Search

Skólasöfn fyrir alla í námi og kennslu

Skólasöfn fyrir alla í námi og kennslu

Stefnuyfirlýsing UNESCO/IFLA um skólasöfn
 
Skólasöfn miðla upplýsingum og hugmyndum sem eru undirstaða þess að ná góðum árangri í nútíma þjóðfélagi sem í auknum mæli byggist á upplýsingum og þekkingu. Á skólasöfnum tileinka nemendur sér námsleikni sem þeir búa að ævilangt og auðga ímyndunarafl sitt sem auðveldar þeim að lifa sem ábyrgir borgarar.

Hlutverk skólasafna

Skólasöfn bjóða upp á þjónustu við nám, bækur og heimildir sem gera öllum í skólasamfélaginu kleift að temja sér gagnrýna hugsun og vera virkir notendur upplýsinga á hvaða formi og á hvaða miðli sem er, ennfremur mynda skólasöfn tengsl við bókasafns- og upplýsingasamfélagið í heild sinni, í samræmi við grundvallaratriði í Yfirlýsingu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um almenningsbókasöfn.

Starfsfólk bókasafna stuðlar að notkun bóka og annars upplýsingaefnis, frá skáldritum til fræðibóka, frá prentuðum gögnum til stafræns efnis, bæði á eigin safni og á öðrum söfnum. Safnkostur skólasafna er mikilvæg viðbót við kennslubækur, kennsluefni og kennsluaðferðir.

Það hefur verið sýnt fram á að þegar bókasafns- og upplýsingafræðingar og kennarar vinna saman, ná nemendur betri tökum á læsi, lestri, námi, verkefnum sem og upplýsinga- og samskiptatækni.

Allir í skólasamfélaginu verða að hafa jafnan aðgang að þjónustu skólasafna, án tillits til aldurs, kynþáttar, kynferðis, trúar, þjóðernis, tungumáls, starfs eða þjóðfélagsstöðu. Sértæk þjónusta og safngögn verða að vera fyrir hendi fyrir þá sem eru ófærir um að notfæra sér venjubundna þjónustu og hefðbundin gögn safna.

Aðgengi að þjónustu og safngögnum ætti að byggjast á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og ætti ekki að vera undirorpið neins konar hugmyndafræðilegri, stjórnmálalegri eða trúarlegri ritskoðun eða viðskiptaþvingunum.

Fjármögnun, lagasetning og samvinna

Skólasöfn eru frumskilyrði fyrir sérhverja langtíma stefnumörkun um læsi, menntun, aðgengi að upplýsingum sem og efnahagslega, félagslega og menningarlega þróun. Þar sem skólasöfn eru í verkahring sveitarfélaga, svæðisstjórna og ríkis verður að finna þeim stað í sértækum lögum og reglugerðum. Þau verða að hafa nægilegt og stöðugt fjármagn fyrir þjálfað starfsfólk, safnkost, tækni og aðstöðu. Aðgangur að skólasöfum á að vera ókeypis.

Skólasöfn ættu að vera hluti af bókasafns- og upplýsingakerfi sveitarfélags, svæðis og þjóðar.

Þar sem skólasöfn deila aðstöðu og/eða safnefni með öðrum safnategundum, svo sem almenningsbókasafni, verður að viðurkenna og taka tillit til sértækra markmiða skólasafnsins.

Markmið skólasafna

Skólasöfn eru óaðskiljanlegur hluti menntunarferlisins.

Eftirfarandi atriði eru grundvallaratriði í þróun læsis, upplýsingalæsis, kennslu, náms og menningar og eru kjarninn í þjónustu skólabókasafna:

Að styðja við og bæta fræðslumarkmið eins og þau eru sett fram í stefnumörkun og námskrá skólans.
Að þroska og halda við hjá börnum og unglingum ánægju af lestri og námi og notkun annarra bókasafna út í gegnum lífið.
Að bjóða upp á tækifæri og reynslu við að skapa og nota upplýsingar til aukinnar þekkingar, til skilnings, hugmyndasköpunar og ánægju.
Að styðja alla nemendur til námsleikni og við að þjálfa með sér færni við að meta og nota upplýsingar, án tillits til forms, stærðar og gerðar eða miðils, að meðtöldum skilningi á samskiptaleiðum innan samfélagsins.
Að veita aðgang að heimildum í sveitarfélaginu, landinu og í alþjóðasamfélaginu, ennfremur tækifæri til að kynnast margvíslegum hugmyndum, reynslu og skoðunum.
Að skipuleggja starfsemi sem stuðlar að menningarlegri og félagslegri meðvitund og skilningi.
Að vinna með nemendum, kennurum, stjórnendum og foreldrum að því að ná fram markmiðum skólans.
Að kunngera þá heildarhugmynd að vitsmunalegt frelsi og óheftur aðgangur að upplýsingum séu frumskilyrði fyrir virkum og ábyrgum ríkisborgararétti og þátttöku í lýðræðisríki.
Að efla lestur og koma heimildum og þjónustu skólasafna á framfæri við skólasamfélagið í heild sinni og ennfremur út fyrir það.
Skólasafnið rækir ofangreinda starfsemi með því að marka og þróa stefnu og þjónustu, velja og afla heimilda, sjá fyrir efnislegu og vitsmunalegu aðgengi að viðeigandi heimildum upplýsinga, sjá fyrir aðstöðu til kennslu og ráða þjálfað starfsfólk.

Starfsfólk

Fagmenntaður skólasafnstjóri er sá starfsmaður sem ber ábyrgð á skipulagningu og stjórn skólasafnsins með aðstoð annarra starfsmanna safnsins og í samvinnu við aðra í skólasamfélaginu og í samstarfi við almenningsbókasöfn og aðrar stofnanir.

Hlutverk skólasafnstjóra getur verið mismunandi í samræmi við fjárhagslegt bolmagn, námsskrá og kennsluaðferðir skóla. Það fer einnig eftir fjárhagsstöðu og löggjöf hvers lands. Tiltekin þekkingarsvið eru ómissandi ef skólasafnstjórar eiga að geta þróað og starfrækt skilvirka þjónustu á skólasafni, þ.e. fjármála-, bókasafns- og upplýsingastjórnun svo og kennslufræði.

Í samfélagi þar sem tölvusamskipti aukast stöðugt, verða skólasafnstjórar að vera færir um að skipuleggja og kenna bæði kennurum og nemendum margs konar færni í meðferð upplýsinga. Þess vegna verður að gera skólasafnstjórum kleift að þróa stöðugt faglega færni.

Starfsemi og stjórnun

Til að tryggja skilvirka og gegnsæja starfsemi er nauðsynlegt:

Að stefna um þjónustu skólasafns sé sett fram og markmið, forgangsröðun og þjónusta í tengslum við námskrá skólans skilgreind.
Að skólasafnið sé skipulagt og rekið í samræmi við staðla á fagsviðinu.
Að þjónustan sé aðgengileg öllum í skólasamfélaginu og starfrækt í samræmi við yfirvöld og í nánum tengslum við samfélagið.
Að stuðla að því að safnið starfi í samvinnu við kennara, skólayfirvöld, stjórnendur, foreldra aðra bókasafns- og upplýsingafræðinga og aðra samfélagshópa.
 

Útfærsla stefnuyfirlýsingarinnar

Stjórnvöld, fyrir tilstilli þess fagráðuneytis sem fer með menntamál, eru hvött til að þróa stefnumörkun, áætlanir og reglugerðir til að útfæra meginatriði stefnuyfirlýsingarinnar.

Stefnuyfirlýsingunni ætti að dreifa til stofnana sem halda uppi grunnnámi og endurmenntun fyrir bókasafns- og upplýsingafræðinga sem og kennara.

Þeir sem taka ákvarðanir á landsmælikvarða og í sveitarstjórnum svo og bókasafnasamfélagið í heild sinni eru hér með hvött til að útfæra þá meginþætti sem settir eru fram í stefnuyfirlýsingunni.

Stefnuyfirlýsingin um skólasöfn (The School Library Manifesto) var tekin saman af IFLA (International Federation of Library Associations and Institutions), Alþjóðlegum samtökum bókavarðafélaga og stofnana og staðfest af UNESCO (United Nations Educational, Scientific and Cultural Organization), Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna á Aðalráðstefnu (General Conference) stofnunarinnar í nóvember 1999.

Þórdís T. Þórarinsdóttir þýddi ©2002
 
 
Upplýsing ? Félag bókasafns- og upplýsingafræða – http://www.bokis.is

Menntamálaráðuneytið styrkti útgáfu stefnuyfirlýsingarinnar á íslensku