Search

Samkeppnisstaða Íslendinga í rannsóknum






Upplýsingar á Interneti : Málþing um aðgang atvinnulífs og vísindasamfélags að upplýsingum


Þegar fjalla á um samkeppnisstöðu Íslendinga í rannsóknum og þróun með tilliti til aðgengis að upplýsingum er nauðsynlegt að skilgreina hvað átt er við með samkeppnisstöðu. Einföld skilgreining er að sá hefur sterka samkeppnisstöðu, sem getur unnið verk ódýrar en samkeppnisaðilar þannig að hann hefur meira upp úr verkinu eða að hann vinni það betur en samkeppnisaðilar þannig að viðskiptavinur er tilbúinn að greiða hærra verð fyrir niðurstöðuna.


Til þess að skilja hvaða þættir hafa áhrif á samkeppnisstöðu er gagnlegt að skoða tígul Porters, en Michael Porter hefur á undanförnum áratug haft mikil áhrif á umræðu um samkeppnisstöðu. Líkanið má t.d. nota til að skýra út hvers vegna samkeppnisstaða þjóðar og/eða fyrirtækis er góð þegar frumathugun bendir til að hún ætti að vera slæm. Taka má Ísland sem dæmi. Megnið af afurðum íslenskra fyrirtækja eru lágtækniafurðir, en kostnaðarstig í landinu er hátt. Flestar afurðanna má framleiða í þróunarlöndum þar sem kostnaður er minni. Samt sem áður eru margar afurðir íslenskra fyrirtækja samkeppnishæfar á alþjóðlegum mörkuðum og lífskjör í landinu með því besta sem þekkist í heiminum.


Á síðustu árum hefur hraði fengið aukið vægi. Halda má því fram, að sá sem skilar fullnægjandi niðurstöðu á skömmum tíma geti ekki leyft sér að gera mistök þannig að gæði verða góð og kostnaður verður lítill þar sem vinnslutími verksins var skammur. Með öðrum orðum má halda því fram að samkeppnisstaða mótist af því hversu hratt unnt er að vinna verk.


Það eru flestir sammála því að hraði skiptir æ meira máli fyrir árangur rannsókna- og þróunarverkefna. Líftími afurða verður stöðugt styttri og því getur vel svo farið, að ef rannsókna- og þróunarverkefni dregst á langinn skipti niðurstaða þess engu máli þar sem niðurstöður annarra hafa þá komið fram og leyst það vandamál sem var til staðar. Kannanir hafa sýnt að með tilliti til afkomu er hagkvæmara að setja afurð á markað þegar þróun hennar er lokið með fullnægjandi hætti heldur en að nota meiri tíma til að ljúka henni með fullkomnum árangri. Þeir sem koma snemma með afurð á markað njóta þess, og þeir sem koma síðar, þótt afurð þeirra sé betri, ná ekki eins góðum árangri.


Ég tel þetta eiga við á flestum sviðum rannsókna og þróunar. Tveir vísindamenn vinna að sambærilegu verkefni á tveimur stöðum í heiminum án þess að vita hvor af öðrum. Sá sem birtir niðurstöður sínar fyrst nær athygli, en hinn verður að bíta í það súra epli að niðurstöður hans valda ekki þeim straumhvörfum, sem vonast var til.


Hvort sem um er að ræða þróun afurðar eða lausn á fræðilegu viðfangsefni er ljóst að aðgengi að upplýsingum hefur veruleg áhrif á þann tíma, sem það tekur að leysa viðkomandi verkefni. Það skipti máli hvort unnt er að afla upplýsinganna, en enn meira máli skiptir hvaða tíma það tekur.


Út frá þessum vangaveltum verður strax ljóst að samkeppnisstaða Íslendinga í rannsóknum og þróun er mjög mismunandi eftir atvinnugreinum. Íslendingar hafa sterka samkeppnisstöðu á sviðum sem tengjast Íslandi umfram önnur. T.d. má nefna íslensk fræði, ýmsar greinar jarðfræði svo sem eldfjallafræði, jöklafræði, nýtingu jarðvarma og ýmsar greinar, sem tengjast sjávarútvegi svo sem hafrannsóknir, fiskveiðistjórnun, fiskihagfræði, rekstur sjávarútvegsfyrirtækja, gæðastjórnun í sjávarútvegi og framleiðslutækni í sjávarútvegi.


Þessi svið eiga það sameiginlegt, að Ísland hentar vel til rannsókna og þróunar á þeim. Aðgangur er góður að íslenskum gögnum, þótt enn skorti nokkuð á úrvinnslu gagna og í mörgum tilvikum eru upplýsingar orðnar nokkuð gamlar þegar úrvinnslu er lokið. Tiltölulega margir íslendingar starfa á þessum sviðum. Áhugi á niðurstöðum er víða; í fyrirtækjum, hjá stjórnvöldum og hjá fjölmiðlum. Erlendir sérfræðingar á þessum sviðum hafa áhuga á að fylgjast með því sem gerist á Íslandi og erlendir útgefendur bóka og tímarita hafa áhuga á að fylgjast með niðurstöðum m.a. vegna þess að markaður er fyrir þær erlendis.


Þessi svið eru það þröng að tiltölulega auðvelt er að fylgjast með því sem er að gerast á þeim á alþjóðlegum vettvangi. Ýmsar stofnanir og fyrirtæki starfa á þessum sviðum og vegna smæðar Íslands er tiltölulega auðvelt að ná persónulegum samböndum við aðra sem starfa á hverju sviði. Þeir sem vinna að rannsóknum og þróun á þessum sviðum geta að miklu leyti byggt vinnu sína á íslenskum gögnum, sem eru tiltölulega aðgengileg. Samtímis er framboð af erlendum upplýsingum um þessi svið betra hér á landi en á flestum öðrum sviðum. Fræðimenn á þessum sviðum búa því við tiltölulega gott starfsumhverfi. Aðgengi að upplýsingum er tiltölulega gott, a.m.k. nokkrir aðrir Íslendingar vinna á sama eða mjög tengdu sviði og tiltölulega auðvelt er að koma niðurstöðum á framfæri í tímaritum, bókum eða á ráðstefnum, bæði hér á landi og erlendis.


Að vísu hef ég fundið, að nemendur í meistaranámi í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands eiga erfitt með að fá aðgang að upplýsingum, sem þeir þarfnast til að geta sett rannsóknaverkefni sín í alþjóðlegt samhengi. Sumir þeirra hafa því gripið til þess ráðs að fara til útlanda og dvelja á erlendu bókasafni í einhvern tíma til að leysa þetta vandamál. Markmið ferðanna er að stytta þann tíma sem það tekur að afla upplýsinga því leit án aðstoðar gagnagrunna og útvegun efnis með millisafnalánum getur tekið mjög langan tíma. Hugsanlegt er, að það væri unnt á Íslandi, en það myndi krefjast mikillar vinnu og taka langan tíma. Samkeppnisstaða þessara nemenda er þó mun betri en annarra nema í rannsóknanámi, sem ekki tengist eins mikið íslenskum aðstæðum.


Samkeppnisstaða Íslendinga á mörgum þeirra sviða, sem Íslendingar eru sterkir á gæti þó verið mun betri. Í ritgerð Vigdísar Bóasson til MS-prófs, „Iceland – An International Competitive Strategy“ kemst hún að þeirri niðurstöðu að tiltölulega ódýrt væri fyrir Ísland að byggja upp alþjóðlega rannsókna- og þróunarmiðstöð á sviði sjávarútvegs. Alla vega mun ódýrara en að fjárfesta í sæstreng til að flytja rafmagn úr landi. Slík miðstöð myndi hafa í för með sér ýmsa viðskiptamöguleika, t.d. á sviði ráðgjafar og upplýsingamiðlunar, en myndi jafnframt eiga stóran þátt í að hvetja til áframhaldandi þróunar sjávarútvegs og tengdra greina á Íslandi. Til þess að Ísland gæti orðið að slíkri miðstöð yrði að mati Vigdísar nausynlegt að bjóða upp á vandað nám til meistara- og doktorsprófs á þessu sviði, sem myndi draga að erlenda nemendur hvaðanæfa að úr heiminum, sem síðan myndi auðvelda íslenskum fyrirtækjum alþjóðleg viðskipti í framtíðinni. Nauðsynlegur þáttur í slíkri uppbyggingu er auðvitað bókasafn eða upplýsingamiðstöð þar sem væri að finna með einum eða öðrum hætti allt það helsta efni, sem til er um málefni sjávarútvegs í heiminum, en það er auðvitað langt í frá að svo sé nú.


En hver er samkeppnisstaða þeirra sem starfa á sviðum, sem ekki tengjast sérstaklega séríslenskum aðstæðum. Ég ætla að taka sjálfan mig sem dæmi.


Ég er með BS próf í eðlisfræði og stærðfræði og MS-próf og doktorspróf í iðnaðarverkfræði. Í mörg ár starfaði ég í atvinnulífinu ásamt því að kenna við Háskóla Íslands. Ég hef starfað hjá Félagi íslenskra iðnrekenda, Iðntæknistofnun Íslands, Álafossi hf og hjá Útflutningsráði Íslands og verð að viðurkenna að ég hef meiri áhuga á almennum iðnaði en sjávarútvegi m.a. vegna þess að starfsreynsla mín tengis meira almennum iðnaði. Kennslugreinar mínar hafa verið á sviði framleiðslustjórnunar og nú á allra síðustu árum á sviði utanríkisverslunar. Helstu áhugasvið mín í dag eru rekstrarstjórnun, framleiðni og alþjóðavæðing atvinnulífs. Ef áhugasvið mitt einskoraðist eingöngu við rekstrarstjórnun í sjávarútvegi, framleiðni í sjávarútvegi og alþjóðavæðingu sjávarútvegs félli ég í þann hóp fræðimanna, sem ég hef þegar talað um og búa við nokkuð góða samkeppnisstöðu. Ég hef hins vegar áhuga á þessum sviðum í víðara samhengi og um leið verður samkeppnisstaða mín mun verri.


Í fyrsta lagi eru mjög fáir Íslendingar, sem hafa sama áhugasvið og ég. Í öðru lagi hafa útlendingar lítinn áhuga á því sem er að gerast á þessum sviðum á Íslandi nema það sé tengt sjávarútvegi. Í þriðja lagi standa íslensk fyrirtæki, þegar sjávarútvegurinn er undanskilinn, tiltölulega aftarlega á þessum sviðum og geta lítið kennt umheiminum.


Það er að vísu kostur fyrir mig eins og aðra Íslendinga að þjóðfélagið er lítið og því tiltölulega auðvelt að hafa yfirsýn yfir það sem er að gerast og forsvarsmenn fyrirtækja eru tilbúnir að veita upplýsingar og hleypa fræðimönnum og nemendum inn í fyrirtækin. Ég get nefnt sem dæmi að síðastliðið vor framkvæmdu nokkrir nemenda minna kannanir í tengslum við kandidatsritgerðir sínar.


Einn skrifaði um gæðastjórnun á Íslandi og sendi spurningalista til 306 einstaklinga, sem eru meðlimir í Gæðastjórnunarfélagi íslands. Hann fékk 94 svör (30,7%) jafnvel þótt 81 spurning hafi verið á listanum. Einn nemandi skrifaði um fjármálastjórnun fyrirtækja og annar um upplýsingatækni. Þessir tveir sendu spurningalista til 176 tiltölulega stórra fyrirtækja á Íslandi. Þeir fengu fengu 82 svör (46,6%) og í síðustu viku var 10% af kvöldfréttatíma rásar 1 helgaður niðurstöðum rannsóknarinnar. Í báðum þessum tilfellum var svörunarhlutfallið mjög hátt. Ég leyfi mér að halda því fram að hefðu nemendur við erlenda háskóla gert svipaðar kannanir hefði hlutfall svara í flestum löndum orðið mun lægra og mjög ólíklegt er að helsta útvarpsstöð landsins hefði sagt frá niðurstöðum í fréttatíma.


Ég get einnig nefnt að í kennslubók um rekstrarstjórnun, sem ég er að skrifa, nota ég dæmisögur úr íslenskum fyrirtækjum til að sýna lesendum hvernig aðferðir og hugtök rekstrarstjórnunar eru notuð hér á landi. Mjög auðvelt hefur verið að fá leyfi fyrirtækja til að skrifa um þau og allar upplýsingar veittar, sem um hefur verið beðið. Vegna smæðar fyrirtækjanna og þjóðfélagsins er auðveldara að vinna slíkt verkefni á íslandi en í mörgum öðrum löndum. Á móti kemur að bókin höfðar ekki til erlendra lesenda því það er hvorki mjög lýsandi né áhugavert fyrir erlenda háskólanema að kynnast þeim aðferðum, sem óþekkt íslensk fyrirtæki nota á sviði rekstrarstjórnunar. Bókin á því enga möguleika á erlendum markaði, sem hún ætti ef öll dæmi væru úr bandarískum eða breskum þekktum fyrirtækjum.


Vinna á mínu sviði krefst einnig aðgangs að alþjóðlegum upplýsingum um fræðasviðið. Ýmsir hafa metið gæði tímarita á sviði rekstrarstjórnunar. Ég sýni hér lista yfir 21 helstu tímarit á þessu sviði.
5 þessara tímarita eru keypt af Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni, eitt af bókasafni Tækniskóla Íslands og ég kaupi sex þeirra. Af þessum 21 tímariti veit ég því hvernig ég get nálgast 10 þeirra. Ef til vill eru einhverjir á Íslandi, sem kaupa sum þeirra ellefu tímarita, sem hvorki ég né söfnin kaupa þó ég viti það ekki.


Nýlega fékk ég eintak af bæklingi Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns, sem heitir „Hvar eru rit í viðskiptafræði?“ Þar er talað um bækur, tímarit, Gegni og Greini, önnur gagnasöfn og Internetið. Allir vita, að fé safnsins til kaupa á bókum, tímaritum og gagnagrunnum hefur verið af mjög skornum skammti á undanförnum árum. Fyrir síðasta niðurskurð á útgjöldum safnsins til tímaritakaupa var safnið áskrifandi að 44 tímaritum í viðskiptafræði en þar af voru 16 kostuð af utanaðkomandi aðilum. Annars vegar af fyrirtækjum og hins vegar af fé sem námsmenn söfnuðu í tilefni opnunar Þjóðarbókhlöðu. Útgjöld safnsins vegna tímarita, sem það kostar í viðskiptafræði, voru á ársgrundvelli kr. 832.037. Rúmlega 10% af öllum nemendum við Háskóla Íslands stunda nám í viðskiptafræði, fleiri en 2500 viðskiptafræðingar starfa í atvinnulífinu og afkoma fyrirtækja og stofnana er að miklu leyti háð þeirri þekkingu, sem til staðar er á Íslandi á þessu sviði. Ekki er einungis við starfsmenn safnsins að sakast. Líklega er ein aðalástæðan fyrir lélegum tímatitakosti safnsins á sviði viðskiptafræði sú, að kennarar á þessu sviði hafa ekki verið nægjanlega ýtnir að reka á eftir því í gegnum árin að safnið keypti fleiri tímarit. Það er hins vega alvarlegt mál ef það er frekja einstakra háskólakennara, sem ræður því hvers konar upplýsingar er unnt að fá aðgang að á Íslandi.


Í bæklingi Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns var sagt frá gagnasöfnum á sviði viðskiptafræði í eigu safnsins. Þau eru Business Periodicals Index á geisladiski auk Books in Print og PAIS (Public Affairs Information Service) á geisladiskum og Journal of Economic Literature á prentuðu formi. Þau þrjú síðasttöldu eru að vísu ekki á sviði viðskiptafræði þannig að í raun er einungis um eitt gagnasafn að ræða á sviði viðskiptafræði. Síðastliðinn vetur bauð Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn notendum sínum upp á aðgang að ýmsum gagnagrunnum í tvo mánuði. Það voru ánægjulegir mánuðir, því auðvelt var að leita að tímaritsgreinum og öðru útgefnu efni sem tengdust verkefnum hvers tíma. Að vísu var jafnerfitt að nálgast fullan texta og venjulega þar sem ekki var boðið upp á fullan aðgang að umræddu kerfi. Oft mátti þó með því að lesa úrdrætti komast að raun um það hvort viðkomandi efni væri áhugavert eða ekki til að meta hvort ástæða væri til að gera alvartlega tilraun til að nálgast fullan texta. Mikið vildi ég að þessir mánuðir hefðu verið lengri eða þá að Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn gæti boðið upp á slíkan aðgang í framtíðinni og þá auðvitað helst aðgang að fullum texta. Það var áhugavert í morgun að hlusta á Dr. Rampey segja frá GALILEO upplýsingakerfinu, því það er nákvæmlega slíkt kerfi sem við verðum að fá aðgang að hér á Íslandi.


Síðastliðið haust var ég í rannsóknaleyfi og dvaldi í New York. Þar dvaldi ég mikið á bókasöfnum. Annars vegar á bókasafni New York University og hins vegar á viðskiptabókasafni New York borgar. Ég komst vel á leið með að skrifa þá kennslubók, sem ég hef áður minnst á og leyfi mér raunar að halda því fram að ég hefði aldrei komist á stað með sama hætti, hefði ég ekki haft aðgang að góðum gagnasöfnum og góðum bókasöfnum í nokkurn tíma. Á þessum tíma vann ég að fyrri hluta bókarinnar, en nú þegar ég vinn að síðari hluta hennar finn ég, að ég þarf nauðsynlega að fá góðan aðgang að góðu bókasafni í nokkrar vikur til að geta tryggt, að ég gefi góða mynd af því nýjasta, sem er að gerast á þessu sviði. Ég sýni hér hvaða gagnagrunna bókasafn New York University bauð upp á.


