Aðgangur rannsókna- og menntastofnana að gagnasöfn






Upplýsingar á Interneti. Málþing um aðgang atvinnulífs og vísindasamfélags að upplýsingum


Þvílíkir tímar, þvílík tækifæri. Á undanförnum árum hefur þróun upplýsingatækninnar fleygt fram á ótrúlegum hraða og skapað að því er virðist ótæmandi tækifæri fyrir okkur bókaverði til að auka fjölbreytni og þróa þjónustu okkar stofnana, til góðs fyrir alla, t.d.vegna náms, rannsókna eða fræðimennsku. Veraldarvefurinn færir okkur tölvupóstinn, þann frábæra samskiptamiðil, rafrænu tímaritin og heilu bókmenntaverkin sem lesa má beint af skjánum eða prenta út. Forrit og myndir má færa á milli fjarlægra tölva eins og ekkert sé og spjaldskrár helstu bókasafna heims eru við fingurgómana fyrir fróðleiksfúsa að gramsa í. Upplýsingar um fyrirtæki og stofnanir um allan heim eru settar fram á aðgengilegan hátt á ógrynni heimasíðna, allir sem vettlingi geta valdið eru með. Þetta er að sjálfsögðu frábært og afar kærkomið okkur bókavörðum sem störfum við upplýsingaþjónustu, því við vitum hvað það er mikilvægt að hafa greiðan aðgang að upplýsingum og hvaða hlutverki þær hafa að gegna við nám, kennslu og sköpun nýrrar þekkingar.


En upplýsingar eru sjaldan ókeypis. Það kostar að vera tengdur netinu, og þeim mun meira sem bandbreiddin og samskiptahraðinn er meiri. Þó að ég hafi ekki kannað ástand mála í bókasöfnum hér á landi sérstaklega grunar mig að það séu hindranir á veginum sem gera mönnum erfitt um vik að bjóða uppá góða aðstöðu inn á upplýsingahraðbraut veraldarvefsins. Ég tel þó að rannsókna- og sérfræðibókasöfnin séu flest vel sett hvað þetta snertir og að aðstaða í framhaldsskólum landsins sé e.t.v. að verða viðunandi. Öðru máli gæti gengt um almenningsbókasöfnin og skólasöfnin í grunnskólunum, sérstaklega þau smærri. Miklar vonir eru því bundnar við ákvæði til bráðabirgða í nýjum lögum um almenningsbókasöfn þar sem segir orðrétt:


    * „Árin 1997–2001 leggur ríkissjóður fram fé, eigi minna en 4 millj. kr. hvert ár, til að stuðla að því að almenningsbókasöfn verði fær um að bjóða þjónustu sem styðst við nútímaupplýsingatækni og til að greiða fyrir tengingu bókasafna landsins í stafrænt upplýsinganet.“


Það verður sannarlega spennandi að fylgjast með því hvaða árangri verður náð fyrir tilstuðlan þessa ákvæðis sem ætlað er m.a. að stuðla að því að bókasöfn verði fær um að gefa almenningi kost á að nýta möguleika upplýsingatækninnar. Sú hætta er nefnilega fyrir hendi að borgarar landsins skiptist í tvo hópa, þá sem hafa aðgang að upplýsingatækninni og þá sem hafa það ekki. Við því verður að spyrna.


Á undanförnum mánuðum hafa bókaverðir nokkurra íslenskra rannsókna- og sérfræðibókasafna lagt á ráðin um, með hvaða hætti mætti tryggja íslensku mennta-, fræðimanna- og rannsóknasamfélagi aðgang að nauðsynlegum gagnasöfnum á tölvutæku formi samkvæmt kröfu tímans. Þá á ég við gagnasöfn sem eru aðgengileg annað hvort af geisladiskum á staðarneti eða af veraldarvefnum, þannig að hver og einn geti leitað frá sinni skrifstofu eða vinnustöð í gagnasöfnum á sínu sviði. Þessa tækni þekkja menn frá erlendum sérfræði- og háskólabókasöfnum og er það því eðlilegt að þeir geri þá kröfu til íslenskra bókasafna að þau veiti sömu aðstöðu. Það er erfitt að þurfa að sætta sig við að blaða í prentuðum indexum og abströktum þegar maður þekkir alla þá fjölbreyttu möguleika sem tölvutæknin býður uppá í upplýsingaleit. Ég leyfi mér að líkja því við það að prentarar færu aftur að setja bækur með lausaletri í stað þeirrar tölvutækni sem nú er til staðar eða að menn skrifuðu vísindarit með ritvél.


