Skýrsla stjórnar 15. maí 2001 til 13. maí 2002
Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða varð til 1. janúar 2000 við sameiningu fyrri bókavarðafélaga.
Stjórn félagsins, kosin á 2. aðalfundi 15. maí 2001, skiptist þannig: Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður, tengiliður við stjórnunarsvið; Svava H. Friðgeirsdóttir varaformaður, tengiliður við fræðslu- og ráðstefnusvið. Lilja Ólafsdóttir, gjaldkeri, tengiliður við fjármálasvið; Ingibjörg Hafliðadóttir ritari, viðheldur félagatali; Harpa Rós Jónsdóttir meðstjórnandi, vefstjóri og tengiliður við fag- og útgáfusvið.
Alls voru haldnir 14 stjórnarfundir á starfsárinu. Hér verður sagt almennt frá helstu verkefnum sem stjórn félagsins hefur unnið að. Stjórnin birtir reglulega á heimasíðu félagsins og/eða í Fregnum niðurstöður þeirra verkefna sem unnið er að. Auk neðanritaðs vann stjórnin áfram að uppbyggingu og skipulagningu félagsins.
Skrifstofa félagsins er opin tvær klukkustundir á viku á fimmtudögum kl. 15:30-17:30 frá 1. október til 7. desember og frá 15. janúar til 16. maí. Stjórnarmenn skiptast á um að vinna á skrifstofunni.
Stjórnin veitti umsögn um eitt frumvarp til laga á starfstímabilinu (Lög skylduskil) og eina reglugerð (Reglugerð um Blindrabókasafn Íslands). Fyrir atbeina Upplýsingar, Katalogosar og Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga var lögum um starfsheitið bókasafnsfræðingur breytt á starfsárinu. (Fregnir 1/2002).
Sótt hefur verið um styrki til ráðstefnu- og fundaferða til menntamálaráðuneytisins, ennfremur til sérverkefna, s.s. um styrk vegna aðlögunar kynningarefnis ALA og IFLA á bókasöfnum – @ your library – og um framhaldsstyrki til námsefnisgerðar vegna náms í bókasafnstækni og til að gefa út fræðsluefni um nýtingu upplýsingatækni. Ekki hafa ennþá borist svör við síðastnefndu umsóknunum. Þá hefur NORDINFO og Norræna ráðherranefndin veitt ferðastyrki vegna norræns samstarfs.
Stjórnin ritaði menntamálaráðherra þann 21. október 2001 bréf með tillögu um stofnun Þróunarsjóðs bókasafna (Fregnir 3/2001, s. 38-39). Ekkert svar hefur borist við bréfinu.
Upplýsing á aðild að eftirfarandi félagasamtökum: Bókasambandi Íslands, Fagráði um upplýsingatækni, IBBY, EBLIDA, IASL, IFLA og NVBF. Stjórnin gefur tvisvar á ári skýrslu til NVBF um starfsemi félagsins, þ.e. fyrir stjórnarfundi félagsins. Fulltrúar NVBF komu tvisvar á stjórnarfundi Upplýsingar til samráðs.
Á starfsárinu sóttu samtals 38 (43) um aðild að félaginu 1 (3) nemi, 27 (36) einstaklingar og 10 (4) stofnanir). Þessum aðilum hafa verið send bréf og lög félagsins. Alls bárust stjórn 14 (8) úrsagnir 11 (3) einstaklingar og 3 (5) stofnanir). Í lok starfsársins höfðu samtals 390 (402) greitt félagsgjald fyrir árið 2001, 23 (30) nemar, 317 (318) einstaklingar og 50. (54) stofnanir. Ógreidd árgjöld fyrir árið 2001 (miðað við 31. mars) eru alls 110 (130), 10 (5) nemar, 90 (112) einstaklingar og 10 (13) stofnanir.
Samkvæmt lögum félagsins er stjórn heimilt að taka af félagaskrá þá sem ekki hafa greitt árgjöld tvö ár í röð. Um síðustu áramót voru 96 félagar teknir af skrá þess vegna. Stjórnin setti sér þær reglur að þeir sem skulda árgjald um áramót frá árinu áður detta sjálfkrafa út af útsendingarlistum félagsins þannig að virkir félagar hafi sem minnstan kostnað af þeim sem ekki greiða árgjöldin.
