Hvatningarverðlaun Upplýsingar voru veitt í fjórða sinn mánudaginn 8. september sl., á alþjóðlegum degi læsis og Bókasafnsdeginum í Bókasafni Mosfellsbæjar.
Heiti verkefnisins er „Bókaklúbbur – val á unglingastigi grunnskóla“ og umsjónarkona þess er Hrönn Soffíu Björgvinsdóttir á Amtsbókasafninu á Akureyri.
Hrönn veitti verðlaununum viðtöku; Lóu eftir Hafþór Ragnar Þórhallsson útskurðarlistamann.
Upplýsing óskar Hrönn og Amtsbókasafninu innilega til hamingju og vonar að verkefnið verði öðrum til hvatningar.
Umsögn dómnefndar er svohljóðandi:
Að mati dómnefndar er verkefnið dæmi um hvernig bókasafn getur orðið lifandi menningarvettvangur fyrir ungmenni og stuðlað að lestraráhuga á þeirra eigin forsendum.
Með skapandi nálgun og fjölbreyttum aðferðum tekst starfsmönnum Amtsbókasafnsins að gera lestur og bókmenntir bæði aðgengilegar og spennandi fyrir nemendur í 8.–10. bekk.
Markmið verkefnisins eru skýr: að efla lestraránægju, skapa jákvæðar bókatengdar upplifanir og bjóða upp á vettvang þar sem ungmenni geta bæði tjáð sig og mótað dagskrána sjálf. Þetta er mikilvægt framlag til lýðræðislegrar þátttöku nemenda í námi og menningu.
Framkvæmdin er fjölbreytt og frumleg. Verkefnið blandar saman hefðbundnu lesklúbbsspjalli og nýstárlegum leiðum eins og „hraðstefnumótum“ við bækur, bókabíói, smiðjum og leikjum sem tengjast lestri. Með því að tengja bókmenntir við handverk, matargerð og samfélagsmiðla (booktok) er byggt á áhugasviðum ungmenna og þannig opnað fyrir nýjar leiðir til þátttöku.
Ungmennin fá virkan þátt í að móta dagskrá, sem eykur bæði eigið vald og ábyrgð á verkefninu.
Bókaklúbburinn sýnir hvernig bókasöfn geta sameinað menningu, sköpun og samfélagsþátttöku í einu verkefni. Það virkar bæði hvetjandi og skemmtilegt, eflir félagsfærni jafnt sem lestrarvenjur og er ekki bara verðugt og til fyrirmyndar fyrir önnur bókasöfn og skólasamfélög heldur er því deilt út til okkar hinna af örlæti og gleði.