Í júlí á þessu ári söfnuðust saman fulltrúar frá 34 löndum á vinnustofu í Madrid, höfuðborg Spánar. Þessum fulltrúum var boðið þangað af IFLA, alþjóðlegu samtökum bókavarðafélaga og stofnana, í tilefni af verkefni þeirra, IFLA Global Vision. Ísland átti fulltrúa á þeirri vinnustofu en ég, undirrituð, Kristjana Mjöll Jónsd. Hjörvar, formaður Upplýsingar, sat vinnustofuna fyrir hönd okkar allra.
Verkefninu, IFLA Global Vision, var hrundið af stað formlega í apríl á þessu ári og í kjölfarið heimsóttu fulltrúar IFLA sex borgir víðsvegar um heiminn og héldu þar vinnustofur þar sem fulltrúar starfsfólks bókasafna frá ýmsum löndum ræddu saman um framtíð bókasafna og framtíð upplýsingafræðinga sem fagstétt. Þar var reynt að svara spurningum á borð við, „Hvað getum við gert til að efla bókasöfnin?“, „Hvað eru bókasöfnin að gera gott og hvað mættu þau gera betur?“, „Hvernig aukum við samstarf á meðal okkar?“ og svo lengi mætti telja.
En hver var tilgangurinn? Jú, IFLA sér það vandamál sem mörg lönd glíma við, og við hér á Íslandi glímum einnig við og það er að samskipti og samvinna okkar fer minnkandi í hinum sívaxandi og hraðvirka heimi. Hvernig getum við sem fagstétt, við sem starfsfólk bókasafna, mætt þeim áskorunum sem bókasöfn í dag standa frammi fyrir og munu gera í framtíðinni?
Það var áhugavert að sitja þessa vinnustofu í Madrid og frábært að vera boðið þangað. Þessum 34 einstaklingum var skipt upp í fjóra hópa og sátu þeir við hringborð, vopnuð blöðum, pennum, post-it’s miðum, tússpennum og tússtöflu. Á mínu borði sat fólk frá Rússlandi, Malasíu, Tyrklandi, Portúgal, Hollandi, Noregi og Þýskalandi. Við ræddum um hvað við vildum sjá gerast í okkar heimalandi og yfir alla Evrópu, jafnvel allan heiminn. Hvað við vildum gera til að efla samstarf og hefja umræðuna. Við erum sterk ein og sér, en við erum enn sterkari þegar við stöndum saman og látum í okkur heyra, saman. Það kom helst á óvart hvað við vorum mörg að glíma við sömu vandamálin en jafnframt hvað heimssýn okkar og menning gat verið ólík og nálgun okkar á efnið þ.a.l. ólík.
En til hvers er Ísland að taka þátt í svona? Skiptir það einhverju máli? Jú, það skiptir máli. Það hefur sýnt sig hér að við þurfum að tala betur saman sem fagstétt. Við þurfum að tala saman, standa saman og styðja hvort annað. Við þurfum að efla samskiptin okkar hér innanlands og fyrsta skrefið í því er málþingið okkar 24. nóvember nk. En við þurfum líka að teygja okkur út fyrir okkar litlu eyju, tengjast fólki í okkar fagi erlendis og það getum við gert með því að taka þátt í #iflaglobalvision verkefninu, segja okkar álit og fylgjast með.
Ég vil því hvetja ykkur til að kynna ykkur verkefnið með því að smella á vídjóið og tenglana hér að neðan.
En ég vil líka biðja ykkur um að smella hér og svara Global Vision könnun IFLA en henni lýkur nú 30. september.
Frekari upplýsingar um verkefnið má finna hér: https://globalvision.ifla.org/
Svörum og gefum þeim okkar álit!
Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar, formaður Upplýsingar.