Afmælisnefnd um 50 ára afmæli kennslu í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands Engar upplýsingar bárust
Barnabókaráðstefna í Gerðubergi Skýrslan birtist í Fregni 1/2007 s. 22
Fagghópur um millisafnalán (2004) Skýrsla fulltrúa Upplýsingar í Faghóp um millisafnalán. Faghópur um millisafnalán var stofnaður að frumkvæði Sigrúnar Klöru Hannesdóttur landsbókavarðar í apríl 2004. Þórný Hlynsdóttir þjónustustjóri millisafnalána Lbs-Hbs leiddi vinnu hópsins. Við skipun fulltrúa í faghópinn var reynt að fá sjónarmið flestra safnategunda. Fulltúar: Erna G. Árnadóttir, Landspítali ? Háskólasjúkrahús Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir, Fjörlbautaskóla Vesturlands á Akranesi Halldóra Kristbergsdóttir, fjármálaráðuneyti Kristín Björgvinsdóttir, Fjölbrautaskólanum við Ármúla Margrét G. Björnsdóttir, Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur Óskar Guðjónsson, Ársafni Pálína Héðinsdóttir, Náttúrufræðistofnun Sigurbjörg Rún Jónsdóttir, Háskólanum á Akureyri Þórný Hlynsdóttir, Landsbókasafni Íslands ? Háskólabókasafni. Hlutverk hópsins var í meginatriðum tvíþætt:
- Að skilgreina ítarlega hlutverk bæði Landsbókasafns-Háskólabókasafns sem landsmiðstöðvar millisafnalána og annarra stórra safna í hverri stjórnunareiningu Gegnis sem landskerfis.
- Gera samræmdar verklagsreglur um millisafnalán og marka stefnu og gera áætlun um framkvæmd þeirra til næstu fimm ára.
Hópurinn hittist á þremur fundum, einnig voru mikil samskipti í tölvupósti. Unnin voru drög að verklagsreglum íslenskra bókasafna um millisafnalán og einnig texta um millisafnalán rita sem skráð eru í Gegni.is. Þar koma m.a. fram almennar reglur um aðgengi rita eftir safnategundum. Enn er millisafnalánaþátturinn í Gegni ófullkominn, en unnið er að því að koma honum í almenna notkun á landsvísu. Faghópurinn hefur ekki lokið störfum.
Skýrsla fulltrúa Upplýsingar í Faghóp um millisafnalán 2006-7. Faghópur um millisafnalán var stofnaður að frumkvæði Sigrúnar Klöru Hannesdóttur landsbókavarðar í apríl 2004. Þórný Hlynsdóttir þjónustustjóri millisafnalána Lbs-Hbs er formaður hópsins. Faghópurinn hefur ekkert hittst á starfsárinu. Halldóra Kristbergsdóttir
Ferðasjóður Upplýsingar. Skýrsla 2006-2007 Í ár sóttu 38 um styrk til ferðasjóðs, af þeim voru 3 ekki félagar, 2 drógu umsóknir sínar til baka og 4 höfðu ekki greitt nógu lengi í félagið. 27 höfðu rétt samkvæmt viðmiðunarreglum sjóðsins. Sjóðstjórn sá sér því miður ekki fært að veita þeim öllum styrk og ákvað því að miða styrkveitinguna við þá félaga sem hafa greitt árgjöld samfellt í 7 ár og hafa ekki fengið styrk áður. Í ár veitir ferðasjóður Upplýsingar því 18 styrki. Eftirfarandi fá styrk í ár:
Eva Sóley Sigurðardóttir Guðrún Árnadóttir Gunnhildur Loftsdóttir Hafdís Sigurjónsdóttir Hallfríður Baldursdóttir Helga Zoega Hólmfríður Gunnlaugsdóttir Hrafn Andrés Harðarson Inga Kristjánsdóttir Ingibjörg St. Sverrisdóttir Jóhanna Kristinsdóttir Kolbrún Andrésdótti Margrét I. Ásgeirsdóttir Margrét Sigurgeirsdóttir Margrét St. Kristinsdóttir Rósa Traustadóttir Unnur Kristinsdótti Þóra Kristín Sigvaldadóttir
Sjóðstjórn hvetur þá sem ekki fengu styrk að sækja um aftur að ári. Stjórn Ferðasjóðs
Fræðslu- og skemmtinefnd Engar upplýsingar bárust.
