Næsta Morgunkorn Upplýsingar verður haldið á Bókasafni Kópavogs þann 10. nóvember nk. kl. 8:30 – 9:45. 
 
Yfirskrift þess er, „Breytingar, breytinganna vegna?“ en þar munu Lísa Z. Valdimarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Kópavogs, og Margrét Sigurgeirsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Garðabæjar, segja frá þeim breytingum sem orðið hafa á söfnum þeirra undanfarið ár.
 
Lísa segir frá breytingum sem gerðar voru á aðalsafni Bókasafns Kópavogs í apríl á þessu ári, en safnið var lokað í tvær vikur á meðan á breytingunum stóð. Sýndar verða „fyrir og eftir“ myndir af safninu og einnig sagt frá undirbúningi breytinganna og hvað betur hefði mátt fara. Niðurstöður þjónustukönnunar sem nýlega var lögð fyrir gesti verða kynntar, en aðaláhersla hennar var að fá viðbrögð við breytingunum.
 
Margrét segir frá hvað er búið að breytast á safninu síðastliðna 12 mánuði. 
 
Aðgangur að Morgunkorni er gjaldfrjáls fyrir félagsmenn.
 
Morgunkorninu verður streymt beint á YouTube og mun tengill á streymið verða sendur út bráðlega.