Fregnir 25. árg. 2. tbl. 2000


EFNI:
FYRSTI AÐALFUNDUR UPPLÝSINGAR 15. MAÍ SL.
SKÝRSLA STJÓRNAR UPPLÝSINGAR 1. JAN. – 15. MAÍ 2000
FRAMKVÆMDAÁÆTLUN UPPLÝSINGAR STARFSÁRIÐ 2000-2001
SKÝRSLUR FULLTRÚA UPPLÝSINGAR Í STJÓRNUM OG NEFNDUM
RÁÐGJAFARNEFND UM MÁLEFNI ALMENNINGSBÓKASAFNA
SKÝRSLA STJÓRNAR BLINDRABÓKASAFNS ÍSLANDS ÁRIÐ 1999
NORRÆNT NET BARNABÓKAVARÐA
SKÝRSLA UM STARFSEMI NORDBOK 1999
SKÝRSLA UM STARFSEMI LANDSBÓKASAFNS ÍSLANDS – HÁSKÓLABÓKASAFNS
SKÝRSLA RITNEFNDAR BÓKASAFNSINS 1999-2000
VERKEFNISSTJÓRN UM AÐGANG AÐ GAGNASÖFNUM
SKÝRSLA UM STÖRF BÓKASAMBANDS ÍSLANDS
TÆKNINEFND FAGRÁÐS Í UPPLÝSINGATÆKNI
HÚSFÉLAGIÐ ÁSBRÚ SF. – SKÝRSLA FULLTRÚA UPPLÝSINGAR Í AÐALSTJÓRN
SKÝRSLA SIÐANEFNDAR
ÚTHLUTUN ÚR FERÐASJÓÐI UPPLÝSINGAR ÁRIÐ 2000
NÝTT EINKENNISMERKI FYRIR UPPLÝSINGU
RÁÐSTEFNA NVBF Í REYKJAVÍK 22. OG 23. MAÍ 2000
NÝR FORMAÐUR STJÓRNAR NVBF
MENNTASMIÐJA KENNARAHÁSKÓLA ÍSLANDS
VORFUNDUR SAMTAKA FORSTÖÐUMANNA ALMENNINGSBÓKASAFNA
UPPLÝSINGAR UM STARFSEMI ÞJÓNUSTUMIÐSTÖÐVAR BÓKASAFNA, SES.,
BÓKASAFN NORRÆNA HÚSSINS
NORDISK BIBLIOTEKFORENINGSMØTE
SAMSTARFSHÓPUR UM BÓKASÖFN Á AKRANESI
RÁÐSTEFNA Í RÓMABORG 22.-23. OKTÓBER 1999 UM MENNINGARSTARFSEMI UPPLÝSINGAÞJÓÐFÉLAGSINS
BYGGT YFIR BÓKASAFNIÐ Á HÖFN Í HORNAFIRÐI
ENDURMENNTUN
AÐGANGUR AÐ RAFRÆNUM BÓKFRÆÐIGAGNASÖFNUM, TÍMARITUM, HANDBÓKUM OG ÖÐRU EFNI Á SVIÐI HEILBRIGÐISVÍSINDA ÁRIÐ 2000
HVAÐ NÚ ÞJÓÐARBÓKHLAÐA?
FRÉTTIR FRÁ KERFISNEFND BÓKASAFNA
HEIMSGANGA KVENNA 2000 – HVAÐ ER ÞAÐ?
HEYRST HEFUR …
RÁÐSTEFNUR OG FUNDIR
STJÓRN, NEFNDIR OG FULLTRÚAR UPPLÝSINGAR
LANDSFUNDUR 2000
——————————————————————————-Útgefandi:
Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða
Lágmúla 7, 108 Reykjavík
Netfang: [email protected]
Heimasíða: http://www.bokis.is
ISSN 1605-4415
Frágangur: Svava H. Friðgeirsdóttir og Þórdís T. Þórarinsdóttir
Fjölritun: Stensill ehf.
——————————————————————————–


Fyrsti aðalfundur Upplýsingar 15. maí sl. 
Fyrsti aðalfundur Upplýsingar – Félags bókasafns- og upplýsingafræða var haldinn í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu þann 15. maí sl.


