Um höfundarétt

Um höfundarétt og gildistíma

 

Höfundalög til verndar höfundum og höfundaréttareigendum hafa verið í gildi á Íslandi frá árinu 1905. Íslensk höfundalög (nr. 73/1972) hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár með innleiðingu ýmissa tilskipana Evrópusambandsins.

 

Eftirtaldir kaflar eru í höfundalögunum:

 

I. Réttindi höfunda o.fl.
II. Takmarkanir á höfundarétti
III. Um aðiljaskipti að höfundarétti
IV. Gildistími höfundaréttar
V. Ýmis réttindi, skyld höfundarétti
VI. Ýmis ákvæði
VII. Refsiákvæði, bætur, ákærureglur o.fl.
VIII. Gildissvið laganna
 
Íslendingar eiga aðild að ýmsum alþjóðlegum og evrópskum sáttmálum um höfundarétt sem hafa haft áhrif á íslenska löggjöf. Sömuleiðis eru fjölmörg samtök sem gæta réttar höfunda og notenda. Sérstakir kaflar eru um þetta hvort tveggja á vefnum.

 

Höfundaréttur og rétthafar
Hvaða efni er verndað
Gildistími höfundaréttar
Spurningar og svör um höfundarétt á vef Rithöfundasambands Íslands http://www.rsi.is/um_rsi/hofundarettur/
CC höfundaréttarleyfi http://creativecommons.is/

 

 

Höfundaréttur og rétthafar

 

Um réttindi höfunda, eintakagerð og fleira er fjallað í I. kafla höfundalaganna.
Höfundaréttur snýst í stuttu máli um einkarétt höfunda til að gera eintök af verki sínu. Annars vegar um huglægan rétt höfundar en hins vegar um fjárhagsleg réttindi hans eða annarra sem hann hefur framselt þau til. Hinn huglægi réttur eða sæmdarréttur, er ávallt höfundanna en fjárhagslegi rétturinn er einnig bæði útgefenda og framleiðenda.

 

Almennt má segja að höfundar sem vinna verk sín í launaðri vinnu eigi höfundarétt að þeim, nema þau séu nauðsynlegur liður í starfsemi fyrirtækis eða stofnunar. Ákvæði eru þó óljós í höfundalögum um þetta efni. (sbr. umfjöllun á vef Hagþenkis http://hagthenkir.is/sida.php?id=467)

 

Svonefnd grannréttindi eru skyld höfundarétti og þau eiga listflytjendur og flytjendur þjóðfræðiefnis á flutningi sínum en einnig framleiðendur hljóð- og myndrita, gagnagrunna og fleira efnis. Sama gildir um þá sem eiga ljósmyndir gerðar í atvinnuskyni (sjá 45.-50. gr.).

 

Höfundarverk er bæði óhlutbundið hugverk og oftast einnig hlutbundið eða stafrænt eintak eða eintök af verkinu. Verk geta birst sem stök verk eða samsett.
Sama verkið getur birst á ýmsum miðlum, t.d. á pappír, hljóðsnældu, geisladiski eða neti.
Rétthafar að sama verki geta þannig verið fjölmargir, höfundar og flytjendur, útgefendur og framleiðendur.
Um þýðingar, aðlaganir eða umbreytingar úr einu formi í annað gildir sú meginregla að gerandi þessa á höfundarétt að breytingunni en það raskar ekki rétti frumhöfundarins (sjá 5. gr.).
Nafn frumhöfundar verður að koma fram á þýðingu eða umbreyttu verki og ekki má birta það í heild án leyfis frumhöfundar. Í tilvitnunum til slíkra verka ber að geta bæði frumhöfundar og þýðanda.

 

Sjálfstætt verk sem hefur sótt fyrirmynd í annað höfundarverk án þess að nota það beint er óháð því um höfundarétt. Ýmis tilvik geta verið vafasöm í þessu sambandi eins og dæmin sanna.

 

Um fjárhagslegan rétt útgefenda gilda sömu reglur. Útgefandi þýðingar þarf að fá leyfi bæði höfundar og frumútgefanda en öðlast síðan fjárhagslegan rétt á hinu umbreytta verki.

 

Algengt er að verk eða hluti verks eins höfundar sé gert að hluta af safnverki. Höfundur safnverksins á höfundarétt að því sem heild án þess að það raski höfundarétti sjálfstæðra verka sem eru hluti af því (sjá 6. gr.).

E

f tveir eða fleiri menn semja saman ósundurgreinanlegt verk þá eiga þeir sameiginlega höfundarétt að því (sjá 7. gr.).

 

Hvaða efni er verndað

 

Samkvæmt íslensku höfundalögunum á höfundur eignarétt á bókmenntaverki eða listaverki. Undir þá skilgreiningu fellur samið mál í ræðu og riti, leiksviðsverk, tónsmíðar, myndlist, byggingarlist, kvikmyndir, ljósmyndalist, nytjalist og aðrar samsvarandi listgreinar, á hvern hátt og í hverju formi sem verkið birtist.
Uppdrættir, teikningar, mótanir og líkön njóta samskonar verndar. Tölvuforrit og mynstur falla einnig undir höfundarétt (sjá 1. gr.).
Samkvæmt hefðbundnum skilningi laganna teljast vísinda- og fræðirit einnig til bókmenntaverka. Verkin þurfa ekki að hafa verið færð í letur til að njóta verndar, sbr. í ?ræðu og riti?.
Listflutningur fellur undir fyrrnefnd grannréttindi (sjá 45.-50. gr.). Hér má m.a. telja leiklist, söng og hljóðfæraleik og flutning þjóðmenningarlegs efnis.
Framleidd hljóðrit og myndrit njóta einnig verndar samkvæmt grannréttindum.
Sama gildir um ljósmyndir gerðar í atvinnuskyni.
Skrár, töflur, eyðublöð og gagnagrunnar falla einnig undir einkarétt.

 

Sömu reglur gilda um útgefin og óútgefin höfundarverk. Svo lengi sem höfundaréttur hvílir á verkum ber að virða hann.

 

Gildistími höfundaréttar

 

Um gildistíma er fjallað í IV. kafla höfundalaganna. Höfundaréttur á verki helst í flestum tilvikum í 70 ár frá láti höfundar. Ef margir höfundar eru að verki, þá gildir reglan um þann sem lengst lifir. Ef um er að ræða óbirt verk eftir ókunnan höfund, þá gildir reglan í 70 ár frá tilurð verksins. Ef verk er fyrst birt eftir að verndartíma lýkur, helst vernd útgefanda í 25 ár eftir birtingu. Grannréttindi listflytjenda og framleiðenda haldast í 50 ár frá upptöku, flutningi eða birtingu verks.
Gildistími verndar gagnagrunna er háður samsetningu og innihaldi. Ef þeir innihalda sjálfstæð verk njóta þau verndar í samræmi við það en um gagnagrunna gildir líka sérstök tegund verndar sem helst í 15 ár frá tilurð eða birtingu hans (50. gr.). Ef umtalsverðar breytingar á gagnagrunni eru gerðar innan þess tíma, endurnýjast gildistíminn. Líklegt er að síbreytilegir gagnagrunnar geti notið stöðugrar verndar.
Höfundaréttur erfist til maka og afkomenda höfunda og listflytjenda samkvæmt erfðalögum.