E F N I: Fylgt úr hlaði Ýmis spennandi málefni eru einnig á döfinni sem sagt er frá, s.s. val á kerfi fyrir öll bókasöfn landsins, landsaðgangur að gagnagrunnum, átak í menntunarmálum ófaglærðra bókavarða og opnun Borgarbókasafns í nýju húsnæði svo eitthvað sé nefnt. Mjög ánægjulegt er hve margar og vandaðar greinar hafa borist blaðinu. Félagatal Upplýsingar á Netið Opnun skrifstofu Upplýsingar Stjórnin hefur ákveðið að hafa skrifstofuna opna tvo tíma á viku fyrst um sinn. Til að byrja með skiptast stjórnarmenn á um að vera á skrifstofunni. Skrifstofan verður opin á fimmtudögum milli kl. 15:30 og 17:30. Fyrst verður skrifstofa Upplýsingar opin þann 18. janúar 2001. Kynningarfundur á lokaverkefnum frá Háskóla Íslands Fylgist því vel með á tölvupóstlistanum Skruddu og á vef Upplýsingar http://www.bokis.is þegar nær dregur varðandi dagskrá fundarins. Jólagleði Upplýsingar Jólagleðin verður þann 1. desember kl. 20-23. Dagskráin verður í höndum Borgarbókasafns og skemmtinefndar Upplýsingar. Léttar veitingar í boði Borgarbókasafns. Einnig gefst kostur á að skoða húsnæði Borgarskjalasafns og Ljósmyndasafns Reykjavíkur. Dagskráin verður fjölbreytt, m.a. ræða kvöldsins, upplestur og söngur. Góðir félagar! Munið að taka föstudagskvöldið 1. desember frá í dagbókinni og mæta með jólaskapið. Félagsgjöld Upplýsingar Stjórnin hvetur þá sem enn eiga eftir að greiða gjöldin fyrir árið 2000 að gera það hið fyrsta þar sem ýmis fríðindi, faglegur ávinningur og skemmtilegheit fylgja því að vera félagi í Upplýsingu. Hvers vegna Upplýsing? Því miður hafa þær raddir stundum heyrst meðal bókavarða að þeim finnist þeir bera lítið úr býtum með félagsaðild að fagfélaginu og árgjaldið, sem er kr. 4.500, sé hátt. Benda má á að það er með því allralægsta sem gerist hjá fagfélögum, sem ekki njóta innlendra eða erlendra styrkja – eða kr. 375 á mánuði. Hér á eftir verður reynt að sýna fram á hið gagnstæða og færð rök fyrir því hvers vegna er æskilegt og eftirsóknarvert að vera í Upplýsingu sem er fagfélag á sviði bókasafns- og upplýsingafræði. Undirrituð telur að þegar upp er staðið sé bæði um faglegan og fjárhagslegan ávinning að ræða, svo sem fram kemur í listanum hér að neðan, sem vissulega ræðst að nokkru leyti af virkni hvers og eins. Ávinningurinn er bæði fyrir faglærða og ófaglærða bókaverði enda er nú sem stendur unnið ötullega að skipulagningu náms fyrir ófaglærða bókaverði. Fríðindin hér að neðan miðast að sjálfsögðu við skuldlausa félaga og gilda fyrir nemaaðild og einstaklingsaðild.
Stjórn Upplýsingar væntir þess að félagsmenn sjái sér hag í því að vera meðlimir í félaginu og vill leggja sitt af mörkum til þess að félagsmenn geti verið ánægðir með að eiga aðild að Upplýsingu og vilji líta á félagið sem sitt fagfélag. Allar ábendingar frá félagsmönnum til að gera gott félag betra eru vel þegnar. Hvað er NVBF? Sambandið var stofnað árið 1947 og er höfuðmarkmið þess að styðja og þróa samvinnu milli norrænna rannsóknar- og sérfræðisafna og starfsmanna þeirra. Viðfangsefni Meðal viðfangsefna má nefna:
Nánari upplýsingar um NVBF og starfsemi þess er að finna á heimsíðu sambandsins: www.dpb.dpu.dk/nvbf/ Aðild Þeir sem áhuga hafa á að sækja um aðild að Upplýsingu eru hvattir til að senda umsókn til félagsins í pósti eða með því að fylla út eyðublað á heimasíðu þess: http://www.bokis.is/ Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða, Lágmúla 7, 108 Reykjavík. Sími: 553 7290, fax: 588 9239,Veffang: www.bokis.is Netfang: [email protected] Aðild Upplýsingar að IASL Félagið gefur út fréttabréfið IASL Newsletter þrisvar á ári. Einnig er gefið út fagtímaritið School Libraries Worldwide og ráðstefnurit frá árlegri ráðstefnu samtakanna. Til gamans má geta þess að ráðstefnan var haldin hér á Hótel Sögu í Reykjavík árið 1987 og var undirrituð þá ásamt fleirum í undirbúningsnefnd. Formaður nefndarinnar var Sigrún Klara Hannesdóttir sem á árunum 1988-1994 var varaforseti samtakanna og síðan um skeið forseti þeirra. Síðasta ársþing IASL var haldið í ágúst síðastliðinn í Malmö í Svíþjóð og sóttu nokkrir félagar úr Upplýsingu þá ráðstefnu sem mjög góður rómur hefur verið gerður að. Jafnan eru haldin vönduð námskeið bæði á undan og eftir ársþinginu. Í ár var Upplýsingalæsi – lykill að framtíðinni yfirskrift ráðstefnunnar. Á aðalfundi samtakanna sem einnig var haldinn í Malmö var ákveðið að ráðast í að safna tölfræðilegum upplýsingum um skólasöfn í heiminum. Á heimasíðu samtakanna (http://iasl.org) er að finna upplýsingar um samtökin og efni frá síðasta ársþingi. School Libraries Online er nafn á vefsetri IASL. Það var stofnað árið 1995. Markmið vefsetursins (http://www.iasl-slo.org) eru eftirfarandi:
Á vefsetrinu er m.a. að finna greinar úr fréttabréfinu, fagtímaritinu og ráðstefnuritum félagsins. Ennfremur ritdóma um bækur og annað fagefni, upplýsingar um verðlaun og styrki, alþjóðlega skólasafnadaginn sem haldinn er þriðja mánudag í október ár hvert (16. október í ár) og IASL vefsíðuverðlaunin. Þá eru tenglar í valdar heimasíður á vefsíðunni. Dr. L. Anne Clyde prófessor í bókasafns- og upplýsingafræði er vefstjóri síðunnar. Forseti samtakanna er Blanche Wools. Skuldlausir félagsmenn Upplýsingar fá afslátt af ráðstefnugjaldi á ársþing IASL. Næsta ár verður ráðstefnan haldin í Auckland á Nýja-Sjálandi dagana 9.-12. júlí og verður hún sú 30. í röðinni. Ráðstefna IASL í Malmö Kjörorð ráðstefnunar var Do you read me og dagskráin fjölbreytileg. Mikill fjöldi áhugaverðra fyrirlestra var í boði. Einnig var boðið upp á vinnufundi þar sem tekin voru fyrir margvísleg efni. Ágætisskýrslu um ráðstefnuna ásamt frábærum myndum er að finna hjá IASL: http://www.hi.is/~anne/conference_report2000.html og einnig á heimasíðu ráðstefnunnar: http://www2.pedc.se/iasl/start.html. Upplýsingalæsi – Information Literacy Í tengslum við Alþjóðaþing skólabókasafnsfræðinga (IASL conference) sem haldið var í Malmö dagana 6.-10. ágúst síðastliðinn voru haldin tvö námskeið á vegum NORDINFO fyrir bókasafnsfræðinga og kennara sem starfa á skólasöfnum. Fyrra námskeiðið kallaðist Information literacy standards and students achievement og var haldið dagana 4.-6. ágúst. Þrír Íslendingar sóttu það, þær Ásdís H. Hafstað, Nanna Lind Svavarsdóttir og María Hrafnsdóttir en síðara námskeiðið Establishing information literacy initiatives sótti einungis einn frá Íslandi, Margrét Björnsdóttir. Námskeið NORDINFO: Information literacy standards and students achievement Kennarar voru þær Jean Donham, forstöðumaður Cole library í Cornell College in Mount Vernon, Iowa og June Gross, forstöðumaður The Blake Upper School Library í Minneapolis, Minnesota. Líkön vinnuferla:
Líkan 1, Information seeking Hvert stig greinist í þrjá þætti, tilfinningu, hugsun og framkvæmd. Einkenni þessa ferlis er, að það tekur mið af tilfinningum og persónulegri upplifun nemandans og má því teljast „sálfræðilega rétt“ uppbyggt. Kuhlthau gengur út frá því að nemandinn sé „fullkominn“ og hafi ótakmarkaðan tíma. Reynsla okkar er hins vegar sú að fáir nemendur gefi sér nægan tíma til verkefnavinnu eða hafi metnað til að vinna á þennan hátt og forsendur ferlisins því óraunhæfar. Líkan 2, The Big 6tm Líkan 3, Pathways to knowledge Sameiginlegur þáttur þessara þriggja líkana er að grunnur að vali verkefna er oftast lagður í fyrsta hluta ferlisins. Mesta vinnan er yfirleitt í leitarhlutanum og þar koma bókasafnsfræðingar að vinnu nemenda. Öll líkönin geta verið mjög gagnleg hjálpartæki í vinnu nemanda og gera hana árangursríkari. Mikilvægt er að undirbúningur verkefna sé unninn í samvinnu kennara og bókasafnsfræðinga. Öll þjónusta við nemendur og kennara verður þannig markvissari. Tengsl tækni og upplýsingavinnslu Verkefnavinna Samvinna
Um þetta efni er ýtarleg umfjöllun í tímaritinu Teacher Librarian, nr. 1, 1999 Mat
Markaðssetning Lokaorð Það vakti sérstaka athygli okkar þegar þátttakendur báru saman störf sín, að vandamálin sem bókasafnsfræðingar þurfa að glíma við í starfi, virtust alls staðar vera af svipuðum toga. Þau voru óháð löndum og uppbyggingu skólakerfa. Þetta skýrist ef til vill af því, að það sem við erum að fást við í daglegu starfi okkar eru mannleg samskipti. Tímaskortur kennara og bókasafnsfræðinga virðist há öllu samstarfi og skipulagningu. Bókasafnsfræðingar hér á landi sem og víða annarsstaðar eru ekki nógu duglegir við að kynna störf sín og hversu fjölbreytt og mikilvæg þau eru. IFLA og IFLA ráðstefnur Hin árlegu IFLA þing, sem haldin eru seinni hluta ágúst, eru jafnan hápunkturinn í viðburðum bókasafnsheimsins ár hvert. Þetta var í fyrsta skipti sem undirrituð fór á slíka ráðstefnu en í huga hennar hafa IFLA þingin jafnan verið sveipuð nokkrum ljóma og mjög spennandi að fara og upplifa eitt slíkt af eigin raun. Opnunarhátíð þingsins var glæsileg og var ásamt þingslitunum eini viðburðurinn þar sem allir komu saman. Annars fóru fjölmörg dagskráatriði fram samtímis og úr miklu að velja eins og glögglega kemur fram í tveim öðrum frásögnum af þinginu sem birtar eru hér í blaðinu. Auk þess að sækja ýmsa fyrirlestra kynnti undirrittuð sér skipulag ráðstefnunnar og IFLA almennt, félagsaðild og félagsgjöld bókavarðafélaga sem eru nokkuð há á okkar mælikvarða þó greitt sé lægsta félagagjald. Gjöld bókavarðafélaga eru frá 750-40.000 hollensk gyllini. IFLA rekur mjög umfangsmikla starfsemi sem að 80% er fjármögnuð með félagsgjöldum. Í 18. árg. Bókasafnsins frá 1994 (s. 46-47) gerir Halldóra Þorsteinsdóttir ágæta grein fyrir samtökunum í grein sem nefnist: IFLA – Alþjóðasamtök bókavarðafélaga og ársþing þeirra og má lesa þar nánar um samtökin. Starfsemi IFLA skiptist í átta svið sem skiptast aftur eftir málefnum í 35 deildir. Auk þess eru m.a. 10 hringborðshópar, fimm kjarnaverkefni, Committee on Copyright and other Legal Matters (CLM) og Committee on Free Access to Information and Freedom of Expression (FAIFE). Nú eru meðlimir IFLA 1622 í 143 löndum. Undirrituð tók þátt í kosningum fyrir hönd Upplýsingar um ný lög IFLA sem voru samþykkt. Félögunum er úthlutað mislitum renningum sem lyft er upp við atkvæðagreiðsluna, en hver litur stendur fyrir tiltekið atkvæðamagn. Auk fyrirlestra var boðið upp á málstofur (workshops) og varð þá Management of Library Associations fyrir valinu þar sem þemað var Library Associations for the 21st century: New wine in old bottles, þar sem fjallað var um bókavarðafélög frá ýmsum sjónarhornum. Síðar var svo aftur fjallað um málefni bókavarðafélaga og þá var efnið: Advocacy for democracy: The Role of Library Associations. Mikil áhersla var lögð á það hjá öllum fyrirleserum að bókavarðafélög og bókasöfn hefðu miklu þjóðfélagslegu hlutverki að gegna við að standa vörð um lýðræðið. Þá má einnig nefna málstofu um School Libraries and Resource Centres þar sem efnið var Guidelines for School Libraries. Þar var unnið að því að semja viðmiðunarreglur fyrir skólasöfn. Einnig má geta þess að hjá IFLA er nýkominn út bæklingurinn The School Library Manifesto. The School Library in Teaching and Learning for All sem Upplýsing hefur fengið sendan og bókafulltrúi mun dreifa til skólasafna með næstu útsendingu. Einn dagur ráðstefnunnar var skipulagður sem safnaheimsóknir og fóru ráðstefnugestir vítt og breitt um nærliggjandi borgir að skoða söfn. Undirrituð skoðaði m.a. heimildasafn um þann áróður sem hafður hefur verið uppi gegn Gyðingum í gegnum tíðina. Stofninn að safninu var keyptur frá Bretlandi (Wiener Library – Nefnt eftir þeim sem safnaði efninu). Þetta er lifandi safn sem enn er að bætast við og er ótrúlegt að sjá hvers konar efni berst. Ýmsar móttökur, menningarviðburðir og safnaheimsóknir voru skipulagðar í tengslum við ráðstefnuna svo og skoðunarferðir, t.d. um elsta hluta Jerúsalem. Einnig bauð umhverfið upp á að fara í kynnisferðir um nágrennið. Við Íslendingarnir fórum m.a. að Dauðahafinu og til Betlehem. Eftir ráðstefnuna fórum við svo til Egyptalands, sem var sannkölluð ævintýraferð en það er önnur saga. Á sýningunni sem haldin er í tengslum við ráðstefnuna getur að líta nýjungar á sviði bókasafns- og upplýsingamála og mjög fróðlegt að skoða hana. Daglega kom út upplýsingaritið IFLA Express með ýmsum upplýsingum fyrir ráðstefnugesti. Almennt var nokkuð gagnrýnt á alþjóðavettvangi að IFLA þingið skyldi haldið í Jerúsalem en ekki í Tel-Aviv, t.d. sóttu engir bókaverðir frá Arabalöndum þingið heldur héldu ráðstefnu í Kairó á sama tíma. Þáttakendur voru því mun færri en oft áður eða um 2000 í stað 3000. Í síðasta tölublaði IFLA Express birtist ýtarleg yfirlýsing frá Palestínskum bókavörðum þar sem staðarvalið var m.a. gagnrýnt. Einnig var birt greinargerð frá IFLA um málið. Næsta ráðstefna IFLA verður haldin í Boston, dagana 16.