Dagskrá fundarins var í samræmi við lög félagsins sem samþykkt voru á stofnfundi þann 26. nóvember sl. Á þeim fundi var einnig ákveðið að stjórn væri óbreytt til aðalfundar 2001.


Skýrsla stjórnar er birt annars staðar í blaðinu svo hún verður ekki rakin hér. Fluttur var útdráttur úr skýrslum frá nefndum og fulltrúum félagsins í ýmsum stjórnum og ráðum. Þar kom greinilega fram hve öflug og fjölbreytt starfsemi fer fram innan vébanda félagsins. Stjórnin hefur ákveðið að skýrslurnar verði í framtíðinni birtar í heild sinni í fyrsta tölublaði Fregna eftir aðalfund sem jafnan er gefið út í byrjun júní. Skýrslunar birtast því í heild sinni hér í blaðinu.


Þar sem fyrsta starfsári félagsins er ekki lokið voru engir reikningar lagðir fram. Gíróseðlar voru sendir stofnfélögum í apríl. Gjaldkeri drap síðan á helstu útgjaldaliði félagsins á starfsárinu, þar ber hæst húsnæðiskaup að Lágmúla 7. Einnig kom fram að ógerningur er að ákveða tekjur þar sem ekki er ljóst hve margir félagsmenn verða. Fundurinn ákvað að árgjald félagsins fyrir árið 2001 væri óbreytt. Gíróseðlar fyrir árið 2001 verða sendir út í ársbyrjun.


Formaður mælti fyrir framkvæmdaáætlun næsta árs sem birt er annars staðar í blaðinu .


Varaformaður kynnti skipurit félagsins í samræmi við 4. gr. félagsins um skipulag þess. Skipuritið er einnig birt hér í Fregnum.


Skoðunarmenn reikninga voru kosnir og ennfremur eftirfarandi nefndir: Lagabreytinganefnd, Fræðslu- og skemmtinefnd, Ritnefnd Bókasafnsins, ritstjóri var kostinn Dögg Hringsdóttir, Siðanefnd, Nefnd um val á bestu fræðibók ársins, annars vegar fyrir börn og hins vegar fyrir fullorðna. Listi yfir starfandi nefndir innan Upplýsingar svo og fulltrúa félagsins í ýmsum nefndum og stjórnum er birtur í annars staðar í blaðinu.


Undir liðnum önnur mál voru fjögur mál. Fyrst lögðu gjaldkerar forvera Upplýsingar, (FB og BVFÍ ásamt aðildarfélögum FAS og FBR) fram lokauppgjör félaganna. Í öðru lagi voru úthlutunarreglur Ferðasjóðs lagðar fram til umræðu og afgreiðslu. Í þriðja lagi var hugmynd að nýju einkennismerki (logo) fyrir félagið kynnt og afhent bókaverðlaun. Verðlaunin voru Kristni á Íslandi sem Alþingi gaf. Vinningshafinn var Aðalbjörg Þórðardóttir. Í fjórða lagi var vefsíða félagsins opnuð http://www.bokis.is Á vefsíðunni er að finna fundargerð fundarins og ýmsar nánari upplýsingar um aðalfundinn.
Þórdís T. Þórarinsdóttir


Skýrsla stjórnar Upplýsingar 1. jan. – 15. maí 2000
Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða tók formlega til starfa þann 1. janúar sl. þannig að fyrsta starfslota stjórnar hefur verið mjög stutt en annasöm, n.k. inngangur að frekara starfi.


Stjórn félagsins var kosin á stofnfundi 26. nóvember 1999 og skiptir þannig verkum:


Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður, Svava H. Friðgeirsdóttir varaformaður – formaður og varaformaður eru tengiliðir við stjórnunarsvið. Lilja Ólafsdóttir, gjaldkeri, tengiliður við fjármálasvið; Hólmfríður Tómasdóttir ritari, viðheldur félagatali; Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir meðstjórnandi, tengiliður við útgáfusvið; Jenný K. Valberg meðstjórnandi, tengiliður við ráðstefnu- og fræðslusvið; Þórhallur Þórhallsson meðstjórnandi, tengiliður við fagsvið.