IFLA fastanefnd: Classification and Indexing Section Undirrituð hefur átt sæti í fastanefnd IFLA um flokkun og lyklun um 2ja ára skeið. Nýtt 2ja ára kjörtímabil hefst á IFLA ráðstefnunni í Durban nú í ágúst. Fastanefndin hittist tvisvar á fundardögum IFLA ráðstefna, einu sinni fyrir ráðstefnu og einu sinni eftir. Fastanefndin gefur út fréttabréf tvisvar á ári þar sem fulltrúar nefndarinnar koma með innlegg, hver frá sínu landi og hefur undirrituð sent inn innlegg héðan. Það má rekja til setu undirritaðrar í fastanefndinni að Dr. Lois Mai Chan kom hingað til lands og hélt námskeið í lyklun vorið 2005 fyrir tilstuðlan og í umsjón efnisorðaráðs. Þórdís T. Þórarinsdóttir
Lagabreytinganefnd Engar tillögur um lagabreytingar bárust til nefndarinnar á árinu. Svava H. Friðgeirsdóttir, formaður
Landsfundarnefnd fyrir árið 2006, Suðurland Landsfundur Upplýsingar, sá fjórði í röðinni síðan bókavarðafélögin sameinuðust, var haldinn á Hótel Selfossi 6.-7. október 2006 undir yfirskriftinni Fjölbreytni í fyrirrúmi. Landsfundarnefnd var að þessu sinni skipuð fulltrúum af Suðurlandi; Margrét I. Ásgeirsdóttir formaður, Hlíf S. Arndal gjaldkeri, Barbara Guðnadóttir ritari, Gunnhildur E. Kristjánsdóttir, Elín K. Guðbrandsdóttir og Sigríður Matthíasdóttir. Síðast var Landsfundur Bókavarðafélags Íslands haldinn á Selfossi haust 1992. Nefndin hittist fyrst haustið 2005 og átti fljótlega fund með stjórn Upplýsingar. Þar voru lögð fram drög að Landsfundinum, farið yfir verklagsreglur um Landsfund og fengnar gagnlegar upplýsingar frá síðustu Landsfundarnefnd. Mikilvægt er að móta dagskrána sem fyrst. Ákveðið var að leggja áherslu á fjölbreytnina sem einkennir bókasöfn, safnkost þeirra og þjónustu í dag. Reynt var að ná til sem flestra félagsmanna með margvíslegum málstofum og örnmámskeiðum, kynnast upplýsingalæsi hjá sem flestum safnategundum, leggja áherslu á mikilvægi lesturs og að lokum efni sem tengist nýbúum þessa lands. Upphaflega var gerð gróf fjárhagsáætlun og reyndist mjög gagnlegt að gera sér fljótt grein fyrir helstu kostnaðarliðum. Nauðsynlegt er að hafa áætlunina rúma í fyrstu þannig að gert sé ráð fyrir óvæntum útgjöldum sem alltaf eru nokkur. Strax var ákveðið hvað skyldi greiða fyrirlesurum og hafa ferðakostnað á hreinu samkv. verklagsreglum Landsfundar. Í ár voru greiðslur fyrir fyrirlestra kr. 10 og 15 þúsund kr. auk ferðakostnaðar. Víða var leitað styrkja og stuðnings og í ýmsu formi m.a. fengust styrkir frá Þjónustumiðstöð bókasafna, Menntamálaráðuneyti og sveitarfélögum á Suðurlandi og er þeim hér með öllum þakkaður stuðningurinn. Skráningareyðublað var sett á Netið í júní og boðið upp á ákveðinn afslátt af Landsfundargjaldi ef þátttakendur skráðu sig fyrir ákveðinn dag. Mikill meirihluti þátttakenda skráði sig á netinu og greiddi síðan fljótt og vel. Þetta létti mjög róðurinn síðustu vikurnar fyrir Landsfund. Mikill fengur er af skráningum á netinu og að geta tekið út upplýsingar þaðan. Alls skráðu sig 205 þátttakendur. Ákveðið var að hafa dagskána ekki of þétta og gefa gestum tækifæri til að spjalla saman og kynnast. Jafnframt var ákveðið að fara stíft eftir þeim tímaáætlunum sem komu fram í dagskránni og tókst það að mestu. Dagskrá föstudagsins hófst með því að Hólmkell Hreinsson flutti frábært og hvetjandi erindi um stöðu íslenskra bókasafna í dag og hvert þau stefna, Eiríkur Þorláksson, nýr tengiliður við bókasöfn hjá Lista ? og safnadeild Menntamálaráðuneytisins kynnti starfssvup sitt, fimm erindi um upplýsingalæsi frá fimm mismunandi safnategundum, Sigrún Klara Hannessdóttir kynnti Stefnu Upplýsingar um framtíðina og síðan var komið að málstofum og örnámskeiðum. Það er nýjung á Landsfundi að bjóða upp á svo mörg erindi í einu, en ekki er annað að sjá en að það hafi fallið í góðan jarveg og tekist vel. Gestir gátu valið milli málstofa um barnastarf, vefbækur, námið og starfið, upplýsingalæsi í skólabókasöfnum og örnámskeið í þekkingarstjórnun eða 16. útg. Landskerfis bókasafna. Boðið var til móttöku í lok dagsins á Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi og komust allir gestir vel fyrir. Hátíðarkvöldverður og sunnlensk skemmtun var á Hótel Selfossi á föstudagskvöldið. Þar verður að segja