafræðing nema hann hafi þá menntun að baki sem krafist er og grundvölluð á lögum nr. 97/1984 og 21/2001. Samkvæmt þessum lögum hafa þeir einir rétt til að kalla sig bókasafns- og/eða upplýsingafræðing sem hafa til þess tilskilið leyfi frá Menntamálastofnun. Það er því ekki nóg að hafa útskrifast sem slíkur heldur þarf jafnframt að sækja um leyfi til Menntamálastofnun til þess að fá að titla sig starfsheitinu og greiða fyrir það kr. 8.000 eins og kemur fram á vef ráðuneytisins. Þetta eru lögin en svo kemur að framkvæmdinni.

Framkvæmdin
Hingað til hafa vinnuveitendur ekki kallað eftir staðfestu leyfi við ráðningar, en samt er þetta að breytast og ég spái því að svo verði þegar fram í sækir. Löggilding starfa sækir á samanber endurskoðendur, verðbréfamiðlar, fasteignasalar o.fl. Evrópulöggjöf og vinnuréttur gerir ráð fyrir því að fólk þurfi að framvísa löggildingu í ríkara mæli og gætir þess einnig hér á land. Þá gerir aukin vottun gæðakerfa oft og tíðum kröfur til löggildinga. Til dæmis er Landspítala ? háskólasjúkrahúsi, gert skylt að láta starfsmenn framvísa löggildingum og á það einnig við um bókasafnsfræðinga sem ráðnir eru til starfa þar. Það er reyndar eina dæmið sem ég þekki. Þar sem stéttin hefur hingað til ekki þurft að framvísa leyfi til að kalla sig bókasafns- og upplýsingafræðing þá hefur fólk almennt ekki séð nokkurn tilgang í því að sækja um leyfið. Lögum ber að fylgja og á þeim grundvelli hvet ég alla þá sem lokið hafa námi og uppfylla skilyrði til þess að nota starfsheitin – til þess að afla sér tilskilins leyfi og hengja það stoltur upp á vegg vinnustaðarins.

Hrafnhildur Hreinsdóttir. Birt í Fregni, 34. árg. – 3. tbl. – desember 2009.