-25. ágúst 2001. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Libraries and Librarians: Making a Difference in the Knowledge Age. Til að njóta lægsta ráðstefnugjalds, $300 fyrir skuldlausa félaga Upplýsingar, þarf að skrá sig á ráðstefnuna fyrir 15. maí nk. Eftir það er gjaldið $325. Gjaldið er svo í báðum tilfellum $50 hærra fyrir þá sem ekki eru félagsmenn. Á heimasíðu IFLA http://ifla.org undir Annual Conference er að finna upplýsingar um ráðstefnuna. Einnig eru upplýsingar á prentuðu formi á skrifstofu félagsins. Þess má geta að árið 2002 verður IFLA ársþingið haldið í Glasgow á 75 ára afmæli samtakanna, 2003 í Berlín, 2004 í Buenos Aires, 2005 í Oslo og 2006 í Seoul. Því ber ekki að neita að mikil upplifun er að fara á IFLA ráðstefnu og hvetur undirrituð bókaverði til að freista þess að sækja slíka ráðstefnu og kynnast því af eigin raun sem þar er á seyði en allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Sækja má um ýmsa styrki til fararinnar (eftir vinnustað), s.s. í Sáttmálasjóð, starfsmenntunarsjóði starfsmannafélaga og stéttarfélaga (t.d. STRIB) að ógleymdum Ferðasjóði Upplýsingar. Einnig er sjálfsagt að sækja um styrk til vinnuveitanda. Alls ekki er úr vegi að hægt verði að halda IFLA þing hér á landi í fyllingu tímans þegar búið er að reisa ráðstefnumiðstöð þá sem nú er á umræðustigi. Að lokum vil ég þakka íslensku ferðafélögunum fyrir frábæra samfylgd. Fjórir íslenskir bókaverðir, Bryndís Ísaksdóttir, Hólmfríður Tómasdóttir og Þórdís T. Þórarinsdóttir ásamt undirritaðri sóttu 66. ráðstefnu IFLA (International Federation of Library Associations and Institutions) sem haldin var í Jerúsalem dagana 13.-18. ágúst. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var Information for Co-operation: Creating the Global Library of the Future (Upplýsingar í þágu samvinnu: að skapa alheimsbókasafn framtíðarinnar). Lykilorð þemans var samvinna, og var þá átt við alþjóðlega samvinnu bókasafna þrátt fyrir að þau starfi á ólíkum mál- og menningarsvæðum. Að venju var um margt að velja. Sunnudaginn 13. ágúst voru bæði „workshops“ og umræðuhópar í boði, m.a. Performance Measurements in Academic Libraries sem ég sótti. Þemað var Benchmarking and Best Practice. Rætt var um möguleikann á að koma upp banka vísibreyta (indicators) svo að hægt væri að samnýta þekkingu og reynslu á þessu sviði. Kirsten Engelstad frá Riksbibliotektjenesten í Osló sagði frá tilraunaverkefni sem verið er að vinna að í Osló í þessu samhengi og dreifði vinnuferlislýsingu verkefnisins. Sjá nánar á heimasíðu RBT (http://www.rbt.no/veiledning/uh-ind.htm). Þrjú söfn í Noregi taka þátt í verkefninu: Í Þrándheimi, Björgvin og Molde. Toby Bainton frá SCONUL (Standing Conference of National and University Libraries) sagði einnig frá svipuðu verkefni þarlendis. Hann talaði um að þótt gæðakannanir væru erfiðar viðfangs hefðu þær þó þann kost að þær leiddu yfirleitt til bættrar þjónustu vegna þess að oft kom í ljós hvað vantaði, hvað var ekki notað, hvað var óþarft o.s.frv. Hann nefndi að SCONUL vill gjarnan breyta hefðbundinni aðferð við að áætla rekstrarkostnað safna sem felst í að deila í rekstrarkostnaðinn með fjölda stúdenta. Hann mælti frekar með að mæld yrðu útlán á notanda eða að opnunartímar yrðu háðir fjölda notenda, fjölda lessæta, stærð safna svo dæmi séu nefnd. Hvað gerist í raun í kjölfar notendakönnunar? Veitir starfsfólk sjálfkrafa betri þjónustu ef í ljós kemur að þörf er á henni? Sjá nánar á eftirfarandi heimasíðum: (http://www.sconul.ac.uk, http://www.ifla.org/VII/dg/srdg/pubs.htm) Næstur talaði fulltrúi frá Book Marketing Ltd. og sagði frá áhugaverðri könnun (Books and the Consumer, an in-depth survey of book buying habits) sem er gerð í því skyni að rannsaka hverjir kaupa bækur. Þar fylgja einnig spurningar um bókasöfn, t.d. kom í ljós að vel stæðir nota bókasöfn minna en þeir sem hafa meðaltekjur. Bókasöfn í Bretlandi markaðssetja sig þó oft frekar með þá vel stæðu í huga. Hvað millisafnalán varðar þýddi aukinn afgreiðsluhraði fleiri beiðnir sem svo þýddi aukinn kostnað og minnkandi hraða á ný. (http://users.londonweb.net/bookmark/page3.htm) Ken E. Dowlin frá San Jose State University hélt erindi sem hét Using library statistics to better manage and market your library og lagði áherslu á gagnsemi tölfræðiupplýsinga hvað ímynd safna varðar. Sérlega gagnlegur var morgunfundur þriðjudaginn 14. ágúst um tengsl stjórnunar og kynningar bókasafna og IT (Management and Marketing joint with Information Technology and Social Sciences Libraries). Þar talaði m.a. Tatjana Ershova og spurði stórt: Bókin: að vera eða vera ekki? Hún sagði að margir væru annað hvort þeirrar skoðunar að bókin myndi hverfa eða að það væri fáranlegt að ímynda sér að bækur yrðu nokkurn tíma lesnar í tölvu. Hún nefndi þrjár aðrar skoðanir:
Bókasöfn væru mikilvæg vegna þjóðfélagslegrar stöðu þeirra og til að tryggja langtíma varðveislu og aðgengi. Stafrænt bókasafn hefur í för með sér aukið aðgengi en það er nauðsynlegt að hjálpa fólki að rata. Hún nefndi einnig geymsluvandamál og þá sérstaklega á rafrænu efni sem er í hættu og getur horfið á augabragði. Það er hlutverk bókasafna að hugsa um varðveislu en eru þau í stakk búin til þess að takast á við þetta nýja verkefni? John Akeroyd, South Bank University, hélt áhugavert erindi um stjórnun í rafrænum bókasöfnum (http://www.ifla.org/IV/ifla66/papers/037-110e.htm) og Tang Shanhong um þekkingarstjórnun (http://www.ifla.org/IV/ifla66/papers/057-110e.htm) Ennfremur sótti ég fundi um tölfræði í rannsóknarskyni, millisafnalán og menntun bókavarða. Síðast en ekki síst verður að minna á sýninguna, en þar fékk ég innsýn inn í Aleph bókasafnskerfið, skoðaði ýmsar nýjungar frá 3M og kynnti mér ný tæki og tól til viðgerða bóka svo eitthvað sé nefnt. IFLA-ráðstefnan var afar fróðleg að þessu sinni og tel ég mig hafa haft bæði gagn og gaman af. 66th IFLA Council and General Conference Að þessu sinni sóttu fjórir íslenskir bókaverðir ráðstefnuna; Áslaug Agnarsdóttir, Bryndís Ísaksdóttir, Þórdís T. Þórarinsdóttir og Hólmfríður Tómasdóttir. Allflestir fyrirlesararnir sem ég fylgdist með fjölluðu mest um hinar miklu breytingar sem bókasöfn í dag standa frammi fyrir, þá ögrun sem þau mæta vegna mikils upplýsingaflæðis af miðlum í rafrænu og stafrænu formi samhliða hinum hefðbundnu. Yfirleitt var framtíðarsýnin á þann veg að við hraðan vöxt efnis á rafrænu formi hallaði fremur á hefðbundna þáttinn. Einnig var bent á að stjórnendur bókasafna dagsins í dag væru undir miklum þrýstingi við að ná áætluðum markmiðum í að taka við nýrri tækni svo að þeirra söfn yrðu ekki undir í samkeppni við önnur í nýjum og kröfuhörðum upplýsingaheimi. Álitið var að kostnaður við öflun efnis myndi stöðugt aukast og mikil þörf væri á að halda honum niðri með skynsamlegum hætti. Áhersla var lögð á samvinnu og samnýtingu efnis milli bókasafna, t.d. hvað varðar áskriftir á dýrum tímaritum. Afleiðingar þessara miklu breytinga sem virtust væntanlegar voru taldar leiða til tilfærslu á mannafla, einkum á stærri söfnum. Tímaritahald þarfnaðist aukningar vegna tvöfaldrar starfsemi, þ.e. móttöku tímarita bæði á prentuðu og rafrænu formi. Áhersla var lögð á það að öllum bókasöfnum sé nauðsynlegt að hafa á að skipa fagmenntuðu starfsfólki sem stöðugt er tilbúið til að taka við nýjum verkefnum og skyldum til þess að sem bestur árangur náist hjá bókasöfnum í framtíðinni. Benda má á þá framtíðarsýn sem kom fram í fyrirlestri þeirra Bas Savenije frá Utrecht University í Hollandi og Natalia Grygierczyk. Þau töldu að meðal helstu hlutverka bókasafna framtíðarinnar verði að afla aðgangs að rafænum upplýsingagögnum hvar sem þau eru vistuð og að þau muni verða miðstöð milli þekkingarheimsins og notendans, á þann hátt að sjá um að opna leiðir að stöðugt vaxandi upplýsingaflæði, einkum því sem gefið er út stafrænt. Annað mikilvægt verkefni væri að koma á og viðhalda aðstöðu fyrir notendur til að byggja upp sínar eigin upplýsingaleiðir. Þetta þýðir að hlutverk bókasafns framtíðarinnar verði ekki lengur einungis að byggja upp safn upplýsinga á hefðbundinn hátt, heldur verði í auknum mæli að veita aðgang að nýjum upplýsingasöfnum. Tæki og kerfisbúnaður bókasafna þurfi að vera þannig að notendum sé kleift að byggja upp sitt eigið upplýsingakerfi, safn sem samanstandi af tenglum við stafrænar heimildir sem hæfa þörfum hvers og eins. Jim Vickery frá The British Library – Department of English Language Selection and Serials flutti ýtarlegan fyrirlestur um það ferli sem komið hefur verið á hjá Bretum varðandi aðföng á rafrænum safngögnum. Næstu ár ætla þeir að verja 0,5 milljónum punda á ári vegna aðfanga á nýju rafrænu efni. Árið 1999 var stofnaður vinnuhópur til að undirbúa framgang verksins ásamt ráðgjafanefnd, skipaðri starfsfólki frá öllum deildum safnsins, sem hefur það hlutverk að fylgja eftir öllum þáttum vinnuferlisins. Lykilþættir vinnuferlisins eru í stuttu máli eftirfarandi: Val á útgáfum, fjármögnun, tækni vegna aðgangs, heimildir til notkunar efnisins, upplýsingatækni, upplýsingar vegna reksturs, aðföng og skráning og loks varðveislu- og geymslumál. Í lok máls síns benti hann á að hjá þeim væru margar óleystar spurningar sem þeir ættu sameiginlegar með öðrum söfnum og að þjóðbókasöfnin hefðu sérstakt ábyrgðarhlutverk varðandi þessi mál. Ég lít á það sem mikinn ávinning bæði til gagns og gamans að sækja jafn fróðlega ráðstefnu sem þessa. Það var einstök upplifun að koma til þessarar ævafornu borgar, svo fornrar að upphaf búsetu á þessum stað er ekki vitað með neinni vissu, í landi þar sem Biblían er saga lands og þjóðar og fylgjast með umfjöllun um þekkingarstjórnun í tækni- og upplýsingaheimi nútímans og þeim vandamálum sem nú brenna á öllum þeim sem ábyrgð bera á varðveislu menningararfs þjóðar sinnar og að upplýsingaflæði vegna menntunar og rannsókna verði aðgengilegt. Á eftirfarandi slóð er hægt að finna flesta fyrirlestrana sem fluttir voru á þinginu: http://www.ifla.org/IV/ifla66/66cp.htm Stjórnarfundur í NVBF haldinn í Stokkhólmi 27. okt. 2000 Á fundinum voru lagðar fram upplýsingar um ráðstefnurnar tvær sem haldnar hafa verið á árinu og sumarskólann. Uppgjör og mat þátttakenda rætt og metið hvað betur mætti fara í framkvæmd og undirbúningi. Ráðstefnan í Reykjavík í maí, Referansearbeidet i det elektroniske miljø, kom vel út úr mati þátttakenda þótt sitthvað væri nefnt sem betur mætti fara og mun nefndin sem undirbjó ráðstefnuna kappkosta að miðla næstu undirbúningsnefndum af reynslu sinni. Um mánaðamótin september október var svo haldin ráðstefna um millisafnalán í Finnlandi, ILL as a Key Success Factor in Libraries. 