Matsnefndin skoðaði frumsamdar íslenskar fræðibækur ársins 2007 fyrir fullorðna með hliðsjón af þeim starfs- og við­miðunarreglum sem hún hefur sett sér og stjórn Upplýsingar hefur staðfest, sjá vefsetur Upplýsingar https://upplysing.is/displayer.asp?page=244&p=ASPPg244.asp Alls komust þrjú ritverk í undanúrslit sem nefndin skoðaði ofan í kjölinn og varð áðurnefnd bók fyrir valinu.


 


Sáðmenn sandanna skiptist í eftirfarandi 10 meginkafla: Ný hugsun, Ísland: ávallt elskað en misnotað, Landgræðsla í mótun, Grunnurinn treystur, Ný landgræðslulög, Landgræðsla ríkisins tekur til starfa, Unnið eftir landgræðsluáætlunum á árunum 1975-1991, Grasrótin til starfa í fremstu víglínu, Rannsóknastarf og upplýsingaöflun, Á mótum þess liðna og líðandi stundar. Auk þess er sérstakur kafli með skrám.


 


Hver kafli skiptist niður í sérgreinda undirkafla sem auðveldar notkun bókarinnar. Í lok hvers meginkafla er að finna tilvísanir. Sérstakur kafli með skrám er aftast í ritinu. Þar má fyrst finna skrá yfir starfsmenn Landgræðslu ríkisins árið 2007, á 100 ára afmæli hennar. Heimildaskrá fyrir ritið í heild sinni sem skiptist í óprentaðar heimildir, þ.m.t. munnlegar heimildir og vefsíður og svo prentaðar heimildir. Myndaskrá er raðað eftir blaðsíðutali og ljósmyndarar víðast tilgreindir. Mannanafnaskrá er ágætlega unnin og loks er skrá um staðanöfn, fyrirtæki og stofnanir.


 


Eins og fram kom hér að framan er efni bókarinnar ítarleg umfjöllun um þá merkilegu sögu sem saga landgræðslu á Íslandi er. Hún hefst árið 1907 þegar lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands voru sett. Á þeim grunni var Sandgræðsla Íslands stofnuð en árið 1965 var nafninu breytt í Landgræðslu Íslands. Margar sveitir sem hér áður voru örfoka land hafa á undanförnum áratugum breyst í iðagrænar grundir, má nefna Rangárvelli sem dæmi um slíkt.


 


Höfundur ritsins, Friðrik G. Olgeirsson, sagnfræðingur hefur komið að ýmsum sagnfræðiritum undanfarin ár, einnig ritað fjölmargar greinar í blöð og tímarit og getið sér gott orð fyrir störf sín. Ritið er gefið út af Landsgræðslu ríkisins. Í ritnefnd voru Sveinn Runólfsson, Andrés Arnalds og Guðjón Magnússon.


 


Í bókinni er aðgengi upplýsinga tryggt með góðu efnisyfirliti með undirköflum, auk vandaðrar mannanafna- og staðaskrár. Frágangur heimilda er til fyrirmyndar.


 


Bókina prýða um 260 ljósmyndir, teikningar og kort. Myndirnar falla vel að innihaldi og myndatextar eru vel unnir. Víða í bókinni eru rammagreinar með ítarefni um menn og málefni sem brjóta upp textann og auðga innihaldið. Stíll bókarinnar er fallegur og málfar frjótt og lifandi líkt og gróðurinn sem um er fjallað.


 


Ritið er í einu bindi, í stóru broti og frágangur er til fyrirmyndar. Vandað er til pappírs og bókbands. Umbrot, myndvinnsla og prentun var í höndum prentsmiðjunnar Odda, vel hefur tekist til með þá vinnu og gerir það bókina að eigulegum prentgrip.


Notagildi ritsins er mikið fyrir þá sem vilja kynna sér sögu elstu landgræðslustofnunar í heiminum og hvernig tekist var á við gróður- og jarðvegseyðingu með samstilltu átaki víða um land.


Ritið er aðgengileg handbók um landgræðslu á Íslandi sem stenst jafnframt fræðilegar kröfur þannig að mikill fengur er að því. Við gerð þess og frágang allan er fagmennska og vandvirkni í fyrirrúmi.                                                                                                                 


Reykjavík, 4. maí 2008


Elín Kristbjörg Guðbrandsdóttir (form.), Bryndís Áslaug Óttarsdóttir, Gróa Finnsdóttir