Search

Mikilvægi góðs aðgengis vísindamanna að upplýsingu






Upplýsingar á Interneti : Málþing um aðgang atvinnulífs og vísindasamfélags að upplýsingum


Sjávarútvegsbókasafnið er sameiginlegt bókasafn Hafrannsóknastofnunarinnar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Á þessum tveim stofnunum vinna um 100 vísindamenn, þ.e. líffræðingar, fiskifræðingar, haffræðingar, jarðfræðingar, efnafræðingar, gerlafræðingar, matvælafræðingar, verkfræðingar, tæknifræðingar og efnaverkfræðingar auk ýmissa tæknimanna. Þó að allt þetta fólk sé að vinna með fisk eða við verk tengd fiski er upplýsingaþörf þess mjög mismunandi, en leitast er við að uppfylla óskir allra á skjótan og öruggan hátt. Það hefur verið gert með beinlínutengingum við erlenda gagnabanka og á síðustu árum hafa verið keypti gagnagrunnar á geisladiskum. Í eitt ár var komið á tilraunasambandi við gagnabanka yfir Internetið og gekk það mjög vel og voru þeir sem notfærðu sér það mjög ánægðir.


Gagnagrunnar á Sjávarútvegsbókasafninu
Á undanförnum árum hafa ýmsir gagnagrunnar verið keyptir á bókasafnið í prentuðu formi, en á tölvuöld þykja þeir þungir í notkun og útilokað er að leita að upplýsingum aftur í tímann í slíkum gagnagrunnum vegna þess tíma sem það tekur að fletta ritunum fram og til baka. Bækurnar eru aftur á móti ágætar til að fylgjast með því sem kemur nýtt.


Stærstu og mikilvægustu gagnagrunnarnir sem keyptir eru á Sjávarútvegsbókasafnið er Aquatic Sciences and Fisheries Abstracts (ASFA) og Food Science and Technology Abstracts (FSTA). Báðir þessir gagnagrunnar hafa verið keyptir frá því þeir byrjuðu aðkoma út í prentuðu formi, þ.e. frá árinu 1969. Þeir eru nú til á geisladiskum á safninu. Auk þeirra eru keyptir nokkrir minni og sérhæfðir gagnagrunnar. Þar má nefna Microbiology Abstracts, Marine Pollution Research Titles og Oceanographic Literature Review.


Aðgengi að upplýsingum
Frá árinu 1981 hafa bókaverðir Sjávarútvegsbókasafnsins leitað að upplýsingum í erlendum gagnabönkum fyrir vísindamenn á Hafrannsóknastofnuninni og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins með því að tengjast þeim beint. Þessi háttur hefur verið hafður á síðan. Eftir að Internetið og vefurinn komu til sögunnar fóru vísindamenn að leita sjálfir að upplýsingum á vefnum en komust fljótt að raun um að þær upplýsingar sem þá vantaði voru ekki þar að finna nema í gagnabönkum sem greiða þarf fyrir aðgang að. Margir nota aðgang að tímaritabankanum UNCOVER, sem er ókeypis til leitar.


Árið 1995 var fyrsti geisladiskurinn keyptur á bókasafnið og gátu vísindamenn þá leitað sjálfir að upplýsingum á honum. Þessi þjónusta er mikið notuð og þykir orðið algerlega ómissandi. Fram að þeim tíma var aðgangur að sama gagnagrunni í gegn um gagnabankana DIALOG í Bandaríkjunum eða DIMDI í Þýskalandi að sama gagnagrunni með aðstoð bókavarðar. Sú þjónusta var einnig mikið notuð.


Upplýsingaþörf vísindamanna
Upplýsingaþörf vísindamanna er mjög mismunandi og fer eftir því í hvers konar umhverfi þeir starfa. Í stofnunum sem sinna mest útseldum verkefnum getur verið erfitt að nálgast upplýsingar sem eru í lokuðum skýrslum. Skýrslur um útseld verk eru oft lokaðar a.m.k. í tvö ár, sérstaklega ef um þróun á vörum eða vinnsluaðferðum fyrir fyrirtæki er að ræða. Slík verkefni eru mikilvægar heimildir fyrir alla sem vinna að hliðstæðum verkefnum. Sumir vísindamenn sinna hefðbundnum verkefnum, sem framkvæmd eru reglubundið og þurfa þá sjaldnar á upplýsingum að halda en þeir sem stunda grunnrannsóknir og þurfa oft á nýjustu upplýsingum að halda


Í sumum tilfellum koma sérfræðingar til okkar bókavarða þegar þeir eru komnir í þrot því þeir eru að verða of seinir að skila af sér og vantar nýjustu upplýsingar – helst í gær. Aðrir hafa vaðið fyrir neðan sig og leita fyrst sjálfir að upplýsingum eftir þeim leiðum sem þeir geta. Þegar það er ekki nóg, hafa þeir oftast samband við vini og kunningja sem eru að vinna á sama sviði og fá meiri upplýsingar hjá þeim og síðast koma þeir til bókasafnsfræðingsins og biðja hann um að leita í gagnabönkum


En hvernig leitar hinn dæmigerði vísindamaður að upplýsingum? Ég ætla að reyna að fara í gegn um það í fáum orðum skv. minni reynslu sem bókasafnsfræðings á þessum tveim fyrrnefndu stofnunum. Ég vil þó taka það fram að það sem fram kemur hér er ekki raunverulegt dæmi, heldur hvernig upplýsingaöflun vísindamanns gæti farið fram fram að þeim tímapunkti að hann leitar til mín sem bókasafnsfræðings.


