Safngögn

Safngögn og höfundaréttur

 

Hér á eftir er yfirlit um helstu tegundir hugverka með tilliti til eintakagerðar og notkunar á bókasöfnum, þ.e. birtingarform verka, eintakagerð samkvæmt undantekningarákvæðum og hvaða eintakagerð er samningsbundin. Yfirlitið er ekki tæmandi um allar tegundir hugverka.

 

Sama hugverk getur birst á ýmsum miðlum og leyfileg notkun er stundum misjöfn eftir miðlinum sem verkið birtist á. Nánari skýringar er einkum að finna í II. kafla höfundalaganna.

 

Seljendur efnis á Netinu geta gert sérstaka samninga við höfunda um nýtingu og aðgang að hugverkum, þar sem undantekningar geta verið fleiri eða færri en almennt segir í höfundalögum.

 

Nauðsynlegt er líka að hafa hugfast að ýmislegt efni er frjást til afnota, svo sem eins og opinbert efni og efni sem er eldra en gildistími höfundaréttar (sjá kaflann um gildistíma og IV. kafla höfundalaganna). Stundum gefa höfundar líka til kynna að verk séu frjáls til afnota. Nafns höfundar skal ávallt getið við birtingu og við tilvitnanir til verka, hvort sem þau njóta höfundarverndar eða ekki. Við eintakagerð úr vernduðum bókmenntaverkum og af tónverkum og kvikmyndaverkum til einkanota má ekki leita aðstoðar aðila sem hafa slíkt að atvinnu sinni.

 

Ástæða er til að vara söfn við að hlaða niður vernduðu efni af netinu nema ljóst sé að það sé þangað komið á löglegan hátt og niðurhleðsla leyfð. Slíkt gæti fallið undir hlutdeild í höfundaréttarbrotum (sjá VII kafla höfundalaganna).

 

Gagnagrunnar
Kvikmyndir
Ljósmyndir
Myndlistarverk
Ritverk
Tónverk
Tölvuforrit

 

Gagnagrunnar

Gagnagrunnar geta verið safn sjálfstæðra verka, upplýsinga eða annarra efnisatriða í skipulagðri heild, t.d. bókasafnsskrár, netorðabækur, greinasöfn, ritaskrár, staðreyndabankar. Þeir geta birst á stafrænu formi á diskum eða neti.

 

Leyfileg notkun:

Almenn notkun opinna gagnagrunna, svo sem uppfletting og útprentun greina eða staðreynda.

Samningsbundin notkun:

Um gagnagrunna sem aðgangur er seldur að, geta gilt mismunandi samningar.

 

Sérákvæði:

Útdráttur eða endurnýting gagnagrunns að hluta eða í heild er óheimil ef hún er skaðleg réttmætum hagsmunum framleiðenda grunnsins (sui generis réttur).
Sui generis réttur gildir í 15 ár frá næstu áramótum eftir að grunnurinn varð til eða var birtur almenningi. Verk eða verkshluti í gagnagrunni nýtur verndar í samræmi við form þeirra verka sem í honum eru.

 

Kvikmyndir

Kvikmyndir eru ýmist listrænar kvikmyndir, tónlistarmyndir eða fræðslumyndir. Þær geta birst á myndböndum eða stafrænu formi á geisladiskum eða neti.

 

Leyfileg notkun og eintakagerð samkvæmt undantekningarákvæðum:

Til einkanota — sem tilvitnun — í varðveisluskyni — ef eintök eru ófáanleg — til bráðabirgða við kennslu — stafræn skammtímavistun sem er tilfallandi eða liður í tækniferli — aðgangur innan safns að efni sem ekki fellur undir kaup- eða leyfissamninga með sérhæfðum endabúnaði, en aðeins í rannsóknarskyni eða vegna náms.

 

Samningsbundin eintakagerð:

Í fjárhagslegum tilgangi og í atvinnuskyni, t.d. vegna útgáfu — til útlána — stafræn miðlun út fyrir safn.

 

Ljósmyndir

Ljósmyndir geta verið listaverk, vinnuljósmyndir, safnaljósmyndir og birst á pappír eða stafrænu formi og/eða sem sýningargripir.

 

Leyfileg notkun og eintakagerð samkvæmt undantekningarákvæðum:

Til einkanota — sem tilvitnun — til bráðabirgða við kennslu — stafræn skammtímavistun sem er tilfallandi eða liður í tækniferli — í varðveisluskyni á bókasafni og til að fylla í eintök í safnkostinum sem vantar í og eru ófáanleg — aðgangur innan safns að efni sem ekki fellur undir kaup- eða leyfissamninga með sérhæfðum endabúnaði, en aðeins í rannsóknarskyni eða vegna náms.

