Eintakagerð

Eintakagerð, birting og miðlun


Í eintakagerð og birtingu efnis felst að verkið er hlutgert eða gert aðgengilegt á einn eða annan hátt, t.d. gefið út á prenti eða stafrænu formi, flutt opinberlega, gerð af því afrit eða vitnað beint til þess í ritverkum.
Hliðræn eintakagerð felur í sér að eftirrit er í sama formi og frumritið, t.d. við ljósritun eða við afritun á snældur. Áður fyrr var eintakagerð eingöngu hliðræn en er nú einkum stafræn og felst í niðurhali rit-, mynd- og tónverka og sendingu á milli tölva, vistun, brennslu á disk eða útprentun. Birting efnis er líka orðin einfaldari með tölvutækninni.


Við eintakagerð þarf að hyggja að því að ýmislegt efni fellur ekki undir höfundarétt, svo sem eins og opinbert efni og eldra efni sem höfundalög ná ekki lengur yfir. Margt annað er birt með leyfi höfunda og er frjálst til afnota, t.d. á Netinu.


Það er oft erfitt að greina hvort um er að ræða löglega útgefið verk eða ólöglegt afrit. Stundum eru á verki leiðbeiningar um löglega notkun þess, t.d. höfundaréttarmerkið © eða ?creative commons? merkið ©© en oft er það ekki. Merkið © hefur ekkert lagalegt gildi og lögleg notkun telst vera á ábyrgð notandans. Það er því ávallt best að gæta vel að því hvort efnið er til frjálsra afnota eða ekki áður en eintök eru gerð.


Undanþágur og takmarkanir
Eintakagerð og miðlun í starfsemi safns
Miðlun út fyrir safn
Stafræn eintakagerð


Undanþágur og takmarkanir á höfundaréttinum


Það er sérlega mikilvægt fyrir starfsmenn og notendur bókasafna að kunna skil á undantekningarákvæðum höfundalaganna. Um þau er fjallað í II. kafla höfundalaganna. Eintakagerð samkvæmt þeim má ekki stríða gegn eðlilegri hagnýtingu verks né skerða lögmæta hagsmuni rétthafa og má ekki vera í fjárhagslegum tilgangi. Þetta er kölluð þriggja þrepa reglan.


Höfundar eiga í ýmsum tilvikum rétt á sanngjarnri þóknun vegna eintakagerðar
samkvæmt undantekningarákvæðum. Það ber þó að meta með tilliti til þess hvort eintakagerðin veldur höfundinum umtalsverðum skaða. Ljósritun til einkanota er t.d. talin svo óveruleg að hún geri það ekki. Ef aðgangur er seldur að stafrænu efni og aðgangshindranir settar eiga höfundar ekki rétt á frekari þóknun frá notanda vegna eintakagerðar.


Einkaréttur höfundar nær ekki yfir eintök sem verða til við skammtímavistun, eru liður í tækniferli eða hafa enga sjálfstæða fjárhagslega þýðingu. Þessi ákvæði gilda þó ekki um tölvuforrit og gagnagrunna. Þó má gera afrit af tölvuforriti sem keypt hefur verið, til að skoða það eða prófa, og gera af því öryggisafrit.


Í 11. grein laganna eru ákvæði um eintakagerð til einkanota. Með einkanotum er átt við eintakagerð einstaklings í eigin þágu og fjölskyldu eða fyrir persónulega vini. Þar segir að heimilt sé að gera eintök af birtu verki til einkanota ef það er ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Ekki má leita aðstoðar aðila sem gera eintök í atvinnuskyni.
Ef einstaklingur gerir eða vill gera eintak í fjárhagslegum tilgangi, sem ekki fellur undir undantekningarákvæði og er ekki tengdur stofnun sem hefur samið um eintakagerðina, verður hann því annaðhvort að semja sjálfur við rétthafa eða samtök þeirra. Hann getur líka reynt að leita aðstoðar bókasafns sem gæti veitt honum lögmæta þjónustu með samningi við rétthafasamtök.


Á bókasöfnum hafa notendur yfirleitt aðgang að tækjum til eintakagerðar, ljósritunarvél og/eða tölvu til notkunar stafræns efnis á neti og diskum. Eintakagerð sem þessi er eingöngu á ábyrgð viðkomandi notanda og getur ýmist verið til einkanota eða til nota samkvæmt löglegum undantekningum.
Ógerningur er fyrir starfsmenn bókasafna að fylgjast með því í hvaða tilgangi hún fer fram. Hins vegar ættu bókasöfn og upplýsingamiðstöðvar að gera notendum sínum grein fyrir þeim reglum sem rétthafasamtök hafa sett um lögmæta og siðlega eintakagerð, með því að hafa þær tiltækar á áberandi stað þar sem hún fer fram.


Söfn, sem geyma skjöl eða annað slíkt efni, geta veitt aðgang að því á safni og leyft eintakagerð til einkanota en þurfa að leita leyfis höfundar eða rétthafa um aðra eintakagerð, t.d. ef nota á efnið í atvinnuskyni. Stundum hvíla líka tímabundnar takmarkanir um aðgang á slíku efni. Í 22. gr. höfundalaganna er gefin heimild til eintakagerðar skjala eða annarra gagna samkvæmt upplýsingalögum þó þau hafi að geyma verk er njóta verndar. Þó megi í slíkum tilvikum hvorki birta hin vernduðu verk né gera af þeim afrit, dreifa þeim eða nýta í hagnaðarskyni án samþykkis höfundar.
Persónuleg málefni lifandi fólks eru ávallt viðkvæmt safnefni og ber að gæta varúðar við að veita aðgang að slíku efni og það er góð regla að skrá notkun á því og gera notendum grein fyrir rétti höfunda og rétthafa og hvetja til varúðar við notkun.


Ýmsar aðrar undantekningar frá einkarétti höfunda til eintakagerðar eru taldar upp í II. kafla höfundalaganna. Þær helstu sem koma til álita á bókasöfnum eru:


Endurbirting dægurgreina um hagfræðileg efni, stjórnmál eða trúmál er heimil ef það er ekki tekið fram að hún sé bönnuð og heimildar er getið. (15. gr.)
Myndbirting af listaverkum er heimil í sambandi við frásögn af dægurviðburðum nema myndin sé gerð sérstaklega við frásögnina. (15. gr.)


Tilvitnanir í birt verk er heimil í sambandi við gagnrýni, vísindi eða almenna kynningu ef rétt er með efnið farið og höfundar getið (14. gr.)


Eftirgerð og dreifing eintaka af útgefnum verkum er heimil fyrir þá sem vegna fötlunar geta ekki nýtt sér venjulegt prentletur til lestrar (19. gr.)


Fleiri undantekningarákvæði eru í lögunum t.d. um birtingu í safnverkum, s.s. vegna kennslu (17. gr.), söngtexta (20. gr.), opinberan flutning (21. gr.), umræður (22. gr.), útsendingar ( 23. gr.), endurvarp um kapalkerfi (23. gr.), sýningar á myndlist (25. gr.),


Eintakagerð og miðlun í starfsemi safns


Í 12. gr. höfundalaganna (ný ákvæði 2010) segir að opinber skjalasöfn, bókasöfnum og önnur bókasöfn sem njóta opinberra styrkja, önnur opinber söfn og söfn sem falla undir safnalög hafi ákveðnar heimildir til að gera eintök af verkum til notkunar í starfsemi sinni ef það er ekki í fjárhagslegum tilgangi. Ákvæðin ná yfir stafrænt efni jafnt og prentað. Heimildin gildir þó ekki um forrit á stafrænu formi (nema tölvuleiki). Söfnin mega gera eintök af:


Verkum í öryggis- og varðveisluskyni
Verkum úr safnkosti sínum sem vantar í nokkurn hluta og eru ófáanleg á almennum markaði
Verkum sem safni er skylt að eiga eintök af og eru ófáanleg á markaði.
Frumritum sem eru of viðkvæm til útláns og eru ófáanleg.
Söfnin mega veita einstaklingum aðgang innan veggja að birtum verkum sem eru ekki háð kaup- eða leyfissamningum á þar til gerðum búnaði.


Miðlun efnis út fyrir safn


Sérstaklega er tekið fram í skýringum við ákvæði í InfoSoc tilskipuninni að eintakagerð á bókasöfnum megi ekki taka til afnota í tengslum við rafræna miðlun út fyrir safn.
Rafræn millisafnalán eru miðlun efnis út fyrir safn. Áður var ýmist sent ljósrit í pósti eða með faxi en til þess að geta sent stafrænt í millisafnalánum þurfa söfnin því að fá leyfi hjá rétthafasamtökum eða gera samninga um slíka afgreiðslu og að innheimta höfundaréttargjöld af efni sem sent er ef þess er krafist.


Mörg söfn hérlendis og erlendis hafa samt sem áður farið þá leið að senda stafrænt sín á milli en prenta út efnið fyrir notandann eða láta hann hafa aðgangsorð á netþjóni. Jafnframt þarf safnið að láta fylgja ábendingu til notandans um höfundarétt og að ekki megi áframsenda né vista skjalið. Þjónustan er ekki í hagsmunaskyni fyrir söfnin og í langflestum tilvikum til notkunar við nám eða rannsóknir.


Bókasöfn og kennarar í framhaldsskólum og háskólum hafa í auknum mæli sett efni á Netið til notkunar við fjarkennslu eða annarrar dreifingar til nemenda. Háskólabókasöfnin hafa gert sérstakan samning við Fjölís um þetta og greiða samtökunum ákveðna upphæð á hverju ári.


Bókasöfn munu líka í auknum mæli vilja miðla safnefni til notenda eftir þörfum (on demand), á þeim stað og stundu sem notandi óskar eftir. Slík notkun efnis er háð
samningum við rétthafa eða rétthafasamtök fyrir þeirra hönd.


Útlán og leiga. Samkvæmt ákvæðum sem innleidd voru í höfundalögin eftir tilskipun
Evrópusambandsins um leigu- og útlánsrétt árið 1992 (92/100/EBE), fengu rétthafar einkarétt á leigu og útlánum á verkum sínum og lán og leiga var skilgreint sem heimild til afnota um takmarkaðan tíma.
Sala, lán og leiga og önnur dreifing til almennings á eintökum útgefins bókmenntaverks eða tónverks er heimil. Leiga er þó óheimil án samþykkis höfundar. Sömuleiðis er óheimilt að lána út kvikmyndaverk og tölvuforrit í stafrænu formi án samþykkis höfundar. Ef tölvuforrit er hluti af bókmenntaverki má þó lána það með því án sérstaks leyfis.
Undantekningarákvæðið gildir ekki um efni sem hefur verið markaðssett án samþykkis rétthafa innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það er því nauðsynlegt að leyfi rétthafa sé tryggt, til að lána megi efni sem gefið er út í löndum sem ekki tilheyra EES (24. gr.).


Stafræn eintakagerð


Stafræn eintakagerð fer fram með innslætti, skönnun, niðurhleðslu og vistun, brennslu á disk, útprentun eða beinni yfirfærslu úr einni tölvu í aðra.
Í stórum dráttum gilda sömu undantekningarákvæði höfundalaganna um stafræna eintakagerð og hliðræna. Þannig er t.d. leyfilegt að afrita tónlistardiska til einkanota en ekki í fjárhagslegum tilgangi. Söfn mega líka afrita stafræn eintök í varðveisluskyni og flytja eintök á stafrænt form og veita aðgang að því innan safn í rannsóknarskyni eða vegna náms.


Ekki er alltaf auðvelt að sjá hvort verndað verk sem birtist á neti eða diski sé komið þangað á löglegan hátt eða hvort leyfilegt sé að gera af því eintök. Því er vissara að ganga úr skugga um það áður en slíkt er gert. Ábyrgðin er notandans en ekki höfundarins.
Á vefsíðum og í tölvupósti eru oft leiðbeiningar til notenda um leyfilega notkun viðkomandi efnis sem á þeim er. Slíkt er til mikilla bóta og hagræðis fyrir notendur.
Verk í höfundarétti sem birtast á Netinu er einungis leyfilegt að lesa af skjá nema þau falli undir samninga eða önnur notkun sé heimiluð.


Skammtímavistun efnis sem hefur enga fjárhagslega þýðingu eða er liður í tækniferli eða eru til skamms tíma eða tilfallandi er undanþegin höfundarétti. Það gildir þó ekki um tölvuforrit og gagnagrunna.


 Takmarkanir á aðgangi að stafrænu efni með tæknilegum aðgangshindrunum geta hugsanlega tafið eða komið í veg fyrir eintakagerð bókasafna eða einstaklinga til einkanota samkvæmt undantekningarákvæðum. Ný ákvæði eru í höfundalögum sem banna að hafa undir höndum tæki til að fjarlægja eða sniðganga tæknilegar aðgangshindranir. Einnig er stranglega bannað að fjarlægja eða breyta upplýsingum um réttindaumsýslu stafræns efnis og flytja inn og dreifa slíku efni.
Ef bókasöfn eða einstaklingar geta ekki nýtt sér löglega notkun efnis með aðgangshindrunum er hægt að leita til opinberrar úrskurðarnefndar sem hefur vald til að skipa rétthöfum að veita aðgang að því. Ef rétthafi gerir það samt ekki má sniðganga hindranirnar að fjórum vikum liðnum.


Við eintakagerð allra tegunda verka, stafrænna sem annarra, þar á meðal við beinar og óbeinar tilvitnanir til verka, er skylt að geta höfundarnafns. Óheimilt er líka að breyta verki eða birta það í því samhengi að það geti skert heiður höfunda.


Með InfoSoc tilskipun Evrópusambandsins, voru hertar reglur um notkun stafræns efnis, sem að ýmsu leyti stangast á við það hlutverk bókasafna að veita öllum sem greiðastan og jafnastan aðgang að upplýsingum og hugverkum.
Í yfirlýsingu IFLA http://archive.ifla.org/III/clm/p1/pos-dig.htm , um höfundarétt í stafrænu umhverfi, er rætt um hið nauðsynlega jafnvægi, sem verður að ríkja á milli réttmætra hagsmuna rétthafa og sanngjarns aðgengis notenda, til að hvetja til nýsköpunar, rannsókna og menntunar. Starfsfólk bókasafna beri virðingu fyrir rétti höfunda en gegni jafnframt því hlutverki að veita notendum aðgang að hugverkum.
Of strangar reglur um höfundarétt gætu ógnað lýðræði og haft neikvæð áhrif á réttarkerfið. Ef sanngjarnt aðgengi að stafrænum upplýsingum sé ekki tryggt muni það enn auka á misrétti milli ríkra og fátækra. Hin nýja tækni megi ekki verða til þess að torvelda sanngjarnan aðgang fyrir alla að vernduðum verkum. (IFLA 2000)


Hinn stafræni aðgangur hefur orðið notendum til mikilla hagsbóta í flestum tilvikum en hefur þó líka valdið ýmsum vanda. Með aðgangshindrunum hafa útgefendur og framleiðendur efnisins í hendi sér vald til að stjórna innkaupum og geta haldið verðinu háu. Söfn eiga oft erfitt með að standa undir kaupum á stafrænu efni á Netinu því hið háa verð gerir það að verkum að söfnin hafa þörf fyrir stóraukin fjárframlög. Til að njóta þægindanna af stafræna aðganginum og svara kröfum notenda þurfa söfnin líka oft að kaupa aðgang að miklu meira efni en þau hafa þörf fyrir.


Bókasöfn og rannsóknarstofnanir sjá sér hag í því að veita vísindamönnum og almenningi gjaldfrjálsan eða ódýran aðgang að efni. Víða hafa verið sett upp stafræn gagnasöfn á vegum háskóla og vísindastofnana, þar sem aðgangur er opinn og gjaldfrjáls, en um efnið gilda auðvitað eftir sem áður almennar höfundaréttarreglur.