Tölvutækar upplýsingar í hugvísindum






Upplýsingar á Interneti : Málþing um aðgang atvinnulífs og vísindasamfélags að upplýsingum


Mér er orðið ljóst að ég verð sem rödd úr öðrum heimi, en það er þá enn meira gleðiefni að verða ef til vill til þess að þessi hlið rannsókna og kennslu gleymist ekki í tali um tölvuvæðingu upplýsinga. Til einföldunar má segja sem svo að þrennt komi álita þegar hugað er að tölvutækum upplýsingum í hugvísindum, og miða ég mál mitt fyrst og fremst við við sagnfræði, heimspeki og bókmenntafræði. Um málfræði, málvísindi og einstök tungumál held ég að gildi nokkuð aðrar reglur og flóknari vegna mikillar tölvunotkunar í þeim greinum undanfarin ár. Enn meira mál mætti væntanlega flytja um félagsvísindi, en þaðan er enginn fulltrúi hér.


En þessi þrjú atriði eru:



  • Í fyrsta lagi er leit að greinum og bókum til notkunar: hefur einhver skrifað nýlega um sannleikshugtak Hegels?
  • Í öðru lagi leit að því sem kalla mætti þekkingu eða þekkingaratriði, kannski ?staðreyndir“ef það væri ekki hálfgildings bannorð, og á ég við ártöl, mannanöfn og þvíumlíkt: hvað hét keisarinn í Kína árið 874?
  • Í þriðja lagi aðgangur að textum rithöfunda, heimspekinga, skjala, handrita: get ég leitað af mér allan grun um notkun franskra raunsæisrithöfunda á orðinu ?fegurð“?

Til skamms tíma hefur orðið að gera þetta allt með því að fletta bókum. Bækur eru fáar til á Íslandi og hafa fræðingar sem eitthvað vilja þefa af útlendri menningu og sögu þar af leiðandi vikið sér til útlanda, setið þar á söfnum og flett bókum – allra síðustu áratugi með ljósritunarvélar sér til halds og trausts. Spurningin er hvort nýir tímar séu að renna upp og hvort senn verði hægt að finna og sjá alla skapaða hluti án þess svo mikið sem að standa á fætur. Auðvitað ekki, en tölvur geta auðveldað óskaplega margt og létt rannsakendum lífið (reyndar kaffært okkur í upplýsingum og öðru, en að þessu sinni ætla ég bara að vera jákvæður).


Fyrsta atriðið, leit að greinum og bókum, eiga hugvísindi sameiginlegt með öðrum fræði- og vísindagreinum: þar hafa líka framfarir verið örastar í tölvuvinnslu og mest vinna lögð í hlutina, enda leggja risastórar stofnanir, þar á meðal bókasöfn, fram mannafla og fé. Fyrir vikið er á netinu eða vefnum hægt að komast inn á kerfi allra helstu bókasafna heims á augabragði og finna bækur um allt sem hugurinn girnist. Hvort hægt er að nálgast bækurnar frekar hér á landi er svo annað mál, en gæti staðið til bóta ef mark er takandi á tíðindum af svonefndum stafrænum bókasöfnum sem þróast nú óðfluga og byggja á því að prentað efni er fært yfir á tölvur með skönnun, hið besta mál vitaskuld og efniviðurinn ótæmandi: dagblöð, gömul tímarit og jafnvel ný – samanber það sem verið er að skanna og tölvumynda í samvinnu Landsbókasafns – Háskólabókasafns og Cornell-bókasafnsins í Bandaríkjunum með efni um Íslendingasögur fram til síðustu aldamóta. Mjög margt verður aðgengilegt fyrir vikið sem áður var aðeins á færi fárra að komast í, þrátt fyrir tilraunir með mikrófilmu-raðir, til dæmis með bókum frá 16. öld, sem samt voru of dýrar fyrir flest bókasöfn, hvað þá einstaklinga. Eldra efni verður allt saman orðið tölvutækt eftir nokkur ár ef marka má áætlanir British Library og annarra, sem betur fer.


