Dagana 21. til 22. júní 2010 komu 73 fulltrúar frá sjö bókasöfnum á Norðurlöndunum saman í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi til að ræða hvernig mætti hugsa sér almenningsbókasöfn framtíðarinnar. Þessi samkoma var kölluð ?camp? upp á ensku, ?vinnusmiðja? var íslenska orðið sem notað var í starfsáætlun Borgarbókasafns Reykjavíkur fyrir 2010 þar sem þátttaka í verkefninu var kynnt.


Þetta verkefni á sér þá forsögu að í nóvember árið 2008 héldu borgarbókasöfnin í Árósum, Stokkhólmi og Helsinki sameiginlega ráðstefnu eða camp, eins og það var kallað á ensku, í Helsinki. Í framhaldi af því stóð svo Borgarbókasafnið í Árósum fyrir ráðstefnu þar í júní 2009 undir heitinu NextLibrary: International un-conference og voru þátttakendur þar frá ýmsum löndum.


Upp úr því var ákveðið að fá fleiri bókasöfn á Norðurlöndum til samstarfs um verkefni þar sem unnið yrði að þróun hugmynda um almenningsbókasöfn framtíðarinnar. Til samstarfs komu auk bókasafnsins í Árósum borgarbókasöfnin í Stokkhólmi, Helsinki og Osló og þar sem ekkert íslenskt almenningsbókasafn er af sömu stærð og þessi söfn var ákveðið að bjóða þremur söfnum héðan, Borgarbókasafni Reykjavíkur, Bókasafni Kópavogs og Amtsbókasafninu á Akureyri. Sótt var um styrk til Norrænu menningargáttarinnar og verkefninu, sem kallast Network of Nordic Public Libraries, var lýst þannig að sjö bókasöfn á fimm Norðurlöndum mundu vinna saman að hugmyndum um nýbreytni varðandi hlutverk, starf og stefnu norrænna bókasafna og þróun þeirra sem virkra menningarstofnana og lýðræðislegs rýmis í samfélaginu. Þeim hugmyndum og aðferðum, sem upp úr þessu spryttu, yrði síðan miðlað áfram jafnt innan hvers lands sem á norrænnum og alþjóðlegum vettvangi. Áhersla var lögð á að verkefninu yrði sinnt með því að fólk kæmi saman en hefði ekki bara samskipti gegnum fjarskipti, enda sýndu reynsla og rannsóknir að slíkt bæri aldrei sama árangur. Gert var ráð fyrir þremur vinnusmiðjum (camps) á árunum 2010, 2011 og 2012. Í hverri vinnusmiðju yrðu 10 þátttakendur frá hverju landi. Íslensku þátttakendurnir yrðu fimm frá Reykjavík, þrír frá Kópavogi og tveir frá Akureyri.


Ástæðunni fyrir verkefninu var lýst svo: Almenningsbókasöfn á Norðurlöndunum eiga í vök að verjast á ýmsum sviðum. Dregið hefur úr fjárhagslegum stuðningi. Þörf almennings fyrir upplýsingar og aðgang að þeim breytist hratt, menningarleg starfsemi og fjölmiðlun eru í örri þróun og hnattræn menningarleg áhrif fara vaxandi. Norrænar hefðir bókasafna byggjast á lýðræðislegum gildum en þessi grundvöllur þarfnast endurnýjunar í ljósi tæknilegra og samfélagslegra breytinga. Samstarfsnetinu er ætlað að vinna að nýbreytni og þróun hinnar lýðræðislegu bókasafnshefðar á Norðurlöndunum og skapa sameiginlega norræna túlkun á hugmyndunum bak við bókasafnið. Í því skyni er mikilvægt að þeir starfsmenn sem að þessu koma kynnist þvert á stofnanir og lönd og þróuð verði fagleg tengsl milli stjórnenda og lykilstarfsmanna bókasafnana. Lögð er sérstök áhersla á mikilvægi þess að starfmenn taki þátt í þessari þróunarvinnu sem og að hún fari fram í samstarfi bókasafna frá þessum fimm löndum.


Komið var upp samskiptavef á netinu, http://nordiccamps.ning.com, en verkefnið gengur undir nafninu Nordic Camps. Vefurinn er opinn þannig að hægt er að skoða hann eða skrá sig á hann og taka þannig þátt í samskiptum. Eins og áður segir var fyrsta vinnusmiðjan haldin í Reykjavík í júní 2010 og er venjulega vísað til hennar sem IceCamp. Önnur vinnusmiðjan var svo á Skytteholm skammt utan við Stokkhólm 19.-22. september 2011. Sex þátttakendur voru frá Íslandi, heldur færri en til stóð og öllu færri en í fyrra og veldur þar einkum bág fjárhagsstaða bókasafnanna. Þriðja vinnusmiðjan verður í Osló á næsta ári.
 
Fyrir vinnusmiðjuna 2010 hafði undirbúningshópur tekið saman hugmyndir eða þemu sem síðan var valið úr. Á þessu ári var samskiptavefurinn hins vegar nýttur þannig að notendur hans sendu fjölmargar hugmyndir inn á hann. Þegar á staðinn var komið röðuðust þátttakendur í tilviljanakennda hópa sem unnu svo út frá þeim þemum eða hugmyndum sem þeir fengu í fangið. Þessar vinnusmiðjur eru einskonar hugmyndasmiðjur eða jafnvel frekar hugmyndagerjun, lögð er áhersla á frjósemi hugmyndanna, engu er fyrirfram hafnað, það má gera mistök því að af mistökum lærum við. Í stað þess að þrengja sér niður á handfastar skriflegar niðurstöður skila hóparnir af sér á myndrænan og leikrænan hátt, setja á svið leikþátt eða eitthvað slíkt, það er sem sagt lögð áhersla á útvíkkun hugmyndanna og að gefa þeim vængi frekar en að draga þær saman í ákveðna niðurstöðu. Enda á ekki að verða nein ákveðin niðurstaða heldur áframhaldandi þróun. Þótt upphaflegt heiti verkefnisins sé Next Library eða næsta bókasafn, þá vísar það í raun lengra, til þarnæsta og þarþarnæsta og svo áfram.


Væntanlega verður sagt nánar frá þessu verkefni í næsta hefti Bókasafnsins.


Einar Ólafsson
Borgarbókasafni Reykjavíkur