Tvisvar á ári hittast fulltrúar norrænu fagfélaga bókasafnanna á fundi. Annar fundurinn er haldinn til skiptis í þeim löndum sem eiga fulltrúa í samstarfinu og hinn fundurinn er haldinn samhliða IFLA ráðstefnunni. Þetta árið var stefnt að fundi í Osló, en vegna heimsfaraldursins var ákveðið að efna til rafræns fundar í ágúst.  Eins og flestir vita, var ekki haldin nein IFLA ráðstefna þetta árið. Boðað var til fundar í janúar á næsta ári, en óvíst er hvort hann geti orðið í Osló eða hvort hann verði einnig rafrænn.

Þótt erfitt sé að hittast sitja fulltrúarnir þó ekki auðum höndum og hafa verið útbúin drög að sameiginlegri yfirlýsingu þessara félaga um mikilvægi bókasafna til að miðla þekkingu, jafna aðgengi að upplýsingum og auka lýðræði. Stjórn Upplýsingar fór yfir drögin og samþykkti fyrir sitt leyti. Ákveðið var að láta þýða yfirlýsinguna á íslensku um leið og hún hefur verið samþykkt af stjórnum allra félaganna. Þá er stefnt að því að senda hana yfirvöldum og fjölmiðlum auk þess að senda hana til félagsmanna Upplýsingar sem geta sent hana áfram, t.d til stjórnenda sveitarfélaga.