Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræða (http://www.bokis.is) stendur hinn 15. okóber næstkomandi fyrir málþinginu Aðgengi fyrir alla. Fjallað verður um aðgengi Íslendinga að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum.


Aðgengi þetta er einstakt í heiminum því allir sem eru búsettir á Íslandi og hafa aðgang að tölvum og Interneti geta leitað upplýsinga í ýmsum gagnasöfnum, m.a. alfræðiritinu Encyclopedia Britannica og vísindasafninu Web of Science. Ennfremur geta landsmenn lesið og prentað út greinar úr um 13.000 tímaritum, bæði almennum og  sérhæfðum vísindaritum. Í öðrum löndum hafa bókasöfn og/eða háskólar á svipuðum fagsviðum myndað með sér samlög um að veita notendum sínum, nemendum og kennurum, slíkan aðgang en hann er þá bundinn innan veggja viðkomandi stofnana.


Upphaf hins einstaka, íslenska landsaðgangs (http://www.hvar.is) má rekja til málþings hinn 11. september 1997 um aðgengi að rafrænum miðlum og stofnun nefndar um málefnið í kjölfar þess.  Í mars 1999 undirritaði svo þáverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, samning um aðgengi að Encyclopedia Britannica fyrir alla landsmenn. Þetta var tímamótasamningur. Aldrei áður höfðu forráðamenn nokkurs alfræðirits eða gagnasafns undirritað samning sem veitti heilli þjóð slíkt aðgengi. Í kjölfarið voru undirritaðir fleiri slíkir samningar. Söluaðilar gagna- og tímaritasafna voru í fyrstu tregir til að samþykkja aðgengi heillar þjóðar að söfnum sínum en nú keppast þeir um að selja Íslendingum þetta aðgengi. Það þykir góð auglýsing fyrir viðkomandi aðila.


Innanlands hefur verið samið við Morgunblaðið um aðgengi að gagnasafni þess eldra en þriggja ára. Aðgengið kostar á árinu 2007 um 100 millj. kr. og er það aðallega greitt af bókasöfnum og stofnunum með styrk frá menntamálaráðuneyti.


Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að gróskumikið vísindastarf á Íslandi og framboð á meistaranámi og doktorsmenntun í íslenskum háskólum byggist að miklu leyti á þessu góða aðgengi að vísindaritum og upplýsingum. Það verðuga markmið Háskóla Íslands að komast í röð 100 bestu háskóla heims væri tæplega raunhæft án þessa aðgengis. Einnig má segja að Landsaðgangurinn skipti sköpum fyrir kennara og nemendur annarra háskóla og þá sérstaklega á landsbyggðinni. Þá gerir hann fjölda manns kleift að stunda fjarnám heiman að.


Á þessu afmælismálþingi verður skoðað hver árangurinn hefur orðið af landsaðgangi og jafnframt reynt að spá hvert geti orðið næsta stórmál sem íslensk bókasöfn þurfa að sinna.


Undirbúningsnefnd