Aðgangur sérfræðinga að gagnagrunnum OVID gegnum


Upplýsingar á Interneti. Málþing um aðgang atvinnulífs og vísindasamfélags að upplýsingum.

Undanfarin ár hafa tækniframfarir verið mjög örar og hafa læknisfræðibókasöfnin leitast við að tileinka sér nýja tækni til að auðvelda notendum aðgang að upplýsingum. Með tilkomu Internetsins og geisladiska hefur aðgengi að upplýsingum orðið mun auðveldara. Markmið læknisfræðibókasafna er góð notendaþjónusta og reyna þau að ná því markmiði með því að auðvelda aðgang að upplýsingum bæði innan og utan veggja safnanna, veita aðgengi að fjölbreyttri upplýsingaþjónustu og kenna notendum að nýta sér upplýsingatæknina.


Áður en ég segi frá aðgengi sérfræðinga að gagnagrunnum OVID gegnum netþjón Bókasafns Landspítalans ætla ég að rekja í stuttu máli tækniþróunina varðandi upplýsingaleitir á safninu.


Bókasafn Landspítalans kom á beinlínusambandi við erlenda gagnagrunna árið 1981. Fyrst í stað voru gerðar leitir fyrir notendur safnsins en seinna eða um 1986 var farið að halda námskeið fyrir notendur til þess að þeir gætu leitað sjálfir. Það var þó ekki fyrr en með tilkomu geisladiskanna 1990 að notendur fóru að leita sjálfir að verulegu leiti. Sérfræðingar hafa alltaf nýtt vel tölvuleitarþjónustuna hjá safninu enda er hún mikilvæg vegna starfs þeirra á spítalanum.


Geisladiskar eru nú komnir í almenna notkun á læknisfræðibókasöfnum. Hægt er að fá keypta ýmsa gagnagrunna á geisladiskum í heilbrigðisfræðum og þar á meðal MeDLINE. Læknisfræðibókasafn Landakotsspítala keypti MeDLINE á geisladiskum árið 1988 og var þar með fyrsta safnið sem keypti gagnagrunn á geisladiskum. Í byrjun árs 1990 keyptu læknisfræðibókasöfn Borgarspítalans, Landspítalans og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri MeDLINE á geisladiskum. Söfnin höfðu samvinnu um innkaup á geisladiskum fyrst frá Silver Platter og síðar frá OVID og á þann hátt hefur tekist að semja um hagstæðari áskrift. Ýmis fyrirtæki selja gagnagrunna á geisladiskum og þar á meðal eru þessi tvö fyrirtæki SilverPlatter og Ovid. Ovid er bandaríkst fyrirtæki með útibú um allan heim og selur aðgang að fjölda gagnagrunna á ýmsum fræðasviðum. Hver stofnun fékk þá sent sitt eintak af geisladiskum og voru þeir settir upp á hverri stofnun. Tækniþróunin hefur verið mjög hröð hvað varðar geisladiskana. Í fyrstu voru keypt geisladrif sem staðsett voru á safninu og var eingöngu hægt að nota diskana á safninu. Þeir urðu hraðvirkari með tímanum og auðveldari í notkun. Árið 1994 var tekið í notkun tölvukerfið frá Ovid, fyrir geisladiskana. Kerfið var þá komið í gluggaumhverfi. Byrjað var að nettengja deildir sjúkrahússins við kerfið og varð það þar með aðgengilegt allan sólarhringinn.


Í lok árs 1995 var Ovid tölvukerfið flutt yfir í Unix umhverfi úr Novel umhverfi. Þetta var gert til að bæta þjónustuna við Machintosh notendur á Ríkisspítulum og deildir sem eru staðsettar utan Landspítalalóðar. (glæra) Á sama tíma og Unix kerfið var tekið í notkun var gagnagrunnum fjölgað og bættust við Current Contents og Cancerlit, auk þess sem MeDLINE gagnagrunnurinn var stækkaður frá fimm árum í tuttugu ár eða frá 1966 fram til dagsins í dag. Einnig bættist við gagnagrunnurinn Core Biomedical Collection en þar er allur texti fimmtán tímarita í læknisfræði og hægt að prenta greinarnar út á staðnum. Ýmsir aðrir geisladiskar eru til á safninu og má þar nefna Books in print, Cochrane Library, London Dysmorphology og Neurogenetics Database og Micromedex. Einnig nokkur tímarit og bækurnar the Comprehensive Classification of Fracture og Neurobase.