Við fyrstu sýn gæti svo virst sem hér væri ekki vandamál á ferðinni – tæknin er til staðar og því um að gera að taka hana í þjónustu sína. Við Íslendingar erum tæknivædd þjóð og viljum standa jafnfætis öðrum þjóðum í flestu. Það kemur m.a. skýrt fram í yfirmarkmiði Framtíðarsýnar ríkisstjórnar Íslands um upplýsingaþjóðfélagið þar sem segir:
Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar.


Ég tel að við getum öll staðið heilshugar að baki þessu og í mörgu tilliti erum við þegar mjög framarlega. Það hafa þeir t.d. sýnt og sannað sem hafa nú þegar haslað sér völl erlendis á sviði upplýsingatækni. En lítum að viðfangsefni dagsins, aðgangi íslenskra rannsókna- og menntastofnana að gagnasöfnum og skoðum stöðu mála.


Til að skýra stöðu mála hér á landi var ákveðið að gera könnun á því hvaða tilvísanarit og gagnasöfn íslensk rannsókna- og sérfræðibókasöfn kaupa nú þegar og í hvaða formi þau eru, þ.e. prentuðu eða tölvutæku. Einnig var spurt um hvort áhugi væri fyrir því að vera með í sameiginlegum kaupum á áskriftum að gagnasöfnum í tölvutæku formi. Ákveðið var að senda spurningablöðin til allra stærstu rannsókna- og sérfræðibókasafnanna, en einnig til stærstu almennings- og framhaldsskólasafnanna, auk nokkurra valinna fyrirtækja og stofnanna, þó að ekki væru starfandi þar sérstök bókasöfn. Könnunin fór fram með þeim hætti að spurningablöð voru send til væntanlegra þátttakenda og þess óskað að þeim væri skilað útfylltum fyrir tilskilinn tíma. Að þeim tíma liðnum var hringt í þá sem ekki skiluðu í fyrstu umferð. Alls voru það 50 bókasöfn sem tóku þátt í könnuninni.
Könnun á aðgangi að gagnasöfnum


50 bókasöfn svöruðu


7 háskólabókasöfn
32 sérfræðisöfn
7 almenningsbókasöfn
4 framhaldsskólasöfn


Helstu niðurstöður eru þær að:
17 bókasöfn höfðu aðgang að gagnasöfnum á geisladiskum


5 háskólabókasöfn
11 sérfræðisöfn
1 framhaldsskólasafn


    * Ekkert þessara bókasafna er með gagnasöfnin á netþjóni sem nær til allra starfsmanna eða viðskiptavina sinna



Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er með gagnasöfnin á innanhússneti en ekki neti sem nær yfir allt háskólasvæðið.


Einnig ber þess að geta að Læknisfræðibókasafn Landspítalans svaraði ekki könnuninni og er því ekki eitt þessara safna. Þar eru Medline og fleiri gagnasöfn frá Ovid á staðarneti og aðgengileg nokkrum stofnunum sem taka þátt í samstarfsverkefninu sem Sólveig Þorsteinsdóttir á eftir að lýsa hér á eftir, eða nánar tiltekið 8 af sérfræðisöfnunum sem þarna eru talin.
Könnun á aðgangi að gagnasöfnum
Aðgangur að prentuðum útdráttar- eða tilvísanaritum


15 bókasöfn keyptu áskriftir að prentuðum tilvísanaritum
4 háskólabókasöfn
11 sérfræðisöfn


Eins og ég sagði áðan er hætt við að menn muni ekki vera sáttir við að nota prentuð tilvísanarit þegar tölvutæk gagnasöfn með fjölbreytta leitarmöguleika eru í boði, en það mun þó að einhverju leiti þurfa að vera svo t.d. í fræðigreinum sem fáir stunda og þar sem gagnasöfnin eru óheyrilega dýr í tölvutæku formi.
Áhugi á sameiginlegum kaupum á aðgangi að gagnasöfnum:


41 bókasafn lýsti yfir áhuga á sameiginlegum aðgangi að gagnasöfnum á geisladiskum


7 háskólabókasöfn
24 sérfræðisöfn
7 almenningsbókasöfn
3 framhaldsskólasöfn


Þau gagnasöfn sem áhugi er fyrir eru eins og lög gera ráð fyrir fjölbreytt að efni þar sem söfnin starfa mörg hver á ólíkum fræðasviðum. Þau gagnasöfn sem voru oftast nefnd eru:
Gagnasöfn sem áhugi var á voru 46. Þau sem oftast voru nefnd eru:


CAB 9
ABI inform 6
ERIC 6
Current Contents 5
Medline 5
CINAHL 4
Psychinfo 3
Biosis 3


Það er ljóst af niðurstöðum könnunarinnar að íslensk bókasöfn hafa mikinn áhuga á að geta boðið viðskiptavinum sínum aðgang að gagnasöfnum af geisladiskum eða vefnum, eða alls 41 af þeim 50 sem svöruðu. Ef ég á að tala útfrá safninu þar sem ég vinn þá er ljóst að aðgangur okkar að gagnasöfnum á geisladiskum hefur verið okkur lífsnauðsyn á þeim 6-7 árum sem við höfum haft hann, fyrst að CINAHL, síðan einnig ERIC og Wilson Business Periodicals Abstracts. Við erum einnig nýverið farin að kaupa aðgang að Philosopher’s Index. Bókasafn HA byrjaði frá grunni ef svo má segja fyrir 9 árum, því að þá áttum við, eins og Haraldur Bessason fyrrverandi rektor HA segir, bara eina bók, Bókina um manninn. Aðgangur að þessum tilvísanaritum og öflug millisafnalán hafa því komið í stað safnkosts að mörgu leiti á meðan hann hefur verið að byggjast upp. Nú eigum við 25 þús. bindi bóka og ört vaxandi tímaritakost en tilvísanaritin eru engu að síður enn mikilvæg.


Við höfum lagt áherslu á að eiga tilvísanarit á geisladiskum fyrir allar deildir eins og sést á þeim titlum sem ég taldi upp áðan. Eina deildin sem er útundan er sjávarútvegsdeildin. Ástæðan er einföld, Aquatic Science and Fisheries Abstracts kostar u.þ.b. 450 þús. kr. á ári með aðflutningsgjöldum og VASKi og Food Science and Technology Abstracts kostar 462 þús. með ofangreindum gjöldum. Ef ég þyrfti að velja á milli þessara tveggja myndi FSTA hafa vinninginn. Ég leitaði eftir tilboði til eins af útgefendum þess gagnasafns miðað við 1 samtímanotanda annars vegar og 2-4 hins vegar. Tilboðið var svohljóðandi:
Kostnaður fyrir BSHA við aðgang að FSTA


1 samtímanotandi Íkr. 461.864.-
2-4 samtímanotendur “ 543.629.-


Til að kanna hvaða verð væru í boði ef um fleiri söfn væri að ræða óskaði Guðrún Pálsdóttir á Bókasafni RALA eftir tilboði í FSTA fyrir fjögur söfn, þ.e. Bókasafn RALA, Sjávarútvegsbókasafnið, Bókasafn Iðntæknistofnunar og BSHA. Það hljóðaði uppá rúma milljón króna á ári.


Eitt dæmi enn:


Eins og ykkur er flestum kunnugt flutti BSHA nýverið uppá Sólborg sem verður framtíðarsvæði háskólans. Það þýðir að við erum ekki lengur í sama húsnæði og mesta kennslan fer fram í og þar sem skrifstofur kennaranna eru. Þarna hefur því skapast þörf fyrir að hafa gagnasöfnin okkar á netþjóni svo að þau verði aðgengileg öllum séstaklega á meðan háskólinn er svona dreifður. Ég leitaði tilboða í eftirfarandi gagnasöfn:
Aðgangur fyrir 1-2 samtímanotendur frá netþjóni BSHA


ABI inform
CINAHL
Medline
ERIC
Cambridge Aquatic Sciences & Fisheries Abstracts


Kr. 3,6 millj. á ári


Þetta er meira en helmingur af árlegu ráðstöfunarfé safnsins til kaupa á safnefni og til millisafnalána.


Í stuttu máli standa íslensk bókasöfn frammi fyrir þeim vanda að hafa ekki efni á að bjóða viðskiptavinum sínum aðgang að gagnasöfnum sem nauðsynleg eru íslensku rannsóknasamfélagi, til eflingar þekkingar og nýsköpunar eða til að tryggja styrka stöðu íslensks atvinnulífs í samkeppni þjóðanna. Að ekki sé minnst á þá sjálfsögðu skyldu menntakerfisins að kenna nemendum í skólum landsins upplýsingalæsi og hvernig hagnýta má þekkingu mannkyns til að skapa nýja þekkingu.