að gestir sýndu hreint ótrúlega takta og þrautseigju í dansinum sem dunaði fram yfir miðnætti. Á laugardagsmorgun var farið með gesti í rútum til Þorlákshafnar þar sem veitingar biðu og áhugaverðir fyrirlestrar um málefni nýbúa voru fluttir. Að því búnu var ekið til Hveragerðis og nýja safnið í Sunnumörk skoðað. Eftir hádegi var komið að hápunktinum að mati Landsfundarnefndar þegar Lestrardagbókinni var dreift til gesta. Landsfundarnefndin lét útbúa Lestrardagbókina sérstaklega fyrir Landsfund Upplýsingar í samvinnu við Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna. Rósa Traustadóttir flutti skemmtilega samantekt um leshringi og Eiríkur Hermannsson fræðslustjóri í Reykjanesbæk kynnti verkefnið Lestrarmenning í Reykjanesbæ. Jóhanna Gunnlaugsdóttir hélt erindi í tilefni af 50 ára afmæli Bókasafns- og upplýsingafræðiskorar við HÍ og Anna Marta Valtýssdóttir bókasafnstæknir sagði frá námi og starfi. Undirbúningsvinna fyrir Landsfund á Selfossi reyndist nefndinni skemmtilegur og lærdómsríkur tími. Í mörg horn var að líta síðustu dagana fyrir Landsfund og er ekki hægt að neita því að stress gerði vart við sig. En nefndin vann vel saman og tölvupóststæknin er stórkostnleg svo allt gekk upp með góðri hjálp bókavarða á Suðurlandi og síðast en ekki síst hjálp frá stjórn Upplýsingar sérstaklega gjaldkera og vefmeistara. Þakkar Landsfundarnefnd 2006 gestum fyrir góðan Landsfund á Selfossi 6.-7. okt. 2006. Fyrir hönd Landsfundarnefndar Upplýsingar 2006 Margrét I. Ásgeirsdóttir formaður
NORD I&D. NORD I&D er heiti á ráðstefnum um upplýsinga- og þekkingarstjórn, sem haldnar eru þriðja hvert ár á Norðurlöndunum. Fyrsta stóra ráðstefnan var haldin í Noregi 1970. Árið 2001 var ráðstefnan haldin í fyrsta skipti á Íslandi. Hún var skipulögð af félagsskap sem nefndi sig NORD IoD félagið á Íslandi sem starfaði í samráði við Félag bókavarða í rannsóknabókasöfnum og síðar Upplýsingu. Síðasta ráðstefna var svo haldin í Álaborg í 2004. Fulltrúar Upplýsingar í undirbúningsnefnd voru Kristín Geirsdóttir og Þóra Gylfadóttir. Þóra sótti ráðstefnuna og sagði frá henni í nóvemberhefti Fregna 2004. Meginhlutverk fulltrúa Upplýsingar í nefndinni er annars vegar að veita ráð byggð á reynslu fyrri ráðstefna og hins vegar að miðla upplýsingum innan síns lands. Tilgangur upplýsingamiðlunar hér á landi er að fá fyrirlesara héðan ásamt því að kynna hana sem mikilvæga ráðstefnu sem sækja má til þess að fylgjast með því helsta sem er að gerast í faginu á Norðurlöndum og víðar. Næsta ráðstefna verður haldin í Stokkhólmi 18.?19. júní 2007. Undirrituð hefur sótt tvo undirbúningsfundi í Stokkhólmi. Annars vegar í nóvember 2005 og hins vegar í september 2006. Hér á landi var auglýst eftir erindum á ráðstefnunar á póstlistum Upplýsingar, Félags um skjalastjórn og Skruddu. Einnig hefur ráðstefnan verið auglýst hér reglulega á póstlistum og í Fregnum. Fulltrúi Íslands í fyrirlesarahópnum verður Jóhanna Gunnlaugsdóttir. Titill erindis hennar er ?Working with ERMS: Employees’ Experience of Electronic Records Management Systems? Níu Íslendingar hafa skráð sig á ráðstefnuna til þessa. En yfir 150 gestir eru skráðir og má reikna með fróðlegri og góðri ráðstefnu í júní. Vefur ráðstefnunnar er http://nordiod2007.sfis.nu/site/298/default.aspx Kristín Geirsdóttir, fulltrúi upplýsingar í undirbúningsnefnd NORD I&D
Norrænn samstarfshópur um tónlistarsöfn (2003) Engar upplýsingar bárust.
Norrænt net um barnabókasöfn og menningu (Nordisk netværk for børnebiblioteker & kultur) Engar upplýsingar bárust.
NVBN arftaki NVBF Engar upplýsingar bárust.
Ráðgjafanefnd um almenningsbókasöfn (Stofnuð 1997 í samræmi við lög nr. 36/1997) Ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna hélt engan fund á starfsárinu og hefur engin verkefni haft. Hólmkell Hreinsson, formaður
Ritnefnd Bókasafnsins Skýrsla ritnefndar Bókasafnsins 2006/2007, 31. árgangur
Yfirlit 31. árgangur Bókasafnsins kemur út í maí. Blaðið er 94 bls. og inniheldur fjölbreytt efni á sviði bókasafns-og upplýsingafræða. Ritstjóraskipti verða í ár. Ásdís Paulsdóttir tekur við ritstjórn blaðsins og Eva Sóley Sigurðardóttir verður meðstjórnandi. Að öðru leyti verður ritnefndin óbreytt næsta starfsár.
Ritnefnd Ritnefnd 31. árgangs Bókasafnsins: Ritstjóri: Eva Sóley Sigurðardóttir, Seðlabanka Íslands [email protected] Meðstjórnandi: Ásdís Paulsdóttir, Einkaleyfastofunni [email protected] Gjaldkeri: Kristín Ingunnardóttir, Almennu verkfræðistofunni [email protected] Ritari: Hallfríður Baldursdóttir, Landsbókasafni Íslands-Hbs [email protected] Vefstjóri: Martha Ricart, Bókasafni Hafnarfjarðar [email protected]
Fundir og efni Sex fundir voru haldnir á starfsárinu, sá fyrsti í nóvember og sá síðasti í maí en auk þess voru tölvupóstsamskipti og símtöl á milli ritnefndarfulltrúa vegna útgáfunnar. Efnisöflun í blaðið gekk mjög vel. Níu greinar eru í blaðinu, viðtal og fastir liðir, s.s. Bókrýni, Minningarorð og Bækur og líf. Þá er í blaðinu nýr liður, Vefsíðurýni og punktar um mat á vefsíðum sem hafðir verða til hliðsjónar hjá ritnefnd við mat á vefsíðum.
Vefsetur Umsjónarmaður vefseturs sér um að setja útdrætti úr greinum blaðsins á internetið og verður það efni aðgengilegt á vefsetri blaðsins http://www.bokasafnid.is fljótlega.
Útgáfa, prentun, kostnaður Tvær ungar og hressar stúlkur tóku að sér auglýsingasöfnun að þessu sinni í samstarfi við gjaldkera en ekki þótti ráðlegt að leita áfram til útgáfufélagsins Hænis sf. Auglýsingasöfnun gekk þokkalega en ekki bættust við nýjir auglýsendur eins og vonast hafði verið til vegna skuldastöðu blaðsins. Samið var við prentsmiðjuna Gutenberg um prentun. Anna Helgadóttir prentsmiður annaðist umbrot blaðsins. Þess er vænst að Upplýsing styrki útgáfuna en sótt var um styrk 8. maí sl. Upplag er 1000 eintök. 18.05.´07 Eva Sóley Sigurðardóttir, ritstjóri
Samráðshópur um framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið (2005) Í bréfi frá forsætisráðuneytinu, dags. 6. júní 2005 var óskað eftir að Upplýsing tilnefndi fulltrúa í samráðshóp um framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið. Tilnefndar voru þær Þórdís T. Þórarinsdóttir og Hulda Björk Þorkelsdóttir (varamaður), sjá Fregnir 2/2005, s. 2. Samráðshópurinn hittist einu sinni á starfsárinu, þann 22. nóv. 2006. Ritari Upplýsingar, Óskar Guðjónsson, sat þann fund þar sem hvorugur fulltrúanna komst á fundinn. Fjallað var um samstarf ríkis og banka um rafræn skilríki, Ísland.is, þjónustuveitu ríkis og sveitarfélaga, sem formlega var opnuð á UT-daginn, og hvað væri á döfinni í Evrópu í rafrænni stjórnsýslu. Upplýsing bauð upp á að hvar.is og gegnir.is væru kynnt fyrir samráðshópnum en ekki var talin þörf á því.. UT-dagurinn var haldinn öðru sinni þann 8. mars síðastliðinn. Þátttaka bókasafna takmarkaðist við að formaður Upplýsingar fékk því áorkað að tvær greinar um bókasafnsmál birtust í UT-blaðinu sem fylgdi Morgunblaðinu þann 2. mars. (Fregnir 1/2007, s. 35) Þórdís T. Þórarinsdóttir
Samtök um barnamenningarstofnun (stofnuð í sept. 2002) Engar upplýsingar bárust.
Samstarfshópur um höfundarréttarmál (stofnaður 2002) Í hópnum eru: Áslaug Agnarsdóttir, frá Landsbókasafni Íslands ? Háskólabókasafni. Ólöf Benediktsdóttir, tengiliður v. Upplýsingu og verkefnisstjóri. Sigurður Jón Vigfússon frá Samtökum forstöðumanna almenningsbókasafna. Þórhildur Sigurðardóttir frá rannsóknar- og sérfræðibókasöfnum. Þórunn Snorradóttir frá Samstarfshópi bókasafnsfræðinga í framhaldsskólum.
Lög um breytingu á höfundalögum nr. 73/1972, með síðari breytingum voru samþykkt samhljóða á Alþingi 16. febrúar 2006 og hefur greinargerð um breytingarnar birst í Fregnum. Höfundarréttarhópurinn hefur tekið að sér að starfa áfram til að fylgjast með túlkun lagabreytinganna og samningu reglugerðar vegna eintakagerðar á bókasöfnum, sem stendur til að setja.
Hópurinn tók að sér að undirbúa málþing um höfundarétt á bókasöfnum sem haldið var þann 17. apríl. Málþingið var vel sótt og fróðlegt. Ólöf Benediktsdóttir flutti inngangserindi um bókasöfn og höfundarétt, Þórný Hlynsdóttir um höfundarétt með tilliti til millisafnalána og Helga Ólafsdóttir um höfundarétt með tilliti til blindra og sjónskertra. Í erindum þeirra kom fram að bókasöfnin standa frammi fyrir ýmsum spurningum og vandamálum vegna breytinganna á höfundalögunum. Rán Tryggvadóttir fjallaði um heimildir bókasafna til eintakagerðar og fyrirhugaða setningu reglugerðar og Elín Helgadóttir flutti kynningu á Fjölís og sagði frá stöðu mála varðandi stafræna notkun efnis í skólum. Loks voru fyrirspurnir og umræður. Glærur frá málþinginu eru aðgengilegar á vef Upplýsingar. F. h. starfshópsins Ólöf Benediktsdóttir
Sérfræðihópur í bókasafnstækni (2005) Sérfræðihópur í bókasafnstækni var skipaður til 3ja ára haustið 2005 á vegum Prenttæknisviðs Iðunnar fræðsluseturs (áður Prenttæknistofnun). Á starfsárinu voru þær Hulda Björk Þorkelsdóttir og Þórdís T. Þórarinsdóttir í sérfræðihópnum, tilnefndar af Upplýsingu. Eitt af meginverkefnum sérfræðihópsins er að meta áðurfengna starfsreynslu nemenda í bókasafnstækni til styttingar vinnustaðanámi, sbr. Fregnir 3/2005 s. 52. Í desember 2006 útskrifuðust tveir nemendur frá Borgarholtsskóla sem bókasafnstæknar. Sérfræðihópurinn mat starfsreynslu annars þeirra. Í vor mun enginn bókasafnstæknir útskrifast. Þórdís T. Þórarinsdóttir
Siðanefnd Skýrsla siðanefndar Upplýsingar fyrir aðalfund 2007. Í nefndinni eiga sæti Anna Torfadóttir (formaður), Áslaug Óttarsdóttir og Ingibjörg Árnadóttir. Engum málum hefur verið vísað til nefndarinnar fremur en endranær. Siðareglur félagsins voru upphaflega samþykktar til eins árs á aðalfundi 1995 og síðan voru þær samþykktar óbreyttar árið 1996. Í inngangi siðareglanna segir: Siðareglur þessar þurfa að vera í sífelldri endurskoðun í samræmi við faglegar og samfélagslegar breytingar. Þessu hefur siðanefndin verið vakandi fyrir og gerði tillögu um smábreytingar sem voru samþykktar á aðalfundi 2001. Nefndin hélt einn fund 24. apríl 2007 og gerir aftur tillögum um örlitlar breytingar sbr. bréf til stjórnar Upplýsingar dagsett 27. apríl: Stjórn Upplýsingar! Eftir fund siðanefndar 24. apríl 2007 er lagt til að gerðar séu örlitlar breytingar á siðareglunum. Í 1. grein bætist í lokin við ,,í alþjóðlegu umhverfi?. Í 3. grein er ritmenningu breytt í ,,menningu ?. Í 6. grein er felld niður lokasetningin: ,,Hafi félagsmaður vitneskju ??. Þá er í skýringum með 6. grein fellt niður orðið ,,jafnvel? í lokasetningunni. Anna Torfadóttir, formaður
Starfsgreinaráð upplýsinga- og fjölmiðlagreina (áheyrnarfulltrúar) Upplýsing hefur undanfarin ár haft áheyrnarfulltrúa í Starfsgreinaráði Upplýsinga- og fjölmiðlagreina (UFG). Aðalfulltrúi er Þórdís T. Þórarinsdóttir Bókasafni Menntaskólans við Sund og varafulltrúi Hulda Björk Þorkelsdóttir forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar. Haldnir voru þrír fundir á starfsárinu (fundir 56-58). Menntamálaráðuneytið kallaði saman 56. fund sem var fyrsti fundur nýskipaðs starfsgreinaráðs. Nýr formaður ráðsins er Georg Páll Skúlason og Haraldur Nelson varaformaður. Ritari er Björn Sigurjónsson sviðsstjóri Prenttæknisviðs Iðunnar fræðsluseturs. Ákveðið hefur verið að áheyrnarfulltrúar Upplýsingar verði boðaðir á fundi UFG og sæki fundi sem snerta málefni bókasafnstækni. Í athugun er hvort ástæða er til að endurskoða námskrár í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum. Á fundum UFG er meðal annars fjallað um ýmis erindi sem berast og óskað er eftir áliti ráðsins á. Frá bókasafnstæknum barst erindi til fullrúa Upplýsingar varðandi kjaramál bókasafnstækna sem óskað var að þeir legðu fram í ráðinu og verður það mál tekið fyrir á næsta fundi UFG. Þórdís T. Þórarinsdóttir
Stefnumótunarnefnd Upplýsingar (2006) Á landsfundi 2004 beindi landsbókavörður, Sigrún Klara Hannesdóttir, því til Upplýsingar hvort ekki mætti setja á laggirnar framtíðarhóp sem hefði það verkefni að spá í líklegar breytingar í samfélaginu á næstu árum og reyna að átta sig á því hvaða áhrif þær hefðu á bókasöfn. Á fundi sínum 28 september 2005 ákvað stjórn Upplýsingar að setja á laggirnar slíka stefnumótunarnefnd. Óskað var eftir tilnefningum frá ýmsum hagsmunaaðilum. Í lok febrúar 2006 voru flestar tilnefningar komnar og vinna gat hafist.
Nefndina skipuðu: Sigrún Klara Hannesdóttir, formaður, Bergljót Gunnlaugsdóttir frá framhaldsskólum, Eydís Arnviðardóttir frá rannsóknarbókasöfnum, Hólmkell Hreinsson frá almenningsbókasöfnum, Ingibjörg Baldursdóttir frá grunnskólasöfnum, Jóhanna Gunnlaugsdóttir frá bókasafns- og upplýsingafræðiskor, Margrét Ásgeirsdóttir formaður landsfundarnefndar 2006, Nanna Lind Svavarsdóttir frá Sbu Sigrún Magnúsdóttir frá háskólabókavörðum, Sólveig Þorsteinsdóttir frá heilbrigðissöfnum, Vala Nönn Gautsdóttir frá Upplýsingu. Þórdís T. Þórarinsdóttir var ritari nefndarinnar.
Vinnan hófst með hugarflugsfundi í mars 2006 þar sem hópurinn skráði niður hugmyndir sínar um Hvaða orð lýsa best bókasöfnum á Íslandi árið 2010? Alls komu fram 65 hugmyndir á fyrsta hugarflugsfundinum. Á öðrum fundi voru hugmyndir flokkaðar og fundin fyrirsögn sem setti hugmyndirnar í samhengi. Stefnuvinnan var kynnt á landsfundi í október 2006 og áframhaldandi vinna unnin í smærri hópum.
Kjarni stefnunnar er eftirfarandi: Að Íslendingar standi jafnfætis öðrum þjóðum hvað varðar aðgengi að hvers kyns þekkingu og upplýsingum;
Að öll söfn á Íslandi hafi á að skipa starfsmönnum með þekkingu og færni sem hentar viðkomandi safni og starfsemi þess;
Að Íslendingar eigi kost á faglegri upplýsingaþjónustu hvar sem þeir búa á landinu;
Að öll bókasöfn landsins, sem rekin eru fyrir opinbert fé, myndi samfellt bókasafnskerfi og hafi náin samskipti sín á milli.
Meginkaflarnir eru fjórir: Safnkostur ? skipulagning ? aðgengi; Mannauður og menntun starfsmanna bókasafna; Þjónusta; Markhópar;
Stefnan var gefin út í maí 2007 undir heitinu: Upplýsingar fyrir alla. Þekkingarsamfélagið 2007-2011. Stefna Upplýsingar. Félags bókasafns- og upplýsingafræða. Dr. Sigrún Klara Hannesdóttir, formaður
Stjórn Blindrabókasafnsins (Skv. lögum nr. 35/1982) Blindrabókasafnið sinnti hinum hefbundnu verkefnum af kostgæfni árið 2006 eins og endranær þ.e. framleiðslu og útlánum hljóðbóka, framleiðslu bóka á blindraletri og gerð námsbóka fyrir lesblinda námsmenn.
Aðalverkefni safnsins auk hinnar hefðbundnu starfsemi er yfirfærsla safnkostsins á stafrænt form, Daisy hljóðbókaform. Yfirfærslan mun taka nokkur ár en í desember var búið að setja u.þ.þ 500 bækur á Daisy formið. Verulega hefur dregið úr gerð bóka á hljóðsnældum enda orðið nokkuð erfitt að verða sér út um spólur og notendur safnsins hafa verið hvattir til að eignast tæki eða forrit til að geta nýtt sér stafrænu bækurnar. Slík tæki (Daisy spilari, MP3 spilari, iPpod o.s.frv.) verða sífellt ódýrari. Aukaframlag frá menntamálaráðuneytinu fékkst til yfirfærslunnar og var veitt 5 milljónum króna til verksins árin 2004, 2005 og 2006, 15 milljónir samtals.
Safnið hélt áfram útgáfu hljóðbóka fyrir almennan markað, Orð í eyra, og voru 7 titlar gefnir út árið 2006.
