Skýrsla stjórnar Upplýsingar 1. jan. – 15. maí 2000
Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða tók formlega til starfa þann 1. janúar sl. þannig að fyrsta starfslota stjórnar hefur verið mjög stutt en annasöm, n.k. inngangur að frekara starfi.
Stjórn félagsins var kosin á stofnfundi 26. nóvember 1999 og skiptir þannig verkum:
Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður, Svava H. Friðgeirsdóttir varaformaður – formaður og varaformaður eru tengiliðir við stjórnunarsvið. Lilja Ólafsdóttir, gjaldkeri, tengiliður við fjármálasvið; Hólmfríður Tómasdóttir ritari, viðheldur félagatali; Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir meðstjórnandi, tengiliður við útgáfusvið; Jenný K. Valberg meðstjórnandi, tengiliður við ráðstefnu- og fræðslusvið; Þórhallur Þórhallsson meðstjórnandi, tengiliður við fagsvið.
Alls voru haldnir 9 stjórnarfundi á tímabilinu. Hér verður aðeins sagt almennt frá helstu verkefnum sem stjórn félagsins hefur unnið að. Hjá stjórn hefur mikill tími farið í innra starf, skipulagningu og ýmis konar frágang og stefnumótunarvinnu vegna yfirtöku Upplýsingar á starfsemi forvera félagsins. Einnig hefur verið unnið kynningarefni og efni til að setja á heimasíðu félagsins. Í apríl voru gíróseðlar vegna félagsgjalda sendir öllum stofnfélögum samkvæmt skilgreiningum stjórna fyrri félaga.
Stjórnarmenn hafa setið ýmsa fundi sem fulltrúar félagsins, t.d. fundi með BHM varðandi húsnæðismálin og skipulagningu skrifstofu félagsins; fundi hjá Sameignarfélaginu Ásbrú; fund um menntunarmál ófaglærðra bókavarða; aðalfund Þjónustumiðstöðvar bókasafna; fund hjá Menningar- og friðarsamtökum kvenna; fund um tónlistarútlán og höfundarréttarmál. Stjórnin tilnefndi síðan fulltrúa í nefnd um þau mál og tekur þátt í að ýta starfinu úr vör.
Innan vébanda félagsins fer fram öflugt starf í ýmsum nefndum og stjórnum sem fulltrúar félagsins taka þátt í og er það starf eðlilega drjúgur hluti hins faglega starfs félagsmanna. Fyrirhugað er að birta skýrslur um þá starfsemi ásamt skýrslu stjórnar í næsta fréttabréfi félagsins Fregnum. Á yfirliti sem liggur frammi á fundinum um þá sem taka þátt í félagsstarfinu eru um 70 nöfn á blaði og mörg þeirra koma fyrir oftar en einu sinni. Flytur stjórnin hér með öllum þeim sem starfa fyrir félagið á einn eða annan hátt bestu þakkir.
Á þessum fjórum og hálfa mánuði sem félagið hefur starfað hafa samtals 57 sótt um aðild að því (35 nemar, 20 einstaklingar og 2 stofnanir). Þessum aðilum hafa verið send bréf og lög félagsins. Alls bárust stjórn 10 úrsagnir (5 einstaklingar og 5 stofnanir).
Eitt fyrsta verk nýrrar stjórnar var að samþykkja kaupsamning (kaupverð kr. 463.000 kr.) um aukinn hlut í Lágmúla 7. Þannig að nú hefur félagið einkaafnot af skrifstofu (10,5 fermetrar) á 2. hæð í Lágmúla 7 auk afnota af sameiginlegum fundarsölum og aðstöðu á 3. hæð. Félagshluti Upplýsingar í sameignarfélaginu Ásbrú er nú 3,76%.
Sameining íslenskra bókavarðafélaga og nýja félagið hafa verið kynnt á innlendum og erlendum vettvangi með því að senda kynningarbréf til allra samstarfsaðila fyrri félaga og til allra nefnda og stjórna sem félögin áttu fulltrúa í. Félagið er aðili að Fagráði um upplýsingatækni, IBBY, EBLIDA, IFLA og NVBF. Formaður kynnti félagið fyrir nemum í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Auk þess birtist grein um sameiningarmálin eftir formann í næsta tölublaði Bókasafnsins og ennfremur stutt grein formanns um sama málefni í næsta fréttabréfi EBLIDA Information Europe.
Frá EBLIDA berst mikið af upplýsingum til félagsins bæði í tölvupósti og á prentuðu formi. Upplýsingar sem berast frá EBLIDA á tölvupósti eru sendar á Skruddu til fróðleiks. Eins hefur verið komið á framfæri á Skruddu upplýsingum um ráðstefnur og fundi sem borist hafa til stjórnar og einnig hefur verið sagt frá störfum stjórnar á Skruddu og í Fregnum. Þátttaka félagsins hefur aukist í norrænu samstarfi eins og sjá má á lista yfir fulltrúa félagsins í ýmsum nefndum sem formaður hefur tekið saman.