Ef svo fer fram sem horfir gætum við þurft að sætta okkur við að vera á bekk með þriðja heims ríkjum sem hafa ekki frekar en við efni á að vera með. Við njótum ekki hagkvæmni stærðarinnar því rannsóknasamfélagið hér á landi er svo lítið að jafnvel lægstu verð á gagnasöfnunum eru mörgum söfnum ofviða. Einhverjum kann að finnast að hér sé dregin upp dökk mynd af ástandinu en ég veit að ég tala fyrir hönd margra af starfsfélögum mínum á hinum ýmsu söfnum þegar ég segi að vandann þarf að íhuga gaumgæfilega og finna á honum sameiginlega lausn sem tryggir viðunandi aðgang að helstu upplýsingalindunum.


Það er einnig hindrun fyrir íslensk bókasöfn að það er enginn einn aðili hér á landi þess umkominn að semja um þessi gagnasöfn fyrir öll söfnin í landinu í heild, líkt og Leslie var að lýsa hér áðan að gert var í Georgíufylki. Bókasöfnin heyra ekki einu sinni öll undir sama ráðuneytið auk þess sem sum eru rekin af sveitarfélögum. Hér er ekki ríkisbókavarðaembætti eins og á Norðurlöndunum.


Skv. undirtitli þessa erindis ætla ég að bera ástand mála hér á landi saman við Norðurlöndin. Ég hef upplýsingar frá Finnlandi og Noregi sem ég mun reyna að miðla til ykkar, en eftir ábendingar frá fundarstjóra, Andreu Jóhannsdóttur hafði ég samband við lykilaðila í öllum fjórum löndunum en fékk aðeins svör frá tveim.


Skv. upplýsingum frá Marit Olander í Háskólabókasafninu í Helsinki, settu Finnar á fót nefnd í lok janúar á þessu ári sem hafði það verkefni að skipuleggja hvernig hægt væri að koma upp því sem þeir kalla á ensku „National Electronic Library“ Markmið þessa „safns“ skyldi vera að tryggja að allir aðilar rannsóknasamfélagsins, menntakerfisins og atvinnulífsins hefðu greiðan aðgang að gagnasöfnum með upplýsingum um greinar í vísindatímaritum, alfræðirit ýmis konar og fl. þ.h. Nefndin skilaði af sér í maí sl. Ein af megin leiðunum að ofangreindu markmiði er að gera samninga fyrir landið í heild um aðgang að gagnasöfnum með áskrift eða leigu


Ég ætla ekki að fara út í að lýsa þessu nánar hér en læt þess getið að það eru ýmsar fleiri leiðir nefndar sem lúta að því að gert verði átak við að koma einnig finnsku efni í tölvuttækt form, hverjir eigi að bera ábyrgð á verkefninu og hvernig notendafræðslu skuli háttað.


Innleiðing verkefnisins á að taka þrjú ár og áætlaður kostnaður er 10,5 millj. Bandaríkjadollara, eða tæpar 750 millj. Íkr. Takmarkið er að finnskir vísinda- og fræðimenn hafi eins góð vinnuskilyrði ef ekki betri en vestrænir starfsbræður þeirra.


Samstarf norskra bókasafna á þessu sviði nær allt aftur til ársins 1988 skv. Dagmar Langeggen hjá Norka ríkisbókavarðarembættinu, en með tilstuðlan þess embættis voru þegar árið 1995 gerðir samningar við OCLC First Search og Institut for Scientific Information (ISI) um aðgang að þeirra gagnasöfnum fyrir norsk háskóla- og sérfræðibókasöfn. Það er BIBSYS sem sér um norsku samskránna sem heldur utanum aðganginn að gagnasöfnunum. Einnig er verið er að vinna að því að semja við OVID um aðgang að gagnasöfnum í læknisfræði og skyldum greinum.


Samningar Norðmanna við eigendur þessara gagnasafna hafa vakið athygli á hinum Norðurlöndunum og er leitast við að fylgja þeirra fordæmi við gerð samskonar samninga. Ekkert Norðurlandanna annað hefur þó lokið samningi ennþá, en alls staðar er verið að vinna að þeim nema hér á landi. Við erum á byrjunarreit.


Það er ljóst að leita verður leiða til að leysa þann vanda sem íslensk bókasöfn standa frammi fyrir. Er það von okkar sem að þessu málþingi stöndum að hugmyndir og tillögur kvikni hér í dag sem byggja má á til framtíðar.
Sigrún Magnúsdóttir, forstöðumaður bókasafns Háskólans á Akureyri.