Nú, eldri heildarbókaskrár ýmsar eru komnar á geisladiska sem sumir hverjir eru til á Þjóðarbókhlöðu, þannig að sú forna þraut að nálgast upplýsingar um bækur er orðin fremur lítið mál og viðstaddir bókasafnsfræðingar ættu að geta svarað þeirri spurningu hvort þeirri skráningu sé hreinlega ekki lokið eða því sem næst þótt vitaskuld séu alls kyns samræmingarvandamál á sveimi og verið sé að hanna aðferðir til að einfalda fólki leit sína svo ekki þurfi stöðugt að hoppa á milli staða. Um þau efni, þykist ég sjá, fer þessa stundina fram áköf umræða innan tölvubókasafnsfræða, ekki síst á Norðurlöndum.


Tímaritsgreinar eru svolítið örðugri viðfangs en bækur og eftir því sem ég best veit fást leitarkostir fyrst og fremst á geisladiskum og aðeins þar, en söfn kaupa áskrift að þeim og leyfa afnot – verðið sýnist mér vera á bilinu 30-300 þúsund krónur. Til að mynda skoðaði ég á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn um daginn bæði danskan og sænskan gagnagrunn af því tagi og nýttust þeir vel, en hef síðan rekist á einn norskan og annan danskan á netinu (nema það sé sá sami). Í alla þessa grunna sýndist mér vanta tímarit frá 19. öld sem ég þurfti á að halda. Það sama gildir um sérhæfðar bókaskrár á disklingum um sagnfræði, sálfræði, uppeldisfræði, bókmenntafræði: þetta þarf að kaupa og setja upp til afnota á afmörkuðu svæði, nú eða semja um áskrift að afnotum á netinu. Og hvað varðar tímaritsgreinar sem hægt er að fá sendar gegnum tölvur, ýmist gamlar skannaðar eða úr tímaritum sem gefin eru út stafrænt, þá er lítið til af slíku í hugvísindum ennþá, að minnsta kosti miðað við þau ókjör sem til eru í raunvísindum og jafnvel félagsvísindum.


Á Konunglega bókasafninu er hægt að komast í um það bil eitt hundrað geisladiska úr tölvum í afgreiðslu safnsins, en á annan tug hér sem vafalítið stendur til bóta því nytsemin er ótvíræð. Framtíðin er svo áreiðanlega sú, ef nokkur þjónustulund fyrirfinnst hjá þeim sem gefa svona út, að þetta verður á aðgengilegt netinu, og mun til að mynda mjög stór gagnagrunnur, Arts and Humanities Index, vera á leiðinni þangað, en vitaskuld gegn gjaldi og það verður aldrei þannig að allt efni verði ókeypis fyrir alla hvaðan sem er, heldur þurfa stofnanir að borga fyrir aðgang og halda utan um hlutinga þannig að notendur fá leyninúmer eða ekki og borga eða ekki. Staðirnir sem leitað er frá verða skýrt skilgreindir, ekki síður en bókasöfn nú um stundir.


Annað atriðið, leit að staðreyndum, er ekki sérlega áhugavert þegar hugað er að rannsóknum, en þeim mun frekar fyrir menntakerfið og almenning. Á geisladiskum má nú fá orðabækur og alfræðirit og annað af uppflettikyni sem vandræðalítið er að nota, en bætir svo sem litlu við bækurnar – einhverju þó vafalaust því ekki vil ég tala illa um þessa hluti. Þegar á vefinn kemur og kröfurnar eru sérhæfðari verður leitarferlið óskaplega flókið og tilviljanakennt, eiginlega vonlaust mál, nema upplýsingarnar sem óskað er eftir varði kvikmyndastjörnur og fyrirsætur. Hvar í fjandanum er þetta allt saman? Þarna úir og grúir af öllum sköpuðum hlutum og orðaleit í leitarvélum sýnir oft á tíðum mörg hundruð eða mörg þúsund staði – til dæmis ef leitað er að heimspekingnum Leibniz fást næstum engar upplýsingar um hann sjálfan eða útgáfur á verkum hans og bréfum, en ótal tengingar í reiknimiðstöðvar sem bera nafn hans og þar að auki kexverksmiðju í Þýskalandi.