 

Samningsbundin notkun og eintakagerð:

Í fjárhagslegum tilgangi og í atvinnuskyni, t.d. vegna útgáfu — til útlána — stafræn miðlun út fyrir safn.

 

Sérákvæði:

Eiganda er heimilt að sýna verkið og afhenda til sýningar á opinberum listasöfnum.

 

Myndlistarverk

Þau geta verið höggmyndir, málverk, teikningar eða vídeólistaverk og birst á prentuðu eða stafrænu formi á miðli eða sem sýningargripir.

 

Leyfileg notkun og eintakagerð samkvæmt undantekningarákvæðum:

Til einkanota — sem tilvitnun — í varðveisluskyni á bókasafni eða ef eintök eru ófáanleg — til bráðabirgða við kennslu — stafræn skammtímavistun,  tilfallandi eða liður í tækniferli — aðgangur innan safns að efni sem ekki fellur undir kaup- eða leyfissamninga með sérhæfðum endabúnaði, en aðeins í rannsóknarskyni eða vegna náms.

 

Samningsbundin notkun og eintakagerð:

Í fjárhagslegum tilgangi og í atvinnuskyni, t.d vegna útgáfu  — til útlána — stafræn miðlun út fyrir safn.
 
Sérákvæði:

Eiganda er heimilt að sýna verkið og afhenda til sýningar á opinberum listasöfnum.

 

Ritverk

Ritverk geta verið skáldverk, fræðirit, opinbert efni, kort og skýringarteikningar og söngtextar og birst á pappír, stafrænu formi, eða í flutningi, sem  leikverk, upplestur eða söngtextar. Opinbert efni er frjálst til afnota.

 

Leyfileg notkun og eintakagerð samkvæmt undantekningarákvæðum:

Til einkanota (grein eða hluti verks) — sem tilvitnun  — til útláns — eftirgerð og dreifing fyrir þá sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentletur — í varðveisluskyni á bókasafni og til að fylla í eintök í safnkostinum sem vantar í og eru ófáanleg — birting smærri verka í safnverkum vegna kennslu — stafræn skammtímavistun sem er tilfallandi eða liður í tækniferli — aðgangur innan safns að efni sem ekki fellur undir kaup- eða leyfissamninga með sérhæfðum endabúnaði, en aðeins í rannsóknarskyni eða vegna náms.

 

Samningsbundin eintakagerð:

Í fjárhagslegum tilgangi og í atvinnuskyni, t.d. vegna útgáfu  — stafræn miðlun út fyrir safn, t.d. millisafnalán og vegna fjarnáms  — vegna hljóðupptaka fyrir þá sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentletur þarf að semja um þóknun við rétthafasamtök.

 

Tónverk

Tónverk geta birst sem nótur á pappír eða í flutningi á plötu, snældu eða stafrænt á diski, neti eða í hljóðvarpi.

 

Leyfileg notkun og eintakagerð samkvæmt undantekningarákvæðum:

Til einkanota — sem tilvitnun — til útlána — eftirgerð prentaðra tónverka fyrir þá sem ekki geta nýtt sér venjulegt prentletur — í varðveisluskyni og til að fylla í eintök í safnkostinum sem eru ófáanleg — til bráðabirgða við kennslu — stafræn skammtímavistun sem er tilfallandi eða liður í tækniferli — aðgangur innan safns að efni sem ekki fellur undir kaup- eða leyfissamninga með sérhæfðum endabúnaði, en aðeins í rannsóknarskyni eða vegna náms.

 

Samningsbundin eintakagerð og miðlun:

Í fjárhagslegum tilgangi og í atvinnuskyni, t.d. vegna útgáfu  — stafræn miðlun út fyrir safn, t.d. millisafnalán og vegna fjarnáms.


Tölvuforrit

Þau geta verið sjálfstæð forrit eða gefin út með prentuðum ritum og birst á neti, böndum eða diskum.

 

Leyfileg notkun og eintakagerð samkvæmt undantekningarákvæðum:

Skammtímavistun og til að hlaða keyptu forriti (-um) inn á eigin tölvu, innanhússnet eða tölvur safns og fá aðgang að nauðsynlegum gögnum til eðlilegrar notkunar — ef forrit er samið á vegum safns eignast safnið höfundarétt að því nema um annað sé samið — til útláns ef forritið fylgir prentuðu riti.

 

Önnur notkun:

Forrit eru yfirleitt seld með ákveðnum skilmálum.