Upplýsingatækni – eitthvað fyrir mig?


Upplýsingatækni – eitthvað fyrir mig
Gefið út í tengslum við UT-daginn 24. janúar 2006.
Ábyrgð og útgáfa: Upplýsing ? Félag bókasafns- og upplýsingafræða, ©2006.


1. Tölvur
2. Internetið
3. Upplýsingatækni í samfélaginu
4. Hugtök
5. Val á tölvubúnaði
6. Bókasöfn og upplýsingatækni
7. Helstu heimildir og ítarefni
Upplýsingatækni ? eitthvað fyrir mig?
Markmiðið með útgáfu þessa bæklings er að kynna upplýsingatækni (UT) og hvernig almenningur getur fært sér hana í nyt. Fjallað er um helstu þætti upplýsingatækninnar, nokkur hugtök eru skilgreind og gerð grein fyrir þjónustu bókasafna og upplýsingamiðstöðva á þessu sviði.


Hvað er upplýsingatækni?
Upplýsingatækni (e. information technology) nær yfir vítt svið. Almennt er talað um upplýsingatækni sem það að beita viðeigandi tækni við gagnavinnslu. Með tækni er átt við tölvutækni, fjarskiptatækni og rafeindatækni. Upplýsingatækni er notuð í viðskipta­lífinu, í iðnaði, í skólastarfi, við fjarnám, á heimilum, í stórmörkuðum og á bókasöfnum og upplýsingamiðstöðvum svo eitthvað sé nefnt.


Upplýsingatæknin er grundvöllur upplýsingaþjóðfélagsins, tækni sem gerir fjarskipti og hraðvirka miðlun þekkingar og upplýsinga mögulega. Upplýsingatækni er ekki inntak eða markmið í sjálfu sér heldur forsendan og afar mikilvægt er að huga að því að innihald og gæði upplýsinga séu eins og best verður á kosið hverju sinni.


1. Tölvur
Tölvur (e. computers) eru margslungin verkfæri og taka sífelldum breytingum. Nútíma tölvur eru í örri þróun og alltaf er að koma fram ný tækni sem miðar að því að láta þær leysa sífellt flóknari verkefni með meiri hraða og auðvelda notkun þeirra. Má í þessu sambandi nefna fartölvur, lófatölvur og farsíma sem í senn geta verið lófatölvur. Meginþættir tölvu eru vélbúnaður (e. hardware) og hugbúnaður (e. software) sem vinna saman og er annað gagnslaust án hins.


Vélbúnaður
Tölvur eru fyrsta tækið sem flestum dettur í hug þegar talað er um upplýsingatækni. Þær eru samsettar úr mörgum hlutum sem vinna saman. Sýnilegir hlutar tölvu kallast einu nafni vélbúnaður. Sem dæmi um vélbúnað má nefna tölvukassann sjálfan (e. central unit), stundum kallaður kerfiseining, skjáinn, lyklaborðið og músina.


Innbyggður í tölvukassann er meðal annars yfirleitt svokallaður harður diskur (e. hard disk) sem er langtímaminni tölvunnar. Við tölvukassann er hægt að tengja jaðarbúnað (e. peripheral equipment) svo sem prentara, stafræna myndavél, skanna, skjávarpa og stýripinna. Jaðarbúnaðurinn er nú orðið oftast tengdur við tölvuna með svokölluðum USB-tengjum (Universal Serial Bus).


Hugbúnaður
Hugbúnaður er stjórntæki tölvunnar, hann gefur vélbúnaðinum skipanir svo að hægt sé að láta tölvuna vinna. Hugbúnaður skiptist í stýrikerfi og forrit.


Stýrikerfi
Stýrikerfi (e. operating system) er hugbúnaður sem fer af stað þegar tölvan er ræst og stýrir bæði vélbúnað­inum og forritum. Til eru nokkur stýrikerfi sem eru í notkun í dag og
má þar nefna Windows og Linux fyrir PC tölvur (Personal Computer) og MacOs fyrir
Macintosh tölvur.


Forrit
Forrit (e. application/programme) er hægt að keyra upp þegar búið er að ræsa stýrikerfi tölvunnar. Forrit geta til dæmis verið ritvinnsluforrit (Word, WordPerfect), töflureiknir (Excel), glærugerðarforrit (PowerPoint), gagnagrunnsforrit (Access, FileMaker Pro), vef­smíðaforrit (DreamWeaver, FrontPage), myndvinnsluforrit (Paint Shop Pro, Adobe Potoshop) og vefvafrar (Internet Explorer, Netscape, Mozilla).
Með nútímatækni er auðvelt að vinna með hljóð, mynd og texta. Með því að blanda þessu þrennu saman verður til margmiðlunarefni. Margmiðlun er hentug við framsetningu á efni til útgáfu á diskum, á Netinu eða í fjölmiðlum. Hægt er að gera þessa tækni gagnvirka en þá getur notandi ráðið sjálfur ferðinni með mús eða með því að benda með fingri á snertiskjá og fengið svörun frá forritunum sem unnið er með. Afbrigði af þessu er tungutækni sem gerir fólki kleift að hafa samskipti við vélar með talmáli. Blindir og sjónskertir geta lesið vefinn með hjálp hljóðgervils (e. sound synthesizer) en það er hugbúnaður sem les texta úr skrá og túlkar hann yfir í tal. Hjá Blindrabókasafni Íslands er verið að taka í notkun stafræna tækni við gerð hljóðbóka, svokallaða DAISY-tækni (Digital Audiobased Information System). DAISY-bók er hljóðbók á geisladiski sem spiluð er í tölvu eða afspilunartæki. Tæknin býður notandanum upp á mjög mikla möguleika til að stökkva fram og til baka í texta, meðal annars út frá efnisyfirliti.


Gögn
Allt efni sem sett er inn í tölvu nefnist gögn (e. data). Þau gögn sem unnið er með hverju sinni mynda saman skrár. Skrár eru mismunandi að gerð. Þær eru auðkenndar með þremur stöfum á eftir punkti í nafni. Þessar endingar eru mismunandi eftir tegundum skráa. Sem dæmi má nefna ritvinnsluskrár með endingunni .doc, töflureiknaskrár með .xls, vefsíður með .htm eða .html. Forritin gefa þessar endingar sjálfkrafa. Gögn geta
verið tölur, bókstafir, hljóð, myndir eða tákn og eru geymd á sérstöku formi á ákveðnum svæðum í drifum tölvunnar. Við framsetningu rafrænna gagna er notað svokallað tvíundakerfi (e. binary system) sem er talnakerfi sem byggir á tölustöfunum 0 og 1. Til að mynda bókstaf þarf oftast átta tákn, bita (e. bit, stytting á binary digit), úr tvíundakerfinu og nefnist þessi táknaruna bæti (e. byte).


Minni tölvunnar
Tölvan hefur svokallað vinnsluminni (RAM=Random Access Memory), stundum kallað skammtímaminni. Þetta minni er staðsett í minniskubbi í tölvunni og er stærð þess mæld í megabætum (MB). Hægt er að stækka þetta minni með því að bæta við auka minniskubbi. Tölvan er því hraðvirkari sem vinnsluminnið er stærra. Vinnsluminnið tæmist þegar slökkt er á tölvunni.
Tölvur geyma gögn og forrit á harða diskinum. Hann er oftast innbyggður í tölvukassann og stundum kallaður langtímaminni tölvunnar. Gögnin varðveitast þar óáreitt undir eðlilegum kringumstæðum þar til þeim er vísvitandi eytt. Forðast skal að slökkva á tölvu með opnar skrár því þá glatast eða skemmast gögn sem verið er að vinna með.
Örgjörvi (e. microprocessor) er falinn inni í tölvunni. Hann er sá hluti tölvunnar sem vinnur úr skipunum sem gefnar eru með músinni eða lyklaborðinu (eftir að þeim hefur verið breytt í talnarunu) og svörunin er sett fram á myndrænan hátt á skjánum. Það sem skiptir mestu máli í sambandi við örgjörva er hversu hratt hann vinnur. Hraðinn er mældur í megariðum (MHz) því hærri sem talan er því hraðar vinnur örgjörvinn.


Afritun
Mikilvægt er að afrita gögn reglulega til að tryggja öryggi þeirra. Hægt er að taka afrit af gögnum með því að vista þau einnig á öðrum miðli en harða diski tölvunnar svo sem á disklingum eða geisladiskum. Ekki er mælt með að geyma gögn til langtíma á minnis­lyklum (e. flash drive) því þeir eru viðkvæmir fyrir hnjaski. Ef um mikið magn af gögnum er að ræða, til dæmis hjá stórum fyrirtækjum, eru oft settar upp sérstakar afritunarstöðvar (segulbönd) eða gögnin vistuð á öðrum hörðum diski til að eiga öryggisafrit.


Höfundaréttur hugbúnaðar
Grundvallaratriði er að virða höfundarétt hugbúnaðar. Leyfi þarf að vera fyrir hverjum þeim hugbúnaði sem er notaður eða afritaður. Á Netinu er hægt að nálgast ýmiss konar hugbúnað, bæði gegn gjaldi og frítt og er hann þá sóttur með því að hlaða honum niður (e. download) og vista á hörðum diski tölvunnar. Dæmi um vefsetur sem bjóða frían hug­búnað eru til dæmis www.tucows.com og www.bravenet.com.


2. Internetið
Internetið eða Netið varð til í Bandaríkjunum árið 1969 til að tryggja öryggi hernaðarlegra gagna vegna ótta við kjarnorkuárásir en einnig til að stuðla að betri samskiptum milli stofnana. Kerfi fyrir tölvupóst (e. electronic mail, e-mail) var síðan sett upp til að dreifa upplýsingum um Netið. Þróunin hélt áfram og árið 1991 kom Veraldarvefurinn, www (World Wide Web), fram í sviðsljósið.


Netið
Netið tengir nú saman tölvur og tölvunet um allan heim. Tölvur skiptast í staðarnet, LAN (Local Area Network), net þar sem tölvur eru tengdar saman á litlu svæði til dæmis í sömu byggingu og víðnet, WAN (Wide Area Network), net þar sem tölvur, sem dreifast um stórt svæði, eru samtengdar svo sem milli landa eða borga.
Flestir sem hafa aðgang að tölvum nýta þær jafnframt til að hafa samskipti við aðra einstaklinga í gegnum tölvupóst og spjallrásir eða til að afla sér upplýsinga á Netinu.
Tölvur sem tengjast saman mynda tölvunet en samskiptaleiðin á milli þeirra getur til dæmis verið símalínur, þráðlaust net eða gervihnattasamband.


Hvað þarf til að komast á Netið?
Til að geta tengst Netinu þarf að vera mótald (e. modem) eða netkort (e. net interface card) í tölvunni. Jafnframt þarf að kaupa áskrift hjá netþjónustuaðila.
Algengustu tengingarnar við Netið í dag eru innhringiaðgangur um mótald eða með beini (e. router) við ADSL símalínur (Asymmetric Digital Subscriber Line). Innhringi­aðgangur með mótaldi hentar vel fyrir þá sem nota Netið lítið. Þá tengjast þeir þegar þeir þurfa á því að halda, aðallega til að skjótast á vefinn og sækja og senda einfaldan tölvu­póst. Mótald er tæki sem tölvan notar til að hafa samskipti við aðrar tölvur (senda tölvupóst og vafra um Netið). Mótöld fyrir almennan innhringiaðgang eru vanalega fyrir 56 kb/s (kílóbit á sek.) tengihraða.


ADSL byggist á stafrænum gagnaflutningi sem nýtir hefðbundnar símalínur til háhraða­gagnaflutnings. ADSL felur í sér sítenginu en flutningsgeta er mismikil eftir því hvort verið er að senda gögn eða taka við þeim. ADSL gagnaflutningur er á annarri tíðni en almenn símaþjónusta og því truflar annað ekki hitt sem þýðir að hægt er að tala í síma og vera á Netinu samtímis. ADSL gerir notendum kleift að vera sítengdir og yfirleitt er greitt fast mánaðargjald fyrir þjónustuna án tillits til tengitíma. ADSL beinir er tengitæki sem tengir staðarnet við víðnet og er hraði mældur í megabitum á sekúndu (Mb/s). Einnig eru þráðlausar nettengingar í boði þannig að hægt er að vinna við tölvur með netkorti hvar sem er án þess að þær séu tengdar með snúru við beininn.


Bandbreidd (e. bandwith) segir til um hversu miklar upplýsingar er hægt að flytja á tíma­einingu. Flutningshraðinn er oftast mældur í bætum á sek. Bot (e. baud) er hraða­eining í gagnaflutningi og samsvarar venjulega einum bita á sekúndu. Hafin er dreifing á stafrænu sjónvarpi um símalínur með nýrri og einfaldri tækni með hjálp ADSL tengingar. Notendur geta horft á sjónvarpið samtímis því að vafra á Netinu. Bíó/VOD (Video On Demand) er þjónusta þar sem hægt er að leigja kvikmyndir og sjónvarpsefni í gegnum starfænt sjónvarp um ADSL.


Sjónvarps- og útvarpsefni er einnig dreift um Breiðbandið sem er bandbreitt net (e. broadband). Það er ýmist gert með einfaldri tengingu inn á loftnetskerfi heimila eða með ljósleiðaratengingu. Sú tenging gefur kost á öflugum gagnaflutningi fyrir sjónvarp, útvarp, tölvur og síma, bæði mynd- og talsíma. Ljósleiðari (e. fiber) er örmjór, sveigjan­legur glerþráður, notaður til að flytja gögn með ljósfræðilegum aðferðum. Slíkar tengingar kalla á nýjar innanhússlagnir á þeim heimilum sem vilja nýta sér þær.


Nokkur íslensk fyrirtæki, til dæmis bankar og fjölmiðlar, bjóða frían upphringiaðgang að Netinu um mótald ásamt einu netfangi. Þá þarf einungis að greiða fyrir tengitíma um símalínu eins og um venjulegt símtal væri að ræða en ekki er hægt að tala í símann og nota Netið samtímis.


Flest almenningsbókasöfn á Íslandi bjóða viðskiptavinum sínum aðgang að Netinu, ýmis frítt eða gegn vægu gjaldi. Einnig eru víða rekin svokölluð netkaffi sem bjóða aðgang að tölvum gegn gjaldi.


Vefföng (URL) eru byggð upp eftir ákveðnu kerfi. Fyrst kemur nafn samskiptastaðalsins, til dæmis http:, sem oftast má sleppa að slá inn. Þá kemur nafn á léni, til dæmis www.upplysing.is. Stafir aftan við punkt tákna tegund eða land, til dæmis
.is fyrir Ísland.


Uppbygging veffanga:


URL = Uniform Resource Locator = veffang eða slóð
http = Hypertext Transfer Protocol = samskiptastaðall fyrir texta
//www = World Wide Web = veraldarvefurinn
http://veraldarvefurinn.fyrirtæki/stofnun.land ?
Dæmi: https://upplysing.is


Uppbygging tölvupóstfangs/netfangs:
Nafn viðtakanda hjá fyrirtæki/stofnun.land ? Dæmi: [email protected]


Þar sem Netið er upprunnið í Bandaríkjunum þá hafa bandarísk vefföng
tegundaskiptar endingar en í öðrum löndum eru vefföng auðkennd með
landakóða.


Dæmi um endingar veffanga:


.com = Commercial = fyrirtæki ? Dæmi: www.amazon.com
.edu = Educational = menntastofnun  ?  Dæmi:  www.harvard.edu
.org = Organization = stofnun, samtök  ?  Dæmi:  www.ifla.org
.gov = Government = stjórnvöld  ?  Dæmi:  www.whitehouse.gov
.int = International = alþjóðlegar stofnanir  ?  Dæmi:  www.itu.int
.is = Ísland  ?  Dæmi:  www.upplysing.is
.dk = Danmörk  ?  Dæmi:  www.biliotekernesnetguide.dk
.uk = Bretland  ?  Dæmi:  www.amazon.co.uk
Netverslunin Amazon hefur því sitt hvert veffangið eftir því í hvaða landi hún er staðsett:
Dæmi:
www.amazon.com  ?  Bandaríkin
www.amazon.co.uk  ?  Bretland
www.amazon.de  ?  Þýskaland

Hvaða gildi hefur Netið í daglegu lífi?
Notkun Netsins eykst dag frá degi. Netið gefur margskonar möguleika til upplýsinga­öflunar og gagnaflutnings. Netið er einnig tæki til markaðssetningar og kynningar á fyrirtækjum og stofnunum, vörum og þjónustu. Netið er góð samskiptaleið með spjall­rásum, þar sem spjallað er saman í rauntíma, með tölvupósti og bloggi. Upplýsingar sem settar eru ólæstar og gjaldfrjálsar á Netið eru aðgengilegar öllum þeim sem hafa aðgang að Netinu hvar í heiminum sem þeir eru staddir. Þær geta verið á mismunandi formi, sem texti á vefsíðu, myndir, hreyfimyndir, kvikmyndir, tónlist eða hugbúnaður.


Tölvupóstur
Tölvupóstur er mikið notaður í leik og starfi. Fólk notar hann til að skrifast á, skiptast á upplýsingum og fá fréttir. Einnig eru spjallrásir vinsæl samskiptaleið og sífellt fleiri nota blogg (vefdagbækur).
Varast ber að opna viðhengi sem send eru með tölvupósti frá ókunnu netfangi, sérstak­lega eru skrár með óvenjulegum nöfnum eða sem enda á .exe varasamar. Slíkur póstur gæti innihaldið skaðlega vírusa sem geta í versta falli þurrkað út allt efni af harða diski tölvunnar. Allir notendur tölvupósts ættu að hafa vírusvarnaforrit uppsett í tölvum sínum og uppfæra það reglulega. Ókostir við notkun tölvupósts er að mikið berst af óumbeðnum pósti (e. spam, junk e-mail) þar sem mikil ásókn er í að nota tölvupóst í áróðurs- og auglýsingaskyni. Erfitt hefur reynst að verjast slíku algjörlega.


Vírusvarnir og  tölvuöryggi


Tölvuforrit, sem beinlínis eru hönnuð til að dreifa sér um Netið og skemma tölvugögn viðtakenda, eru nefnd vírusar. Vírus sem berst með tölvupósti getur valdið tjóni bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Þeir geta verið allt frá því að vera mjög meinlausir og birst sem mynd á skjánum eða valdið meiriháttar tjóni með því að eyða úr minni tölvunnar mikilvægum upplýsingum. Hægt er að nota sérstök forrit til að leita að vírusum í tölvu­pósti og varna þeim inngöngu í tölvur.
Við tengingu við Netið er nauðsynlegt er að huga vel að öryggismálum. Eldveggur (e. firewall) er sérstakur búnaður sem athugar þau gögn sem fara á milli einkatölvu og Netsins og kemur í veg fyrir óheimilan aðgang að einkatölvunni.


Leitarvélar
Hvernig á svo að nálgast allar þessar upplýsingar sem eru á Netinu? Svokallaðar leitarvélar og vefgáttir leysa þann vanda. Leitarvélar eru misgóðar og fer það oft eftir áhugamálum og viðfangsefni hvers og eins hvaða leitarvél hentar best. Við notkun leitarvéla þarf að kynna sér hvaða leitaraðferðir henta best fyrir hverja þeirra og skila markvissustu niðurstöðunum.


Dæmi um leitarvélar:


www.leit.is
www.mbl.is/mm/embla
www.google.is eða www.google.com
www.yahoo.com
www.altavista.com
Bókasöfn og upplýsingamiðstöðvar um allan heim hafa brugðið á það ráð að setja upp vefgáttir og vefsíðusöfn með völdum vefsíðum til að auðvelda fólki að finna vandað efni á Netinu. Nokkur íslensk almenningsbókasöfn hafa fylgt fordæminu og sett á fót Vefbókasafnið, www.vefbokasafn.is, þar sem valdar íslenskar vefsíður eru meginefnið.


Landsaðgangur að rafrænu efni ? hvar.is
Landsaðgangur kallast það þegar opnað er fyrir aðgang allra tölva í ákveðnu landi að rafrænum gögnum sem keypt eru sameiginlega í áskrift. Aðgangurinn er þá um IP-tölur (Internet Protocol), sem eru einskonar kennitölur, í viðkomandi landi. Á Íslandi tóku mörg bókasöfn höndum saman með fulltingi menntamálaráðuneytisins og var að­­gangurinn formlega opnaður 23. apríl 1999. Hann er ókeypis fyrir alla landsmenn og er það einsdæmi í heiminum. Gögnin er hægt að nálgast á vefnum Hvar.is, www.hvar.is. Vefurinn er þjónustuvefur fyrir landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum.
Á honum er að finna upplýsingar um aðganginn og gagna­söfnin og þar er bein tenging að leit í þeim. Á vefnum er að finna leiðbeiningar um leitaraðferðir og leitartækni hvers gagnasafns. Auk þess eru þar tengingar í gjaldfrjáls íslensk gagnasöfn.


Dæmi um gjaldfrjáls íslensk gagnasöfn:


www.ees.is  =  Upplýsingavefur um EES og Evrópusamstarf
www.haestirettur.is  =  Hæstaréttardómar
www.althingi.is/vefur/lagasafn.html  =  Lagasafn á vef Alþingis
www.mbl.is  =  Morgunblaðið (nema þrjú síðustu árin hverju sinni)
www.reglugerd.is  =  Reglugerðasafn á vef stjórnarráðsins
www.rettarheimild.is  =  Réttarheimildir á vef stjórnarráðsins
www.vefbokasafn.is  =  Safn valdra íslenskra vefsíðna, leitarbært eftir nafni og efnisorði
www.timarit.is  =  Hægt að lesa og fletta yfir 230 blöðum og tímaritum frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi

Netið sem heimild
Þegar Netið er notað sem heimild gilda í reynd sömu reglur og þegar prentað efni er notað. Ætíð skal vísa til þeirrar síðu sem notuð var. Setja þarf upplýsingar um höfund, útgáfuár, titil efnis (skáletraður), veffang og dagsetninguna þegar upplýsingarnar voru sóttar.
Dæmi (höfundur tilgreindur):


Þórdís T. Þórarinsdóttir. 1999. ?Netið sem heimild. Hugleiðingar um mat á áreiðanleika
    upplýsinga á Internetinu.? Bókasafnið, 23. árg. www.bokasafnid.is/23arg/thth99.html
    [Sótt 14.12.2005.]
Dæmi (höfundur ekki tilgreindur):


?Public Library.? 2005. Wikipedia. The Free Encyclopedia. http://en.wikipedia.org/wiki/
    Public_libraries. [Sótt 06.01.2006.]
Netsiðareglur
Á Netinu hafa myndast sérstakar netsiðareglur (e. netiquette, stytt úr network eti­quette) um verklag og samskipti.  Í stórum dráttum felast reglurnar í almennri kurteisi og virðingu í samskiptum fólks, til dæmis að viðhafa ekki einelti og óheflað orðalag. Hástafi í tölvu­pósti er litið á sem öskur og þá ætti að varast að nota.


Gæði upplýsinga á Netinu
Ekki eru allar upplýsingar á Netinu jafn áreiðanlegar. Hver sem er getur sett efni gagnrýnislaust inn á Netið. Því þurfa notendur efnis á Netinu að spyrja sig eftirfarandi spurninga til að sannreyna áreiðanleika upplýsinga:


 Á hvers vegum er vefsíðan?
 Hverjum er síðan ætluð?
 Finnast nöfn og netföng ábyrgðaraðila síðunnar?
 Eru höfundar áreiðanlegir?
 Er ítarefni um þá á síðunni?
 Hvenær var vefsíðan uppfærð?
 Eru upplýsingar á síðunni hlutlægar eða huglægar?
 Er heimilda getið?
Nánar má lesa um mat á vefsíðum á vefnum Netheimildir, www.upplysing.is/netheimildir, og í greininni Netið sem heimild, www.bokasafnid.is/23arg/thth99.html.


Upplýsingalæsi
Upplýsingalæsi (e. information literacy) er skilgreint sem leikni í að finna, staðsetja, meta, skipuleggja og nota upplýsingar eftir því sem við á hverju sinni. Í þessu samhengi má benda á Kennsluvef í upplýsingalæsi, www.upplysing.is/upplysingalaesi, þar sem fjallað er ítarlega um allar hliðar upplýsingalæsis. Upplýsingalæsi er talin forsenda þess að geta tekið fullan þátt í upplýsingaþjóðfélaginu.


3.  Upplýsingatækni í samfélaginu
Upplýsingatæknin gegnir stöðugt veigameira hlutverki í samfélaginu og sífellt fleiri nýta sér möguleika hennar. Íslendingar eru leiðandi á sviði upplýsingatækni enda er hún ein meginstoðin í starfi margra einstaklinga og fyrirtækja.


Upplýsingatækni og bókasöfn


Bókasöfn bjóða notendum sínum aðgang að upplýsingum á ýmsu formi. Í gegnum tíðina hafa þær aðallega verið í formi prentaðs efnis eins og bóka og tímarita. Í dag er mikið magn upplýsinga einnig að finna á stafrænu (e. digital) formi sem er meðal annars aðgengilegt í gegnum landsaðgang bókasafna, Hvar.is, www.hvar.is, samanber umfjöllun hér að framan.
Stafræn gjá (e. digital divide) kallast bilið milli þeirra sem hafa aðstöðu til að tileinka sér möguleika upplýsingatækninnar og hinna sem hafa það ekki. Eitt af markmiðum almenningsbókasafna er að jafna aðgang almennings að upplýsingum meðal annars með því að gera þeim sem ekki hafa aðgang að tölvum heima kleift að nýta sér kosti þeirra á bókasöfnum. Í tölvum flestra safna er hægt að komast á Netið og leita sér upplýsinga.
Vefbókasafnið, www.vefbokasafn.is, er samstarfsverkefni nokkurra almenningsbókasafna til að auðvelda almenningi aðgang að vönduðu efni á Netinu. Þar er safnað saman völdum íslenskum vefsíðum og þær flokkaðar niður eftir efni eins og bækur á bókasöfnum.
Öll helstu bókasöfn landsins sameinuðust um eitt öflugt bókasafnskerfi, Gegni,
www.gegnir.is, með fulltingi menntamálaráðuneytis og margra sveitarfélaga. Gegnir var formlega tekinn í notkun í maí 2003. Kerfið tryggir landsmönnum aðgang að bókfræðilegum upplýsingum sem nýtast í námi, starfi og leik. Það byggir á einni sameiginlegri skrá sem notendur leita í annað hvort á bókasöfnum eða á Netinu. Þar er að finna upplýsingar um safnkost og útlánastöðu. Við skráningu gagna í kerfið eru notuð samræmd efnisorð sem auðvelda leit og gera hana hnitmiðaðri. Þau rafrænu gögn sem finnast við leitir má opna beint úr kerfinu. Hvergi annars staðar í heiminum þekkist slík samvinna allra safnategunda. Gegnir er rekinn af Landskerfi bókasafna hf., www.landskerfi.is.


Upplýsingatækni í starfi
Sífellt fleiri störf krefjast þekkingar á upplýsingatækni svo sem við samskipti, framsetningu á efni, skýrslugerð og útreikninga. Tæknin gefur einnig möguleika á fjarvinnu sem færist í vöxt. Kannanir sýna að meirihluti landsmanna hefur aðgang að Netinu annað hvort heima eða í vinnunni, auk allra þeirra sem hafa aðgang í skólum og á bóka­söfnum. Segja má að möguleikar upplýsingatækninnar við samskipti, gagnavinnslu og heimilda­leitir séu óþrjótandi og hún sé undirstaða hnattvæðingarinnar sem svo oft er minnst á í ræðu og riti.
Vægi fyrirtækja á sviði upplýsingatækni hefur stóraukist á vinnumarkaði og jafnvel litið á hana sem stóriðju framtíðarinnar. Þjónusta upplýsingatæknifyrirtækja er í megindráttum á sviði verslunar, fjarskipta, hugbúnaðargerðar og ráðgjafar.


Upplýsingatækni og skólar
Aldrei hefur verið eins auðvelt að nálgast upplýsingar og nú. Í grunnskólum læra
nemendur að nota tölvur og leita upplýsinga. Þeirri kynslóð sem nú er að vaxa úr grasi er notkun upplýsingatækni jafn töm og upplýsingaleit í bókum og tímaritum er þeim sem eldri eru. Upplýsingatæknin hefur gert einstaklingum kleift að stunda nám við skóla fjarri heimabyggð og kallast það fjarnám. Einnig er í sumum skólum boðið upp á svokallað dreifnám sem byggist á blöndu af staðbundnu námi og fjarnámi. Margvís­legar upplýsingar um menntun og skólastarf er að finna á vefnum Menntagátt, www.menntagatt.is.


Upplýsingatækni og heimili
Á Netinu er að finna allt milli himins og jarðar, vísindagreinar jafnt sem mataruppskriftir. Þar er hægt að leita í símaskrám um víða veröld, lesa fréttir frá öllum heimshornum, finna upplýsingar um lönd og borgir, panta flugfar og skoða veðurspána áður en lagt er af stað í ferðalag. Netið má einnig nota til hvers konar dægradvalar, til dæmis við að spila tölvuleiki. Upplýsingatæknin er þannig stöðugt ríkari þáttur í daglegu lífi á heimilum landsmanna.


4.  Hugtök
Skilgreiningar á nokkrum hugtökum sem tengjast upplýsingatækni:


Upplýsingabanki, gagnagrunnur (e. database)
Safn upplýsinga sem lúta að tilteknu viðfangsefni, skipulagt þannig að notendur þess hafi greiðan aðgang að því.


Upplýsingafræði (e. information science)
Kerfisbundin athugun og greining heimilda. Myndun, söfnun, skipulagning, dreifing, mat, notkun og stjórnun upplýsinga á hvaða formi sem er, að meðtöldum þeim boðleiðum (formlegum og óformlegum) og tækni sem notuð eru við miðlunina. Bókasafnsfræði (e. library science) er skilgreind sem fagleg þekking og kunnátta sem beitt er við val, aðföng, skipulagningu, geymslu, viðhald, heimtur og dreifingu upplýsinga til að mæta þörfum tiltekins hóps viðskiptavina, venjulega kennd við háskóla eða sérstaka skóla. Hér á landi hafa starfsheitin bókasafnsfræðingur og bókasafns- og upplýsingafræðingur öðlast löggildingu.


Upplýsingaheimtur (e. information retrieval)
Ferli, aðferðir og verklag sem notað er við að leita, velja og sækja upplýsingar úr gagnagrunni. Auk þess notað um þær niðurstöður sem fást.


Upplýsingahraðbraut (e. information highway)
Afkastamikið tölvusamskiptanet sem hægt er að nota til að flytja mikið magn upplýsinga á skömmum tíma, texta og önnur gögn, kyrrmyndir, hreyfimyndir og hljóð; gert til að þjóna mörgum notendum samtímis.


Upplýsingaiðnaður (e. information industry)
Öll sú starfsemi sem tengist vinnslu og meðhöndlun upplýsinga til útbreiðslu eða sölu. Sameiginlegt heiti um hugbúnaðargerð, gagnavinnslu og upplýsingaþjónustu.


Upplýsingakerfi (e. information system)
Kerfi þar sem skipulega er hægt að safna saman upplýsingum, geyma þær, vinna úr þeim og leita.


Upplýsingaleikni (e. information skills)
Geta til að vinna með upplýsingar, ná í þær, meta þær, vinna úr þeim og setja þær fram. Færni í að nota upplýsingatækni.


Upplýsingalæsi (e. information literacy)
Að geta fundið, staðsett, metið, skipulagt og notað upplýsingar á skilvirkan hátt við að fjalla um þau málefni og viðfangsefni sem fyrir liggja hverju sinni.


Upplýsinganet (e. information net)
Tölvunet þar sem leita má skipulega að upplýsingum.


Upplýsingar (e. information)
Gögn sem mannshugur hefur unnið úr á einhvern hátt og varðveitt eru á ákveðnu formi.


Upplýsingatækni (e. information technology)
Það að beita viðeigandi tækni við upplýsingavinnslu. Með tækni er átt við tölvutækni, fjarskiptatækni og rafeindatækni.


Upplýsingaveita (e. information provider)
Skipulögð þjónusta sem veitir upplýsingum til notenda, meðal annars tölvunotenda.


Upplýsingaþjóðfélag/upplýsingasamfélag (e. information society)
Samfélag þar sem þjónusta, samskipti og upplýsingar eru ráðandi þættir. Orðið þekkingarþjóðfélag/þekkingarsamfélag hefur á síðari árum rutt sér til rúms og því nær um samheiti að ræða en þar er meiri áhersla lögð á þekkinguna sem slíka.


Upplýsingaþjónusta (e. information service)
Sú þjónusta sem lýtur að skipulagðri leit að upplýsingum og miðlun þeirra til að mæta þörfum tiltekinna notenda.


5.  Val á tölvubúnaði
Við kaup á tölvubúnaði þarf fyrst og fremst að hafa í huga til hvers á að nota tölvuna og velja hana í samræmi við það. Tölva, sem á til dæmis eingöngu að nota við ritvinnslu, þarf ekki að vera eins öflug og tölva sem á að nota við flóknari vinnslu og þrívíddartölvu­leiki.


Auglýsing frá tölvusala gæti hljóðað eitthvað á þessa leið:


Intel Pentium 4 630 3.00GHz/2MB, 800MHz FSB & HT
512MB 400MHz DDR2 vinnsluminni
9-1 minniskortalesari (les öll algengustu minniskort)
160GB (7,200 rpm) SATA harður diskur
16x DVD+RW Dual Layer geislaskrifari
17″ TFT flatskjár
10/100 netkort
128MB ATI Radeon X300 SE skjákort
Innbyggt 5.1 hljóðkort
7 USB 2.0, tvö að framan
IEEE 1394 FireWire
Íslenskt lyklaborð & Logiteck ljósamús


Skýringar


Intel Pentium: Gerð örgjörva, mældur í MHz eða GHz, því hærri tala því meiri hraði
Vinnsluminni: Stærð vinnsluminnis mælt í MB, vinnsluhraði mældur í MHz; því hærri tala því hraðvirkari vinnsla.
Harður diskur: Stærðin oftast mæld í GB, því stærri diskur því stærri gagnageymsla.
Geislaskrifari fyrir DVD og RW: Því hærri margfeldistala því hraðvirkari.
Flatskjár: Flatur skjár mældur í tommum („), því hærri tala því stærri skjár.
Upplausn (e. resolution): Notað um fínleika/skerpu til dæmis á stafrænni mynd og tölvu­skjá, mælt í fjölda díla eða punkta (e. pixel) á tommu, línu eða sentimetra.
Því hærri sem talan er því meiri upplausn og þar af leiðandi skarpari mynd.
Netkort: Innbyggt netkort sem getur bæði tengst 10 Mbit/s (megabitar á sek.) og 100 Mbit/s tækjum á sama tengli og aðlagað sig sjálfkrafa að hvorum hraðanum sem er.
Skjákort: Myndræn framsetning hugbúnaðar birtist á skjánum í gegnum skjákort.
Þrívíddarleikir gera meiri kröfur til myndrænna skila og þurfa meiri bandbreidd en almenn tölvuvinnsla, svo sem ritvinnsla.
Sjónvarpskort: Kort sem gefa möguleika á að horfa á sjónvarpsútsendingar í tölvu og jafnvel taka upp og skrifa á diska.
Hljóðkort: Fyrir hljóð, oftast innbyggt, því öflugra því betri hljómgæði.
USB: Því fleiri tengi því meiri möguleikar á að tengja jaðartæki við tölvuna.
FireWire: Raðbundin háhraðabraut, tenging á milli tövu og jaðartækja, til dæmis myndavéla.


Bæti (B) = Venjulega 8 bitar (b)
kb = kílóbit = þúsund bitar
kB = kílóbæti = þúsund bæti
MB = megabæti = milljón bæti
GB = gígabæti = milljarður bæta
TB = tarabæti = þúsund gígabæti


 6.  Bókasöfn og upplýsingatækni
Bókasöfn og upplýsingamiðstöðvar hafa tekið upplýsingatæknina í sína þjónustu. Hér eru talin upp nokkur helstu verkefni sem hafa verið unnin eða eru í vinnslu á íslenskum bókasöfnum.


Gegnir. Leitarkerfi og samskrá íslenskra bókasafna á Netinu
Öll helstu bókasöfn landsins sameinuðust árið 2001 um eitt öflugt bókasafnskerfi, Gegni, www.gegnir.is, með fulltingi menntamálaráðuneytis og margra sveitarfélaga. Gegnir var formlega tekinn í notkun í maí 2003. Kerfið tryggir landsmönnum aðgang að bókfræðilegum upplýsingum sem nýtast í námi, starfi og leik. Það byggir á einni sameiginlegri skrá sem notendur leita í annað hvort á bókasöfnum eða á Netinu. Þar er að finna upplýsingar um safnkost og útlánastöðu. Þau rafrænu gögn sem finnast við leitir má opna beint úr kerfinu. Hvergi annars staðar í heiminum þekkist slík samvinna allra safnategunda. Gegnir er rekinn af Landskerfi bóksafna hf., www.landskerfi.is.


Samræmd efnisorð í Gegni
Við skráningu gagna í bókasafnskerfið Gegni eru notuð samræmd og stöðluð efnisorð sem auðvelda leit og gera hana hnitmiðaðri. Þessi vinna er byggð á íslenskum Kerfisbundnum efnisorðalykli sem tveir bókasafns- og upplýsingafræðingar tóku saman og er nú í eigu Landskerfis bókasafna, sjá  www.landskerfi.is/php/efnisord.php.


Landsaðgangur að rafrænu efni  ?  hvar.is
Landsaðgangur kallast það þegar opnað er fyrir aðgang allra tölva í ákveðnu landi að rafrænum gögnum sem keypt eru sameiginlega í áskrift. Aðgangurinn er þá um IP-tölur í viðkomandi landi. Á Íslandi tóku mörg bókasöfn höndum saman með fulltingi mennta­málaráðuneytis og var aðgangurinn formlega opnaður 23. apríl 1999. Hann er ókeypis fyrir alla landsmenn og er það einsdæmi í heiminum. Gagnasöfnin er hægt að nálgast á vefnum Hvar.is, www.hvar.is.


Stafrænt þjóðbókasafn
Í Landsbókasafni Íslands ? Háskólabókasafni hefur að undanförnu verið unnið að því að gera stafræna eftirgerð af íslensku prentuðu efni og setja á Netið. Oft er hægt að leita að einstökum orðum í texta, til dæmis í efni dagblaða og tímarita. Nú þegar eru í stafræna þjóðbókasafninu rúmlega milljón blaðsíður af gömlum kortum, handritum, bókum, blöðum og tímaritum. Öll íslensk tímarit og blöð gefin út fyrir 1920 eru aðgengileg á Netinu og á hverjum degi bætist nýtt efni við. Aðgengi að þessu stafræna bókasafni er í gegnum vef safnsins, www.landsbokasafn.is.


Kennsluvefur í upplýsingalæsi
Kennsluvefur um upplýsingalæsi, www.upplysing.is/upplysingalaesi fjallar ítarlega um alla þætti upplýsingalæsis, svo sem að finna, staðsetja, meta, og nota upplýsingar, þar á meðal gerð heimildalista. Vefurinn er unninn af bókasafns- og upplýsingafræðingum í fimm framhaldsskólum og styrktur af menntamálaráðuneytinu.


Tölvuaðgangur á almenningsbókasöfnum
Eitt af markmiðum almenningsbókasafna er að jafna aðgang almennings að upplýsingum meðal annars með því að gera þeim sem ekki hafa aðgang að tölvum heima fyrir kleift að nýta sér kosti þeirra á bókasöfnum. Í tölvum safnanna er meðal annars hægt að komast á Netið og leita sér upplýsinga, nota tölvupóst, ritvinnsluforrit, töflureikni og önnur algeng tölvuforrit.


Vefbókasafnið
Nokkur íslensk almenningsbókasöfn hafa sett á fót Vefbókasafnið, www.vefbokasafn.is, þar sem valdar íslenskar vefsíður eru meginefnið. Vefbókasafnið er liður í að auðvelda almenningi aðgang að vönduðu efni á Netinu. Vefsíðurnar eru leitarhæfar eftir titli, efni og veffangi. Hægt er að skoða efnisorðalista í stafrófsröð og helstu efnisflokka.
Ennfremur hefur á mörgum bókasöfnum verið safnað saman völdum erlendum og íslenskum tenglum (e. hyperlink) og þeir gerðir aðgengilegir á vefsetrum safnanna.
Oftast eru slík tenglasöfn flokkuð eftir efni.


DAISY-tækni
Stafræn tækni við gerð hljóðbóka. DAISY-bók er hljóðbók á geisladiski, sem spiluð er í tölvu eða afspilunartæki. Tæknin býður notandanum upp á mjög mikla möguleika til að stökkva fram og til baka í texta, meðal annars út frá efnisyfirliti. Blindrabókasafn Íslands vinnur að innleiðingu þessarar tækni við útgáfu hljóðbóka sinna.


7.  Helstu heimildir og ítarefni
Abbate, Janet. 2000. Inventing the Internet. Cambridge, MA: MIT Press.
Árni Björgvinsson. 2002. Upplýsingatækni ? skref fyrir skref. 6. útg. Höfundur.
Dejligbjerg, Helle. 2003. Tölvur og netið ? fyrir (algjöra) byrjendur. Reykjavík: Hemra.
Karbo, Michael B. 2002. Vélbúnaður – á eigin spýtur. Reykjavík: Herma.
Íslenska upplýsingasamfélagið. Álitsgerð starfshópa. 1996. Reykjavík: Ríkisstjórn Íslands.
Netdirectory. [Án árs] www.netdictionary.com [Sótt 18.12.2005.]
?Prag yfirlýsingin um eflingu upplýsingalæsis í samfélaginu.? 2003. Þórdís T. Þórarinsdóttir þýddi.     Fregnir. Fréttabréf Upplýsingar. 28. árg., 3. tbl., bls. 28-29. Sjá www.upplysing.is/Pragyfirlysing.pdf.
Reitz, Joan M. 2004. Dictionary for Library and Information Science. London: Libraries Unlimited.
Sveinn Ólafsson. 2002. Upplýsingaleikni. Reykjavík: Mál og menning.
Sveinn Ólafsson. 2004. Upplýsingatækni á bókasöfnum og uppplýsinga-miðstöðvum. Reykjavík: Upplýsing.
The Free Dictionary. [Án árs.] www.thefree-dictionary.com [Sótt 18. 12.2005.]
Tölvuorðasafn. 2005. Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands tók saman. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.
Wikipedia. The Free Dictionary. 2005. www.wikipedia.org [Sótt 18.12.2005.]
Ösp Viggósdóttir. 2005. Google fyrir venjulegt fólk. Reykjavík: Haraldur íkorni.


Gefið út í tengslum við UT-daginn 24. janúar 2006.
Ábyrgð og útgáfa: Upplýsing ? Félag bókasafns- og upplýsingafræða, ©2006.
Gefið út með styrk frá menntamálaráðuneytinu.


Höfundar texta: Hulda Björk Þorkelsdóttir, Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, Kristín Ósk Hlynsdóttir,
Svava H. Friðgeirsdóttir og Þórdís T. Þórarinsdóttir
Ljósmyndir: Bára, Helgi Braga og Oddgeir Karlsson
Hönnun: Aðalbjörg Þórðardóttir
Prentun: Svansprent