Erindi við opnun vefbókasafns

Flutt  föstudaginn 13. nóvember 1998 í Bókasafni Seltjarnarness. (Nokkuð stytt)
     
    Markmið bókasafna er að opna dyr að fróðleik og þekkingu og leitast við að gefa fólki á öllum aldri tækifæri til að skapa sér betri tilveru og framtíð. Þeir sem á bókasöfnum starfa halda í hendi sér lyklinum að þessum dyrum og geta þar með haft veruleg áhrif á þjóðfélagið og þegna þess.
 
    Mjög mikilvægt er að bókasöfn fylgist með tímanum, og þau breytist til samræmis við nýja þjóðfélagshætti, standi jafnvel feti framar en aðrar stofnanir hvað varðar nýjungar á sviði samskiptatækni og upplýsingamiðlunar. Það er einnig mjög þýðingarmikið að starfslið safnanna, bókasafnsfræðingar og aðrir, bæti stöðugt við þekkingu sína og færni á þessu sviði.
 
    Sú var tíðin að flestir bókaverðir á Íslandi voru ólaunaðir og unnu sitt starf fyrst og fremst af hugsjón. Þeir höfðu yndi að því að lesa, þeim leið vel innan um bækur, og það að koma fólki og bókum saman í félagsskap gaf þeim ánægju og dálitla hlutdeild í lífi lánþeganna. Bókasöfn voru einfaldar, látlausar og þöglar stofnanir sem gerðu litlar kröfur og voru lítt áberandi eða sáust alls ekki í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga og ríkis.
 
    En söfnin áttu sér bakhjarla, annan hóp hugsjónafólks, sem gerði sér grein fyrir áhrifamætti bókarinnar og þörf á bættri almennri fræðslu og menntun, og skildu gildi og áhrif góðra bókasafna. Þessi hópur sá til þess að stuðningur við bókasöfn var fastsettur í lögum og hægt og hægt breyttust söfnin í virkari og fjölhæfari stofnanir með starfsfólki sem sótti menntun og þjálfun innanlands og utan og vann hörðum höndum að því að aðlaga söfnin breyttu umhverfi. Þær fjárveitingar sem söfnunum voru ætlaðar, nægðu ekki til þess að koma á nauðsynlegum breytingum á skömmum tíma, og því héldu bókaverðirnir áfram að vinna að ýmsum verkefnum í þágu safnanna í sínum eigin tíma af sama hugsjónaanda og fyrirrennarar þeirra höfðu gert.
 
    Eitt af þessum hugsjónaverkefnum var Bláa skráin svokallaða, sem minnst er sérstaklega hér í dag, á fæðingardegi Vefbókasafnsins. Hún dregur nafn af litnum á bandinu sem að sjálfsögðu var hafður blár, litur hugsjónar og vona og bjartsýni. Hún kom út 13. nóvember 1978 eða fyrir réttum 20 árum og hafði þá verið í smíðum eða öllu heldur klippingu og snyrtingu í sex ár, síðan vorið 1972. Þá settust þrír fífldjarfir bókasafnsfræðingar (Guðrún Karlsdóttir, Kristín H. Pétursdóttir og Sigrún Klara Hannesdóttir) niður við að klippa í örsmáa strimla íslensku þjóðbókaskrána, 30 bindi eða um 50.000 færslur yfir bækur útgefnar á árunum 1944-1973 og tóku að líma strimlana upp á spjöld í þeim tilgangi að skapa það sem kalla má miðlægan gagnagrunn. Ólíkt þeim miðlæga gagnagrunni sem við heyrum mest um í dag, skapaðist einhugur ogsamkennd um verkefnið og innan fárra vikna var kominn hópur fólks, sem safnaðist saman á kvöldin og um helgar með skæri og límdollur og spjöld og einhverja líkamlega næringu, og hugsjónaandinn sveif eins og blátt ský yfir öllu saman. Þessi klippi- og límþáttur verksins entist okkur heilt ár og síðan tók við endalaus stafrófsröðun nærri 50.000 spjalda.
 
    Eitt er víst að Bláa skráin, þegar hún kom loksins út árið 1978, markaði tímamót og ýtti undir framfarir í bókasöfnum og um leið nýjar hugsjónir, m.a. lagði þessi vinna grunninn að Þjónustumiðstöð bókasafna. Þá voru draumarnir orðnir að veruleika og mark takandi á okkur, og við fengum fyrirframgreiðslur nokkurra stærstu almenningsbókasafnanna og einnig fjárstyrk frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til þess að halda áfram.
 
    Ég minnist þessara ára með ánægju og um leið þakklæti til allra sem lögðu í þetta ævintýri með okkur – sérstaklega í dag, þegar hópur nýrrar kynslóðar hugsjónafólks, en jafnframt mikils raunsæisfólks, kynnir hér starf, sem, ef að því er hlúð, á eftir hafa mikil áhrif á bókasafna- og upplýsingaheim okkar. Vefbókasafnið er rétt framtak á réttum tíma og mun verða mikill stuðningur við markmið og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu upplýsingaþjóðfélags á Íslandi. Svo hér sé vitnað í skýrsluna „Íslenska upplýsingasamfélagið“ sem gefin var út árið 1996 af ríkisstjórninni. Þar er fjallað er um markmið bókasafna og segir m.a.: „Bókasöfn skapi öllum viðskiptavinum sínum auðveldan aðgang að upplýsingum á tölvutæku formi, m.a. með tengslum við innlendar og alþjóðlegrar fræðslumiðstöðvar og upplýsingaveitur“.
 
    Internetið, ein aðallind upplýsinga í rafrænu formi er nú í stöðugt meira mæli notuð í skólum, vinnustöðum og á heimilum. Það stefnir þó í að Internetið sé á góðri leið með að verða skrímsli sem sóar bæði tíma og fjármunum notenda í ómarkvissum leitum og skilar meira rusli en gagnlegri þekkingu. Ausið er inn upplýsingum en fjöldi leitarvéla er gagnslítill og bak við þær standa hagsmunaaðilar sem ekki hafa það að markmiði að veita upplýsingar, heldur selja vöru eða þjónustu. Fæstir þessara aðila beita rökrænni hugsun við að skipuleggja gagnagrunna sína, heldur láta tölvur orðtaka efnið sem í þá fer. Það veldur því að leitir missa marks og svara ekki hinum raunverulegum þörfum notandans.
 
    Til þess að virkja þessa orkulind í þágu þjóðar þarf einmitt hóp eins og þann sem stendur á bak við Vefbókasafnið, fagfólk sem lifir og hrærist í skipulagningu þekkingar og upplýsingamiðlun, og fylgist grannt með nýrri vitneskju. Þessi hópur ræður yfir færni og þekkingu til þess að breyta öngþveiti í andstæðu sína og leiða notendur Internetsins og annarra nýrra miðla inn í hnitmiðaða þekkingarleit.
 
    Vefbókasafnið verður sérstaklega mikilvægt fyrir unga notendur, nemendur í skólum sem eru að stíga sín fyrstu skref út á upplýsingabrautina, en einnig aðra, fólk með mismunandi þarfir, á öllum menntunarstigum, í margvíslegum störfum og á öllum aldri.
 
    Það er líka rétt að minna á hvernig þessi gagnagrunnur opnar almenningi á auðveldan hátt leið að upplýsingum um starf og þjónustu opinberra aðila, bæði stjórnvalda og sveitarstjórna.
 
    „Miðlægur gagnagrunnur“ er vinsælt hugtak þessa dagana en tengist fyrst og fremst upplýsingasöfnun Íslenskrar erfðagreiningar – og ekki eru allir sammála um ágæti hans. Hér er aftur á móti kominn vísir að miðlægum gagnagrunni sem, þótt erfitt verði að mæla hagnað af honum, mun koma að ómetanlegu gagni við uppbyggingu og varðveislu menntunar og menningar í þessu landi.
 
    Ég óska félögum mínum til hamingju með mikið og vel unnið starf og vil bera fram framtíðaróskir mínar því til handa. Um leið vil ég láta í ljósi þá von að stjórnvöld og sveitarstjórnir sjái mikilvægi þess að veita þessu þarfa verkefni þann stuðning sem nauðsynlegur er til þess að það megi ná þeim markmiðum sem sett voru í upphafi.
Krisín H. Pétursdóttir