Þriðja atriðið er einkar áhugavert, kannski áhugaverðast, fyrir þá sök að á þeim vettvangi kemur til greina að hægt verði þegar fram líða stundir að tala um að tölvur komi í staðinn fyrir bækur. Þar á ég við útgáfur eða kannski öllu fremur framleiðslu jafnt sem framreiðslu á textum og tölum. Mjög mikil gróska er í slíku og má með sanni segja að eins konar æði hafi gripið um sig, því allt á að setja á tölvur og opna út í hinn stóra heim. Það væri að æra óstöðugan að reyna að koma orðum yfir ósköpin, en gæði eru afar misjöfn, enda sýnist mér sem svo að lítill vandi sé að koma hlutum af stað, en vandasamt að gera úr því áhugaverðar og nothæfar heildir. Megnið af því sem hægt er að skoða á vefnum að minnsta kosti er hálfkarað efni sem dælt er út án nógu góðra skilgreininga eða minnstu möguleika á notkun með þeim hætti sem tölvur bjóða upp á. Dæmi um þetta eru nokkrar Íslendingasögur sem hægt er að lesa á netinu, en ekki söguna meir og þess er ekki einu sinni getið hvaða útgáfa hefur verið slegin inn. Svona nokkuð er algjör óþarfi. Tölvutækar útgáfur á textum, tölum eða myndum sem bæta engu við miðað við venjulegar bækur eru einskis nýtar, það er ef bara er hægt að lesa þær og skoða eins og bók. Þá væri betar að halda bara áfram að gefa út bækur, enda verður það gert. Bækur lesum við, en í tölvum leitum við. Við njótum bóka, en notum tölvutæk gögn. Það er vonlaust verk að lesa Íslendingasögur sem einskæran texta á tölvuskjá frá upphafi til enda, en nýútkominn orðstöðulykill kemur að margvíslegu gagni þótt hann sé nokkuð dýr. Tölfræðihandbókin gamla var frábær á sinn hátt og nýútkomin Hagskinna eru eigulegur gripur sem bók, en hún jafnast ekki á við geisladiskinn, sem bæði geymir meira efni og dásamlegt er að fletta upp í, auk þess sem hægt er að taka heilu töflurnar traustataki og nota í eigin vinnu. (Innan sviga get ég þess að hvorugur þessara geisladiska er kominn í gagnið í Þjóðarbókhlöðu vegna tæknilegra örðugleika, að mér skilst.)


Allt er víst hægt að búa til í þessum efnum, hvort heldur sem er á geisladiskum eða á netinu sjálfu. Málið er hvernig á að fjármagna framkvæmdirnar og síðan reksturinn – þetta að því gefnu að vanda eigi til verka og vit verði í hlutunum og gagn fyrir fræðimenn, en ekki bara einhver skrautsýning og mont (en við slíku varar Lee Ellen Friedland á Library of Congress í Washington í erindi sem ég rakst á í fyrradag og hún flytur á ráðstefnu um tölvunotkun í hugvísindum í Oxford í næstu viku). Geisladiskar eru ekki dýrir sem slíkir, þykist ég vita, heldur vegna þeirrar óhemju vinnu sem lögð er í vinnsluna: innslátt, forritun og svo framvegis. Einn diskur með 77 enskum skáldsögum frá 18. öld kostar til að mynda litlar 270 þúsund krónur hjá fyrirtækinu Chadwyck-Healey: hver hefur efni á því? Og ekki veit ég hvað væntanlegur diskur með fyrsta ?bindi“ heildarverka heimspekingsins Wittgensteins kemur til með að kosta þegar hann kemur út hjá Oxford University Press í vetur með texta og myndum og öflugum leitarleiðum, en fjöldi manns hefur unnið að verkinu við háskólann í Björgvin í sjö ár eða svo. Hægt er að fá helstu rit heimspekinganna Hume og Locke hjá sama forlagi fyrir nokkur þúsund krónur, en það er miklu veigaminni útgáfa. Eitt er víst að Wittgenstein verður ekki keyptur hingað þótt hann hafi sjálfur komið til landsins árið 1913 og sanna megi að fimm eða sex manns í Reykjavík og á Akureyri gætu hugsað sér að nota diskinn. Sama gildir um ritverk Goethe eða Kierkegaard eða spænsk leikrit frá 17. öld og hvað það nú er sem hægt er að kaupa: ekkert er til ennþá í Þjóðarbókhlöðu af þessu tagi og verður varla, fyrir utan – er mér sagt – fáeina diska sem Ólafur Jóhann Ólafsson gaf á vegum Sony þegar bókhlaðan var opnuð, enda varla ástæða til þegar ekki er einu sinni hægt að kaupa bækur sem kosta að jafnaði tvö til fjögur þúsund krónur hver.


