Málþing um landsaðgang Íslendinga að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum
var haldið á Grand Hótel í Reykjavík, 15. október 2007. Tilefnið var að  á árinu 2007 eru 10 ár liðin frá því að menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, skrifaði undir fyrsta landssamninginn fyrir hönd íslenska ríkisins. Það var samningur við Encyclopedia Britannica og gerði það mögulegt að leita í gagnasafninu frá öllum nettengdum tölvum á Íslandi. Aðrir samningar fylgdu í kjölfarið og nú hafa allir Íslendingar frjálsan aðgang að um 14.000 rafrænum tímaritum á öllum sviðum mannlegrar þekkingar. Kostnaður er greiddur af bókasöfnum og stofnunum hér á landi.


Sú staðreynd að íslenskir notendur hafa óheftan aðgang að miklu magni upplýsinga hefur gjörbreytt öllum aðstæðum til rannsókna á Íslandi. Vísindamenn á Íslandi hafa nú einna best aðgengi að tímaritum og þekkingu allra í heiminum beint frá heimatölvu sinni.  Landsaðgangur hefur orðið einn besti stuðningur við byggðaþróun og vegna þessa aðgengis er hægt að stofna litlar rannsóknastofnanir í dreifðum byggðum landsins án þess að þurfa að hafa áhyggjur af innkaupum áskrifta að nýjustu tímaritum. Stúdentar og almenningur hafa aðgang að gögnum á flestum sviðum mannlegrar þekkingar og þeir þurfa ekki að vera tengdir neinni sérstakri stofnun til að njóta þessarar þjónustu. Samhliða aðgengi að erlendu efni eykst jafnt og þétt aðgengi að íslenskum tímaritum í rafrænu formi.


Á þessum tímamótum var því talin ástæða til að kalla saman málþing og horfa til baka, meta það sem áunnist hefur og  jafnframt horfa fram á veginn. Hvernig hefur þessi þjónusta nýst íslensku samfélagi, hvert stefnum við og hvar er þörf úrbóta?


Á málþinginu var áhersla lögð á gagnsemi landssamninganna fyrir íslenskt samfélag og hvaða notagildi þetta aðgengi hefur haft fyrir vísindamenn. Rætt var um mikla notkun Íslendinga á tímaritum frá Elsevier og flutti sölumaður frá þeim erindi um notkunina og velti því fyrir sér hvort ekki mætti merkja aukna rannsóknarvirkni með því að skoða notkunartölur. Tveir vísindamenn sögðu frá reynslu sinni af þessu mikla aðgengi og hvaða þýðingu það hefði haft fyrir vísindastarfsemi þeirra og tvær rannsóknir um notkun á heimildum voru kynntar.


Síðari hluti ráðstefnunnar beindi sjónum að nýju og brýnu viðfangsefni sem er varðveisla rannsóknargagna (digital repository). Flestar rannsóknastofnanir, bæði einkareknar og í opinberum rekstri, safna gögnum sem hugsanleg gætu orðið til gagns fyrir aðra aðila. Á ráðstefnunni var rætt um þróun á þessu sviði í nágrannalöndunum og kynnt NORA sem er Norrænt kerfi um varðveislu og aðgengi að vísindagreinum. Hér á landi er eitt slíkt gagnasafn í notkun á Landsspítalanum og Háskólanum á Akureyri sem heldur utan um rannsóknargögn og notar til þess hugbúnaðinn Dspace. Seljendur Ex Libris sem rekur Gegni, bókasafnskerfi landsins, kynntu DigiTool sem tengir rafræn gögn inn í bókasafnskerfið og auðveldar notanda að leita að mismunandi tegundum gagna með einni leit. Loks var fjallað um framtíðarsýn þar sem skoðuð voru nokkur brýn verkefni í framtíðinni og þau tengd framtíðarstefnu ríkisstjórnarinnar fyrir 2008-2011.


Alls sóttu ráðstefnuna um 115 manns og þótti hún takast vel á allan hátt. 


Glærur frá nokkrum fyrirlesurum eru nú komnar á vefinn.