Stjórn Upplýsingar hefur mótað stefnu um að félagsmenn njóti betri kjara, a.m.k. sem nemur 20%, en utanfélagsmenn á námskeiðum og viðburðum sem staðið er fyrir innan vébanda félagsins og stjórn og/eða félagsmenn eiga þátt í að skipuleggja. Gildir þetta m.a. um endurmenntunarnámskeið og Landsfund bókavarða.
Útgáfustarfsemi – viðurkenningar ? kynningarstarf
Í maí ár hvert er tímaritið Bókasafnið gefið út sem er fagtímarit á sviði bókasafns- og upplýsingafræða. Sérstök ritnefnd hefur veg og vanda af útgáfu blaðsins. Blaðið er birt á Netinu undir slóðinni www.bokasafnid.is
Í júní 2001 var gengið frá samningi við Friðrik G. Olgeirsson sagnfræðing um ritun Sögu íslenskra bókavarðafélaga og um haustið var stofnuð fimm manna ritnefnd (Fregnir 2/2001, s. 47-48; 3/2001, s. 3 og 1/2002, s. 4). Fyrstu drög handrits liggja fyrir og stefnt er því að ritið komi út nú í árslok.
Stjórn félagsins hefur gefið út þrjú tölublöð Fregna á starfsárinu. Stjórn Upplýsingar breytti brotinu í A4 og á starfsárinu hefur umfang blaðsins aukist verulega. Árið 2001 var blaðið samtals 152 (100) síður. Í fréttabréfinu eru birtar frásagnir og skýrslur um starfsemi ýmissa fulltrúa og nefnda á vegum Upplýsingar, fréttir og greinar um það sem er á döfinni í bókasafnaheiminum á Íslandi og erlendis, auk frásagna af forvitnilegum ráðstefnum sem félagsmenn hafa sótt. Ánægjulegt er hve ötulir félagsmenn eru við að skrifa áhugaverðar greinar í blaðið.
Haldið hefur verið áfram uppbyggingu heimasíðu félagsins www.bokis.is sem fengið hefur nýtt útlit með einkennismerki félagsins. Ýmsar nýjar upplýsingar hafa verið settar inn á starfsárinu, s.s. siðareglur félagsins.
Á aðalfundi Upplýsingar nú eru árvissar viðurkenningar fyrir bestu íslensku fræðibækur ársins (2001) veittar í 10. sinn (Fræðibókaorða Upplýsingar). Á starfsárinu var ákveðið að taka upp veitingu árlegrar Veforðu Upplýsingar ? viðurkenning fyrir besta vef bókasafns eða upplýsingamiðstöðvar á Íslandi (Fregnir 1/2002). Fyrirmyndin er Veforða NVBF, veitt fyrir besta vef rannsóknarsafna á Norðurlöndum (Fregnir 1/2002, s. 22-23).
Á starfstímabilinu hefur stjórn Upplýsingar unnið að kynningu á félaginu. Send voru kynningarbréf til nýútskrifaðra bókasafns- og upplýsingafræðinga og 150 bókasafna sem ekki eru í félaginu og þeim boðin styrktaraðild að félaginu. Formaður og gjaldkeri kynntu félagið þann 18. febrúar fyrir nemum í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Á heimasíðu félagsins er að finna efni um félagið og tengt því. Fyrir ráðstefnu EBLIDA í Haag 3. og 4. maí 2002 sem formaður sótti tók hann saman, skv. beiðni, Country Report, sem gefið var út á ráðstefnunni, um félagið og það helsta sem er á döfinni á sviði bókasafns- og upplýsingamála hér á landi. Formaður hefur tekið saman ýmis konar kynningarefni, verklagsreglur, eyðublöð og annað efni til að setja á heimasíðu félagsins. Grein um félagið birtist í finnska blaðinu Tietopalvelu (Information Services) sem gefið var út á ensku um norræn bókavarðafélög í tilefni af NORD IoD ráðstefnunni sem haldin var 30.05-01.06.2001.
