Undirrituð vill gjarnan vekja athygli á nokkrum staðreyndavillum og misskilningi sem kom fram í nýlegri grein í rafrænum Fregni um starfsemi Bókasafns og upplýsingaþjónustu við Listaháskóla Íslands. Misvísandi upplýsingar á prenti þarf að leiðrétta, annars er hætta á að vitleysan haldi áfram.


Á bls. 3 segir að safnið eigi:…
.. rætur að rekja til hönnunarbókasafns Myndlista- og handíðaskóla Íslands og leiklistarbókasafns Leiklistarskóla Íslands en söfnin voru sameinuð þegar Listaháskóli Íslands (LHÍ) var stofnaður haustið 1998.


Tvö atriði þarf að leiðrétta í þessari málsgrein.


Í fyrsta lagi: Bókasafn Myndlista- og handíðaskóla Íslands var ekki aðeins hönnunarbókasafn heldur fullgilt bókasafn á sviði þeirra fræða sem kennd voru við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og myndaði megingrunn að því safni sem nú er nefnt Bókasafn Listaháskóla Íslands. Vísa skal höfundi á grein undirritaðrar um Bókasafn Myndlista- og handíðaskóla Íslands sem birtist í Sál aldanna, íslensk bókasöfn í fortíð og nútíð (1997) svo hún átti sig betur á því hvílíka sögulega gersemi hún fékk í hendurnar. Listaháskóli Íslands stendur tvímælalaust á grunni Myndlista- og handíðaskóla Íslands sem stofnaður var árið 1939 — um það eru allir, sem vel þekkja til, sammála. Það er einnig vitað að núverandi stjórnendur Listaháskóla Islands vilja afmá öll bönd við fyrri skóla og telja LHÍ ?nýjan skóla“. Samsvarandi listaskólar í nágrannalöndunum státa sig hins vegar af því að eiga langa sögu sem þeir geta rakið allt aftur til 19. aldar, jafnvel þótt núverandi skólar hafi skipt um rekstrarform eða heiti.


Í öðru lagi þá var Listaháskóli Íslands stofnaður 1998, en hóf starfsemi 1999. Bókasöfnin voru ekki sameinuð fyrr en haustið 1999 þegar starfsemi Listaháskóla Íslands hófst og Myndlista- og handíðaskóli Íslands var lagður niður.


Með vinsemd,
Arndís S. Árnadóttir MA,