Ritrýndar greinar
Leiðbeiningar fyrir höfunda fræðilegra greina og ritrýna fyrir Bókasafnið:
Óski höfundur eftir því að grein hans verði ritrýnd tekur útgáfunefndin afstöðu til þess hvort hún sé til þess fallin. Ef greinin uppfyllir kröfur um efni og framsetningu er hún send til ritrýningar. Útgáfunefnd/ritstjóri tilnefnir einn til tvo fræðimenn/sérfræðinga á fagsviði greinarhöfundar til þess að ritrýna greinina. Nafn ritrýnis er ekki gefið upp.
Ritrýnir skal meta endanlega hvort grein sé hæf til birtingar eða ekki sem ritrýnd grein. Hann skal skila rökstuddri umsögn með ákvörðun um birtingu eða synjun.
Mæli hann með því að grein verði birt leggur hann fram tillögur um lítilsháttar eða verulegar breytingar. Að lokum eru niðurstöður ritrýnis ásamt athugasemdum útgáfunefndar kynntar höfundi. Þess skal gætt að greinarhöfundur fái þær niðurstöður eigi síðar en 15. nóvember eða mánuði fyrir lokaskilafrest (sem er 15.desember).
Ritrýndum greinum skal fylgja útdráttur á ensku ásamt enskum titli.
Eftirfarandi atriði eru höfð að leiðarljósi við ritrýningu:
-
Hvort rannsóknarniðurstöður séu nýjar eða hafi birst áður
-
Að greinin lýsi eigin athugunum höfundar.
-
Að titill greinar sé lýsandi.
-
Að útdráttur sé í samræmi við innihald, lýsi tilgangi, efniviði og aðferðum, niðurstöðum og ályktunum í stuttu, skýru máli og ensk þýðing sé efnislega rétt.
-
Að efnistökum, tilgangi og þýðingu viðfangsefnisins sé lýst í inngangi.
-
Að gerð sé grein fyrir fræðilegu samhengi og nýjustu rannsóknum, mikilvægi rannsóknarefnisins, tilgangi rannsóknarinnar, rannsóknarspurningum, rannsóknarsniði, rannsóknaraðferðum, tölfræðilegum aðferðum ef við á og úrvinnslu gagna.
-
Að val á þýði/úrtaki sé viðeigandi og lýst með nægilega skýrum hætti.
-
Hvort einhverjir annmarkar, svo sem skekkjur eða frávik, truflandi þættir og tilviljanir hafi áhrif á niðurstöðurnar og hvort þeir séu þá ræddir og tillit tekið til þeirra í greininni.
-
Að niðurstöður séu settar skýrt fram, studdar gögnum og rannsóknarspurningunum svarað. Skýr skil séu milli umfjöllunar annarsvegar og hinsvegar mats á niðurstöðum og samanburðar á niðurstöðum annarra.
-
Að myndir (gröf) og töflur séu skýrar og studdar fullnægjandi skýringarstextum.
-
Að ályktanir styðjist við gögnin og fræðilega umræðu.
-
Hvort niðurstöðum og ályktunum annarra höfunda sé nægilegur gaumur gefinn.
-
Að viðfangsefnið bæti við skilning og þekkingu og leggi eitthvað af mörkum til rannsókna, starfsvettvangs eða stefnumörkunar á fræðasviðinu.
-
Að uppbygging greinarinnar sé skilmerkileg með tilliti til inngangs, meginmáls og niðurlags.
-
Að fullyrðingar í texta styðjist við heimildir mikilvægra rannsókna sem tengjast könnun höfundar, en óþörfum heimildum eða tilvitnunum sleppt.
-
Hvort greinin sé hæfilega löng, hvort megi fella niður einhverja efnisþætti eða draga textann saman.
-
Að vandað sé til frágangs og málfars.