Stjórn Upplýsingar hefur látið útbúa penna með einkennismerki félagsins sem dreift er hér á aðalfundinum. Merkið var tilnefnt, sem eitt af fimm bestu merkjum ársins, til ÍMARK verðlauna 2002 (Fregnir 1/2002, s. 17).
Ráðstefnur – fræðslufundir
Formaður Upplýsingar ásamt nokkrum öðrum félagsmönnum sóttu 67. árlegu ráðstefnu IFLA sem haldin var í Boston 16.-25. ágúst 2001. (Fregnir 26/3, s. 6-11).
Formaður tók þátt í pallborði um bókasafnsmál á ráðstefnu Nord I&D haldin var í Reykjavík í lok maí 2001 og Upplýsing átti aðild að. Heimasíða ráðstefnunnar er hýst á vefsetri félagsins (Fregnir 2/2001, s.42).
Lilja Ólafsdóttir gjaldkeri Upplýsingar sótti III. Nordic-Baltic Library Meeting sem haldið var í Tallin í Eistlandi dagana 25. og 26. október 2001 og flutti þar erindi sem hún og formaður tóku saman og nefndist The Information Society in Iceland and the Role of Libraries ? a short Overview (Fregnir 3/2001, s. 22-23).
Fulltrúi Upplýsingar, Ásdís H. Hafstað, sótti ráðstefnu NORDINFO um upplýsingalæsi í Helsinki 29.-30. október (Fregnir 26/3, s. 17-18). Í framhaldi af ráðstefnunni var ákveðið að stofna Áhugahóp um upplýsingalæsi (Fregnir 3/2002, s. 3).
Þann 13. desember sl. var haldinn fræðslufundur á Akureyri, sem endurvarpað var með fjarfundabúnaði til Reykjavíkur. Astrid Margrét Magnúsdóttir kynnti MA ritgerð sína: An evalution of information literacy initatives in higher education. Implications for the University of Akureyri Library. (Fregnir 27/1, s. 3-4). Þeim sem ljúka framhaldsgráðu í bókasafnsfræði er gefinn kostur á að halda fyrirlestur um lokaverkefni sín á vegum félagsins.
Þann 5. október sótti formaður Haustfund samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna og hélt þar erindi m.a. um hugsanleg samstarfsverkefni, s.s. um kynningarefni um bókasöfn. Stjórn Upplýsingar sótti um aukaaðild að samtökunum til að efla samstarf félaganna.
Að beiðni IFLA var formaður fulltrúi samtakanna á árlegri ráðstefnu International Council on Archives (ICA) sem nefndist XXXV International Conference of the Round Table on Archives og haldin var í Reykjavík 9.-13. október 2001 (Fregnir 3/2001, s. 28-29). Formaður skilaði skýrslu til IFLA um fundinn.
Ólöf Benediktsdóttir sótti sem fulltrúi félagsins samráðsfund norrænna bókavarða um höfundarréttarmál (Nordisk samarbeid om opphavsret) í Osló 5. nóvember (Fregnir 3/2001, s. 4-6). Í framhaldinu var stofnaður Samstarfshópur um höfundarréttarmál með þátttöku fulltrúa frá öllum safnategundum (Fregnir 3/2002, bls. 6-7).
Fulltrúi Upplýsingar, Þorbjörg Karlsdóttir, sótti vinnufund Netverks um barnabókasöfn og menningu í Helsinki 9.- 11. nóvember 2001 (Fregnir 3/2001, s. 23-24)
21. febrúar stóð Upplýsing ásamt Landsbókasafni Íslands ? Háskólabókasafni fyrir málþingi um efnisaðgang að stafrænum gögnum í fyrirlestrasal Þjóðarbókhlöðu undir yfirskriftinni: Náum áttum í nýjum gáttum. Þingið mæltist vel fyrir og alls 94 skráðu sig á þátttakendalista þess (Fregnir 1/2002, s. 13-14).
Opinn samráðsfundur með fulltrúum félagsins í nefndum og ráðum og starfandi nefndum félagsins um starfsemi félagsins og framtíðarskipulag þess var haldinn þann 4. apríl síðastliðinn að Lágmúla 7. Nánar verður sagt frá fundinum í næstu Fregnum sem var að mati stjórnar mjög gagnlegur.
