Samningar og gjöld

Samningar og gjöld til rétthafa vegna eintakagerðar og notkunar


Höfundar og aðrir rétthafar eiga tilkall til greiðslu vegna afnota á hugverkum sínum sem ekki falla undir undantekningarákvæði höfundalaganna um eintakagerð. Hér eru dæmi um nokkra samninga vegna eintakagerðar á bókasöfnum:


Samningur Fjölís og Menntamálaráðuneytisins um notkun ljósritaðs efnis í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum.
http://brunnur.stjr.is/mrn/logogregl.nsf/e1a8bef8a199bafa002567cb00530e44/AA972C6A8AC682BA002570300034C37E


Sveitarfélög og ýmsar ríkisstofnanir og fyrirtæki hafa einnig gert samninga við Fjölís www.fjolis.is um ljósritun úr vernduðum verkum. Ljósritun á bókasöfnum slíkra stofnana og fyrirtækja og þar með talin eintakagerð starfsmanna almenningsbókasafna í þágu starfseminnar sem slíkrar fellur undir þá. Ljósritun notenda á almenningsbókasöfnum fellur undir einkanot.


Samningur um stafræna eintakagerð í háskólum. http://www.hi.is/files/asset/stjornsysla/samningar/samn_stafr_eintakagerd.pdf


Samningur Blindrabókasafns Íslands og Rithöfundasambands Íslands um hljóðupptökur og miðlun þeirra http://www.bbi.is/um-safnid/log/


Höfundalögin kveða á um margs konar gjöld til höfunda vegna afnota hugverka.
Rithöfundar fá þóknun fyrir útlán verka sinna á bókasöfnum úr Bókmenntasjóði. Höfundar hljóð- og myndrita eiga rétt á endurgjaldi vegna upptöku til einkanota á verkum sem hafa verið gefin út eða útvarpað. Gjöldin eru lögð á miðla til eftirgerðar og einnig kemur til endurgjald af tækjum til upptöku.
Höfundar listaverka eiga rétt á gjaldi vegna endursölu verkanna í atvinnuskyni (25. gr.) Innheimtumiðstöð gjalda (11. gr.) og önnur rétthafasamtök sjá um innheimtu gjaldanna og úthlutun til höfunda


Um not verndaðra verka í atvinnuskyni eða fjárhagslegum tilgangi, þarf að semja eða fá leyfi fyrir. Rétthafasamtök sjá í flestum tilvikum um að semja um og innheimta þessi gjöld og eru útnefnd í höfundalögunum til að semja um hinar ýmsu tegundir hugverka. Þau geta líka samið um afnot hér á landi á verkum manna frá löndum sem veita Íslandi sambærilega vernd, einkum á Evrópska efnahagssvæðinu.


Innheimtusamtökin hafa mörg hver gagnkvæma samninga við sambærileg samtök í öðrum löndum um innheimtu gjalda. Á heimasíðum þessara samtaka er yfirleitt listi yfir þau. Ef íslensk rétthafasamtök hafa ekki umboð til að semja um efni frá ákveðnu landi þarf að leita til samsvarandi samtaka í því landi til að fá leyfi til að nota efnið. Það getur verið bæði erfitt og tímafrekt. Einnig er hægt að leita beint til rétthafanna sjálfra sem stundum leyfa afnot án endurgjalds.


Bókasöfn þurfa að semja um eintakagerð vegna miðlunar stafræns efnis út fyrir stofnun, t.d. vegna millisafnalána og ef þau vilja í öðrum tilgangi miðla stafrænu efni út fyrir safnið. Þau munu e.t.v. líka þurfa að hafa samvinnu við rétthafasamtök vegna eintakagerðar í atvinnuskyni eða fjárhagslegum tilgangi.
Kvikmyndaverk á stafrænu formi má ekki lána út án leyfis höfundar og þarf því að semja um það.


Nytjaleyfissamningar munu í auknum mæli ná yfir notkun og miðlun stafræns efnis og þarf að setja skýrar reglur um þetta vegna þess hve eintakagerð og miðlun er auðveld og fjölbreytileg.
Erfitt getur reynst að skilgreina hvað greiða þarf fyrir samkvæmt nytjaleyfissamningum og hvað ekki. Stafrænt efni á Netinu, sem framleitt er af opinberum stofnunum til upplýsingar eða fræðslu, er yfirleitt til frjálsra afnota og sama gildir um ýmislegt efni sem einstaklingar setja saman og veita opinn aðgang að. Einnig þarf að greina hvaða efni er fallið úr höfundarétti vegna aldurs. Sömuleiðis eru óljós ákvæði um það hvenær höfundi ber að fá sanngjarna þóknun vegna eintakagerðar.


Kaupleigusamningar eru annars eðlis. Hjá útgáfu- eða upplýsingafyrirtækjum á Netinu er gífurlegt magn efnis til sölu og er það yfirleitt með tæknilegum aðgangshindrunum. Einstaklingar eða bókasöfn og stofnanir geta keypt aðgang að efninu og samið um notkunina. Þetta á við um fjölmörg stafræn gagnasöfn á viðskiptagrundvelli (commercial) sem bókasöfn og almenningur hefur aðgang að á Netinu t.d. á Hvar.is. Um þau hefur verið samið og greiddar fyrir háar fjárhæðir.
Ákvæði í þessum samningum eru mismunandi eftir því við hvaða fyrirtæki er samið eða hvers eðlis efnið er en þó eru ákveðin atriði sem yfirleitt fylgja með í kaupunum. Oft taka söfn sig saman og mynda samtök (consortia) um kaupin og ná þannig oft hagkvæmari samningum.
Mynduð hafa verið alþjóðleg samtök ICOLC (International Coalition of Library Consortia) http://www.library.yale.edu/consortia/ til að skiptast á upplýsingum um nytjaleyfi og efna til umræðna um sameiginlega hagsmuni.
Hér á landi er Landsaðgangur að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum rekinn af Landsbókasafni Íslands ? Háskólabókasafni með þjónustusamningi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið. Landsaðgangurinn fær bæði bein fjárframlög af fjárlögum og frá bókasöfnum, stofnunum og fyrirtækjum í landinu. Vefurinn hvar.is er starfræktur af Landsaðgangi og sérstök stjórnarnefnd tekur þátt í stefnumótun um fjármál, efnisval og samninga við seljendur.