4th Nordic ILL Conference. Hún var mjög fjölsótt að venju og raunar var aðsóknin meiri en húsakynnin báru og kom það glögglega fram í mati þátttakenda á ráðstefnunni en að öðru leyti fékk hún góða dóma. Þátttakendur komu frá öllum Norðurlöndum og að auki frá Eystrasaltslöndunum og því var ráðstefnumálið enska. Endanlegt fjárhagslegt uppgjör liggur ekki fyrir. Næsta ráðstefna um millisafnalán verður haldin hér á Íslandi árið 2002 og er hér með lýst eftir fólki sem hefur áhuga á að taka þátt í undirbúningi hennar. Víðast hvar á Norðurlöndum eru starfandi sérstakir millisafnalánahópar og hafa þeir undirbúið þessar ráðstefnur sem haldnar eru annað hvert ár. Þetta tilefni gæti verið kjörið til að setja slíkan hóp á laggirnar hér. Áhugasamir snúi sér til Þórnýjar Hlynsdóttur deildarstjóra millisafnalána á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Sumarskólinn var haldinn í Finnlandi 18.-22. júní. Efnið var Preservation Management. Tæplega 20 manns sóttu skólann og voru þeir heldur færri en fyrirlesarararnir. Mat þátttakenda á sumarskólanum var mjög jákvætt. Könnun á notkun NORFRI var kynnt og þykir full ástæða til að þróa þetta samstarf frekar. Fá norsk og sænsk söfn eru með en þátttakan er þeim mun betri á öðrum Norðurlöndum. NORFRI virkar vel á meðan hægt er og þörf á að senda ljósrit á milli landa. Rafrænn aðgangur að tímaritum gjörbreytir stöðunni og óljóst hver þróunin verður fyrr en höfundarréttarlög verða endanlega samþykkt af Evrópuráðinu. Umsóknir um styrki NVBF voru afgreiddar og verður væntanlegum styrkþegum skrifað fljótlega. Á fundinum var einnig rætt um reglur NVBF og hópur skipaður til að endurskoða þær. Heimasíða NVBF er nú í gagngerri endurskoðun og verður tilbúin innan skamms. Loks var farið yfir kynningarbækling NVBF sem er að fara í prentun. Hann verður á öllum Norðurlandamálum, íslenski texti bæklingsins er birtur hér í blaðinu. Á næsta ári verða haldnar tvær ráðstefnur á vegum NVBF, önnur í Danmörku og hin í Svíþjóð. Efni ráðstefnanna er ekki endanlega afráðið en þær verða kynntar á Skruddu og í Fregnum þegar nær dregur. Ekki má gleyma námsferðinni til Bandaríkjanna sem kynnt hefur verið á Skruddu og nánar er sagt frá í blaðinu. Enn er tækifæri til að skrá sig í hana. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu NVBF http://www.dpb.dpu.dk/df/nvbf_dan.html Fræðsluferð NVBF til Bandaríkjanna 10. – 22. janúar 2001 Þátttakendur í ferðinni hafa möguleika á að fara í bókasöfn eftir áhugasviðum. Skipuleggjendur ferðarinnar hafa þó undirbúið dagskrá fyrir neðangreind áhugasvið:
Nánari upplýsingar um dagskrá og kostnað við ferðina er að finna á eftirfarandi heimasíðu: http://www.dpd.dpu.dk/df/nvbf_arr.html Verð þátttakenda frá Íslandi er DKK 12.625 í tvíbýli. Greiða þarf aukalega fyrir einstaklingsherbergi DKK 5.095. Nánari upplýsingar veitir: Mogens Lystager ([email protected]) Á heimasíðunni er einnig umsóknareyðublað. Vinsamlegast athugið að sækja um fyrir 4. desember 2000. Nýtt bókasafnskerfi í sjónmáli Í maí síðastliðnum fór Kerfisnefndin ásamt fulltrúa Ríkiskaupa í þriggja vikna ferð til Bandaríkjanna þar sem fimm bókasafnskerfi voru skoðuð í öllum tegundum bókasafna. Í maí var einnig skipað í svokallaða rýnihópa sem eru hópar sérfræðinga sem skyldu rýna ítarlega í einstaka þætti í þeim kerfum sem valin yrðu til skoðunar. Hóparnir voru: Útlán, Leitir, Skráning, Aðföng og tímarit, Millisafnalán og Samskrá. Þegar unnið hafði verið úr niðurstöðum Bandaríkjafararinnar var ákveðið að taka þrjú kerfi til nákvæmrar skoðunar, ALEPH frá ExLibris, HORIZON frá Epixtech og UNICORN frá SIRSI. Söluaðilar kerfanna komu og kynntu þau á Hótel Sögu 6.-15. september og rýnihóparnir mátu virkni einstakra þátta út frá atriðum og spurningum sem þeir höfðu sjálfir útbúið fyrirfram. Kerfin voru metin óháð hvert öðru og hver rýnihópur skilaði skriflegum niðurstöðum eftir hverja kynningu. Einnig voru haldnir sérstakir fundir með ráðgjöfum á sviði tölvukerfa. Það sem ræður endanlegu vali á kerfi eru fjögur atriði:
Niðurstöður rýnihópanna liggja nú fyrir og einnig liggja fyrir umsagnir ráðgjafa um tæknilega högun. Verið er að skoða þjónustuþáttinn og vonast er til að hægt verði að tilkynna endanlegt val á kerfi um miðjan nóvember. Þá tekur við samningsgerð sem áætlað er að taki 5-6 mánuði og samhliða því þarf að komast að niðurstöðu um ýmis mikilvæg mál, svo sem kostnaðarskiptingu og rekstrarfyrirkomulag hins nýja kerfis. Frá Verkefnisstjórn um aðgang að gagnasöfnum: Björn Bjarnason menntamálaráðherra og Einar Sigurðsson landsbókavörður ásamt Steve Sidaway aðstoðarforstjóra sölu- og markaðsmála hjá alþjóðadeild Bell & Howell undirrituðu þann 11. október 2000 heildarsamning um aðgang Íslendinga að rafrænum gagnasöfnum. Landsaðgangur þýðir að aðgangur á að vera opinn fyrir allar IP tölur á Íslandi, það er allar tölvur sem hafa aðgang að Internetinu í gegnum íslenska þjónustuaðila. Samningurinn felur í sér aðgang að Proquest 5000 en þar eru 17 gagnasöfn á ýmsum sviðum, til dæmis stjórnun og viðskipti, menntamál, heilbrigðismál, bankamál, tölvunarfræði, vísindi og tækni, fjarskipti svo eitthvað sé nefnt. Í Proquest 5000 er efnisyfirlit 7259 tímarita, útdrættir eru með flestum tilvísunum og aðgangur að 3482 rafrænum tímaritum nokkur ár aftur í tímann og til dagsins í dag. Er hægt að nálgast allan texta tímaritanna ásamt töflum og myndum. Með þessum samningi fæst ennfremur aðgangur að Literature Online – LION – sem er gagnagrunnur yfir enskar bókmenntir. Alls er að finna þar upplýsingar um rúmlega 280.000 ritverk skrifuð á ensku – skáldsögur, leikrit og ljóð, æviágrip höfunda, ritaskrár og tilvísun í heimildir, prentaðar og vefsíður tengdar höfundum og verkum þeirra. Einnig er aðgangur að Literature Online for Schools – LION for Schools – sem er skólaútgáfa af Literature Online. Auk áskriftar að gagnasöfnum og rafrænum tímaritum veitir aðgangurinn afnot af SiteBuilder frá Bell & Howell sem er forrit sem gerir öllum kleift að hanna sitt eigið gagnasafn byggt á völdum upplýsingum úr Proquest. Þannig geta notendur verið með sínar eigin heimasíður með völdum greinum og einnig vel uppbyggða leit sem endurnýjast jafnóðum og nýtt efni bætist við. SiteBuilder er mjög gagnlegur fyrir bókasöfn og kennara sem vilja benda nemendum sínum á lestrarefni. Til að fá afnot af SiteBuilder þarf að hafa aðgangsorð sem verkefnisstjórnin sér um að útvega. Samningur þessi mun opna ný svið í upplýsinga- og fræðslumálum. Á alþjóðlega vísu felst sú nýjung í samningnum að aðgengi verður ekki takmarkað við notendur bókasafna og starfsmenn tiltekinna stofnana heldur munu starfsmenn fyrirtækja og fólk í heimahúsum geta tengst þessum gagnasöfnum ef internetveitan sem þeir eru tengdir uppfyllir öryggiskröfur sem Bell & Howell setur. Samningurinn gildir til ársloka 2002. Slóðirnar á gagnasöfnin eru: Landsaðgangur að gagnasöfnum – Fréttatilkynning Björn Bjarnason menntamálaráðherra og Einar Sigurðsson landsbókavörður undirrituðu ásamt Steve Sidaway aðstoðarforstjóra sölu- og markaðsmála hjá alþjóðadeild Bell & Howell heildarsamning um aðgang Íslendinga að rafrænum gagnasöfnum. Undirritunin fór fram í Þjóðarbókhlöðunni, 2. hæð. Samningurinn felur í sér aðgang að 19 gagnasöfnum á ýmsum sviðum og 3500 rafrænum tímaritum nokkur ár aftur í tímann og til dagsins í dag. Er hægt að nálgast allan texta tímaritanna ásamt töflum og myndum. Auk þess er aðgengi að efnisyfirliti og útdráttum úr fjölmörgum öðrum tímaritum. Samningur þessi mun opna ný svið í upplýsinga- og fræðslumálum. Á alþjóðlega vísu felst sú nýjung í samningnum að aðgengi verður ekki takmarkað við starfsmenn tiltekinna stofnana heldur munu starfsmenn fyrirtækja og fólk í heimahúsum geta tengst þessum gagnasöfnum ef internetveitan sem þeir eru tengdir uppfyllir öryggisreglur. Auk áskriftar að gagnasöfnum og rafrænum tímaritum veitir aðgangurinn notendum afnot af SiteBuilder frá Bell & Howell sem er forrit sem gerir öllum kleift að hanna sitt eigið gagnasafn byggt á völdum upplýsingum úr öllu gagnasafninu. Þannig geta notendur verið með sína eigin heimasíður með völdum greinum og einnig vel uppbyggða leit sem endurnýjast jafnóðum og nýtt efni bætist við í gagnasöfnin. Menntamálaráðherra skipaði í upphafi árs Verkefnisstjórn um aðgang að gagnasöfnum undir formennsku Hauks Ingibergssonar forstjóra og er hlutverk hennar að móta stefnu um aðgang fyrir íslenskt samfélag að gagnasöfnum og ennfremur að hlutast til um að henni sé hrundið í framkvæmd. Meðal annars var verkefnisstjórninni ætlað að kanna tilboð um aðgang að gagnasöfnum og gera tillögur til menntamálaráðuneytis um kaup á aðgangi, leggja á ráðin um fjármögnun, gera tillögur um skipulag og tilhögun aðgangs og leita samvinnu við önnur Norðurlönd um sameiginlegan aðgang að gagnasöfnum þar sem það þykir henta og tækifæri gefst. Einnig var verkefnisstjórninni ætlað að veita umsögn um óskir um aðgang að gagnasöfnum og að forgangsraða verkefnum á þessu sviði. Verkefnisstjórnin hefur unnið að ofangreindu verkefni og gerði tillögu til menntamálaráðherra um að ganga til samninga við Bell & Howell. Samningurinn gildir til ársloka 2002. Árleg greiðsla fyrir aðganginn er 9 millj.kr. á ári og er miðað við að að háskólar og bókasöfn greiði sem svarar 75% þess kostnaðar og atvinnulífið 25% kostnaðarins. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn mun fara með framkvæmd samningsins fyrir hönd Íslands. Samningurinn veitir aðgang að eftirtöldum gagnasöfnum: Menntunarmál ófaglærðra starfsmanna bókasafna Í áhugahópnum eru þær Pálína Magnúsdóttir, Marta Hildur Richter og Hulda Björk Þorkelsdóttir frá Samtökum forstöðumanna almenningsbókasafna og Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður Upplýsingar – Félags bókasafns- og upplýsingafræða. Einnig hafa Jenný K. Valberg úr stjórn Upplýsingar, Sigurður Þorsteinsson frá Fjölmennt ehf. og Þóra Óskarsdóttir bókafulltrúi í Menntamálaráðuneytinu setið nokkra fundi. Forsaga málsins er sú að síðsumars 1999 hittust þær Pálína, Marta Hildur og Hulda Björk og ræddu m.a. þörfina fyrir nám fyrir ófaglærða starfsmenn bókasafna. Þetta mál var síðan tekið upp á haustfundi Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna í Hafnarfirði og í framhaldi af því voru þær stöllur skipaðar í starfshóp um málið. Starfshópurinn sótti um styrk af fé því sem veitt er til í fjárlögum vegna upplýsingatækni í almenningsbókasöfnum (skv. Bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 36/1997 um almenningsbókasöfn) og fengu úthlutað kr. 300.000 til þess að skipuleggja nám fyrir ófaglærða starfsmenn almenningsbókasafna og undirbúa námsgagnagerð. Á sama tíma frétti starfshópurinn af því að Upplýsing hafði einnig sótt um styrk til undirbúnings námi eða námskeiðum fyrir bókaverði og höfðu samband við formann Upplýsingar, Þórdísi T. Þórarinsdóttur, um hvort félögin ættu ekki að vinna saman að þessu máli og var það auðsótt mál. Upplýsing sótti um styrk til Starfsmenntaráðs Félagsmálaráðuneytis og fékk úthlutað kr. 500.000 til að skipuleggja nám fyrir ófaglærða bókaverði og skipuleggja námskeið í lyklun fyrir sömu aðila. Hópurinn hefur átt fundi með fulltrúum Menntamálaráðuneytis, Starfsgreinaráði upplýsinga- og fjölmiðlagreina og Fjölmennt ehf. og gengið til samstarfs við Sigurð Þorsteinsson hjá Fjölmennt um námsefnisgerð sem hafði áður fengið kr. 900.000 úthlutað til þeirra hluta úr Starfsmenntasjóði Félagsmálaráðuneytisins. Hugmyndin er að koma þessu námi fyrir