Upplýsing átti aðild aðárlegri ráðstefnu um barnamenningu með áherslu á barnabókmenntir sem haldin var í Gerðubergi 20. apríl 2002. Fulltrúi Upplýsingar í undirbúningsnefnd er Þorbjörg Karlsdóttir.
Formaður sótti árlegan fulltrúaráðsfund EBLIDA, sem jafnframt var 10 ára afmælishátíð samtakanna. Fundurinn var haldinn í Haag dagana 3. og 4. maí síðastliðinn og sagt verður frá honum í næsta tölublaði Fregna.
Í undirbúningi er 5. samnorræna ráðstefnan um millisafnalán sem haldin verður í Reykjavík 3.-5. október.
Stjórnarmenn hafa setið ýmsa fundi sem fulltrúar félagsins, t.d. hjá Sameignarfélaginu Ásbrú, fund hjá menntamálanefnd um breytingu á lögum um Skylduskil til safna.
Stjórn Upplýsingar ásamt fræðslu- og skemmtinefnd skipulögðu jólagleði félagsins 30. nóvember 2001.
Menntunarmál – kynnisferðir
Upplýsing stendur fyrir endurmenntunarnámskeiðum í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands. Skuldlausir félagar fá 10% afslátt á námskeiðum á sviði bókasafns- og upplýsingafræði. Á haustönn voru skipulögð námskeiðin: Skráning heimilda I, Vefsmíðar I, Markaðssetning bókasafna, Þjónusta og viðmót starfsfólks á bókasöfnum og á vorönn: Lyklun heimilda I, Þjónusta og viðmót starfsfólks á bókasöfnum, Vefsmíðar I, Rafræn gagnasöfn, Skráning heimilda I og Netveiðar ? Faggáttir. Skipulagning námskeiða á haustönn 2002 stendur yfir.
Formaður Upplýsingar hefur í samvinnu við fulltrúa frá Samtökum forstöðumanna almenningsbókasafna unnið að undirbúningi og skipulagningu náms í bókasafnstækni í samræmi við námskrá sem gengið var frá á síðasta ári (Fregnir 1/2001, s. 5-12). Unnið er að uppbyggingu námsins í framhaldsskólakerfinu og skipulagningu og útfærslu þess fyrir starfandi bókaverði. Starfshópurinn sem nefnist nú Áhugahópur um menntun í bókasafnstækni hefur haldið 10 fundi starfsárinu (Fregnir 1/2002, s. 14-15). Hópurinn hefur m.a. sótt um styrk til Starfsmenntasjóðs félagsmálaráðuneytis í samvinnu við Borgarholtsskóla og fékk á dögunum úthlutað kr. 3.000.000 vegna verkefnisins: Starfsnám fyrri ófaglærða bókaverði.
Úr Ferðasjóði Upplýsingar er í ár úthlutað sjö styrkjum, að upphæð kr. 20.000 hver. Stjórn félagsins hefur haft milligöngu um skipulagningu tveggja kynnisferða sænskra bókavarða til Íslands.
Störf faghópa og fulltrúa
Innan vébanda Upplýsingar fer fram öflugt starf í ýmsum nefndum og stjórnum sem fulltrúar félagsins taka þátt í og er það starf eðlilega drjúgur hluti hins faglega starfs félagsmanna. Yfirlit um þá starfsemi verður flutt á fundinum og skýrslur um starfsemina ásamt skýrslu stjórnar verða birtar í næsta tölublaði Fregna. Á yfirliti sem liggur hér frammi um þá sem taka þátt í félagsstarfinu eru yfir 50 nöfn á blaði og mörg þeirra koma fyrir oftar en einu sinni.
Að lokum flytur stjórnin hér með öllum þeim sem starfa fyrir félagið á einn eða annan hátt alúðarþakkir og ennfremur öllum þeim félagsmönnum sem halda merki Upplýsingar á lofti með störfum í þágu félagsheildarinnar. – Að síðustu vill undirrituð þakka stjórnarmönnum samstarfið og mikið vinnuframlag í þágu félagsins.
f.h. stjórnar Upplýsingar
Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður