Skýrsla stjórnar 2003

Skýrsla stjórnar 13. maí 2002 til 12. maí 2003
 
Stjórn félagsins, kosin á 3. aðalfundi 13. maí 2002, skiptist þannig: Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður, tengiliður við stjórnunarsvið; Svava H. Friðgeirsdóttir varaformaður, tengiliður við fræðslu- og ráðstefnusvið. Lilja Ólafsdóttir, gjaldkeri, tengiliður við fjármálasvið; Ingibjörg Hafliðadóttir ritari, viðheldur félagatali; Vala Nönn Gautsdóttir meðstjórnandi, vefstjóri og tengiliður við fag- og útgáfusvið.

Alls voru haldnir 15 (14) stjórnarfundir á starfsárinu. Hér verður sagt almennt frá helstu verkefnum sem stjórn félagsins hefur unnið að. Stjórnin birtir reglulega á heimasíðu félagsins og/eða í Fregnum fréttir af framvindu þeirra verkefna sem unnið er að. Auk neðanritaðs vann stjórnin almennt að uppbyggingu og skipulagningu félagsins og svaraði ýmsum fyrirspurnum sem bárust sem voru óvenju margar á árinu.

Skrifstofa félagsins var opin tvær klukkustundir á viku á fimmtudögum kl. 15:30-17:30 frá 24. október til 5. desember og frá 16. janúar til 15. maí. Stjórnarmenn skiptast á um að vinna á skrifstofunni.

Sótt hefur verið um styrki til ráðstefnu- og fundaferða til menntamálaráðuneytisins, ennfremur til sérverkefna. Menntamálaráðneytið veitir félaginu árlega styrki til starfseminnar. Ennfremur veitti ráðuneytið framhaldsstyrki til námsefnisgerðar vegna náms í bókasafnstækni og til að gefa út fræðsluefni um nýtingu upplýsingatækni. Þá hefur Norræna ráðherranefndin veitt ferðastyrki vegna norræns samstarfs.

Stjórnin ítrekaði erindi til menntamálaráðherra með bréfi dags. þann 2. mars 2003 um stofnun Þróunarsjóðs bókasafna (Fregnir 3/2001, s. 38-39 og Fregnir 1/2003, s. 7-8). Ekkert svar hefur borist frá ráðuneytinu.

Samkvæmt beiðni menntamálaráðuneytisins tilnefndi stjórnin fulltrúa í stjórn Landsbókasafn Íslands ? Háskólabókasafns (Eydís Arnviðardóttir aðalfulltrúi og Anna Torfadóttir varafulltrúi) og í stjórn Blindrabókasafns Íslands (Erla Kristín Jónasdóttir aðalfulltrúi og Ragnhildur Árnadóttir varafulltrúi). Nú á dögunum tilnefndi stjórnin í Nefnd til að kanna hvort hagkvæmt sé að setja heildarlög fyrir öll bókasöfn landsins (Þórdís T. Þórarinsdóttir aðalmaður og Pálína Héðinsdóttir varamaður).

Nokkrar fyrirspurnir hafa borist félaginu erlendis frá vegna undirskriftar Íslands að GATS samningi (Fregnir 3/2001, bls. 14 og 1/2003, bls. 25-27). Félagið sendi utanríkisráðuneytinu fyrirspurn vegna málsins í bréfi dags. 8. október 2002. Eftir ítrekanir barst svar dags. 4. apríl 2003. Fyrirhugað er að halda félagsfund um málið á næstunni en þann 8. apríl komu þeir Einar Ólafsson og Páll H. Hannesson á stjórnarfund til samráðs um málið.

Upplýsing á aðild að eftirfarandi félagasamtökum: Bókasambandi Íslands, Fagráði um upplýsingatækni, IBBY, EBLIDA, IASL, IFLA og NVBF. Stjórnin gefur tvisvar á ári skýrslu til NVBF um starfsemi félagsins, þ.e. fyrir stjórnarfundi félagsins. Fulltrúar Upplýsingar í stjórn NVBF komu þrisvar á stjórnarfundi til samráðs. Nú í vor lét Hrafnhildur Hreinsdóttir af formennsku í NVBF og Guðrún Pálsdóttir tók sæti sem fulltrúi Upplýsingar í stjórn NVBF. Aðrir utanaðkomandi gestir á stjórnarfundum auk félagsmanna voru t.d. fulltrúi frá Endur­menntun og frá BSRB vegna GATS samnings um bókasöfn.