í framhaldsskólakerfinu, en síðastliðið haust var einmitt byrjað að bjóða upp á tveggja ára starfsnámsbrautir í framhaldsskólum í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum. Áhugahópurinn hafði samband við Starfsgreinaráð sem sér um að skipuleggja þetta nám og hefur ráðið tekið mjög vel í að koma bókavarðanáminu þarna fyrir en endanleg ákvörðun liggur ekki enn fyrir. Námið er þannig uppbyggt að á fyrstu önn taka nemendur 24 eininga almennt bóknám, á annarri og þriðju önn er 36 eininga faglegt grunnnám og á fjórðu önn er 20 eininga sérsvið. Þar kæmi sérnám fyrir starfsmenn á bókasöfnum inn sem einn af valkostunum. Dæmi um önnur sérsvið eru: Grafísk miðlun, Bókband, Ljósmyndun, Dagskrárgerð, Netkerfi, Vefsmíði. Eftir próf í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum er starfsþjálfun í 12 mánuði. Hægt er að halda áfram námi í framhaldsskóla til stúdentsprófs eftir að hafa staðist próf í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum. Boðið var upp á þetta nám í fyrsta skiptið síðastliðinn haust í nokkrum framhaldsskólum landsins. Áhugahópurinn hefur einnig átt í viðræðum við Fjölmennt ehf., sem keypti Bréfaskólann, en hann bauð m.a. upp á bókavarðanám. Hugmyndin er að vera einnig með námskeið fyrir starfandi bókaverði. Þau námskeið væru með sama námsefni og kennt verður í framhaldsskólunum og námið svipað uppbyggt og 20 eininga sérnámið. Einnig er ætlunin að það verði að einhverju leyti hægt að taka námskeiðin sem fjarnám og komi námið þá í stað bréfaskólans gamla en námsefnið sem notað var þar er nú algjörlega úrelt. Hulda Björk, Marta Hildur og Pálína hafa unnið drög að námslýsingu þar sem gert er ráð fyrir að helmingurinn af þessum 20 einingum verði upplýsingatækni og hinn helmingurinn fjalli um skipulag safnkosts, safnasögu, safnategundir, lög og reglugerðir og samskipti og þjónustu. Leitað hefur verið til nokkurra bókasafnsfræðinga um að semja námsefnið. Næsta skref er að semja um námsefnisgerðina sem greitt verður fyrir af þeim styrkjum sem fengist hafa. Áhugahópurinn hefur einnig látið gera rannsókn á færnikröfum starfsmanna á bókasöfnum. Sú rannsókn var framkvæmd af Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands og lágu niðurstöður fyrir um miðjan október. Þar kemur m.a. fram að niðurstöður athugunar á starfi starfsmanna á bókasafni gefi fullt tilefni til að huga að því að búa til námsbraut sem býr nemendur undir þetta tiltekna starf. Fjallað er nánar um rannsóknina hér í blaðinu. Niðurstöðurnar hvetja áhugahópinn til að halda áfram á sömu braut með skipulagningu námsins. Í farvatninu er nú að fá ritstjóra vegna námsefnisgerðarinnar en í ritstjórn verða þær Hulda Björk, Marta Hildur og Pálína. Rannsókn á færnikröfum starfsmanna á bókasöfnum Tekin voru viðtöl við alls 15 starfsmenn og 5 yfirmenn. Hér að neðan verða helstu niðurstöðum skýrslunnar gerð skil í stuttu máli. Fram kom að flestir starfsmanna á bókasafni sem rætt var við höfðu gunnskólapróf sem sitt síðasta lokapróf (s. 13). 75% töldu að meiri þjálfun áður en starf hófst hefði verið gagnleg (s. 14). Viðmælendur hafa fundið fyrir miklum breytingum á starfi sínu frá því þeir hófu störf, 74% töldu starfið nú flóknara en áður og er það marktækt hærra hlutfall en í samanburðarstörfunum 100 (s. 15). Í samræmi við ofanritað voru helstu óskir um námskeið á sviði tölvunotkunar og upplýsingaleita, ennfremur tungumálanám, og ýmis sérhæfð námskeið. Óskir um námskeið endurspegla þá þörf sem til staðar er fyrir faglega kunnáttu (s. 16 og 17). Í kaflanum um almenna færni kom fram að í lestri reynir meira á færni starfsmanna á bókasafni en í viðmiðunarstörfunum (s. 17). Hins vegar kom fram að ekki reynir mikið á kunnáttu í stærðfræði (s. 18). Tungumálanotkun starfsmanna á bókasafni var í öllum tilvikum marktækt meiri en starfsmanna í samanburðarstörfunum. Enska var það mál sem notað var í yfir 90% tilvika en síðan komu Norðurlandamál (s. 19). Rannsóknin leiddi í ljós að störf starfsmanna á bókasöfnum er mikið samskiptastarf, sérstaklega hvað varðar samskipti við viðskiptavini (s. 19) og samstarf við vinnufélaga (s. 20). Fram kom að vinnuumhverfi starfsmannanna er oftast frekar jákvætt og starfið mjög fjölbreytt að þeirra mati og er fjölbreytnin meiri en í hinum 100 störfunum (s. 21). Þá kom fram að fremur lítið virðist reyna á skipulagsfærni (s. 22) en flokkun gagna og leit að gögnum og upplýsingum var hins vegar almenn og marktækur munur þar á miðað við störfin 100 (s. 23). Við mat á eigin færni og mikilvægi færniþátta kom fram að starfsmenn á bókasafni töldu að þeir byggju yfir ágætri færni í flestum þeim atriðum sem spurt var um (s. 23). Færni í erlendum tungumálum mælist minnst. Einnig meta starfsmennirnir færni sína í ákvarðanatöku, frumkvæði og skipulagningu marktækt minni en viðmælendur í störfunum 100. Þegar spurt var um mikilvægi færniþátta hlutu þættir eins og erlend tungumál og notkun gagna og upplýsinga marktækt meira mikilvægi en hjá samanburðarstörfunum en reikningur, ritun, ákvarðanataka, frumkvæði og skipulagning marktækt minna mikilvægi (s. 24). Fram kemur að niðurstöður þessarar athugunar á starfi starfsmanns á bókasafni (s. 32) gefa fullt tilefni til að huga að því að búa til námsbraut sem býr nemendur undir þetta tiltekna starf. Auk þess benda niðurstöður til þess að starfið þróist í þá átt að verða flóknara. Verði stofnað til sérstakrar starfsmenntunar er mælt með að í fyrsta lagi verði kenndir þeir sérhæfðu færniþættir sem reynir á starfinu og eru utan almenns náms í framhaldsskóla og er þeim skipt niður í fjóra meginþætti:
(b) Bókaviðgerðir, skráningu bóka og flokkunarkerfi (c) Bókmenntir og bókfræði (d) Samskipti og samstarf Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að nemendurnir stundi hefðbundið almennt nám samhliða sérhæfðu námi. Þar þyrfti að leggja áherslu á lestur, t.d. hraðlestur og erlend tungumál sérstaklega ensku. Í þriðja lagi er mælt með starfsþjálfun á vinnustað. Þá er bent á að nota megi niðurstöðurnar sem grundvöll við skipulagningu símenntunar fyrir núverandi starfsmenn á bókasöfnum. Að lokum má geta þess að kannað var viðhorf starfsmanna á bókasöfnum til þess hvað þeir ættu að kallast (s. 8-9), sérstaklega með tilliti til starfsheitisins „upplýsingatæknir“. Starfsheitið hlaut ekki miklar undirtektir. Flestir viðmælendur voru sammála um að starfsheitið bókavörður væri gamalt og gott orð en það væri hins vegar dálítið gamaldags, auk þess sem það lýsti ekki starfinu nú, starfið væri umfangsmeira en áður og snérist ekki bara um bækur. Ekki fékkst niðurstaða um starfsheiti þannig að snjallar tillögur eru vel þegnar. Fyrsti Landsfundur Upplýsingar á Akureyri Fundinn, sem bar yfirskriftina Nýir, breyttir og betri tímar? sóttu 140 manns. Fundarmenn sáu sjálfir um að útvega sér gistirými á ýmsum stöðum í höfuðstað Norðurlands en streymdu allir til leiks og skráningar á fundarstað kl. 8.30 föstudagsmorguninn 1. september. Fundur hófst með ávarpi Hólmkels Hreinssonar, formanns landsfundarnefndar, sem bauð gesti velkomna og bað þeim velfarnaðar. Að því loknu fluttu þær Inga Margrét Árnadóttir og Gerður Árnadóttir nokkur ljóð sem minntu á haustið eftir íslensk höfuðskáld og mörkuðu fundinum þar með listrænan tón. Því næst bauð formaður Upplýsingar, Þórdís T. Þórarinsdóttir, gesti velkomna og óskaði fundarmönnum til hamingju með fyrsta Landsfund félagsins. Hún rakti sögu bókavarðafélaga á Íslandi, ræddi um sameiningarmál innlendra og erlenda bókavarðafélaga og tilurð Upplýsingar. Að lokum kynnti hún stefnu félagsins. Að loknu kaffihléi lýsti Arnór Guðmundsson frá menntamálaráðuneyti starfi nefndar sem hefur á hendi val á bókasafnskerfi fyrir Ísland og hver verða næstu skrefin eftir að kerfið hefur verið valið. Arnór er formaður nefndarinnar. Haukur Ingibergsson, formaður verkefnisstjórnar, sem skipuð var af menntamálaráðherra til að velja rafræna gagnagrunna fyrir Ísland, greindi frá störfum verkefnisstjórnar og því samningsuppkasti sem liggur fyrir við breska fyrirtækið Bell and Howell um landsaðgang að rafrænum gagnagrunnum og tímaritum. Klukkan 12.00 gengu fundarmenn til hádegisverðar í veitingastaðnum Kaffiterían á Fosshóteli KEA, en að honum loknum gafst nægur tími til að ganga um miðbæ Akureyrar sem skartaði sínu fegursta þennan dag. Eftir matarhlé tók Jens Thorhauge, gestur ráðstefnunnar frá Danmörku, til máls og gerði grein fyrir nýrri stöðu bókasafna í Danmörku og hvernig starfsmenn safnanna tóku forystu í stefnumótun þeirra í stað þess að bíða forgöngu ríkis- og sveitarfélaga. Einar Sigurðsson, landsbókavörður, talaði um framtíð bókasafna á sviði upplýsingatækni og þá sér í lagi markmið og hlutverk Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Sigrún Klara Hannesdóttir velti því fyrir sér hvað bókasöfn gætu lært af velgengni fyrirtækisins Nokia í Finnlandi. Margrét Gunnarsdóttir fjallaði um bókasöfn heilbrigðisstofnana og lagði áherslu á símenntun starfsfólks, samstarf um aðgang að efni og þróun útgáfu á vísindalegu efni – pappír vs. rafrænt efni og varðveisla þess. Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir ræddi um skólasöfn. Fræðsluhlutverkið er eitt af meginmarkmiðum skólasafnanna og telur hún m.a. þurfa úrbætur í námi og endurmenntun starfsmanna safnanna og nefndi þar ýmislegt, svo sem að kenna þurfi kennslufræði og æfingakennslu í BA námi, fleiri námskeið í tölvuleitum auk þess sem efla þurfi nám fyrir ófaglærða. Pallborðsumræður voru líflegar og sátu þar framsögumenn fyrir svörum. Þeim lauk á ábendingu Jens Thorhauge sem lagði áherslu á að bókasöfnin eru fyrir notendur. Við eigum því að snúa okkur til notenda safnanna og spyrja hvað við getum gert fyrir þá. Nokkrum útgáfufyrirtækjum var boðið að kynna vöru og þjónustu á landsfundi. Kynningar voru á vegum Æskunnar og Iðunnar sem kynntu útgáfurit sín á föstudeginum. Einnig kynnti Skýrr Upplýsingaheima og vefaðgang Fengs. Morgunblaðið bauð fundarmönnum til kynningar á gagnasafni sínu í húsnæði blaðsins kl. 17.00 og báru starfsmenn gestum veitingar. Klukkan 18.30 mættu landsfundargestir prúðbúnir til móttöku á Amtsbókasafni í boði Akureyrarbæjar. Þar voru reiddar fram ljúfar veitingar. Gestir skoðuðu safnið, röbbuðu hver við annan og við gestgjafa sína frá Akureyrarbæ. Að því loknu fóru menn fótgangandi í ljómandi veðri niður á Fosshótel KEA þar sem gestanna beið ljúffeng lambasteik og fleiri góðgjörðir. Veislustjóri kvöldsins var Björn Þórleifsson, skólastjóri Brekkuskóla á Akureyri. Hann hafði uppi gamanmál, stjórnaði fjöldasöng og kastaði fram stökum og heilum ljóðabálkum, enda einn snjallasti hagyrðingur landsins. Og enn var haldið af stað í leit að nýjum ævintýrum og nú á dansstaðinn Pollinn. Þar gafst kostur á að „hitta innfædda“ eins og einhver tók til orða, en þó aðallega til þess að dansa og vera glaður eftir vel heppnaðan landsfundardag. Næsta morgun tók alvaran við stundvíslega klukkan 10.00. Þá ræddi Svali H. Björgvinsson, sálfræðingur, um streitustjórnun í tvo og hálfan klukkutíma, með einu kaffihléi þó. Hádegisverður var snæddur á sama stað og daginn áður. Síðdegis var rætt um fjarkennslu og bókasöfn og tóku þá til máls Sigrún Magnúsdóttir bókasafni Háskólans á Akureyri sem fjallaði um Gamalt vín á nýjum belgjum, þ.e. um fjarkennslu á öllum skólastigum, Haukur Ágústsson, Verkmenntaskólanum á Akureyri, sem nefndi erindi sitt Tölvuvæddur bréfaskóli og Kristín Indriðadóttir og Þórhildur Sigurðardóttir frá bókasafni Kennaraháskólans sem fluttu saman erindið Þjónusta við kennara í fjarnámi. Eftir kaffihlé urðu síðan snarpar umræður um fjarkennslu og bókasöfn. Klukkan tíu mínútur yfir fjögur steig Hólmkell Hreinsson, formaður undirbúningsnefndar, í pontu og sleit landsfundi með trega. Þeir sem vilja lesa fyrirlestra og fundargerðir Landsfundar geta vitjað efnisins á netinu. Slóðin er: http://www.unak.is/uppl/bokasafn/landsf/index.htm og efnið er að safnast inn á síðuna nú á haustdögum. Fundagleði í Reykjanesbæ Félag um vefbókasafn reið á vaðið og hélt aðalfund sinn kl. 10-12 um morguninn. Auk venjulegra aðalfundarstarfa ræddu menn hin ýmsu vandamál sem hafa komið upp og veltu fyrir sér framtíð verkefnisins. Mikill einhugur var meðal félagsmanna um að leysa vandamálin og halda ótrauðir áfram. 15 almenningsbókasöfn standa að Vefbókasafninu og núverandi stjórn skipa Hólmkell Hreinsson, Amtsbókasafninu á Akureyri, formaður, Pálína Magnúsdóttir, Bókasafni Seltjarnarness, ritari og Þóra Sigurbjörnsdóttir, Borgarbókasafni, meðstjórnandi. Varamenn eru Anna Sigríður Einarsdóttir, Bókasafni Hafnarfjarðar og Inga María Guðmundsdóttir, Bæjar- og héraðsbókasafninu Ísafirði. Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna héldu sinn árlega haustfund sama dag kl. 13-17:30. Mættir voru 24 forstöðumenn víðs vegar af landinu. Dagskrá fundarins var fjölbreytt að venju og m.a. hélt Kjartan Már Kjartansson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, erindi um árangursstjórnun í sveitarfélögum. Aðalmál fundarins var markaðsmál almenningsbókasafna en samtökin hafa nú um nokkurn tíma verið í samstarfi við auglýsingastofuna Gott fólk um markaðssetningu. Kynntar voru nýjar og spennandi hugmyndir sem hvert og eitt safn vegur og metur heima í héraði á næstu vikum. Meðal annarra mála á dagskrá má nefna menntun starfsmanna bókasafna, en starfshópur á vegum samtakanna hefur unnið að því á árinu í samvinnu við Upplýsingu – Félag bókasafns- og upplýsingafræða að koma á starfsnámi fyrir bókaverði. Fundinum lauk svo með kvöldverði þar sem gestir nutu útsýnis yfir umhverfislistaverkið Bergið lýst og óhætt að segja að það vakti mikla athygli. Alþjóðleg ráðstefna bókasafnsfræðinga á heilbrigðissviði Það voru um það bil 1500 bókasafnsfræðingar á sviði heilbrigðisþjónustu, frá 70-80 löndum sem komu saman á alþjóðlega ráðstefnu sem haldin var í London dagana 2.-5. júlí síðastliðinn en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir 1000 manns frá 50 löndum. Ég undirrituð og Helga Thorsteinsson sóttum þessa ráðstefnu en við erum tvær af fjórum bókasafns- og upplýsingafræðingum sem á síðasta ári gengum til samstarfs um fyrirtækið Upplýsingamiðstöðina sf. Þessi ráðstefna er haldin á fimm ára fresti og þetta var í áttunda sinn sem hún var haldin. Aðalumræðuefni hennar voru þær breytingar sem orðið hafa á störfum bókasafns- og upplýsingafræðinga í kjölfar tæknibyltingar í fjarskiptum. Í þá fjóra daga sem sjálf ráðstefnan stóð, voru 2-3 fyrirlestrar á dag sem allir viðstaddir sóttu (plenary sessions). Auk þess, var frá morgni til kvölds hægt að velja milli u.þ.b. 200 fyrirlestra (parallel sessions), þar sem fjallað var um hvernig einstaklingar og stofnanir hafa brugðist við breyttum tímum. Mjög athyglisvert var að heyra hvernig fólk um allan heim er að nýta tölvubyltinguna, hver á sinn hátt, eftir efnum og ástæðum. Þannig eru bókasafns- og upplýsingafræðingar í Afríku og á Indlandi að nota hana þrátt fyrir erfiðar aðstæður og lélegan tæknibúnað. Í öðrum heimshlutum hafa aðrir, við góð skilyrði og fullkominn tæknibúnað, virkjað ný tækifæri. Þessi tækifæri skapa einnig ný starfssvið og skyldur sem oft skarast, þannig að sá sem áður hafði ef til vill eitt starf með hendi er nú jafnvel komin í tvö eða fleiri á sama vinnustað. Með sömu þróun verða því óhjákvæmilega til ný störf fyrir fleira fólk. Til viðbótar aðaldagskrá ráðstefnunnar voru eftirfarandi dagsskrárliðir í boði fyrir þátttakendur bæði til fróðleiks og skemmtunar: Í fyrsta lagi voru haldin ýmis konar námskeið með fyrirlestrum og verklegum æfingum. Í öðru lagi var haldin sýning þar sem 60 aðilar, sem selja vörur og þjónustu á heilbrigðissviði, kynntu framleiðslu sína. Í þriðja lagi var svo sýning á veggspjöldum þar sem hægt var að skoða hvernig ýmis konar faglegum upplýsingum hefur skilmerkilega verið komið á framfæri. Þessu til viðbótar var fjölbreytt skemmtidagskrá og síðasta daginn voru farnar ferðir til ýmissa stofnana sem tengjast upplýsingaþjónustu á heilbrigðissviði. Að öllu meðtöldu stóð ráðstefnan yfir í sjö daga og var aðstandendum til sóma. Umræðuefni ráðstefnunnar var eins og áður sagði breytt hlutverk bókasafns- og upplýsingafræðinga vegna þeirra upplýsingasprengju sem orðið hefur með tilkomu Internetsins. Þróun undanfarinna ára hefur leitt til þess að nú er offramboð upplýsinga næstum því jafn mikið vandamál og skortur þeirra var fyrr á tímum. Þetta offramboð veldur streituviðbrögðum, jafnvel vanmætti hjá þeim sem þurfa að nota upplýsingarnar og einn af aðalfyrirlesurum ráðstefnunnar, Richard Smith ritstjóri British Medical Journal sagði: „Those who are not confused are not fully informed“ (Þeir sem eru ekki ringlaðir eru ekki nægilega upplýstir) og má segja að það lýsi í hnotskurn stöðu mála. Hann sagði lækna tala um niðurdrepandi offramboð upplýsinga (depressing overflow). Bókasafns- og upplýsingafræðingar eru nú þess vegna í þeirri stöðu að þurfa að bjóða sérþekkingu sína á sviði upplýsingaþjónustu til notenda sem eru orðnir þreyttir og leiðir á upplýsingum. Til þess að takast á við stærra hlutverk, í umhverfi sem verður stöðugt meira krefjandi vegna offramboðs upplýsinga, er það því starf bókasafns- og upplýsingafræðinga að greina hismið frá kjarnanum. Til þess að auka gæði og áreiðanleika upplýsinga á heilbrigðissviði hefur verið komið á fót flokkum og gagnagrunnum sem á ensku heita Evidence based medicine (EBM) eða Best evidence flokkum. Það eru gagnagrunnar með upplýsingum sem hafa verið sérstaklega valdar til þess að komast í þann flokk. Á þessum vettvangi hefur verið unnið mikið starf og m.a lýsti starfsfólk The Cochrane Library því í umræðuhóp hversu umfangsmikil sú vinna hefur verið að útiloka rannsóknir sem ekki eru taldar nægilega áreiðanlegar til þess að vera teknar með í þann gagnagrunn. Í þeirri flóðbylgju upplýsinga sem skollið hefur á er það okkar starf að finna á sem ódýrastan hátt verðmætustu upplýsingarnar sem til eru á hverjum tíma. Það var mjög lærdómsríkt að sækja þessa ráðstefnu, bæði að heyra sérfræðinga hvern á sínu sviði flytja fyrirlestra um nýja stöðu mála en ekki síður að heyra hvaða ráðstafanir bókasafns- og upplýsingafræðingar um allan heim hafa gert til þess að bregðast við nýrri tækni og virkja þau starfstækifæri sem nú bjóðast. Ég vil að lokum fyrir hönd okkar Helgu þakka fyrir ferðastyrk frá Upplýsingu sem var bæði efnislegur og andlegur. Næsta alþjóðaráðstefna bókasafnsfræðinga á sviði heilbrigðisþjónustu verður haldin í Brasilíu árið 2005. Ráðstefna Bókasafnasamtaka Manitoba-fylkis – Söfn í Winnipeg Upprunalega var ætlunin að sækja sameiginlegt þing bandarískra og kanadískra bókasafna í heilbrigðismálum sem haldið var um svipað leyti í Vancouver en það reyndist of kostnaðarsamt, bæði flugfargjöld og þátttökugjöld. Dagskrá MLA lofaði góðu og var þétt raðað á ráðstefnudagana. Þátttaka var 350-400 manns, víðsvegar að úr fylkinu og fyrirlesarar víða að, bæði frá Kanada og Bandaríkjunum. Um 40 fyrirtæki sýndu vörur og þjónustu. Ýmsir ráðamenn voru viðstaddir opnunina og héldu ávörp og ræður, s.s. mennta- og ferðamálaráðherra Manitoba, aðstoðarborgarstjóri Winnipeg og nýr þjóðbókavörður Kanada. Dagskráin var sett saman með tilliti til hinna ýmsu tegunda bókasafna sem áttu fulltrúa á þinginu, en áhersla var eðlilega lögð á þróun og breytingar í safnamálum, breytta starfs- og útgáfuhætti og framtíð safna. Undirrituð valdi að hlusta á eftirfarandi: Digital Dust – Scholarly Journals on the Internet. Ræðumaður: Larry Krumenaker, ritstjóri Net.Journal Directory, The Catalog of Full Text Periodicals Archived on the World Wide Web, og útgefandi. Electronic Journals: The Good, the Bad, and the Ugly. Framsögumenn: Karen Hunt, Doug Lynch, Mark West, Larry Krumenaker og Susan Miller. Hvaða áhrif hafa rafræn tímarit á bókasöfn og hvaða skilyrði fylgja aðgangi að efni þeirra? The Dilemma of Electronic Records. Ræðumaður: Shelley Sweeney, skjalfræðingur, University of Manitoba. Um framtíðarvarðveislu rafrænna gagna, tímarita, gagnasafna, tölvupósts og skýrslna. The Impact of Information Technology on Learning. Ræðumaður: Michelle Larose-Kuzenko, námsefnisráðgjafi og verkefnastjóri hjá fræðsluyfirvöldum Manitoba-fylkis. Because We’re Worth It! Ræðumaður: Steve Abram, varaforseti Micromedia Limited og þekktur ráðgjafi í upplýsingamálum. Hvatning til starfsmanna bókasafna- og upplýsingamiðstöðva og áskorun um að aðlaga sig að breyttum heimi og endurmeta eigin getu og hæfileika. Centres for Health Evidence Project. Ræðumaður: Ellen Crumley, verkefnisstjóri fyrir Centres For Health Evidence Demonstration Project, University of Manitoba. Tilraunaverkefni til að auðvelda starfsmönnum sjúkrahúsa og heilbrigðisþjónustu almennt aðgang að upplýsingum (Evidence-based medicine). Canadian Health Network. Ræðumaður: Lea Starr, svæðisstjóri fyrir Vestur-Kanada um almenningsfræðslu um heilbrigðismál. Framsögumaður: Jo Ann Brewster, forseti Manitoba Library Association. Samstarfsverkefni. Shift Happens: Librarian Leadership for the Knowledge Ecology. Ræðumaður: Steve Abram (sjá áður). Bak við allt fjaðrafok og umstang um upplýsingabrautir, vefi og netviðskipti eru venjulegar manneskjur og þarfir þeirra. Umræður um hlutverk bókasafnsfræðinga og bókavarða í þekkingarheimi og umhverfi framtíðar. Þingið var vel skipulagt, og fyrirlesarar vel undirbúnir og hæfir. Kanadamenn virðast vel vakandi á verðinum og stefna markvisst að meiri samvinnu og samhæfingu í bókasafnsmálum, ekki síst á sviði heilbrigðismála. Mest spennandi þótti mér fyrirlestur Ellen Crumley um Centres for Health Evidence, 18 mánaða tilraunaverkefni sem spannar tvö fylki, Alberta og Manitoba (http://www.cche.net). Verkefnið byggist á uppbyggingu Evidence-based health efnis eða „pakka“ fyrir lækna og annað starfslið sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana til að gera greiningu og meðhöndlun sjúkdóma auðveldari og skjótari. Mikill undirbúningur og viðhald liggur þarna á bak við af hálfu bókasafnsfræðinga við söfnun upplýsinga og framkvæmd verkefnis svo og þjálfun notenda. Framkvæmd og árangur lofa mjög góðu, spara heilbrigðisstarfsmönnum tíma og eykur öryggi. Heimsóknir í söfn: Safnkostur er um 178.000 einingar, þ.m.t. nýsi- og tölvugögn, og yfir 1600 tímaritaáskriftir. Um 10% tímaritaáskrifta er í rafrænu formi en það hlutfall fer hækkandi. Safnið er í nýrri byggingu, glæsilegt og vel hannað, bæði vinnusvæði starfsmanna og gesta. Opnunartími er rúmur, t.d er opið frá 8.15 á morgnana til 11.00 á kvöldin fjóra daga vikunnar frá september fram í miðjan maí og sérstök tölvuver (Learning Resource Centres/Computer Labs) eru opin allan sólarhringinn. Sérstök deild hýsir söguleg gögn, skjöl og bækur og þar er aðstaða til lesturs og rannsókna. Boðið er upp á vinnustaðaaðgang að gagnasöfnum, en einnig er fáanlegur aðgangur með aðgangsorði í gegnum UML (University of Manitoba Libraries). Safnið er opið sjúklingum aðliggjandi sjúkrahúsa og almenningi og fer þjónusta fram bæði í safninu sjálfu og í gegnum síma. Millisafnalán eru ódýr fyrir lánþega og er á áætlun þessa safns og nokkurra annarra safna á sama sviði að fella gjöld alveg niður. Ekki er tekið gjald fyrir millisafnalán innan safna í Winnipeg. Millisafnalán fara fram í gegnum sérstakt