Alls voru haldnir níu stjórnarfundi á tímabilinu. Hér verður aðeins sagt almennt frá helstu verkefnum sem stjórn félagsins hefur unnið að. Hjá stjórn hefur mikill tími farið í innra starf, skipulagningu og ýmis konar frágang og stefnumótunarvinnu vegna yfirtöku Upplýsingar á starfsemi forvera félagsins. Einnig hefur verið unnið kynningarefni og efni til að setja á heimasíðu félagsins. Í apríl voru gíróseðlar vegna félagsgjalda sendir öllum stofnfélögum samkvæmt skilgreiningum stjórna fyrri félaga.


Stjórnarmenn hafa setið ýmsa fundi sem fulltrúar félagsins, t.d. fundi með BHM varðandi húsnæðismálin og skipulagningu skrifstofu félagsins; fundi hjá Sameignarfélaginu Ásbrú; fund um menntunarmál ófaglærðra bókavarða; aðalfund Þjónustumiðstöðvar bókasafna; fund hjá Menningar- og friðarsamtökum kvenna; fund um tónlistarútlán og höfundarréttarmál. Stjórnin tilnefndi síðan fulltrúa í nefnd um þau mál og tekur þátt í að ýta starfinu úr vör.


Innan vébanda félagsins fer fram öflugt starf í ýmsum nefndum og stjórnum sem fulltrúar félagsins taka þátt í og er það starf eðlilega drjúgur hluti hins faglega starfs félagsmanna. Fyrirhugað er að birta skýrslur um þá starfsemi ásamt skýrslu stjórnar í næsta fréttabréfi félagsins Fregnum. Á yfirliti sem liggur hér frammi um þá sem taka þátt í félagsstarfinu eru um 70 nöfn á blaði og mörg þeirra koma fyrir oftar en einu sinni. Flytur stjórnin hér með öllum þeim sem starfa fyrir félagið á einn eða annan hátt bestu þakkir.


Á þessum fjórum og hálfa mánuði sem félagið hefur starfað hafa samtals 57 sótt um aðild að því (35 nemar, 20 einstaklingar og 2 stofnanir). Þessum aðilum hafa verið send bréf og lög félagsins. Alls bárust stjórn 10 úrsagnir (5 einstaklingar og 5 stofnanir).


Eitt fyrsta verk nýrrar stjórnar var að samþykkja kaupsamning (kaupverð kr. 463.000 kr.) um aukinn hlut í Lágmúla 7. Þannig að nú hefur félagið einkaafnot af skrifstofu (10,5 fermetrar) á 2. hæð í Lágmúla 7 auk afnota af sameiginlegum fundarsölum og aðstöðu á 3. hæð. Félagshluti Upplýsingar í sameignarfélaginu Ásbrú er nú 3,76%.


Sameining íslenskra bókavarðafélaga og nýja félagið hafa verið kynnt á innlendum og erlendum vettvangi með því að senda kynningarbréf til allra samstarfsaðila fyrri félaga og til allra nefnda og stjórna sem félögin áttu fulltrúa í. Félagið er aðili að Fagráði um upplýsingatækni, IBBY, EBLIDA, IFLA og NVBF. Formaður kynnti félagið fyrir nemum í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands. Auk þess birtist grein um sameiningarmálin eftir formann í næsta tölublaði Bókasafnsins og ennfremur stutt grein formanns um sama málefni í næsta fréttabréfi EBLIDA Information Europe.


Frá EBLIDA berst mikið af upplýsingum til félagsins bæði í tölvupósti og á prentuðu formi. Upplýsingar sem berast frá EBLIDA á tölvupósti eru sendar á Skruddu til fróðleiks. Eins hefur verið komið á framfæri á Skruddu upplýsingum um ráðstefnur og fundi sem borist hafa til stjórnar og einnig hefur verið sagt frá störfum stjórnar á Skruddu og í Fregnum. Þátttaka félagsins hefur aukist í norrænu samstarfi eins og sjá má á lista yfir fulltrúa félagsins í ýmsum nefndum sem formaður hefur tekið saman.


Fulltrúar í stjórninni hafa unnið að undirbúningi fundar formanna og framkvæmdastjóra norrænna bókavarðafélaga, Nordisk bibliotekforeningmøte, sem haldinn verður í Reykjavík 26.- 27. maí nk.


