Upplýsing og SBU bjóða öllum félögum til vinnustofa þeim að kostnaðarlausu undir heitinu „Stefnumót við framtíðina“. Miklar breytingar eru fyrirsjáanlegar á vinnustöðum félagsmanna og munu þær hafa áhrif á störf allra þeirra sem starfa á þessum vettvangi á komandi árum. Vinnustofurnar byggja á starfi ímyndarhóp Upplýsingar og SBU sem starfað hefur í rúmlega 2 ár. Vinnustofunum er ætlað að þjappa hópnum saman og styrkja kjara-, atvinnu- og framtíðarmöguleika allra þeirra sem undir merkjum félaganna starfa. Ein sterk rödd heyrist betur út í samfélagið en margar mjóróma og við þurfum að láta það heyrast að störf okkar séu mikilvæg.


Hver vinnustofa verður 2 klukkustundir og verða þær skipulagðar í samvinnu við stjórnendur á vinnustöðum félagsmanna og einstaka hópa eins og t.d. forstöðumanna á skólasöfnum. Á stærri vinnustöðum verður reynt að halda vinnustofurnar á staðnum, til að trufla sem minnst þjónustuna. Umsjón með vinnustofum hefur Hrafnhildur Hreinsdóttir, upplýsingafræðingur.


Í vinnustofunum verður farið yfir þær breytingar sem eru að gerast á starfsvettvangi félagsmanna. Farið verður yfir niðurstöður í könnun sem ímyndarhópurinn gerði og þær notaðar sem grunnur að umræðu. Mikið verður lagt upp úr því að félagsmenn horfi á málin út frá sínu daglega starfi og komi með tillögur um aðgerðir og úrbætur sem styrkja stöðu okkar. Vonir standa til að þessi vinna verði undirstaða fyrir frekari aðgerðir til að vekja athygli samfélagsins á því að störf okkar eru mikilvæg.


VINNUSTOFURNAR VERÐA FÉLAGSMÖNNUM AÐ KOSTNAÐARLAUSU og mikið verður lagt upp úr því að fá sem flesta til að taka þátt. Þá verða haldnar vinnustofur á landsbyggðinni í samráði við félagsmenn þar.


Á næstunni verður haft samband við stjórnendur en einnig verða auglýstar opnar vinnustofur sem þeir á smærri vinnustöðum geta skráð sig á. Áætlað er að ljúka vinnustofunum á þessu ári 2013.


Með von um jákvæðar undirtektir og almenna þátttöku,


Margrét Sigurgeirsdóttir, formaður Upplýsingar
Sveinn Ólafsson, formaður SBU