Leiðbeiningar um frágang greina

Frágangur greina

Bókasafnið er fagtímarit bókasafns- og upplýsingafræðinga, bókavarða, skjalastjóra, skjalavarða og áhugamanna um bókasafna- og upplýsingamál.

Bókasafnið birtir fræðilegar greinar, vandaðar almennar greinar um bókasafna- og upplýsingamál, umfjöllun um íslenskar og erlendar bækur sem og annað efni eftir bókaverði og bókasafns- og upplýsingafræðinga eða þeim tengt eftir því sem ritnefnd metur viðeigandi og hæft til birtingar. Skilafrestur á efni er 15. október 2023. 

Ritnefnd fer yfir greinar og hafnar þeim eða fer fram á breytingar og endurbætur ef hún telur ástæðu til. Ritnefnd gerir engar breytingar sem varða efni eða stíl greina nema í samráði við höfunda en áskilur sér rétt til einhliða lagfæringa á augljósum villum.

 

Leiðbeiningar um frágang greina

Mikilvægt er að fara nákvæmlega eftir leiðbeiningum um form og frágang.

Greinum skal skilað á rafrænu formi, Word eða sambærilegu sniðmóti með 12 punkta letri (Times New Roman) á megintexta án annarra úlitsskipana en nauðsynlegar eru, svo sem skáleturs eða feitleturs, inndregins texta (fyrir tilvitnanir – sjá hér að neðan) og annað eftir því sem við á.

Jöfnun texta: Vinstrijafnaður. Greinaskil eru auðkennd með einni auðri línu, ekki inndregnum texta. Fyrirsagnir eru feitletraðar. Ef um tvennskonar fyrirsagnir er að ræða (yfirfyrirsagnir / undirfyrirsagnir) þarf að auðkenna það á einhver hátt, t.d. með mismunandi leturstærð.

Gæsalappir: Nota skal íslenskar gæsalappir „-“ (eins og tölurnar 99 – 66).

Bil: Hafið aðeins eitt stafabil á eftir punkti eða kommu.

Skammstafanir notist í hófi í megintexta og skal skrifa til dæmis í stað t.d., svo sem í stað s.s., og svo framvegis í stað o.s.frv. Sumar skammstafanir er þó eðlilegt að nota, svo sem varðandi lengd og þyngd (m, km, kg – án punkts). Einnig er eðlilegt að nota skammstafanir í heimildaskrá (svo sem o.fl. – punktur milli orða en ekki bil). Heiti stofnana og annarra orðmynda má skammstafa. Í fyrsta skipti þarf að skrifa fullt heiti og skammstöfunina innan sviga, dæmi: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn (Lbs.-Hbs.). Einnig er hægt að nota útskýringar, dæmi: „American Library Association eða ALA eins og kallað er …“ eða: „Association of Records Managers and Administrators betur þekkt sem ARMA“.

Tölustafir: Almennt fer betur á að skrifa lægri tölur en 10 með bókstöfum, nema tilefni sé til annars.

Erlend orð ber að forðast í textanum. Almennt skal íslenska fræðileg hugtök ef hægt er en erlent orð má setja í sviga ef ástæða þykir til skýringar, dæmi (e. library). Ef nota þarf erlent orð inni í texta skal það skáletrað.

Heimildaskrá, tilvísanir og tilvitnanir: Til að gæta samræmis er höfundum bent á að nota APA-kerfið við gerð tilvísana, tilvitnana og heimildaskrár. Sjá nýjustu handbók bandaríska sálfræðifélagsins: Publication Manual of the American Psychology Association, 7. útg., 2019 Frekari upplýsingar um meðferð heimilda má t.d. finna hjá Ritveri Háskóla Íslands: https://ritver.hi.is/is og vefsíðu APA: http://www.apastyle.org/

Beinar tilvitnanir: Stutt, bein tilvitnun í texta (styttri en 3 línur) er í gæsalöppum. Löng bein tilvitnun (3 línur eða lengri) er inndregin án gæsalappa og aðgreind með greinarskilum.

Myndefni skal skilað í sérskjali. Ljósmyndir þurfa að vera í góðri upplausn (helst ekki minni en 300 punkta (dpi). Myndatextar fylgi með merktir heiti viðkomandi myndaskjals. Einnig nafn ljósmyndara eftir því sem við á.

Töflur og gröf: Haft skal samráð við ritstjóra um skil á töflum og gröfum.

Útdráttur: Meginreglan er að fræðilegum greinum fylgi útdráttur. Hæfileg lengd er um það bil 500-1000 slög með bilum (75-150 orð).

Um höfund, upplýsingar og mynd: Með grein skal fylgja mynd af höfundi og upplýsingar um menntun og núverandi starf.

Lengd greina: Hæfileg lengd greina fer eftir efni og efnistökum. Að jafnaði er gert ráð fyrir að greinar séu ekki lengri en 2-3 síður (um það bil 10.000 slög með bilum eða 1500 orð).

Síðast uppfært: Oktober 2024