Á aðalfundi Upplýsingar, fimmtudaginn 27. ágúst, var Jóhanna Gunnlaugsdóttir gerð að heiðursfélaga Upplýsingar.  Af því tilefni færði starfandi formaður, Barbara Guðnadóttir, Jóhönnu merktan glergrip og blómvönd.

Jóhanna hefur verið fastráðinn kennari í upplýsingafræði (áður bókasafns- og upplýsingafræði) við Háskóla Íslands frá september 1999. Hún var stundakennari við greinina 1997 og 1998.  Áður starfaði hún á bókasafni Garðabæjar en lengst starfsævinnar vann hún hjá Gangskör sf. við að skipuleggja skjala-, bóka- mynda- og önnur gagnasöfn hjá liðlega 100 stofnunum og fyrirtækjum.  Fyrstu árin við Háskólann kenndi Jóhanna flokkun og skráningu auk skjalastjórnar en hin síðari ár einungis námskeið í skjalastjórn við kjörsviðið upplýsinga- og skjalastjórn og rafræn samskipti hjá skipulagsheildum.  Jóhanna hefur leiðbeint fjölda meistara- og doktorsnema í upplýsingafræðum og skjalastjórn og verið gestakennari bæði hér heima og við ýmsa háskóla erlendis. Í byrjun þessa árs sæmdi forseti Íslands Jóhönnu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir kennslu og rannsóknir á sviði upplýsingafræði og skjalastjórnunar.

Þó svo að Jóhanna hafi náð 70 ára aldri starfar hún enn við námsbrautina auk þess að sinna nefndar- og stjórnarstörfum innan Háskólans og víðar.

Meðfylgjandi mynd var tekin við afhendingu heiðursviðurkenningar á aðalfundi Upplýsingar 2020.