Search

Hvatningarverðlaun Upplýsingar 2021 fóru til Bókasafns móðurmáls

Á Bókasafnadaginn 8. september 2021 voru Hvatningarverðlaun Upplýsingar veitt öðru sinni, Bókasafn móðurmáls hlaut þau að þessu sinni. Rósa Björg Jónsdóttir fékk afhentan Spóa úr smiðju Hafþórs Ragnars Þórhallssonar til eignar af þessu tilefni.

Umsögn dómnefndar var svohljóðandi.

Í innsendri lýsingu á verkefninu kemur fram að Bókasafn móðurmáls stuðli að því að fjöltyngd börn, foreldrar og kennarar geti nálgast efni á ýmsum móðurmálum (öðrum en íslensku). Verkefnið er unnið í sjálfboðaliðsstarfi og markmiðið er að koma upp og starfrækja bókasafn fyrir fjöltyngd börn á Íslandi. Verkefnið birtist sem samfélagslega mikilvægt frumkvöðlastarf, unnið af hugsjón og metnaði til hvatningar fyrir aðra. Bókasafn móðurmáls er ekki staðsett innan viðkomandi starfsstaðar og getur þess vegna talist sérstök starfseining. Dómnefnd hafði meðal annars til viðmiðunar að um væri að ræða nýbreytni og þróunarverkefni sem ekki væri fastur liður í daglegu starfi viðkomandi starfsstaðar. Verkefnið getur þróast í ýmsar áttir og tengist það heimilum, skólasöfnum, almenningssöfnum og opinberum vettvangi. Verkefnið er hvetjandi, metnaðarfullt og til mikils sóma fyrir þá sem að því standa.

Í dómnefnd Hvatningarverðlauna Upplýsingar 2021 sitja Margrét Björnsdóttir af hálfu undirbúningshóps Bókasafnsdagsins, Margrét Sigurgeirsdóttir af hálfu Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna og Þórunn Erla Sighvats af hálfu stjórnar Upplýsingar.