Fulltrúar í stjórninni hafa unnið að undirbúningi fundar formanna og framkvæmdastjóra norrænna bókavarðafélaga, Nordisk bibliotekforeningmøte, sem haldinn verður í Reykjavík 26.- 27. maí nk.
Einn fræðslufundur var haldinn á tímabilinu. Guðrún Pálsdóttir kynnti kynnti lokaverkefni sitt (Innan seilingar. Upplýsingaleiðir vísindamanna og öflun heimilda) til meistaraprófs í bókasafns- og upplýsingafræði. Stjórnin stefnir að því að gefa þeim sem ljúka framhaldsgráðu í bókasafnsfræði kost á að halda fyrirlestur um lokaverkefni sín á vegum félagsins.
Nokkrir aðilar sem starfa fyrir hönd félagsins hafa sótt um styrki til stjórnar vegna starfseminnar og þar hefur enginn farið bónleiður til búðar. Auk þess hefur stjórnin úthlutað styrkjum úr Ferðasjóði.
Stjórnin hefur unnið að undirbúningi að uppbyggingu náms fyrir ófaglært starfsfólk á bókasöfnum m.a. í samstarfi við Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna en löngu er tímabært að skipulagðir verði kerfisbundnir menntunarmöguleikar fyrir aðstoðarfólk á bókasöfnum. Stjórnin sótti einnig um styrk í þessu skyni til Starfsmenntaráðs félagsmálaráðuneytis og fékk úthlutað kr. 500.000. Nú í vikunni verður fundur með menntamálaráðuneytinu og fulltrúum frá Samtökum forstöðumanna um menntunarúrræði fyrir ófaglærðra bókaverði.
Einnig hefur verið unnið að endurmenntunarmálum bókasafns- og upplýsingafræðinga. Á síðustu önn voru haldin fjögur endurmenntunarnámskeið í samvinnu við Endurmenntunarstofnun. Nú standa yfir athuganir á að fá afslátt á endurmenntunarnámskeiðum fyrir félagsmenn Upplýsingar.
Stjórnin gaf út eitt tölublað Fregna í nýju broti á tímabilinu og stefnir að frekari útlitsbreytingum blaðsins. Þá má geta þess að fengið var ISSN númer fyrir blaðið.
Stjórnin fékk til umsagnar Frumvarp til laga um skylduskil til safna og sendi athugasemdir við frumvarpið til Nefndasviðs Alþingis.
Borist hefur til stjórnar erindi frá IFLA/FAIFE varðandi þýðingu á Yfirlýsingu IFLA um bókasöfn og vitsmunalegt frelsi. Þýðingin birtist í næsta hefti Bókasafnsins og er auk þess birt á heimasíðu FAIFE. Einnig var farið fram á skýrslu um þessi mál hér á landi og er hún á vinnslustigi.
Stjórnin varð við erindi frá EBLIDA um stuðning við aðgerðir félagsins við að styðja frönsk bókasöfn sem berjast gegn því að greiðsla (5 frankar) verði rukkuð fyrir hvert einstakt útlán á bókasöfnum.
Ýmis önnur erindi og fyrirspurnir sem ekki verða tíunduð hér hafa borist stjórn Upplýsingar á tímabilinu. Full þörf er á að ráða starfsmann til félagsins en stjórnin hefur enn haldið að sér höndum í þeim efnum þar sem ekki kemur fram hver fjárhagslegur grundvöllur félagsins verður fyrr en ljóst er hverjar tekjurnar verða af félagsgjöldum.
Stjórn Upplýsingar hefur á stefnuskrá sinni að félagsmenn njóti betri kjara en utanfélagsmenn á þeim námskeiðum og viðburðum sem staðið er fyrir innan vébanda félagsins og stjórn eða félagsmenn eiga þátt í að skipuleggja. Gildir þetta t.d. um endurmenntunarnámskeið og Landsfund bókavarða.
Landsfundarnefnd sendir fundinum kveðjur og vill hvetja fólk til að taka frá 1. og 2. september nk. til að mæta á öflugan Landsfund á Akureyri. Landsfundarnefnd hvetur fólk jafnframt til huga að þaki yfir höfuðið í þennan tíma ef það hefur tök á.
Að lokum vill undirrituð þakka stjórnarmönum samstarfið og ennfremur öllum þeim félagsmönnum sem halda merki Upplýsingar á lofti með störfum í þágu félagsheildarinnar.
Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður
15.05.2000