?Online“ gæti þá orðið lykilorðið, en það er ekki ókeypis heldur, og gilda að mér sýnist sömu leikreglur í hugvísindum og raunvísindum. Ýmist gefst kostur á því að kaupa áskrift eða að rukkað er fyrir notkun, annaðhvort tekinn tímann eða taldar færslur. Vissulega er margt hægt að gera ókeypis á ótal stöðum, einkum í textaböndkum bandarískra háskóla, en þá eru útgáfur sem tiltækir textar byggja á oftar en ekki lélegar, því aðeins er hægt að setja þær upp fyrir ekkert ef höfundarréttur er útrunninn. Slíkt efni nýtist við kennslu, en illa við rannsóknir. Háskólar og rannsóknarstofnanir sumar standa sig þó iðulega betur og gefa aðgang að því sem unnið er að – nema ég hafi látið blekkjast og það eigi bara við um sýnishorn á meðan vinnslan fer fram, en síðan verði að borga. Auðvitað væri skemmtilegast að allir gætu skoðað og notað allt – og þannig ætti þetta að vera, en þá verður að vera búið að borga hlutina öðruvísi og sjá til þess að eðlilegu viðhaldi eða endurnýjun verði sinnt. Gagnagrunnar og textabankar ættu vitaskuld að vera ókeypis til afnota eða mjög ódýrir, en ekki skal ég segja hvernig framkvæmdin getur orðið og þetta verður varla í bráð.


Ef peningar eru í on-line-spilinu getur áskriftin nefnilega ekki orðið mikið hagstæðari en kaup á geisladiskum og sem dæmi má nefna að árgjald af afnotum fyrir latnesk rit kirkjufeðranna, Patrologia latina, sem kom út í yfir tvö hundruð bindum á síðustu öld, nemur kvartmiljón íslenskra króna ef notandi er einn, en hálfri miljón ef þeir eru fimm til níu talsins. Ef einhver vill eiga safnið í heild kostar það þrjár milljónir króna, sem er meira en allt bókakaupafé Landsbókasafns – Háskólabókasfans sem merkt er heimspekideild á ári hverju. Verkið er til á prenti í Þjóðarbókhlöðu, megnið af því að minnsta kosti, og engin ástæða til þess að gera betur, enda væri langtum ódýrara að borga undir fólk til Kaupmannahafnar ef það vill fletta upp í þessum merku verkum. En þá hefur líka ekkert breyst miðað við ríkjandi ástand sem lýst var í upphafi, því áður var þjóðin bókalaus, en samkvæmt þessu verður hún í raun sambandslaus: allt sem skiptir máli er of dýrt, eftir sem áður.


Besta leiðin verður ef til vill að semja við risavaxin fyrirbæri eins og hið undraverða Georgíu-kerfi um heildarlausn á vanda Íslendinga, enda íslenskt fræða- og vísindaumhverfi minna en meðalstórir háskólar í Bandaríkjunum. Annars ættu kaup á geisladiskum, ef einhver geta orðið, að vera á könnu Landsbókasafns – Háskólabókasafns, að höfðu samráði við háskólakennara og sérfræðinga, en tenglar inn á merka staði á neti og vef þyftu að vera á ábyrgð einstakra kennslu- og fræðigreina í háskólakerfinu, en í samvinnu við sérfrótt fólk í bókhlöðunni. Og hvernig sem þetta gerist verður ekki hjá því komist að íslenskir fræðimenn fylgist með sem neytendur tölvutækra upplýsinga á sínu sviði og sjái til þess að komi kynslóðir kynnist því undrum og stórmerkjum sem unnt er að láta blasa við á skjánum.


Ráðstefna Félags bókavarða í rannsóknarbókasöfnum, Borgartúni 6, 11. september 1997.
Már Jónsson, sagnfræðingur