Nánar um Blindrabókasafnið á www.bbi.is. Erla Kristín Jónasdóttir fulltrúi Upplýsingar í stjórn safnsins
Stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns (Fulltrúar skipaðir til 4ra ára skv. lögum nr. 71/1994) Starfstími stjórnar rann út 22. október 2006 og var ný stjórn skipuð af menntamálaráðherra. Í stjórninni sitja Hörður Sigurgestsson, formaður, Rögnvaldur Ólafsson og Birna Arnbjörnsdóttir tilnefnd af Háskóla Íslands, Magnús Jónsson tilnefndur af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs og Eydís Arnviðardóttir, tilnefnd af Upplýsingu. Fulltrúi starfsmanna og án atkvæðisréttar er Bragi Þ. Ólafsson. Stjórnin hélt 10 fundi á tímabilinu. Starfsemi safnsins var fjölbreytt og helstu markmið verkefnaáætlunar fyrir árið 2006 náðust. Verða hér á eftir nefnd nokkur atriði sem stjórnin fjallaði um á árinu. Stjórnin fylgdist með gerð greiðslulíkans fyrir landssamninga um rafræn tímarit. Mikil vinna var lögð í að koma líkaninu á og vonandi er mál í höfn þannig að landsaðgangur haldist að rafrænu tímaritunum. Þjónustusamningur við menntamálaráðuneytið varðandi landssamninga var undirritaður 28. desember 2006. Landsbókasafn Íslands ? Háskólabókasafn hefur sett sér stefnu sem miðar að því að bjóða aukið aðgengi að íslenskum gögnum safnsins með því að setja þau kerfisbundið í stafrænt form og gera aðgengileg á netinu og er unnið samkvæmt þeirri stefnu. Fjárveiting til að skapa Evrópskt stafrænt bókasafn hefur nú fengist frá Evrópusambandinu og var Landsbókasafn var eitt aðildarsafnanna í umsókninni. Lesa má um verkefnið á heimasíðu safnsins. Tvær þjónustukannanir voru gerðar á árinu og voru meginniðurstöður þær að gestir voru ánægðir með þá þjónustu sem er veitt, en meðal athugasemda má nefna að mönnum þótti vanta meiri og betri skráningu á gögnum handritadeildar og að afgreiðslutíminn mætti vera lengri um helgar. Sigrún Klara Hannesdóttir lét af störfum sem landsbókavörður 1. maí 2007 og var henni haldið kveðjuhóf í fyrirlestrasal safnsins. Þangað var boðið starfsmönnum safnsins og fleirum. Sigrúnu Klöru voru þökkuð góð störf og nýr landsbókavörður, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, boðin velkomin til starfa. Eydís Arnviðardóttir
Uppstillingarnefnd Engar upplýsingar bárust.
Útgáfustjórn Fregna Fregnir ? Fréttabréf Upplýsingar var gefið þrísvar út á starfsárinu, í júní, nóvember og mars. Útgáfustjórn skipuðu þær Þórdís T. Þórarinsdóttir og Hulda Björk Þorkelsdóttir. Frá því að Upplýsing hóf göngu sína hafa alls verið gefin út 19 tölublöð. Í fréttabréfinu eru birtar frásagnir og skýrslur um starfsemi ýmissa fulltrúa og nefnda á vegum Upplýsingar, fréttir og greinar um það sem er á döfinni í bókasafnaheiminum á Íslandi og erlendis, auk frásagna af forvitnilegum ráðstefnum sem félagsmenn hafa sótt. Blaðið byggir eingöngu á efni frá félagsmönnum og voru þeir ötulir við að senda inn efni. Forsíðusöfn starfsársins, kynntu með sig með forsíðumynd og grein, voru Landsbókassafn Íslands ? Háskólabókasafn, Menntasmiðja Kennaraháskóla Íslands og Bókasafn Flensborgarskólans í Hafnarfirði. Öll blöðin voru eins og undanfarin ár prentuð hjá Litrófi ? Hagprent sem félagið er í góðu samstarfi við. Innan stjórnar Upplýsingar hefur verið rætt um að með tilkomu nýs vefumsjónarkerfis félagsins verði útgáfuhætti Fregna breytt á næsta ári, tölublöðum fækkað og/eða tekið upp að gefa blaðið út á rafrænu formi. Þórdís T. Þórarinsdóttir, ritstjóri
Valnefnd um bestu fræðibók ársins fyrir börn Í nefnd um val á fræðibók fyrir börn eru Hólmfríður Gunnlaugsdóttir, Þorbjörg Karlsdóttir og Inga Kristjánsdóttir. Eftir athugun á bókaútgáfu ársins 2006 kemur í ljóð að engin bók stenst þær kröfur sem Upplýsing gerir til fræðibóka fyrir börn og unglinga. Er það sama niðurstaða og verið hefur undanfarin ár. Til glöggvunar er hér farið yfir árin frá stofnun Upplýsingar:
Árið 1992 hlutu Stefán Aðalsteinsson og Björn Þorsteinsson viðurkenningu fyrir bókina Fuglarnir okkar, sem Bjallan gaf út.
Árin 1993-1998 stóðst engin bók lágmarkskröfur.
Árið 1999 hlaut Stefán Aðalsteinsson viðurkenningu fyrir bókina Landmámsmennirnir okkar. Mál og menning gaf út.
Árin 2000 og 2001 stóðst eingin bók lágmarkskröfur.
Árið 2002 hlaut Auður Jónsdóttir viðurkenninguna fyrir bók sína Skrýtnastur er maður sjálfur. Hver var Halldór Laxness?
Síðan hefur enginn hlotið þessa viðurkenningu. Það er umhugsunarvert og reyndar sorglegt að ekki skuli vera gefnar út góðar fræðibækur fyrir börn á Íslandi nema á margra ára fresti. Við þurfum að finna ráð til að bæta úr þessu og hvetja sérfræðinga á ýmsum sviðum til að snúa sér að þessum málum. Inga Kristjánsdóttir, formaður.
