Tveggja daga námskeið, á vegum símenntunar við Háskólann á Bifröst, verður haldið fyrir félaga  Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræðinga, dagana 14-15 október næstkomandi. Fyrri dagurinn miðar að því að kynna þátttakendum aðferðir núvitundar, með markmið heilsueflandi vinnustaðar að leiðarljósi, en sá seinni er helgður fyrirlestrum og verklegri vinnustofu þar sem markmiðið er að efla kunnáttu þátttakenda í notkun samfélagsmiðla og stafrænni markaðssetningu.
Námskeiðið fer fram í fallegu umhverfi á Bifröst þar sem hópnum mun einnig gefast tækifæri á að kynnast enn betur og fræðast um staðinn og umhverfið.

Föstudagur 14. október 

Fyrirlestur kl. 14-17: 

Heilsueflandi vinnustaður í núinu – vinnusmiðja með Tómasi Páli Þorvaldssyni í samstarfi við Hugtak
Vinnusmiðja þar sem farið er yfir helstu aðferðir við að draga úr vinnustreitu og takast á við hana. Vinnusmiðjan stuðlar að því að  stjórnendur og starfsmenn átti sig á og kunni skil á eðli vinnustreitu og birtingarmyndum svo og fyrstu merkjum kulnunar í starfi. Einnig er aðferðum núvitundar gerð góð skil og hvernig megi nota hana í streitustjórnun.
Kynnisferð um svæðið kl. 17-18
Kvöldverður kl. 19:30

Laugardagur 15. október

 Morgunverður: 8-9

Fyrirlestur kl. 9-12:
Notkun samfélagsmiðla í kynningarstarfi
Farið verður ítarlega yfir um hvernig megi nýta sér samfélagsmiðla með sem bestum árangri í kynningarstarfi. Hverjir eru kostir og gallar slíkra miðla og mismunandi markhópar þeirra.

Hádegisverður kl. 12-13

Hagnýt vinnustofa kl. 13-16
Vinnustofa þar sem nemendur fá handleiðslu í notkun samfélagsmiðla.

Verð á námskeiðinu er 57.750 kr. á mann og er innifalið í því öll námskeiðsgögn, kennsla, gisting, kvöldverður á föstudagskvöldi, morgunverður, hádegisverður og kaffi á laugardeginum. Gist er í rúmgóðum, einstaklingsherbergjum á Hótel Bifröst – www.hotelbifrost.is.

Verð miðast við að þátttakendur séu að lágmarki 20 manns.
Vert er að benda á að flest stéttarfélög eru með sjóði sem styrkja sí- og endurmenntun félagsmanna sinna. 
Upplýsing býður svo ófaglærðum starfsmönnum bókasafna, sem eru fullgildir félagsmenn Upplýsingar, styrk á námskeiðið og kemur nánari útfærsla á því ásamt upplýsingum um skráningu á námskeiðið síðar.
Kennarar:

Jón Freyr Jóhannson
Jón Freyr hefur starfað sem aðjúnkt við Háskólann á Bifröst frá árinu 2008 og kennir bæði í grunn- og meistaranámi, Jón Freyr er með BSc í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands (1989) og meistargráðu í viðskiptafræði MBA frá Háskólanum í Reykjavík (2003) og hefur einnig lokið kennslufræði til kennsluréttinda (2011) og diplomu í rekstra- og viðskiptafræði frá Endurmenntunarstofnun HÍ (1996). Í gegnum árin hefur Jón Freyr gefið út ýmis konar kennsluefni m.a. í Excel.
Tómas Páll Þorvaldsson
Tómas Páll er klínískur sálfræðingur frá Háskóla Ísland sem hefur starfað um þó nokkra hríð hjá fyrirtækinu Hugtak sem fyrirlesari. Þar hefur hann fyrst og fremst unnið með vinnustreitu og notkun á núvitund í glímunni við hana.