Á starfsárinu sóttu samtals 33 (38) um aðild að félaginu, 1 (1) nemi, 25 (27) ein­staklingar og 7 (10) stofnanir. Þeim hafa verið send bréf og lög félagsins. Alls bárust stjórn 11 (14) úrsagnir 9 (11) einstaklingar og 2 (3) stofnanir). Í lok starfsársins höfðu samtals 417 (390) greitt félagsgjald fyrir árið 2002, 30 (23) nemar, 324 (317) einstaklingar og  63 (50) stofnanir. Ógreidd árgjöld fyrir árið 2002 (miðað við 31. mars) eru alls 96 (110), 5 (10) nemar, 78 (90) einstaklingar og 13 (10) stofnanir.

Samkvæmt lögum félagsins er stjórn heimilt að taka af félagaskrá þá sem ekki hafa greitt árgjöld tvö ár í röð og um síðustu áramót voru 43 (96) teknir af skrá. Um mánaðamótin febrúar/mars voru greiðsluseðlar fyrir árgjald 2003 sendir út með gjalddaga 15. apríl og eindaga 5. júní. Í ljósi þess hve póstgjöld fyrir tímarit hækkuðu á síðastliðnu ári hefur stjórnin mótað þær verklagsreglur að sé félagsmaður ekki búinn að greiða 2003 árgjaldið fyrir 5. júní verður hætt að senda Fregnir og Bókasafnið þannig að virkir félagar hafi sem minnstan kostnað af þeim sem ekki greiða árgjöldin.

Stjórn Upplýsingar hefur mótað stefnu um að félagsmenn njóti betri kjara, um 20%, en utanfélagsmenn á námskeiðum og viðburðum sem staðið er fyrir innan vébanda félagsins og stjórn og/eða félagsmenn eiga þátt í að skipuleggja. Gildir þetta m.a. um endurmenntunarnámskeið og Landsfund bókavarða.

Á starfsárinu var stofnaður lokaður póstlisti [email protected] fyrir fullgilda félagsmenn Upplýsingar til að auðvelda dreifingu upplýsinga til félagsmanna. Stjórnin keypti lénið upplysing.is sem losnaði á árinu.

Útgáfustarfsemi  –  viðurkenningar  ?  kynningarstarf
Í apríl/maí ár hvert er tímaritið Bókasafnið gefið út sem er fagtímarit á sviði bókasafns- og upplýsingafræða. Sér­stök ritnefnd hefur veg og vanda af útgáfu blaðsins. Blaðið er birt á Netinu undir slóðinni www.bokasafnid.is.

Stjórn félagsins gaf út þrjú tölublöð Fregna – Fréttabréfs Upplýsingar á starfsárinu (júní, nóvember og mars). Árið 2002 var blaðið samtals 128 (152) síður. Í fréttabréfinu eru birtar frásagnir og skýrslur um starfsemi ýmissa fulltrúa og nefnda á vegum Upplýsingar, fréttir og greinar um það sem er á döfinni í bókasafnaheiminum á Íslandi og erlendis, auk frásagna af forvitnilegum ráðstefnum sem félagsmenn hafa sótt. Ánægjulegt er hve ötulir félagsmenn eru við að skrifa áhugaverðar greinar í bæði blöðin og kann stjórn þeim bestu þakkir fyrir.

Í júní 2001 var gengið frá samningi við Friðrik G. Olgeirsson sagnfræðing um ritun Sögu íslenskra bókavarðafélaga og um haustið var stofnuð fimm manna ritnefnd. Ritun sögunnar er nú á lokastigi og um þessar mundir er unnið að söfnun myndefnis. Stefnt er því að ritið komi út nú í árslok. Þjónustumiðstöð bókasafna, Fjármálaráðuneytið og Menningarsjóður hafa styrkt útgáfuna. Framvinduskýrslur um verkið hafa birst reglulega í Fregnum (2/2001, s. 47-48; 3/2001, s. 3, 1/2002, s. 4 og 2/2002, s. 22).

Haldið hefur verið áfram uppbyggingu heimasíðu félagsins www.bokis.is. Ýmsar nýjar upplýsingar hafa verið settar inn á starfsárinu, s.s. siðareglur félagsins á ensku sem nokkrar fyrirspurnir hafa borist um.

Á aðalfundi Upplýsingar nú eru árvissar viðurkenningar fyrir bestu íslensku fræðibækur ársins (2002) veittar í 11. sinn (Fræðibókaorða Upplýsingar). Ákveðið hefur verið að Veforða Upplýsingar ? viðurkenning fyrir besta vef bókasafns eða upplýsingamiðstöðvar á Íslandi (Fregnir 1/2002) verði veitt annað hvert ár.

Á starfstímabilinu hefur stjórn Upplýsingar unnið áfram að kynningu á félaginu. Á heimasíðu félagsins er að finna efni um félagið og tengt því.