tölvuforrit sem flýtir mjög allri afgreiðslu og dregur úr vinnu starfsmanna í safninu. E.K. Williams Law Library, University of Manitoba. Safnið er staðsett í lagadeild á aðallóð (campus) háskólans á efstu hæð og í kjallara. Það er mikil mótsetning við heilbrigðisvísindasafnið, eldra og nokkuð dimmt og þröngt. Alls staðar, einnig í kennslustofum á neðri hæðum, eru þó stórir gluggar og fjöldi listaverka á veggjum. Geysimikil heimildavinna og leitir fara fram í safninu. Lokaorð Mér var mjög vel tekið alls staðar og veittar allar þær upplýsingar sem ég leitaði eftir. ARLIS/Norden Aðild að ARLIS/Norden eiga bókasöfn og stofnanir með safnkost um listir, listiðnað, hönnun, arkitektúr, ljósmyndir og skyld efni. Venjulega eru söfnin sjálf félagar (árgjald nú SEK 600) og geta þá margir af hverju safni tekið þátt en einstaklingar geta líka gerst félagar (árgjald nú SEK 170 ; nemendur SEK 100). Ár hvert heldur ARLIS/Norden ársfund í einhverju hinna norrænu landa. Ársfundurinn er fagleg ráðstefna (auk ársfundarstarfa) og stendur í 3 daga. Þarna gefst auk þess kostur á skoða bókasöfn og listasöfn og kynnast skemmtilegu fólki. Næsti ársfundur verður í Helsinki þann 14. – 16. júní 2001. Efnið þar verður líklega Collection management. Veffang ARLIS/Norden er http://www.uiah.fi/arlis Þar eru m.a. tenglar í listasöfn og menningarnet á Norðurlöndunum, auk upplýsinga um starfsemina. [email protected] póstlistinn er starfræktur á vegum samtakanna. Á Íslandi mynda nokkur listbókasöfn og safnadeildir o.fl. samstarfshóp og á hvert þessara safna um sig aðild að ARLIS/Norden. Okkur í samstarfshópnum hér sýnist vera aukinn kraftur í bókasafnsstarfi á ofannefndum sviðum hér á landi, bæði í Reykjavík og út um landið. Við viljum því hvetja þau söfn og einstaklinga, sem vilja taka þátt í starfinu, til að hafa samband og gerast félagar í ARLIS/Norden. Undirrituð tekur við umsóknum í tölvupósti eða síma og kemur til skila. Ársfundur og námsstefna ARLIS/Norden í Stokkhólmi Þátttakendur voru tæplega 100 talsins og voru íslenskir þátttakendur fjórir: Arndís S. Árnadóttir frá Listaháskóla Íslands; Auður Sigurðardóttir frá Listasafni Íslands, Gróa Finnsdóttir frá Þjóðminjasafni Íslands og Ólöf Benediktsdóttir frá Stofnun Árna Magnússonar. Fundarstaðir voru Arkitekturmuseet á Skeppsholmen og Kunglige biblioteket en auk þess voru nokkur merk bókasöfn í Stokkhólmi heimsótt. Dagskráin hófst á fimmtudagsmorgun í Arkitekturmuseet með leiðsögn um sýninguna Rum för böcker – från akademiskt prisämne till allhus. Biblioteksprojekt under 100 år ur museets samlingar og síðan var bókasafn Byggingarlistasafnsins ásamt ljósmyndasafni skoðað. Það er stærsta bókasafn sinnar tegundar í Svíþjóð og hefur að geyma mikið safn skissa, teikninga og arkitektúrmódela. Þá flutti Rasmus Wærn, arkitekt, fyrirlestur: Böckernas betydelse – om arkitekturlitteraturen och det moderna byggandet og loks var gagnabanki safnsins ARKDOK kynntur. Eftir hádegi var ársfundur ARLIS/Norden með venjulegum aðalfundarstörfum og loks var glæsileg móttaka og leiðsögn um Bernadottebiblioteket í sænsku konungshöllinni. Á föstudagsmorgun var Konunglega bókasafnið í Stokkhólmi skoðað. Það á uppruna sinn að rekja til bókasafna sænsku konunganna frá 16. öld. Bókasafnið er í fallegri byggingu frá 1877 en var gert upp og bætt við það nýrri viðbyggingu fyrir nokkrum árum. Þar hélt dagskráin áfram með fyrirlestri um Europeiska nationalbibliotek i förvandling og umræðum um Bibliotekshus som symbol. Síðdegis á föstudeginum var kynning á ARALIS bókasafninu og upplýsingamiðstöðinni í Helsingfors sem er samstarfsverkefni bókasafna Listaháskólans, Tæknibókasafns og Tónlistarskólans í Helsingfors og Bæjarbókasafns Toukola. ARALIS verður upplýsingamiðstöð um listir og er fyrirhugað að hún taki til starfa árið 2002. Þá flutti danski arkitektinn Bernt erindi um hönnun innréttinga á bókasöfnum. Loks var Stadsbiblioteket í Stokkhólmi skoðað. Það er byggingasögulega merkilegt hús, hannað af einum fremsta arkitekt Svía, Erik Gunnar Asplund, og var tekið í notkun árið 1928. Frá Stadsbiblioteket var haldið til bókasafns Konstakademien þar sem sýning á bókum um byggingarlist frá 16., 17. og 18. öld var skoðuð. Á síðasta degi námsstefnunnar var, eftir heimsókn í Riksdagsbiblioteket í Stokkhólmi, farið í skoðunarferð til Skokloster Slott sem er ein af markverðustu barokkhöllum í Evrópu með merkilegu bókasafni fágætra bóka og var þar fræðst um sögu hallarinnar og bókasafnsins. Námsstefnan var í heild mjög fróðleg og mikill metnaður lagður í skipulagningu fyrirlestra og heimsókna. Þá má ekki gleyma kvöldverðarboðunum sem voru á sögufrægum stöðum í Stokkhólmi. Skólabókasöfn í Glasgow og Minneapolis sótt heim Ég undirritaður slóst í för með samstarfsmönnum mínum einkum til að kynna mér bókasöfnin í skólum þessum. Fóru þrír dagar í að skoða skólana en hjá mér bættist fjórði dagurinn við. Fyrsta daginn fór eg með tölvumönnum í Anniesland skólann, sem er fjölmenntaskóli þar sem nálægt 5.000 nemendur stunda nám. Nemendur skólans eru á öllum aldri, margir í hlutanámi eða jafnvel stuttum námskeiðum. Eftir stutta kynningu á skólanum var steðjað á bókasafn skólans. Starfsmenn safnsins eru yfir 20 talsins Bókasafnið er álíka að stærð og bókasafn Iðnskólans í Reykjavík. Mikil áhersla er þó lögð á tölvur, kennslu með tölvum og leikni með tölvur. Í tölvuverinu eru að jafnaði þrír starfsmenn til leiðbeiningar og eftirlits. Var mjög athyglisvert að sjá nemendur stauta sig fram hjá erfiðum skerjum í hinum ýmsu forritum undir leiðsögn kennara og leiðbeinenda sem sumir gátu verið ömmur viðkomandi. Í tölvunum var greinilega engin kynslóðaskipting. Einn merkasti skóli á sviði arkitektúrs á Bretlandseyjum er sá sem kenndur er við hönnuðinn Charles Rennie Mackintosh (1868-1928). Hið opinbera heiti hans er The Glasgow School of Art og er hann í miðbæ borgarinnar. Í skóla þessum er afburða gott bókasafn á sviði lista, arkitektúrs og hönnunar. Safnið er flokkað eftir Dewey kerfinu sem auðvelt er okkur sem þekkjum það kerfi vel. Unnt er að leita að ritum á internetinu á slóðinni: http://194.81.30.139/www-bin/www_talis?www_welcome.html Aðkomumöguleiki upplýsinga er margvíslegur, ekki aðeins eftir nafni höfundar og titils, heldur efnisorðum, ISBN númerum og ritröðum. Í gamla skólahúsinu sem er frá dögum Mackintosh er hið fræga safn hans. Þar eru húsgögn öll í stíl við þær hugmyndir sem hann setti fram um aldamótin síðustu. Hér er ein mikilsverðasta listakademía á Bretlandseyjum og var líkt og að taka hús á frægustu listamönnum endurreisnarinnar: víða var verið að stunda list í allri sinni dýrð, mála, lesa, gagnrýna, o.s.frv. Ýmsir Íslendingar hafa numið við þennan skóla, þ.á m.listakonan unga Særún Stefánsdóttir. Þá fórum við þeir áhugasömustu í Jordanhill Campus skólann sem er víðfrægur framhaldsskóli á sviði kennaramenntunar í Skotlandi. Skólameistarinn, Ian Finley og aðstoðarmaður hans, Magnus tóku á móti okkur og útlistuðu fyrir okkur fyrirkomulag skólans. Námið byggist upp á þrem önnum, ágúst-des., jan.-apríl, lok apríl til júlíbyrjunar. Í skóla þessum er eitt það stærsta skólasafn sem eg hef komið í. Starfsmenn eru 23 að tölu. Lagt var af stað í ferð þessa 20. maí og komið til baka 27. maí. Þremur dögum síðar fór eg síðan í náms- og kynnisför með kennurum og starfsmönnum Varmárskóla í Mosfellssveit vestur til Minneapolis í Bandaríkjunum. Ferð þessi sem stóð einnig í eina viku var mjög vandlega skipulögð í samvinnu við fræðsluyfirvöld í Minnisota. Ég nefni þetta vegna þess, að Glasgow ferðin var skipulögð einungis af einum einstaklingi í samvinnu við skoska ferðaskrifstofu. Því miður verður að segja eins og er, að skipulag vegna faglegra sjónarmiða voru langt að baki skipulagi síðari ferðarinnar en þar átti hópur kennara veg og vanda af skipulagi sem tók heilan vetur og í samvinnu við þarlend fræðsluyfirvöld. Á hverjum degi sem heimsókn þessi stóð yfir sótti gulur skólabíll okkur Íslendingana, alls 50 manns, á gististað okkar og ók okkur milli skóla. Alls voru sóttir heim á þriðja tug skóla, flestir á grunnskólastiginu. Mátti sjá mjög athyglisverðar lausnir víða, sem vefjast fyrir okkur, oft vegna þess hversu starfsmenn eru almennt fáir í íslenskum skólum. Almennt var byrjað á því að sýna okkur bókasafnið í nær öllum skólum. Þetta er gjörólíkt hér heima þar sem sumir skólastjórnendur vilja jafnvel helst af öllu gleyma söfnunum. Nokkrir framhaldsskólar voru heimsóttir í þessari ferð. Einna athyglisverðastur er umhverfisskólinn, School of Environmental Studies, í Epladal, Apple Walley. Skóli þessi er við hlið hæfilega stórs dýragarðs. Hópur helsingja tók á móti okkur Íslendingunum. Greinilegt var, að andi Konrad Lorenz sveif þarna yfir vötnunum. Skólastjórinn er víðkunnur víða um heim, jafnvel meðal umhverfismanna á Íslandi en hann hefur flutt fyrirlestra hér á landi, tengda umhverfismálum, nú síðast um páskaleytið í vetur sem leið. Skóli þessi leggur mikla áherslu á umhverfis- og samfélagsmál þar sem unnið er út frá vissu þemanámi og raunverulegum lausnum á viðfangsefnum. Skólinn er mjög nútímalegur. Athygli vekur hve kennslurýmin eru opin og stór með stúkuðum vinnurýmum nemenda á tvær hliðar. Hefðbundin kennsla er í sem nánustu tengslum við rannsóknastofur og eru jafnvel hluti þeirra. Bókasafn skólans er miðlægt en fremur ónæðissamt sökum þess hve opið það er og í gönguleið allra framhjá, um aðalinngang og skrifstofu. Safnið er nokkuð stórt en ekki með miklum bókakosti en vinnuaðstaða prýðileg. Í skóla þessum vakti athygli okkar hve mikið er unnið að ýmsum verkefnum í skólasmiðju tengdum kvikmyndum og öðrum listum. Eftir heimsókn í skóla þennan, hélt hópurinn af stað til dýragarðsins í fylgd skólastjórans. Á leiðinni bættist í hópinn einn skjólstæðingur skólans, önd ein lítil gargandi. Átti hún fullt í fangi með að fylgja venjulegum gönguhraða hópsins og varð úr að skólastjórinn tók hana í fangið. Vakti fylgd þessi óskipta athygli og gleði. Eftir að hafa leiðbeint okkur rétta leið í gegnum um miðasöluna að dýragarðinum kvaddi skólastjórinn með öndina í fanginu og sneri aftur við svo búið. Á fyrirframákveðnum tíma, hittist hópurinn á bílastæði þar sem gamli góði bílstjórinn á stóru gulu rútunni beið okkar. Hann var kallaður út úr bílnum og afhent mynd frá Íslandi eins og flestir skólarnir fengu, ásamt umslagi með drykkjupeningum. Gamli maðurinn táraðist, kvaðst aldrei hafa orðið slíks heiðurs njótandi að nokkur rétti sér lítilræði. Það var þá kominn tími til, heyrðist einn segja. Allir voru í sjöunda himni yfir ferð þessari sem þótti í alla staði mjög vel heppnuð. Einungis einn heill dagur ferðarinnar var frjáls. Í stað þess að fara í stóru hryllingsbúðina Mall of America eins og flestir landar okkar virtust sogast inn í fórum við hjónin í gönguferð, leigðum okkur reiðhjól hálfan daginn, hjóluðum um nágrennið og umhverfis vötnin suðvestur af Minneapolis að fossi einum frægum sem er í þjóðgarði þar skammt frá. Eftir að hafa skilað hjólunum, leigðum við okkur lítinn árabát og rérum um vötnin allgóða stund í besta veðri. Umhverfið er ákaflega fagurt þarna um sveitir en þrátt fyrir allþétta byggð er það samt vaxið mjög hlýlegum trjágróðri og mikið af útivistarmöguleikum. Sjálfsagt er að mæla með að skoða sig þarna um, ekki bara bókasöfn og skóla, heldur líka samspil náttúru og mannlífs. Ferðin til lærdóms og kynningar til Bandaríkjanna gaf hinni fyrri til Skotlands ekki eftir. Veður var hið besta og áttu allir dálítið erfitt með að loka sig af inni í þessum skólum meðan sumarveðrið var eins og það gerist best uppi á Íslandi. Bóka- og bókasafnamessa í Gautaborg Verkefnin hafa öll verið framkvæmd í almenningsbókasöfnum eða skólasöfnum vítt og breitt um Norðurlöndin. Hópur barnabókavarða frá öllum Norðurlöndum hefur undanfarin tvö ár unnið að gerð bókarinnar. Fyrr á árinu gaf hópurinn út bók með bókalistum Läsglädje i Norden. Barn- och ungdomsböcker på åtta språk. Hópurinn hefur hist nokkrum sinnum á meðan þessari vinnu stóð og fengið til þess styrk frá Nordbok og einnig til að gefa út bækurnar og dreifa þeim um Norðurlöndin (á almenningsbókasöfn og skólasöfn). Á fyrsta degi Bókamessunnar var fyrirlestur (seminar) þar sem stjórnandi hópsins Thomas Rönström kynnti vinnu hópsins og nýju bókina. Seinna um daginn var dagskrá þar sem fjórar úr hópnum (þ.