Til viðbótar við þá gagnagrunna, sem nefndir eru á mynd 6 voru ýmsir aðrir almenns eðlis, sem tengjast viðskiptafræði. T.d. má nefna New York Times með leitarmöguleikum og fullum texta yfir margra ára tímabil, NEWSPAPER ABSTRACTS, EUROCAT, UNBIS, Samtals voru aðgengilegir á safninu u.þ.b. 100 gagnagrunnar.

Sá gagnagrunnur, sem ég notaði mest var ABI/Inform. Ómetanlegt var að geta leitað að greinum, lesið úrdrætti sem virtust áhugaverðir og síðan í flestum tilvikum gengið að tímaritunum sjálfum og lesið greinarnar í heild sinni. Í raun er það gagnagrunnurinn, sem er mikilvægastur. Hann er lykillinn að tímaritunum. Án gagnagrunnsins er mikið tímaritasafn í raun lítils virði. Kosturinn við ABI/Inform er að úrdrættir fylgja flestum greinum og eru þeir nokkuð nákvæmir. Að því leyti er ABI/Inform betra en UnCover, sem býður ekki upp á úrdrætti nema í fáum tilvikum og ef þeir fylgja með eru þeir flestir mjög ónákvæmir. Með aðgangi að upplýsingum á þessu formi verður tíminn sem upplýsingaleitin tekur mun skemmri en ef nota verður hefðbundnar aðferðir við leit og síðan að nýta millisafnalán til að fá fullan texta.


Ég hef einnig aflað mér upplýsinga um gagnagrunna, sem bókasafn Verslunarháskólans í Kaupmannahöfn býður upp á, og eru þeir sýndir á mynd 6.


Sumir þeirra gagnagrunna eru í raun ekki á sviði viðskiptafræði og þjónustan í Kaupmannahöfn sýnu verri en í New York. Samt tel ég hana vera vel viðunandi og tekur hún auðvitað mið af stærð og áherslum þess skóla í kennslu og rannsóknum.


Niðurstaða mín er sú að samkeppnisstaða rannsókna og ritstarfa á mínu sviði, hvað varðar aðgengi að upplýsingum sé frekar léleg. Ég nýt að vísu kosta hins smáa íslenska samfélags og áhugasvið mitt tengist vissulega að hluta sjávarútvegi, þar sem aðgengi að upplýsingum er viðunandi þótt ekki sé það eins gottog það ætti að vera.


Ég tel að aðstaða mín sé mjög svipuð aðstöðu flestra annarra, sem stunda rannsóknir og þróun á Íslandi. Aðgengi að upplýsingum á flestum sviðum er líkt því sem ég hef lýst í mínu tilfelli. Rannsóknastofnanir atvinnuvegana auðvelda starfsmönnum fyrirtækja aðgang að upplýsingum á ákveðnum sviðum með bókasafnsþjónustu, aðgangi að sérfræðingum og með alþjóðlegum samböndum. Ég hallast þó að því að vandamál starfsmanna rannsóknastofnana atvinnuvegana séu í raun mjög svipuð þeim vandamálum, sem ég hef lýst á mínu sviði.


Internetið hefur leyst úr nokkrum vanda en er á engan hátt fullnægjandi þar sem aðgangur að Interneti opnar ekki leið að þeim gagnagrunnum, sem mestu máli skipta fyrir rannsóknir og þróun. Upplýsingarnar eru oft almennar og erfitt að leita að sérhæfðum upplýsingum með markvissum hætti. Internetið gefur þó ýmsa möguleika á samskiptum, sem óneitanlega hafa dregið úr einangrun Íslendinga. Með Internetinu má ná sambandi við aðra, sem svipuð áhugamál hafa og taka þátt í umræðuhópum um ýmis málefni.


Upplýsingar kosta penginga og ég geri mér grein fyrir því að seint verður unnt að skapa Íslendingum sama aðgengi að upplýsingum og mögulegt er í stærri löndum. Þó tel ég nauðsynlegt að gera mun meira en nú er gert. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að Ísland eigi að standa framarlega í hagnýtingu upplýsingatækninnar. Til að svo verði er óhjákvæmilegt að þeir sem stunda rannsóknir og þróun fái aðgang að kerfi sambærilegu við GALILEO. Við það myndi samkeppnisstaða Íslendinga á sviði rannsókna og þróunar batna til muna. Vonandi er unnt að finna leið til þess að Íslendingar geti fengið svipaðan aðgang að upplýsingum og nágrannaþjóðirnar því aðgangur að upplýsingum hefur ekki aðeins áhrif á samkeppnisstöðu Íslendinga í rannsóknum og þróun heldur einnig á samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og lífskjör Íslendinga.
Ingjaldur Hannibalsson, dósent við Háskóla Íslands.