Úr yfirlýsingu UNESCO og IFLA, alþjóðasambands bókasafnafélaga frá 2021, segir að skólasöfn eru óaðskiljanlegur hluti menntunarferlis einstaklinga.
Skólasöfn miðla upplýsingum og hugmyndum sem eru undirstaða þess að ná góðum árangri í nútíma þjóðfélagi sem í auknum mæli byggist á upplýsingum og þekkingu. Á skólasöfnum tileinka nemendur sér námsleikni sem þeir búa að ævilangt og auðga ímyndunarafl sitt sem auðveldar þeim að lifa sem ábyrgir borgarar.
Skólasöfn bjóða upp á þjónustu við nám, bækur og heimildir sem gera öllum í skólasamfélaginu kleift að temja sér gagnrýna hugsun og vera virkir notendur upplýsinga á hvaða formi og á hvaða miðli sem er, enn fremur mynda skólasöfn tengsl við bókasafns- og upplýsingasamfélagið í heild sinni, í samræmi við grundvallaratriði í Yfirlýsingu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um almenningsbókasöfn.
Starfsfólk bókasafna stuðlar að notkun bóka og annars upplýsingaefnis, frá skáldritum til fræðibóka, frá prentuðum gögnum til stafræns efnis, bæði á eigin safni og á öðrum söfnum. Safnkostur skólasafna er mikilvæg viðbót við kennslubækur, kennsluefni og kennsluaðferðir.
Eftirfarandi markmið eru grundvallaratriði í þróun læsis, upplýsingalæsis, kennslu, náms og menningar og eru kjarninn í þjónustu skólabókasafna:
- Að styðja við og bæta fræðslumarkmið eins og þau eru sett fram í stefnumörkun og námskrá skólanna.
- Að þroska og halda við hjá börnum og unglingum ánægju af lestri og námi og notkun annarra bókasafna út í gegnum lífið.
- Að bjóða upp á tækifæri og reynslu við að skapa og nota upplýsingar til aukinnar þekkingar, til skilnings, hugmyndasköpunar og ánægju.
- Að styðja alla nemendur til námsleikni og við að þjálfa með sér færni við að meta og nota upplýsingar, án tillits til forms, stærðar og gerðar eða miðils, að meðtöldum skilningi á samskiptaleiðum innan samfélagsins.
- Að veita aðgang að heimildum í sveitarfélaginu, landinu og í alþjóðasamfélaginu, ennfremur tækifæri til að kynnast margvíslegum hugmyndum, reynslu og skoðunum.
- Að skipuleggja starfsemi sem stuðlar að menningarlegri og félagslegri meðvitund og skilningi.
- Að vinna með nemendum, kennurum, stjórnendum og foreldrum að því að ná fram markmiðum skólans.
- Að kunngera þá heildarhugmynd að vitsmunalegt frelsi og óheftur aðgangur að upplýsingum séu frumskilyrði fyrir virkum og ábyrgum ríkisborgararétti og þátttöku í lýðræðisríki.
- Að efla lestur og koma heimildum og þjónustu skólasafna á framfæri við skólasamfélagið í heild sinni og ennfremur út fyrir það.
Til að tryggja skilvirka og gegnsæja starfsemi er nauðsynlegt:
- Að stefna um þjónustu skólasafns sé sett fram og markmið, forgangsröðun og þjónusta í tengslum við námskrá skólans skilgreind.
- Að skólasafnið sé skipulagt og rekið í samræmi við staðla á fagsviðinu.
- Að þjónustan sé aðgengileg öllum í skólasamfélaginu og starfrækt í samræmi við yfirvöld og í nánum tengslum við samfélagið.
- Að stuðla að því að safnið starfi í samvinnu við kennara, skólayfirvöld, stjórnendur, foreldra aðra bókasafns- og upplýsingafræðinga og aðra samfélagshópa.
Yfirlýsing um skólasöfn frá UNESCO og IFLA 2021, alþjóðsambands bókasafnafélaga í heild sinni – á íslensku
Upplýsing hvetur sveitarfélög og ríki að gera skólasöfnum kleift að starfa eftir þeim viðmiðum og markmiðum sem hér eru sett fram, börnum, ungmennum og samfélaginu öllu til heilla.