Árleg ráðstefna  og ársfundur ARLIS/Norden, samtaka listbókasafna á Norðurlöndum verður haldin í Reykjavík dagana 12. til 14. júní n.k.
 
Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er Það sem mannshöndin snertir ? fegurðin í efni og fjallar um notkun efnis (materiale) í listsköpun. Færst hefur í vöxt að bókasöfn lista- og handverksskóla hafi sérstakar safndeildir þar sem safnað er saman ýmiss konar efnistegundum sem nemendur og listamenn geta rannsakað og handfjatlað en það er oftar en ekki nauðsynleg hvatning til nýsköpunar í listum.
 
Sérfróðir erlendir og innlendir fyrirlesarar flytja erindi á aðal ráðstefnudeginum sem er föstudagurinn 13. júní. Málefnið hefur sjaldan verið til umfjöllunar hér á landi og hér eru engin efnisbókasöfn. Þetta er því einstakt tækifæri til að fræðast um þessa tegund safna.
 
Við bjóðum áhugasömum sem ekki eiga erindi á ársfundinn, upp á að skrá sig einungis á föstudeginum, hálfan eða allan daginn. Dagskráin er áhugaverð og höfðar ekki bara til starfsfólks bókasafna, heldur einnig til kennara og nemenda í listnámi og ekki síst til hönnuða og listamanna í öllum greinum sjónlista.
 
Skráningargjald:
· Heill dagur: sex  fyrirlestrar, kaffi og hádegisverður kr. 22.000
· Fyrir hádegi: þrír fyrirlestrar og kaffi,   kr. 10.000  (án hádegisverðar).
· Eftir hádegi: þrír fyrirlestrar og kaffi , kr. 10.000  (án hádegisverðar).
 
 
Samkvæmt hönnunarstefnu 2014-2018, ?Hönnun sem drifkraftur til framtíðar“ er lögð áhersla á þrjár grunnstoðir til að auka veg hönnunar hér á landi; menntun og þekkingu, starfs- og stuðningsumhverfi og að lokum vitundarvakningu. Uppbygging efnissafna hér á landi, eins og fjallað verður um á ráðstefnunni, fellur vel að þessum markmiðum stjórnvalda.
 
Þeir sem vilja skrá sig, útfylli rafrænt skráningareyðublað en allar nánari upplýsingar veita Gróa Finnsdóttir ([email protected]), Gunnhildur Björnsdóttir ([email protected]) og Margrét I. Ásgeirsdóttir ([email protected])
Síðasti skráningardagur er 20. maí 2014.

Fyrir hönd undirbúningshóps ráðstefnunnar,

Gunnhildur Björnsdóttir
Margrét I. Ásgeirsdóttir
Gróa Finnsdóttir