Internetið hefur haft mikil áhrif á bókasafnsþjónustuna en það var tekið í notkun á safninu 1995. Heimasíða safnsins hefur verið á innra neti Landspítalans síðan 1995 en innra net er aðeins aðgengilegt innan stofnunarinnar. Í ágúst 1996 var netþjónninn tekinn í notkun fyrir safnið og heimasíða safnsins sett á ytranetið og þar með aðgengileg notendum utan Landspítalans. Með tilkomu netþjónsins er hægt að tengjast Ovid geisladiskum safnsins í gegn um heimasíðu safnsins. Þar með urðu töluverð umskipti varðandi aðgang heilbrigðisstétta að erlendum gagnagrunnum og raunar rafrænum tímaritum líka. Í stað aðgangs að gagnagrunnum á innanhússneti stofnananna, hefur starfsfólk heilbrigðisstétta og nemar í heilbrigðisfræðum aðgang að gagnagrunnunum í hvaða tölvu sem er, hvar sem er, svo framarlega sem hún er tengd Internetinu.


Bókasafn Landspítalans bauð öðrum læknisfræðibókasöfnum og heilbrigðisstofnunum að tengjast netþjóni safnsins því ýmsir kostir eru augljóslega fylgjandi því að sameinast um einn netþjón og má þar nefna: Til þess að það væri hægt urðu viðkomandi aðilar að semja við OVID fyrirtækið um áskrift að þeim gagnagrunnum sem þeir óskuðu eftir að tengjast. Sjúkrahús Reyjavíkur og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri samdi í sameiningu við Ovid um síðustu áramót. Bókasafn Landlæknis hafði síðan frumkvæði að því að semja við OVID um aðgang fyrir heilsugæslustöðvar og minni sjúkrahús landsins. Þessir aðilar tengjast síðan netþjóni bókasafns Landspítalns og því þarf aðeins eina áskrift og eitt eintak af hverjum geisladiski og er það eintak sett inn á harðan disk hjá Landspítalanum. Hægt er að nýta eina móðurtölvu og sparar það geymslurými. Aðeins þarf að nota 4 geisladrif til þess að hlaða gögnin inn á harðadiskinn. Tæknimenn tölvudeidar Landspítalans sjá um að setja inn forritið og hlaða inn diskunum. Diskarnir koma misjafnlega oft út og fer það eftir gagnagrunnum. Current Contents kemur vikulega en MeDLINE einu sinni í mánuði. Góð tæknikunnátta er ómetanleg í þessum efnum og hefur bókasafn Landspítalans átt því láni að fagna að á Tölvudeild spítalans starfa færir tölvumenn sem hafa unnið vel með starfsmönnum safnsins að þessu verkefni. Yfirleitt er það einn tölvufræðingur sem hleður inn gögnunum og tekur það um 1-2 tíma á viku. Þegar ný útgáfa af kerfisbúnaðinum kemur frá Ovid tekur þetta lengri tíma og þurfa þá fleiri tölvufræðingar að starfa við uppfærsluna. Gagnagrunnarnir eru aðgengilegir allan sólarhringinn og hægt er að komast í samband við þá hvort sem er á vinnustað eða heima. Þegar netþjóninn var ekki kominn í notkun var oft örtröð á bókasafninu til þess að komast í tölvurnar og þurfti að bóka tíma í þær. Nú dreifist þessi hópur og þarf ekki lengur að koma á safnið til þess að leita. Nú er hægt að leita af upplýsingum í 3.600 heilbrigðistímaritum í Medline frá árinu 1966 fram á daginn í dag. Hægt er að skoða úrdrætti greina og sjá hvaða bókasafn á blaðið og síðan panta þær greinar sem vantar frá viðkomandi safni í gegn um Ovid. Einnig er hægt að ná í allan textann af 15 helstu læknisfræðitímaritum 3 ár aftur í tímann og spara þannig mikla fyrirhöfn bæði fyrir notandann og starfsmann bókasafnsins sem þarf þá ekki að finna blaðið, ljósrita og senda greinina.


Ovid veitir aðgang að 300 rafrænum tímaritum í heilbrigðisfræðum þ.e. öllum textanum en ekki hefur verið til fjármagn til þess að gerast áskrifendur að öllum þessum tímaritum og því erum við áskrifendur að aðeins 15 rafrænum tímaritum.


Með því að tengjast Current Contents er hægt að fylgjast með efnisyfirlitum fjölda tímarita. Í Current Contents birtast oft efnisyfirlit tímarita áður en þau koma til landsins. Mörg tímarit eru heldur ekki keypt hér á landi og á þennan hátt geta notendur fylgst með í ritum sem ekki berast til landsins.


Bókasafn Landspítalans hefur í sumar verið að vinna að því að setja inn tímaritasafnkost þeirra sem nýta kerfið og geta þá notendur betur nýtt sér safnkost sem til er hér á landi..