Við getum hugsað okkur vísindamann sem hefur ákveðið að nauðsynlegt sé fyrir þjóðarbúið að rannsaka fæðuvenjur marhnúts af því að hann minnti að þorskseiði hafi komið úr maga marhnúts sem hann veiddi á bryggjunni heima hjá sér þegar hann var strákur. Til að þetta verkefni fari nú örugglega í gegn um nálaraugað sem öll slík verkefni þurfa að fara í gegn um á Hafrannsóknastofnuninni, ákveður hann að athuga hvort hann finni ekki eitthvað um þetta í vísindabókmenntunum. Hann byrjar á að fara í gegn um sérprentanasafnið sitt, sem er orðið töluvert að vöxtum eftir margra ára starf. Hann áttar sig þó fljótlega á því að það er ekki mjög árennilegt því hann hefur ekki haft tíma til að raða því almennilega upp. Það var allt í hrúgum á skrifstofunni, í hillunum, á borðinu og í gestastólnum. Að vísu var „system í galskapet“, í einni hrúgunni voru greinar um þorsk, í annarri greinar um afrán? Hann gefst fljótlega upp á sérprentanasafninu. Þá mundi hann eftir að vinur hans og skólabróðir hafði einhvern tíma rannsakað marhnút – best að senda honum tölvupóst og athuga hvort hann hefur ekki eitthvað fyrir hann. Nokkrum dögum seinna fær vísindamaðurinn okkar svar – vinurinn var löngu hættur að vinna með marhnút og vissi ekkert hvað hann hafði gert af þeim gögnum og greinum sem hann átti. Það var greinilega sama sagan með sérprentanasafnið hans.


Nú voru góð ráð dýr skiladagurinn nálgaðist óðum og ekkert var komið sem hann gæti notað til að styðja sína kenningu. Allt í einu datt honum Internetið í hug. Þar hlyti hann að finna allt sem hann þyrfti. Það var sagt svo. Hann leitaði að „sea scorpion“, enska nafninu á fiskinum, og viti menn, 27 svör komu að bragði. Þegar hann skoðaði svörin nánar voru þau kannski ekki svo góð. Eitt var um marhnút á frímerkjum, annað um hvaða fisktegundir sjóstangaveiðimaður gæti búist við að veiða við Grænland – ekkert um efnið hans.


Aftur reyndi hann og nú latneska nafnið á marhnútnum, „Myoxocephalus scorpius“. Nú komu 14 svör og eitt þeirra var eitthvað í áttina. Það var listi yfir dýrategundir við strendur Englands. Þar var marhnúturinn og bara þó nokkrar upplýsingar um hann. Meira að segja kom þar fram að hann át fiska af þorskaætt. En ekkert meira. Hvað át hann mikið og hvaða tegundir þorskfiska? Það var greinilega ekki hægt að komast lengra á netinu. Það væri líklega best að fara á bókasafnið og vita hvort eitthvað meira fyndist þar.


Bókavörðurinn tekur auðvitað vel á móti vísindamanninum okkar og tekur til við að leita í gagnabankanum ASFA á geisladiskum. Þar fengust 9 svör, tilvísanir í greinar í tímaritum sem til voru á bókasafninu og am.k. ein þeirra hafði að geyma upplýsingar sem vísindamaðurinn okkar gat notfært sér. Það var vísindalega sannað að marhnúturinn át þorskseiði.


Á þessu litla dæmi sést að það borgar sig að athuga alla þá möguleika sem fyrir hendi eru við leit að uppýsingum.


Lokaorð
Í dæminu okkar hér á undan var vísindamaðurinn okkar heppinn. Hann fann það sem hann leitaði að fljótt og vel, og það sem ekki spillti fyrir var að upplýsingarnar sem hann var að leita að voru til á bókasafninu. Það er þó ekki alltaf svo.


Vegna smæðar okkar getum við ekki keypt öll þau tímarit sem við viljum. Tímaritin eru líka dýr eins og geisladiskarnir og áskriftirnar að beinlínutengingum gagnabankanna. Við bókaverðir reynum að kaupa þau tímarit sem falla best að efnissviðum okkar vinnustaðar. Tímarit á jaðri efnissviðs eins bókasafns getur verið lykilrit annars safns og þannig reynum við að skipta ritunum á milli okkar á hagkvæman hátt. Síðan notum við millisafnalán.


Til að auðvelda notkun tímarita í söfnum okkar sendum við þeim vísindamönnum eða bókasöfnum sem um það biðja, ljósrit af efnisyfirlitum þeirra tímarita sem þeir hafa áhuga á, og ef þeir sjá áhugaverðar greinar í efnisyfirlitunum biðja þeir viðkomandi bókasafn um ljósrit af greininni. Tímaritin eru yfirleitt ekki lánuð út af söfnunum. Oft eru tímaritin ekki til á Íslandi og þarf þá að fá ljósrit af greinunum frá …
Eiríkur Þ. Einarsson, Sjávarútvegsbókasafni.