Aðgengi fyrir alla : fortíð metin – framtíð rædd. Málþing um landsaðgang Íslendinga að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum verður haldið á Grand Hotel í Reykjavík, 15. október 2007 kl. 8:45-16.15.
Á árinu 2007 eru 10 liðin frá málþinginu Upplýsingar á Interneti – málþingi um aðgang atvinnulífs og vísindasamfélags að upplýsingum. Snemma á árinu 1999 skrifaði svo menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, undir fyrsta landssamninginn fyrir hönd íslenska ríkisins. Það var samningur við Encyclopedia Britannica og gerði það mögulegt að leita í gagnasafninu frá öllum nettengdum tölvum á Íslandi. Aðrir samningar fylgdu í kjölfarið og nú hafa allir Íslendingar frjálsan aðgang að um 14.000 rafrænum tímaritum á öllum sviðum mannlegrar þekkingar. Kostnaður er greiddur af bókasöfnum og stofnunum hér á landi.
Á málþinginu mun verða lögð áhersla á gagnsemi landssamninganna fyrir íslenskt samfélag og hvaða notagildi þetta aðgengi hefur haft fyrir vísindamenn. Rætt verður um hvar þurfi að auka við þetta aðgengi og hver gæti orðið stefnan í náinni framtíð. Jafnframt verður sjónum beint að nýju viðfangsefni sem er varðveisla rannsóknargagna (digital repository). Flestar rannsóknastofnanir, bæði einkareknar og í opinberum rekstri, safna gögnum sem hugsanleg gætu orðið til gagns fyrir aðra aðila. Á ráðstefnunni verður rætt um þróun á þessu sviði í nágrannalöndunum og hvaða aðferðum er beitt þar við að koma gögnum í öruggar og vandaðar geymslur með stýrðu aðgengi. Hér á landi er eitt slíkt gagnasafn í notkun á Landspítalanum sem heldur utan um rannsóknargögn í læknisfræði og notar til þess hugbúnaðinn Dspace.
Málþingið er haldið af Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræða. Takið daginn frá!
Endanleg dagskrá verður send út fljótlega og þá verður hægt að skrá sig hér á vefsíðu félagsins.
Stjórnin