Bókasafn Landspítalans sér um að útdeila lykilorðum til notenda. Það er tímafrek vinna og æskilegt að hægt verði að leysa aðganginn á annan hátt. Notendur hafa sitt eigið lykilorð og sitt eigið geymslurými á tölvunni. Þeir geta því geymt áhugaverðar leitir í skemmri eða lengri tíma. Þannig getur hver einstaklingur byggt sitt eigið greinasafn. Starfsfólk og nemar geta leitað í þessum gagnagrunnum án þess að þurfa að hafa áhyggjur af kostnaði.


Safnið hefur verið með skipulagða safnkennslu fyrir starfsfólk og nema. Kennslan hefur aukist til muna í upplýsingaleitum í Ovid gagnagrunnunum eftir að þeir voru aðgengilegir á Internetinu. Þar sem margir aðilar sameinast um eitt kerfi er m.a. hægt að nota sameiginleg kennslugögn. Bókavörður á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, Margrét Gunnarsdóttir hefur samið mjög góðan leibeiningabækling á íslensku sem kemur til með að nýtast öllum aðilum. Það kemur sér vel þar sem leiðbeiningar sem fylgja kerfinu er á ensku.


Heilbrigðisfræðinemar Háskóla Íslands geta allir sótt um lykilorð þar sem Bókasafn Landspítalans annast bókasafnsþjónustu fyrir þá. Þeim er kennt að leita og eru síðan hvattir til að nýta sér þessa upplýsingatækni í náminu. Þessi tækni nýtist þeim bæði í námsvinnu á sjúkrahúsunum og til að afla sér heimilda fyrir lokaritgerðir t.d. í hjúkrunarfræðum og sjúkraþjálfun. Þessi þjálfun í námi hefur ómetanlegt gildi fyrir þetta unga fólk sem mun frekar nýta sér þessa tækni í sínu framtíðar starfi. Þeir sem ekki hafa aðgangsorð mega koma á Bókasafn Landspítalans og leita þar í Ovid sér að kostnaðarlausu Aðgangurinn þar er öllum opinn. Helsti kosturinn er samt hve aðgengi að upplýsingum er mikið auðveldara nú en áður. Það auðveldar starfsfólki sem flytur sig á milli stofnana eða starfar á fleiri en einni stofnun að geta nýtt sér sama leitarkerfið. Á þann hátt sparast dýrmætur tími bæði fyrir starfsfólkið og fyrir þá sem annast kennslu. Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt að á þeim sjúkrahúsum þar sem greiður aðgangur er að Medline skilar það sér í betri meðferð og skemmri sjúkrahúslegu. Ég tel það mikinn kost að samstaða var milli starfsmanna bókasafna heilbrigðisstofnanna um að sameinast um einn netþjón og hefur sú samvinna gengið mjög vel. Heilbrigðisstéttin er sennilega sú stétt sem nýtir sér upplýsingar einna mest enda er það nauðsynlegt vegna eðli starfs þeirra, rannsókna, símenntunar og kennslu. Við höfum dæmi um það að nágranalönd okkar og sum fylki Bandaríkjanna hafa sameinast um netþjón og geisladiska og því ætti að vera hægt að gera slíkt hið sama hér í þessu fámenna landi.


Kostnaðurinn er töluverður en það er hægt að spara margt annað í staðinn og það er sú leið sem valin var á Bókasafni Landspítalans. Tímaritaáskriftum var fækkað og önnur þjónusta sem ekki var talin eins mikilvæg lögð niður. T.d. var hægt að leggja niður árvekni þjónustu sem fólst í því að senda ljósrit af efnisyfirlitum valinna tímarita til notenda því Current Contenst kom í staðinn með sín efnisyfirlit. Þannig var hægt að finna leið til að fjármagna þetta verkefni.


Nú þegar tímarit eru í auknum mæli að koma út í rafrænu formi þá tel ég það enn frekari nauðsyn að það takist að sameinast um einn netþjón, þar sem hægt væri að geyma plássfrekar upplýsingar eins og rafræn tímarit. Það verður ógjörningur fyrir hverja stofnun að geyma sín tímarit á tölvutæku formi því geymsluminnið er dýrt. Um leið væri hægt að sameinast um eina áskrift í stað þess að kaupa mörg eintök af sama ritinu prentuðu.


Til þess að landsmenn geti nýtt sér tölvutæknina við öflun upplýsinga er nauðsynlegt að nýta það fjármagn sem veitt er til rannsóknabókasafna á annan veg. Fækka t.d. þeim áskriftum sem keyptar eru í mörgum eintökum til landsins og sameinast um áskriftir á rafrænum tímaritum. Með því að sameinast um einn netþjón er hægt að samnýta tækniþekkingu sem til er í landinu og leysa þannig tæknivandamál sem upp koma á hagkvæman hátt.
Sólveig Þorsteindsdóttir, forstöðumaður bókasafns Landspítalans.