Ráðstefnur  –  fræðslufundir
Formaður Upplýsingar ásamt nokkrum öðrum félagsmönnum sóttu 68. árlegu ráðstefnu IFLA sem haldin var í Glas­gow 18.-24. ágúst 2002 (Fregnir 27/3, s. 15-18). Upplýsing á nú tvo fulltrúa í fastanefndum IFLA. Ann Clyde á sæti í School Libraries and Resource Centres Secton og Þórdís T. Þórarinsdóttir í Classification and Indexing Section.

Annar Landsfundur Upplýsingar var haldinn á Hótel Sögu dagana 5. til 6. september 2002 sem er 16. Landsfundur bókavarða frá upphafi. Landsfundur er ráðstefna sem haldin er annað hvert ár og er jafnan mjög fjölsótt. Borgarbókasafn Reykjavíkur hafði veg og vanda af fundinum sem var sá fjölmennasti frá upphafi með um 260 þátttakendur. Yfirskrift fundarins var Framtíðin er komin og var efni hans mjög fjölbreytt, m.a. um nútíma bókasöfn, upplýsingaþjónustu á Netinu, kynning á upplýsingavefjum á Netinu, um símenntun, mannauðsstjórnun auk safnaskoðana og skemmtana. (Fregnir 3/2002, s. 13-14) Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur veg og vanda af næsta landsfundi sem haldinn verður árið 2004 og er Bryndís Ísaksdóttir formaður landsfundarnefndar.

Samtök um Barnamenningarstofnun voru stofnuð 10. sept. sl. Sigrún Jóna Kristjánsdóttir er fulltrúi félagsins þar.

Formaður, varaformaður og gjaldkeri sóttu fund formanna og framkvæmdastjóra norrænna bókavarðafélaga, Nordisk bibliotekforeningsmøte, sem haldinn var í Helsinki dagana 13. og 14. september. Á fundinum var m.a. fjallað um samstarfsverkefni norrænu félaganna og þátttöku þeirra í alþjóðlegu samstarfi. (Fregnir 3/2002, bls. 30-32). Í framhaldi af fundinum var m.a. haft samband við Þróunarsamvinnustofnun um möguleika á þróunarstyrkjum vegna IFLA starfs.

Fimmta millisafnalánaráðstefna NVBF var haldin að Hótel Loftleiðum dagana 3. til 5. október 2002. Ráð­stefnuna sóttu um 170 bókaverðir, aðallega Norðurlandabúar. Yfirskriftin var ILL in a Digital Age ? Challenges ? Barriers ? Opportunities. Fyrirlesarar komu víða að og byggðust á verkefnum, reynslu og rannsóknum. Þótti ráðstefnan takast mjög vel. Formaður undirbúningsnefndar var Guðrún Pálsdóttir (Fregnir 3/2002, s. 14-15)

Stjórn Upplýsingar ásamt fræðslu- og skemmtinefnd og Bókasafni Kópavogs skipulögðu jólagleði félagsins sem haldin var í Bókasafni Kópavogs 29. nóvember 2002. Starfsfólk safnsins sá um dagskrána og veitingar og fordrykkur voru í boði þess en félagið lagði til önnur drykkjarföng. Jólagleðin var ókeypis fyrir félagsmenn.

13. febrúar hélt stjórnin fræðslufund um upplýsingaleikni í boði Menntasmiðju Kennaraháskóla Íslands í Hamri, nýju húsi skólans. Stjórnin skipulagði dagskrána sem varpað var með fjarfundabúnaði til Akureyrar. Að henni lokinni gafst þátttakendum tækifæri til að skoða nýtt bókasafn skólans og þiggja veitingar í boði hans (Fregnir 1/2003, bls. 14).

Þann 20. mars var boðið upp á fræðsluheimsókn í Prentsmiðjuna Odda þar sem farið var yfir sögu fyrirtækisins yfir veitingum. Þátttakendum var síðan boðið upp á skoðunarferð um fyrirtækið og sýnt prentferli bókar. Að lokum voru gestir leystir út með gjöfum (Fregnir 1/2003, bls. 15).

Fræðslu- og skemmtinefnd stóð fyrir tveimur fyrirlestrum á starfsárinu, um fantasíur og sakamálasögur.