á.m. Kristín Birgisdóttir) sögðu frá sínum verkefnum og svöruðu fyrirspurnum. Á Bóka- og bókasafnamessunni í Gautaborg eru stanslausir fyrirlestrar þá fjóra daga sem hún stendur. Að auki er stórt sýningarsvæði þar sem m.a. forlög og bókasöfn kynna starfsemi sína og framleiðslu. Mér tókst að komast á nokkra fyrirlestra sem flestir voru áhugaverðir. Ferðin var ánægjuleg og við í hópnum Ett läsande Norden vorum ánægð með viðtökur bókarinnar okkar. Norrænt net um barnabókasöfn og -menningu: Norræn barnabókasöfn eru á hreyfingu. Þau eru að færast frá sínu hefðbundna hlutverki, þar sem áhersla var einkum lögð á bækur og miðlun þeirra, til nýs skilnings á hlutverki barnabókasafnsins í samræmi við samfélag í örri þróun, þar sem bæði börn og miðlar taka stöðugum breytingum. Þetta nýja hlutverk, eða ásjóna, var skýrt dregið fram á fyrstu norrænu barnabókasafnaráðstefnunni sem Norrænt net um barnabókasöfn og -menningu stóð fyrir í Rönningen rétt utan við Oslo í maí síðastliðnum. Netið starfar á vegum fagfélaga bókavarða á Norðurlöndum og á Ísland tvo fulltrúa í hópnum. En hvernig á hin nýja ásjóna, sem fellur að börnum og samfélagi dagsins, að líta út? Þetta var þema ráðstefnunnar, en eins og heiti hennar getur gefið til kynna, standa barnabókasöfn frammi fyrir nýjum miðlum, nýrri barnamenningu og þar með nýju hlutverki og verkefnum. Miðlun í brennidepli Fyrsti fyrirlesari ráðstefnunnar, Lisbeth Lindwall, bókavörður í Rinkeby í Svíþjóð, benti á að notendahópurinn, þ.e. börnin, kallaði nú á annars konar miðlun en þá hefðbundnu. Í Rinkeby, þar sem 99,5% barnanna koma úr innflytjendafjölskyldum, er mikilvægt að bókasafnið geti orðið menningarleg miðstöð þar sem áhersla er lögð á það sem sameinar börnin í hverfinu, fremur en það sem aðskilur þau. Það gerir safnið meðal annars með því að sýna fram á að sjö ára gamall sómalískur drengur getur samsamað sig Emil í Kattholti alveg á sama hátt og sænskur drengur úr Smálöndunum. Bókasafnið vinnur að tilraunaverkefni þar sem bókmenntum er miðlað til barna á nýstárlegan og fjölbreyttan hátt, börnin lesa, skrifa, setja sig í spor ýmissa sögupersóna, fara í vettvangsferðir o.s.frv., en markmiðið er að efla bæði sjálfsmynd þeirra og samkennd með hjálp bókmennta. Hér er um metnaðarfullt og spennandi verkefni að ræða og maður spyr sig hvers vegna einungis innflytjendur í Rinkeby verða þess aðnjótandi, en ekki einnig öll önnur börn á Norðurlöndum. Mótsögn Menningarþroski Formgerð Í vinnuhópi Sigríðar Matthíasdóttur frá Selfossi og Kristínar Birgisdóttur úr Mosfellsbæ kom einnig fram hvernig bókasöfn geta orðið að miðpunkti í menningarlífi barna í smærri bæjarfélögum. Þær kynntu sumarlestur á vegum bókasafnanna á Selfossi og í Mosfellsbæ þar sem auðvelt hefur reynst að virkja heilu árgangana til þátttöku. Kristín Viðarsdóttir frá Borgarbókasafni Reykjavíkur sagði einnig frá les- og ritsmiðjum safnsins sem hafa verið að vinna sér sess sem einn valkostur af mörgum í sumarstarfi barna í Reykjavík. Dropi í hafið Samræður við börnin Marja Merikanto frá Finnlandi sagði frá verkefni sem tekur mið af þörfum barna. Ritsmiðjur fyrir börn á vegum bókasafna í Finnlandi ganga út frá samspili og samræðum barna og fullorðinna. Þar er ferlið talið mikilvægara en sjálf útkoman sem vafalaust gerir meiri kröfur til bókavarðarins sem heldur um alla þræðina. Í þessu tilfelli er ekkert rúm fyrir óvirka afstöðu. Það er ekki nóg að vera til staðar heldur gerir þetta starf kröfu um persónulega innlifun og fagmennsku. Breytilegir miðlar Að lokum kynnti Päivi Jokitalo frá Finnlandi finnska bókasafnavefinn sem við hvetjum ykkur til að kynna ykkur sjálf á netinu: www.folkbiblioteken.fi. Í erindi hennar kom fram að 95% bókasafna í Finnlandi eru nú nettengd og 60% þeirra hafa eigin heimasíðu og gagnagrunn. Vinna við finnska bókasafnavefinn hófst árið 1995 með vinnuhópi sem kom saman til að leggja grunn að honum en nú vinna fjórir starfsmenn við vefinn. Päivi sagði að heimsóknum á vefinn fjölgi mjög ört, árið 1999 voru þær um 5 milljónir. Þemahópar Hér hefur aðeins verið gefinn nasaþefur af því sem fram fór á ráðstefnunni en Norræna netið mun gefa erindin og innlegg í vinnuhópum út í skýrslu sem verður gerð aðgengileg fyrir barnabókaverði á Norðurlöndum svo og aðra áhugasama. Þeir sem hafa áhuga á að nálgast skýrsluna geta haft samband við undirritaðar. Og áfram höldum við Þar með fá barnabókaverðir sífellt ný hlutverk og ný verkefni. Við ráðum mun betur við þau ef við sem sinnum barnastarfi á Norðurlöndunum gerum meira af því að sækja hugmyndir og kraft hvert til annars. Í þemahópunum kom fram sú ósk að stjórn Norræns nets um barnabókasöfn og -menningu vinni áfram með eitt þema eftir ráðstefnuna, þ.e. Norræna sagnahefð, grunninn að norrænni menningu – hvernig miðla bókasöfnin eigin bókmenntum og bókmenntum hinna Norðurlandaþjóðanna í orðum og myndum? Því hyggst Norræna netið undirbúa málþing um þetta efni í tengslum við barnabókaráðstefnuna í Stavanger 10.-14. febrúar 2001. Þeir sem hafa hugmyndir eða ábendingar sem tengjast þessu efni eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við undirritaðar sem fyrst. Um ráðstefnuna í Stavanger, sem haldin er annað hvert ár og hefur unnið sér sess sem ein mikilvægasta barnabókaráðstefna á Norðurlöndum, má lesa á vefsíðu ráðstefnunnar: www.beggedeler.com Við hvetjum ykkur til að merkja við ofangreinda daga á dagatalinu, taka þá frá og vera með í uppbyggjandi norrænu samstarfi. Nánari upplýsingar um Norrænt net barnabókavarða, ráðstefnuna í Rönningen og bókamessuna í Stavanger veita fulltrúar Upplýsingar í hópnum: Rit- og listasmiðja Borgarbókasafns og ÍTR Þátttakendur geta valið sér eitt svið á námskeiðinu eða kosið að skipta tíma sínum milli tveggja eða fleiri sviða og verður afrakstur hvors dags kynntur á kvöldvökum þar sem unga fólkið er hvatt til að vinna saman. Þannig geta þeir sem taka þátt í leikrænni tjáningu unnið með texta úr ritsmiðjum svo dæmi sé tekið. Þátttakendur greiða hóflegt þátttökugjald og verður fjöldi þeirra takmarkaður við 50 manns. Ætlunin er að slíkar smiðjur verði árlegur viðburður þar sem ávallt verði boðið upp á leiðsögn í skapandi skrifum og a.m.k. einni annarri listgrein (tónlist, myndlist, dans, leiklist o.s.frv.). Ýmsir skólar hafa boðið upp á námskeið í skapandi skrifum fyrir almenning en afar fátítt er að slík námskeið séu sérstaklega sniðin að ungu fólki og samþætt öðrum listgreinum. Löng hefð er hins vegar fyrir námskeiðum af þessum toga á vegum bókasafna í Svíþjóð og hafa þau notið mikilla vinsælda þar í landi. Markmið með smiðjunni er að gefa ungu fólki kost á að þroska listræna hæfileika sína, kveikja áhuga þeirra á hvers konar sköpun og listrænni miðlun svo og á menningarefni almennt. Áherslan verður fremur á sjálfu sköpunarferlinu en fullbúnum afrakstri, smiðjunni er ætlað að efla sjálfsmynd þátttakenda og trú á eigin getu og verða þannig kveikja að frekari tjáningu, án tillits til þess hvort þátttakendur hafi hug á að leggja fyrir sig litstrænt starf eða ekki. Um leið er smiðjunni ætlað að örva áhuga á bókmenntum, lestri og öðru menningarefni út frá þeirri trú að eigin sköpun auki þörf og áhuga þátttakenda fyrir að njóta menningar. Kristín Viðarsdóttir og Þorbjörg Karlsdóttir Sænski rithöfundurinn Cannie Möller til Íslands Cannie hefur áralanga reynslu af því að leiðbeina ungu fólki í skapandi skrifum og eru undirritaðar svo heppnar að hafa kynnst vinnuaðferðum hennar á námskeiði sem ætlað var skipuleggjendum ritsmiðja á Norðurlöndum. Cannie hefur sérstakt lag á því að kveikja áhuga og sjálfstraust þátttakenda með afar einföldum og skemmtilegum hætti. Námskeiðið er ætlað öllum áhugamönnum um ritsmiðjur á Íslandi, rithöfundum, bókavörðum, tómstundaráðgjöfum o.fl. Það er von okkar að koma Canniear verði bókasöfnum á Íslandi hvatning til að standa fyrir námskeiðum í skapandi skrifum fyrir börn og unglinga, en slík námskeið á vegum bókasafna eru algeng til dæmis í Svíþjóð og Finnlandi. Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu veita undirritaðar. Bangsadagurinn 2000 Dagskrá safnanna þennan dag er mismikil, en sem dæmi má nefna að á Amtsbókasafnið á Akureyri komu um 360 börn til að hitta bangsa og láta lesa fyrir sig og taka þátt í getraunum. Á Ísafirði bjó Inga María Guðmundsdóttir til glæsilegan vef í tilefni dagsins. Slóðin á hann er: http://www.isafjordur.is/bokasafn/bangsar/. Hvet ég alla til að líta á þennan glæsilega vef og byrja að undirbúa bangsadaginn árið 2001. Norræna bókasafnavikan árið 2000 Í ár er sjónum beint að barninu og stöðu þess í heiminum, sambandi þess við fjölskylduna, vini sína og aðra fullorðna. Eins og fyrr hefur verið valinn einn sameiginlegur texti, sem lesinn verður upp á sama tíma í öllum bókasöfnunum, sem verða með, á öllum Norðurlöndum. Textinn í ár er úr bók Astrid Lindgren: Ný skammarstrik Emils í Kattholti? bls. 18. kaflinn sem heitir: Laugardagurinn 28. júlí. Þegar Emil hvolfdi deiginu yfir föður sinn og tálgaði hundraðasta spýtukarlinn. Segja má að Emil sé ágætur fulltrúi allra þeirra frjálslegu og glöðu barna, sem finna má í svo mörgum norrænum bókum. Hann á góða bernsku. Hann elst upp með fólki, sem elskar hann, setur honum takmörk um leið og hann fær tækifæri til að beita ímyndunarafli sínu út í æsar, bæði til góðs og ills. Með slíka æsku má allt eins búast við að enda sem formaður bæjarráðs í einhverju sveitarfélagi! Því miður vitum við ekki hvernig Emil plumaði sig sem formaður bæjarráðs, en það gekk án efa vel! Vart er hægt að velja betri fulltrúa norrænna barnabókmennta en Astrid Lindgren. Bækur hennar hafa verið í uppáhaldi hjá kynslóðum Norðurlandabúa og flest börn og fullorðnir þekkja bækur hennar og sögupersónur. Astrid Lindgren verður 93 ára þann 14. nóvember. Er vart hægt að hugsa sér betri leið til að heiðra þessa vinsælu skáldkonu á afmæli hennar en þá að þúsundir barna á öllum Norðurlöndunum fái að heyra kafla úr einni af þekktustu barnabókum hennar. Á Íslandi hafa 73 söfn tilkynnt þáttöku og hafa þau aldrei verið fleiri. Þau söfn sem tilkynntu sig í tæka tíð fengu send plaköt og póstkort, en síðan er hverju safni í sjálfsvald sett hvernig þau taka þátt og sníður sér hver stakk eftir vexti. Í ár er myndefni vikunnar eftir Björn Berg og sýnir þá Emil og Alfreð að synda í Kattholtsvatninu þetta sama kvöld og hann tálgaði hundraðasta spýtukarlinn. Það er von okkar sem að undirbúningi vikunnar stöndum að það takist eins vel til og undanfarin ár og bókasöfnin haldi áfram að gera Norrænu bókasafnavikuna að stærsta menningarviðburði á Norðurlöndum ár hvert. Notkun lögverndaðs starfsheitis bókasafnsfræðinga Lög um bókasafnsfræðinga (Nr. 97/1984) 1. grein Rétt til að kalla sig bókasafnsfræðing og starfa sem slíkur hér á landi hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra. 2. grein Leyfi samkvæmt 1. gr. má aðeins veita:
Áður en leyfi er veitt samkvæmt 3. og 4. lið skal leita umsagnar Félags bókasafnsfræðinga og fastra kennara í bókasafnsfræði við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. 3. grein Bókasafnsfræðingi ber að starfa samkvæmt lögum og reglugerðum um bókasöfn sem í gildi eru á hverjum tíma. 4. grein Brot á lögum þessum varða sektum. Með mál út af brotum gegn lögunum skal farið að hætti opinberra mála. 5. grein Menntamálaráðherra getur sett nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara. 6. grein Lög þessi öðlast þegar gildi. Stjórn Upplýsingar hvetur alla þá sem hafa til þess réttindi að sækja um leyfi til að kalla sig bókasafnsfræðing og óskar jafnframt eftir að lögverndun starfsheitisins sé virt og það ekki notað af öðrum en til þess hafa tilskilin réttindi. Í athugun er að endurskoða lögin í takt við breyttar aðstæður, t.d. nýja reglugerð Háskólans, breyttar aðstæður í námsgreininni í háskólanum og stofnun nýs fagfélags og stéttarfélags. Í takt við nýja tíma hefur einnig verið farið fram á breytingu á starfsheitinu í bókasafns- og upplýsingafræðingur. Til þess að fá tilskilið leyfi til að kalla sig bókasafnsfræðing þarf að senda umsókn til menntamálaráðuneytis með afriti af prófskírteinum. Leyfisbréfið kostar kr. 5000. Þeim sem eiga ósótt leyfisbréf hjá ráðuneytinu er bent á að snúa sér til Ásgerðar Kjartansdóttur á skjalasafni ráðuneytisins ([email protected]) og eru þeir eindregið hvattir til að sækja leyfisbréfin. Breyting á lögverndaða starfsheitinu bókasafnsfræðingur Þann 28. maí 1984 voru sett lög (nr. 97) um lögverndun starfsheitisins bókasafnsfræðingur. Starfsheitið bókasafnsfræðingur var í samræmi við heiti á námi í bókasafnsfræði við Háskóla Íslands á þeim tíma. Í ljósi þróunar og breytinga á náminu og þar með starfssviðinu hefur nafni á náminu við Háskóla Íslands verið breytt í bókasafns- og upplýsingafræði til samræmis við breyttar aðstæður í náminu og til að koma til móts við þróun upplýsingasamfélagsins og kröfur þess. Til samræmis við breytt heiti námsgreinarinnar í Háskóla Íslands fóru stjórnir félaganna fram á að lögvernduðu starfsheiti stéttarinnar verði breytt í bókasafns- og upplýsingafræðingur í stað bókasafnsfræðingur. Jafnframt var bent á að vorið 1999 var nafni stéttarfélagsins breytt í Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga til samræmis við breytt heiti á náminu við Háskóla Íslands. Í ljósi ofanritaðs létu stjórnir félagana þriggja í ljós eindregna ósk þess efnis við menntamálaráðuneytið að ofangreind breyting á lögum nr. 97/1984 verði gerð til samræmis við núverandi heiti starfsins bæði í Háskóla Íslands og hjá stéttarfélaginu. Undir bréfið skrifuðu formenn allra félaganna fyrir hönd stjórna þeirra, auk undirritaðrar þær Ingveldur Hafdís Karlsdóttir formaður Katalogos og María Frímannsdóttir formaður SBU. Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga – Kjaraviðræður Þetta eru ákvæði um fæðingarorlof og veikinda- og slysaréttindi. Þar er verið að samræma reglur um veikindarétt opinberra starfsmanna og má t.d nefna fjölgun fjarvistardaga vegna veikinda barna yngri en 13 ára úr sjö vinnudögum í 10 daga (80 vinnustundir). Viðræður einstakra félaga BHM og ríkisins munu hefjast í byrjun nóvember. Í samninganefnd SBU situr öll stjórn félagsins ásamt fyrri formanni, Ásdísi H. Hafstað. Meginkröfur SBU er aukning kaupmáttar á samningstímanum og stytting vinnuvikunar, ásamt ýmsum öðrum kröfum er varða samræmingu launataflna, mat á menntun og rétt til námsleyfis. Samningar félagsins og Launanefndar sveitafélaganna renna út um áramót og eru viðræður einnig að hefjast á þeim vettvangi. Þar er á brattann að sækja því laun hafa dregist mikið aftur úr launum ríkisstarfsmanna á síðustu árum. NordIS-Net Nám í bókasafnsfræði á Norðurlöndum hefur á síðasta áratug alls staðar færst inn í háskóla eða á háskólastig nema í Danmörku en danski bókavarðaskólinn stefnir nú að því að geta boðið upp á doktorsnám í framtíðinni. Flestar einingarnar eru smáar og víða er erfiðleikum bundið að fá nægilega marga nemendur til að standa undir námskeiðum eða að fá leiðbeinendur sem henta nemendum. Því var brugðið á það ráð að sameina kraftana á Norðurlöndum og NordIS-Net var komið á fót 1997. Í stjórn þess er einn fulltrúi frá hverju landi og er Anne Clyde fulltrúi Íslands. Tilgangur netsins er að samnýta þekkingu þeirra kennara sem bjóðast, mynda sterkan hóp nemenda sem bæri uppi námskeið og skipti á nemendum í doktorsnámi. Nú tilheyra netinu 12 skólar / stofnanir sem bjóða upp á doktorsnám í bókasafns- og upplýsingafræði, um 30 kennarar með doktorsgráðu og um 120 nemendur. NorFA eða Norræni rannsóknaháskólinn hefur styrkt verkefnið fjárhagslega, s.s. ferðir, uppihald kennara vegna námskeiðahalds og gistiprófessora. Skiptin ganga m.a. út á vikulöng námskeið, stuttar heimsóknir nemenda og kennara milli landa og gestakennara. Þá er í gangi póstlisti sem auðveldar mjög öll samskipti. Netið hefur þegar sannað sig. Fjöldi þeirra sem eru í rannsóknatengdu námi í bókasafns- og upplýsingafræði á Norðurlöndum hefur aukist, tengsl milli þeirra sem leggja stund á þessi fræði hafa aukist, meira og betra framboð er á námskeiðum m.a. færanleg námskeið og meiri sýnileiki norrænna rannsókna í bókasafns- og upplýsingafræði á alþjóðavettvangi. Sjá m.a.: http://www.info.uta.fi/informaatio/nordisnet/index.html og Vakkari, Pertti: Scandinavian co-operation in research education in LIS. Education for Library and Information Services: Australia (ELIS:A). May 1999, s.15-18. Nýtt aðalsafn Borgarbókasafns í Grófarhúsi Í Borgarbókasafninu í Grófarhúsi vinna nú 45 manns, þ.á.m. eru 11 nýir starfsmenn en starfsmenn safnsins alls eru um 110. Útlánsdeildir aðalsafns eru á fyrstu, annarri og fimmtu hæð Grófarhúss og skrifstofur Borgarbókasafns á þeirri fjórðu. Meðal nýjunga í starfseminni má nefna: Reykjavíkurtorg sem er á fyrstu hæðinni en þar er hægt að kynna sér lífið í borginni, fyrirtæki og stofnanir, félög, námskeið, menningarviðburði og það sem efst er á baugi hverju sinni. Á Reykjavíkurtorgi verða auk þess haldnir fundir og sýningar sem tengjast Reykjavík. Tón- og mynddeild á fimmtu hæðinni. Stór hluti þess tónlistarefnis sem var í Gerðubergi var fluttur í aðalsafn og hefur bóka- og tímaritakostur safnsins um tónlist og kvikmyndir verið aukinn verulega. Áfram verður lánuð út vinsæl tónlist í Gerðubergi og Foldasafni. Farið er að lána út kvikmyndir á DVD diskum, úrvalið er ekki mikið enn sem komið er en það á eftir að aukast verulega. Grófarsal á sjöttu hæð. Nú ræður safnið yfir góðu rými sem nota má til að halda ýmsar dagskrár, málþing og sýningar en Grófarsalur er fyrirlestra- og sýningarsalur sem söfnin þrjú í Grófarhúsi nýta í sameiningu. Safnið mun leggja mikla áherslu á að bjóða upp á áhugavert efni fyrir ungt fólk og er nú í fyrsta sinn sérstök unglingadeild í safninu. Þar eru meðal annars teiknimyndasögur í úrvali, bæði á íslensku og erlendum málum, tímarit og annað efni sem höfðar til unglinga. Þá mun Borgarbókasafn standa fyrir ritsmiðjum þar sem ungu fólki er leiðbeint við að skrifa og yrkja. Í lok þessa árs tekur Borgarbókasafn í notkun nýjan bókabíl af vönduðustu gerð og á næsta ári flytur Bústaðasafn í viðbyggingu við Borgarleikhúsið í Kringlunni. Þar mun verða byggður upp safnkostur sem tengist leiklist og leikritun. Aðsókn Reykvíkinga að Borgarbókasafni er mjög góð en samkvæmt Gallup könnun sem gerð var í júní 1999 höfðu 63,3% Reykvíkinga á aldrinum 16-75 ára notað þjónustu safnsins seinustu 12 mánuði. Upplýsing – gæfuspor bókavarða! Rannsóknabókaverðir vinna með okkur og hefur þeirra starfssvið opnast fyrir okkur hinum. Skólasafnverðir sitja í nefndum félagsins, nemar hafa sent okkur erindi og eru sérdeilis áhugasamir um félagið. Það er gott því nemarnir eru jú framtíðin. Opnun skrifstofu Upplýsingar er framundan, (í eigin húsnæði) og unnið er að því að gera félagið sýnilegt í margmiðlunarþjóðfélagi okkar. Yfir öllu vakir formaður vor, Þórdís, sem hefur unnið mikið starf í þágu Upplýsingar og hefur af mikilli stjórnlist sameinað kraftana í stjórninni. Stjórnin er samhuga (auðvitað skiptumst við stundum á skoðunum) um að gera veg okkar sem vinnum á bókasöfnum sem mestan. Okkar er framtíðin. – Upplýsing – það er málið! Útskrift í bókasafns- og upplýsingafræði Anna Jóna Lýðsdóttir: Skjalastjórn – í umhverfi þekkingarstjórnunar. Auður Ágústa Hermannsdóttir: Upplýsingasafn fyrir upplýsinga- og skjalastjórnendur. Auður Björg Ingadóttir: Gagnasafn og efnisorðalykill á sviði forvarna fyrir Áfengis- og vímuvarnaráð og Fræðslumiðstöð í fíknivörnum. Ásdís Huld Helgadóttir: Upplýsingavefur um Borgarætt á Mýrum, Austur-Skaftafellssýslu: www.mikkivefur.is/borg. Birna Kolbrún Gísladóttir Guðrún Kjartansdóttir: Upplýsingalæsi. Hlutverk bókasafns- og upplýsingafræðinga í miðlun upplýsingalæsis. Ingibjörg Jónsdóttir: Prjónauppskriftir. Skrá um valdar heimildir árin 1992-1996. Jóna Guðmundsdóttir: Vefsíðugerð. Eitrunarmiðstöðin. Klara Katrín Friðriksdóttir: Vefsíðugerð. Eitrunarmiðstöðin. Kristín Ágústa Ársælsdóttir: Almenningsbókasöfn í dreifbýli. María Eyþórsdóttir: Þroskahjálp, tímarit um málefni fatlaðra. Efnisorðalykill 1978-1999. Sigurbjörg Pálsdóttir: Súlur – Norðlenskt tímarit. MBA-nám í rafrænum viðskiptum við Háskólann í Reykjavík Í bréfinu segir m.a.: Að öllu jöfnu er MBA-nám (Master of Business Administration) starfstengt viðskipta- og stjórnunarnám fyrir einstaklinga með mismunandi menntunarlegan bakgrunn, sem í starfi sínu hafa þróast yfir í viðskiptaleg viðfangsefni. Í því námi sem hér um ræðir er sérstök áhersla lögð á allt það sem lýtur að rafrænum viðskiptaháttum og þau áhrif sem aukin tæknivæðing mun hafa á alþjóðaviðskipti. Gert er ráð fyrir að námið standi í 15 mánuði, sem skipt er í fimm annir. Hver önn um sig varir í átta vikur. Auk þess munu nemendur sækja þrjár vikulangar námsstefnur hjá þremur samstarfsskólum HR. Kennt verður aðra hvora viku á fimmtudagseftirmiðdögum, föstudögum og laugardögum og allt nám fer fram á ensku. Námskostnaður er kr. 1.500.000 og umsóknarfrestur er til 24. nóvember 2000. Heimasíða MBA-námsins í HR er http://www.ru.is/mba Verkefnisstjóri námsins er María Kristín Gylfadóttir og veitir hún allar frekari upplýsingar (s. 510-6262 eða [email protected]). Nord IoD ráðstefna á Íslandi 2001 Heyrst hefur… … að Bergur Ólafsson hafi verið ráðinn skjalavörður Þjóðminjasafnsins í stað Grímu Eikar. … að Auður Ágústa Hermannsdóttir hafi hafið störf sem upplýsingafræðingur hjá Áliti ehf. ? að Svava H. Friðgeirsdóttir hafi látið af störfum hjá Skjalasafni Landsbanka Íslands hf. og hafið störf sem ráðgjafi í upplýsinga- og skjalastjórn hjá Áliti ehf. ? að Auður Björg Ingadóttir bókasafnsfræðingur hafi verið ráðin í stöðu safna- og minjavarðar hjá Landsbanka Íslands hf. ? að Margrét Eva Árnadóttir hafi hafið störf sem bókasafns- og upplýsingafræðingur hjá IMG. … að Þórkatla Snæbjörnsdóttir bókasafnsfræðinemi hafi látið af störfum hjá Bókasafni Hafnarfjarðar í maí síðastliðinn. … að Guðný G. Gunnarsdóttir bókavörður hafi látið af störfum hjá Bókasafni Hafnarfjarðar í júlí síðastliðinn. … að Guðleif Jóhannesdóttir bókavörður hafi látið af störfum hjá Bókasafni Hafnarfjarðar í júlí síðastliðinn. … að Valdemar Pálsson hafi hafið störf við tónlistardeild Bókasafns Hafnarfjarðar í september síðastliðinn … að Ingibjörg Óskarsdóttir leikskólakennari hafi verið ráðin hjá Bókasafni Hafnarfjarðar til að sjá um barnastarf … að Kristín Ágústa Ársælsdóttir bókasafnsfræðinemi hafi verið ráðin hjá upplýsingadeild Bókasafns Hafnarfjarðar. Ráðstefnur og fundir Maí – júní 2001 Júní 2001 |