Search

Upplýsing skorar á Reykjavíkurborg að styrkja skólasöfnin

Í kjölfar nýrrar samstarfsyfirlýsingar meirihlutans í borgarstjórn – þar sem lofað er að auka safnkost skólabókasafna – sendu þrjú félög á sviði bókasafns- og upplýsingafræða skóla- og frístundaráði Reykjavíkur bréf, þar sem þau skora á borgina að gera markvissar úrbætur í málefnum safnanna. Félögin eru Upplýsing – félag bókasafns og upplýsingafræða, Kjaradeild bókasafns- og upplýsingafræðinga hjá Visku og Félag fagfólks á skólasöfnum (FFÁS).

Í bréfinu fagna félögin þeim stuðningi sem borgarstjórn boðar varðandi skólasöfnin, en ítreka einnig að þau gegni lykilhlutverki í námi og þroska nemenda. Mikilvægt sé að þau séu ekki álitin bókageymslur heldur séu þau miðstöðvar lestrarhvatningar, upplýsingalæsis og gagnrýninnar hugsunar. Það sé því mikilvægt að skólasöfn fái nauðsynlegan stuðning.

Félögin nefna að staða skólasafna í Reykjavík sé mjög misjöfn – sum þeirra séu illa búin, jafnvel án fagmenntaðs starfsfólks og með skertan bókakost. Þau leggja fram níu tillögur að úrbótum, þar á meðal:

  • Að tryggt verði að fagmenntaðir bókasafns- og upplýsingafræðingar starfi í öllum grunnskólum.
  • Að öll skólasöfn hafi viðeigandi aðstöðu og aðgengi fyrir nemendur allan skóladaginn.
  • Að fjármagn til bókakaupa verði eyrnamerkt skólasöfnum og úthlutað með jafnræði að leiðarljósi.
  • Að skólasöfn fái stuðning til að þróa stafrænt efni og fjölbreytt lestrarúrræði fyrir nemendur.
  • Að komið verði á öflugri miðlægri þjónustu fyrir starfsfólk skólasafna.

Bréfið má lesa í heild sinni hér