Upplýsing átti aðild að árlegri ráðstefnu um barna- og unglingabókmenntir sem haldin var í Gerðubergi 15. mars 2002. Fulltrúi Upplýsingar í undirbúningsnefnd er Þorbjörg Karlsdóttir. (Fregnir 1/2003, s. 10-11)

Dagana 2. ? 4. maí var haldin samnorræn ráðstefna í Norræna húsinu undir yfirskriftinni Börn og tungumál á vegum norrænna bókavarðafélaga. NORDBOK styrkti ráðstefnuna um Dkr. 20.000 sem sótt var um í nafni Upplýsingar. (Fregnir 1/2003, s. 43) Aðalskipuleggjendur voru Kristín Viðarsdóttir og Þorbjörg Karlsdóttir.

Formaður sótti árlegan fulltrúa­ráðsfund EBLIDA sem haldinn var í Uppsölum dagana 9. og 10. maí síðastliðinn og sagt verður frá honum í næsta tölublaði Fregna.

Stjórnarmenn hafa setið ýmsa fundi sem fulltrúar félagsins, t.d. með landsbókaverði um endurmenntun og með Sameignarfélaginu Ásbrú en BHM vill selja Lágmúlann svo húsnæðismál félagsins gætu orðið í uppnámi.

Auk þess hefur Upplýsing orðið við styrkumsóknum vegna tveggja ráðstefna sem báðar verða haldnar á Akureyri á árinu: ARLIS/Norden ráðstefnu sem haldin verður dagana 12. til 14. júní (Fregnir, 1/2003, bls. 42) og Creating Knowledge III sem haldin verður dagana 25. til 26. september (Fregnir 1/2003, bls. 45).

Á næsta ári er stefnt að NVBF ráðstefnu hér á landi.

Menntunarmál  –  kynnisferðir
Upplýsing stendur fyrir endurmenntunarnámskeiðum í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands. Skuldlausir félagar fá 10% afslátt á námskeiðum á sviði bókasafns- og upplýsingafræði. Á haustönn voru skipulögð námskeiðin: Lýsigögn, Vefsmíðar I fyrir bókasafnsfræðinga, Skráning heimilda I, Hvar?is ? Rafræn gagnasöfn og Námskeið um almenningsbókasöfn. Á vormissiri námskeiðin: Lyklun heimilda II, Vefsmíðar II, Vefsetur bókasafna og upplýsingamiðstöðvar. Skipulagning námskeiða á haustönn 2003 stendur yfir.

Þann 13. desember hófu 29 starfandi bókaverði dreifnám í bókasafnstækni sem er 2ja ára starfnám fyrir ófaglærða bókaverði, í Borgarholtsskóla. Lýkur þar nær 3ja ára starfi Áhugahóps um menntun í bókasafnstækni. Starfsmenntasjóður félagsmálaráðuneytis styrkti verkefnið um kl. 3.000.000. Framvinduskýrslur hafa birst reglulega í Fregnum svo og lokaskýrslan í síðasta tölublaði (Fregnir  1/2002, bls. 3-5).

Erindi Upplýsingar um áheyrnarfulltrúa hjá Starfsgreinaráði upplýsinga- og fjölmiðlagreina fékk jákvæðar undirtektir og situr formaður Upplýsingar fundi ráðsins sem um þessar mundir fjallar um námskrá fyrir vinnustaðanámið. Stofnuð hefur verið verkefnisstjórn (Hulda Björk Þorkelsdóttir og Þórdís T. Þórarinsdóttir) um námsefnisgerð í bókasafnstækni en námsefni fyrir sérnámið í bókasafnstækni þarf að vera tilbúið að ári.

Úr Ferðasjóði Upplýsingar er í ár úthlutað sex (sjö) styrkjum, að upphæð kr. 20.000 hver. Fimm sóttu styrkina fyrir árið 2002 og á starfsárinu hafa þeir allir greint frá verkefnum sínum í Fregnum.

Störf faghópa og fulltrúa
Innan vébanda Upplýsingar fer fram öflugt starf í ýmsum nefndum og stjórnum sem fulltrúar félagsins taka þátt í og er það starf eðlilega drjúgur hluti hins faglega starfs félagsmanna. Yfirlit um þá starfsemi verður flutt á hér á fundinum og skýrslur um starfsemina ásamt skýrslu stjórnar verða birtar í næsta tölublaði Fregna. Verkefnisstjórn um aðgengi að gagnasöfnum lauk störfum á árinu. Sólveig Þorsteinsdóttir var fulltrúi Upplýsingar í nefndinni.

Að lokum flytur stjórnin hér með öllum þeim sem starfa fyrir félagið á einn eða annan hátt alúðarþakkir og ennfremur öllum þeim félagsmönnum sem halda merki Upplýsingar á lofti með störfum í þágu félagsheildarinnar. – Að síðustu vill undirrituð þakka stjórnarmönnum samstarfið og mikið vinnuframlag í þágu félagsins.

f.h. stjórnar Upplýsingar  –  Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður