Segja má að í dag standi Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða á tímamótum. Í vor munum við standa frammi fyrir þeirri áskorun að talsvert mun vanta af fólki í stjórn og nefndir félagsins. Það er áhyggjuefni því síðustu ár hefur orðið erfiðara og erfiðara að manna stjórnir og nefndir félagsins og því þarf að breyta. Félagið er afrekstur þess starfs sem félagsmenn þess leggja í félagið. Ef við erum ekki tilbúin til að starfa að málefnum félagsins þá leggst félagið af, því miður er það ekki flóknara en svo. 

Að starfa fyrir félagið krefst vissulega einhverrar vinnu af hálfu þess sem tekur að sér setu í stjórn eða nefndum félagsins. En sú reynsla og þekking sem viðkomandi aflar sér í starfi er gríðarleg og borgar vinnu margfalt til baka. Í slíku starfi felst innlent og erlent samstarf á þverfaglegum sviðum og tengslanetið eflist sem aldrei fyrr. Að starfa fyrir félagið er gott fyrir þá sem nýjir eða nýlegir eru í faginu því tengslanetið er mjög mikilvægt í okkar starfi og sú þekking sem maður lærir af þeim sem lengur hafa starfað í faginu. Það er einnig gott fyrir þá sem eldri eru í faginu að starfa fyrir félagið og þar kemur tengslanetið einnig sterkt inn því það er jú nýtt og nýtt fólk að bætast í hópinn!

Ég sjálf hóf störf fyrir félagið fyrst árið 2013 þar sem ég sat í fræðslu- og skemmtinefnd Upplýsingar til ársins 2015. Eftir það tók ég setu í stjórn Upplýsingar sem meðstjórnandi og tók svo við sem formaður félagsins árið 2016 og læt af störfum nú í maí 2018. Sú reynsla sem ég hef aflað mér á þessum tæpu 5 árum er mögnuð. Ég hef kynnst ótrúlega mörgu fólki sem starfar í okkar fagi hér heima og erlendis. Það hefur hjálpað mér gríðarlega í störfum fyrir félagið en jafnvel meira í daglegum störfum mínum hjá Landsbókasafni Íslands. Ég hef verið skóluð til í ræðuhöldum, framsögum, samstarfi og fleira til. Ég sé ekki eftir þeim tíma sem ég hef nýtt í vinnu fyrir félagið og mun alveg örugglega koma aftur til starfa fyrir félagið í framtíðinni. Með því að segja hér frá minni reynslu vil ég hvetja ykkur, óháð því hvort þið hafið langa eða stutta reynslu í faginu okkar eða einhverja reynslu yfirhöfuð, til að bjóða ykkur fram í stjórn eða nefnd á vegum félagsins. Öll vinna veitir ómetanlega reynslu og kosti sem maður fær jafnvel ekki annarsstaðar. 

Á aðalfundi félagsins sem haldinn verður 4. maí nk. munum við skipa í nýja stjórn félagsins og í nefndir þess og vonumst við til að þú, lesandi góður, bjóðir sjálfa(n) þig fram í stjórn eða einhverja af nefndum félagsins eða tilnefnir einhvern til starfa. Við hvetjum yfirmenn sérstaklega til þess að tilnefna fólk frá sínum vinnustað sem og að veita þeim sem starfa fyrir félagið smá svigrúm til að geta sótt fundi á dagvinnutíma.

Í vor mun vanta fólk í til starfa í stjórn félagsins, í höfundaréttarnefnd, uppstillingarnefnd og útgáfunefnd. 

Stjórn félagsins heldur utan um almennan rekstur félagsins. Í hana vantar framboð í öll störf sem eru formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Þó núverandi stjórn hverfi öll til annarra starfa munu tveir stjórnarmeðlimir, ég sjálf, og Magný Rós Sigurðardóttir, gjaldkeri félagsins, vera varamenn í komandi stjórn og veita alla þá aðstoð sem mögulegt er á meðan ný stjórn tekur við taumunum. Einnig hefur Oddfríður Steinunn Helgadóttir, skjalastjóri á Landsbókasafni Íslands, verið áheyrnarfulltrúi í stjórn félagsins síðastliðið ár og mun starfa í nýrri stjórn félagsins. Það verða því ekki allir stjórnarmeðlimir splunkunýjir og þekkingin hverfur ekki.

Höfundaréttarnefnd starfar þegar tilefni þykir til. Hún veitir m.a. umsögn um frumvörp er varða höfundaréttar- og upplýsingamál fyrir hönd félagsins. Í hana vantar 2 nefndarmenn.

Útgáfunefnd félagsins sér um alla vinnu við útgáfu Bókasafnsins, tímarit félagsins. Í hana vantar 4 nefndarmenn.

Uppstillingarnefnd starfar eftir þörfum þegar vantar fólk í stjórn og nefndir Upplýsingar sem og fulltrúa í ýmsar nefndir utan félagsins sem Upplýsing á fulltrúa í. Í hana vantar 2-3 nefndarmenn.

Framboð og tilnefningar sendist á [email protected] fyrir 25. apríl nk. 

Virðingarfyllst,

Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar,
formaður Upplýsingar.