Valnefnd um bestu fræðibók ársins fyrir fullorðna Valnefnd um bestu fræðibók ársins fyrir fullorðna Nefndin fór yfir útgáfubækur ársins 2007 og mat þær eftir þeim viðmiðunarreglum sem félagið hefur sett og finna má á vef Upplýsingar, www.upplysing.is. Nefndarmenn höfðu samband í tölvupósti og hittust einu sinni, báru saman bækur sínar og grannskoðuðu þær bækur sem til álita komu. Til úrslita kepptu sjö bækur. Höfundur og útgefandi þeirrar bókar sem hlutskörpust var fá afhent viðurkenningarskjöl á aðalfundi félagsins þann 21. maí. Í nefndinni voru auk undirritaðrar þær Elín Krist¬björg Guðbrandsdóttir og Áslaug Óttarsdóttir. Þórdís T. Þórarinsdóttir, formaður
Verkefnisstjórn vegna tilnefningar til verðlauna úr minningarsjóði Astrid Lindgren Á síðasta ári tilnefndi Upplýsing ? félag bókasafns- og upplýsingafræða Guðrúnu Helgadóttur til verðlauna úr minningarsjóði Astrid Lindgren. Tilnefningunni fylgdi eftirfarandi rökstuðningur: Guðrún hefur auðgað líf íslenskra barna í tvær kynslóðir, en fyrsta bókin hennar kom út 1974. Aðalefni verka hennar eru tengsl barna og fullorðna ásamt skynjun barna á umhverfinu og samfélaginu. Bækur Guðrúnar eru uppfullar af gleði, tilfinningum og samúð með bæði börnum og fullorðnum. Auk frábærrar frásagnartækni liggur styrkur hennar í að sjá skemmtilegar hliðar lífsins og virðingu hennar fyrir persónum sem hún skrifar um. Verkefnisstjóri vegna tilnefningar til verðlauna úr minningarsjóði Astrid Lindgren Þorbjörg Karlsdóttir Borgarbókasafni ? aðalsafni
Þöll. Samstarfshópur um barna- og unglingamenningu á bókasöfnum – Stofnaður 1997 Ljóð unga fólksins voru í umsjón Vesturlands að þessu sinni: Bókasafn Akraness, Bókasafn Grundarfjarðar, Hérðasbókasafn Borgarfjarðar, Amtsbókasafnið í Stykkishólmi, Bókasafn Snæfellsbæjar og Snorrastofa, bókasafn. 21 safn úr öllum landshornum tóku þátt í ?Ljóð unga fólksins? Að venju voru send veggspjöld til allra safnanna sem sáu svo um að koma þeim í skólana í nágrenninu. Þátttakendur var skipt í tvo aldursflokka, 9-12 ára og 13-16 ára. Söfnin sem áttu verðlaunahafa sáu um að afhenda þau viðkomandi í Viku bókarinnar eða á sumardaginn fyrsta. Þátttaka var mjög góð 550 ljóð bárust. Eins og venjulega var gefin út bók með verðlaunaljóðunum og völdum ljóðum. Í dómnefnd voru Iðunn Steinsdóttir, Stefán Máni og Kristján Kristjánsson. Verðlaunahafar voru: eldri hópur: Snærós Sindradóttir, Aldís Buzgo og Bylgja Ösp Pedersen yngri hópur: Ína Sigrún Rúnarsdóttir, Solveig Óskarsdóttir og Skúli Geir Ólafsson. Glæsilegur Þallarfundur var haldinn í Grófarhúsi, aðalsafni Borgarbókasafnsins 5. maí 2006. 10 framsöguerindi voru flutt: Lestrarmenning, Ljóð unga fólksins, Barnastarf í Bókasafni Akraness, Breytingar á barnastarfi í Bókasafni Kópavogs, Pólskar sögustundir á Ísafirði, Sögustundir á Akureyri og leshringir með unglingum, Sagt frá Rum för bar í Kulturhúsinu í Stokkhólmi, Rætt um Enid Blyton, Sagt frá koffortum Borgarbókasafnsins og Bókaverðlaun barnanna. Eftir framsöguerindir skiptust fundargestir í hópa og ræddu: Framtíðarbókasafnið, Strákalestur, Samvinna leikskóla og almenningssafna, Samvinna grunnskóla og almenningssafna, Unglingar og Sumarlestur. Annar Þallarfundur var svo haldinn 6. okt. á Selfossi í tengslum við Landsfund Upplýsingar. Þar voru frekar óformlegar umræður. M.a. var einn fundargestur ný kominn frá af IBBY ráðstefnu í Kína og sagði frá ýmsu sem þar var að sjá og heyra. Þar var m.a. verið að heiðra fólk fyrir störf í þágu læsis. Maður frá Mongólíu fer með bækur til barna í afskekktum héruðum á úlfalda. ?Að lesa fyrir barnið sitt í 20 mínútur á dag ? er verkefni í Póllandi sem hefur gengið mjög vel. Fundargestir voru mjög hrifnir af kynningunni á pólska verkefninu. Einnig var rætt um breskt verkefni sem heitir ?Bookstart?, samstarfsverkefni heilsugæslunnar og bókasafna. Borgarbókasafnið er með svipað verkefni. 3 ½ árs börn koma í heimsókn og þau fá bók (styrkt af Mjólkursamsölunni). 16 þátttakendur voru á fundinum. Samantekt Sigríður Matthíasdóttir |