Upplýsing stendur fyrir glæsilegri ráðstefnu undir yfirskriftinni Upplýsing og Evrópa. Ráðstefnan verður haldin 26. mars á Grand hóteli og hefst kl. 8:15 með skráningu og kaffisopa en lýkur í síðasta lagi kl. 12:15. Þátttökugjald er kr. 9.000 fyrir félagsmenn, 5000 fyrir nema í faginu og 14.000 fyrir aðra. Upplýsingar um dagskrá og skráning hér.  


Efni ráðstefnunnar er afar áhugavert og fjölbreytt og fyrirlesarar koma víða að, sumir meira að segja frá Evrópu eins og Rán Tryggvadóttir sem ætlar að segja frá nýrri rannsókn um heimildir safna til eintakagerðar og dreifingar á höfundaréttarvörðu efni. Þá höfum við fengið Ólöfu Benediktsdóttur til að ræða um það sem er efst á baugi í Evrópi varðandi höfundaréttarmál og Ian Watson frá Háskólanum á Birfröst til að fjalla um áhrif netvæðingar á framleiðslu og dreifingu á bókum og tímaritum og það sem af því hefur leitt. Þar næst verður Hallfríður Hr. Kristjánsdóttir á Landsbókasafni með veggspjaldakynningu umþá aðila sem höndla með upplýsingar um Evrópumálefni.


Að loknu kaffihléi þá stígur Bergljót Gunnlaugsdóttir frá bókasafni Flensborgarskólans í ræðustól og fer yfir stefnur upplýsinga- og þekkingarsamfélagsins og niðurstöður rannsóknar á markmiðum ESB og íslenskra stjórnvalda á þessu sviði. Þorsteinn Hallgrímsson fjallar svo um reynslu Landsbókasafns af því að taka þátt í Evrópusamvinnuverkefnum og Einar Ólafsson á Borgarbókasafni lýkur svo umræðunni með því að fjalla um þjónustutilskipun ESB og áhrif hennar á starfsemi bókasafna- og upplýsingaþjónustu  ásamt því að fjalla um kjör og réttindi starfsfólks tengt henni.


Svona í lokin minnum við félagsmenn á, að þeir geta flestir sótt í sjóði stéttarfélaga um styrki til starfsþróunar, sem t.d. hjá SBU er að nálgast 100 þúsund á mann yfir 2ja ára tímabil. Þá styrkja  mörg bókasöfn og stofnanir starfsmenn sína til starfsþróunar. Vegna ástandsins í efnahagsmálum þá fara væntanlega  færri á ráðstefnur erlendis og viljum við því beina því til félaga í Upplýsingu að nýta sér það sem er í boði á heimaslóð til þess að viðhalda þekkingu sinni og skrá sig strax til leiks.