Einn fræðslufundur var haldinn á tímabilinu. Guðrún Pálsdóttir kynnti lokaverkefni sitt (Innan seilingar. Upplýsingaleiðir vísindamanna og öflun heimilda) til meistaraprófs í bókasafns- og upplýsingafræði. Stjórnin stefnir að því að gefa þeim sem ljúka framhaldsgráðu í bókasafnsfræði kost á að halda fyrirlestur um lokaverkefni sín á vegum félagsins.


Nokkrir aðilar sem starfa fyrir hönd félagsins hafa sótt um styrki til stjórnar vegna starf-seminnar og þar hefur enginn farið bónleiður til búðar. Auk þess hefur stjórnin úthlutað styrkjum úr Ferðasjóði.


Stjórnin hefur unnið að undirbúningi að uppbyggingu náms fyrir ófaglært starfsfólk á bókasöfnum m.a. í samstarfi við Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna en löngu er tímabært að skipulagðir verði kerfisbundnir menntunarmöguleikar fyrir aðstoðarfólk á bókasöfnum. Stjórnin sótti einnig um styrk í þessu skyni til Starfsmenntaráðs félagsmálaráðuneytis og fékk úthlutað kr. 500.000. Nú í vikunni verður fundur með menntamálaráðuneytinu og fulltrúum frá Samtökum forstöðumanna um menntunarúrræði fyrir ófaglærðra bókaverði.


Einnig hefur verið unnið að endurmenntunarmálum bókasafns- og upplýsingafræðinga. Á síðustu önn voru haldin fjögur endurmenntunarnámskeið í samvinnu við Endurmenntunarstofnun. Nú standa yfir athuganir á að fá afslátt á endurmenntunarnámskeiðum fyrir félagsmenn Upplýsingar.


Stjórnin gaf út eitt tölublað Fregna í nýju broti á tímabilinu og stefnir að frekari útlitsbreytingum blaðsins. Þá má geta þess að fengið var ISSN númer fyrir blaðið.


Stjórnin fékk til umsagnar Frumvarp til laga um skylduskil til safna og sendi athugasemdir við frumvarpið til Nefndasviðs Alþingis.


Borist hefur til stjórnar erindi frá IFLA/FAIFE varðandi þýðingu á Yfirlýsingu IFLA um bókasöfn og vitsmunalegt frelsi. Þýðingin birtist í næsta hefti Bókasafnsins og er auk þess birt á heimasíðu FAIFE. Einnig var farið fram á skýrslu um þessi mál hér á landi og er hún á vinnslustigi.


Stjórnin varð við erindi frá EBLIDA um stuðning við aðgerðir félagsins við að styðja frönsk bókasöfn sem berjast gegn því að greiðsla (5 frankar) verði rukkuð fyrir hvert einstakt útlán á bókasöfnum.


Ýmis önnur erindi og fyrirspurnir sem ekki verða tíunduð hér hafa borist stjórn Upplýsingar á tímabilinu. Full þörf er á að ráða starfsmann til félagsins en stjórnin hefur enn haldið að sér höndum í þeim efnum þar sem ekki kemur fram hver fjárhagslegur grundvöllur félagsins verður fyrr en ljóst er hverjar tekjurnar verða af félagsgjöldum.


Stjórn Upplýsingar hefur á stefnuskrá sinni að félagsmenn njóti betri kjara en utanfélagsmenn á þeim námskeiðum og viðburðum sem staðið er fyrir innan vébanda félagsins og stjórn eða félagsmenn eiga þátt í að skipuleggja. Gildir þetta t.d. um endurmenntunarnámskeið og Landsfund bókavarða.


Landsfundarnefnd sendir fundinum kveðjur og vill hvetja fólk til að taka frá 1. og 2. september nk. til að mæta á öflugan Landsfund á Akureyri. Landsfundarnefnd hvetur fólk jafnframt til huga að þaki yfir höfuðið í þennan tíma ef það hefur tök á.


Að lokum vill undirrituð þakka stjórnarmönum samstarfið og ennfremur öllum þeim félagsmönnum sem halda merki Upplýsingar á lofti með störfum í þágu félagsheildarinnar.
Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður
15.05.2000


Framkvæmdaáætlun Upplýsingar starfsárið 2000-2001 1. Svara erindum og fyrirspurnum sem berast félaginu. Ennfremur koma ýmsum upplýsingum sem berast, s.s. um ráðstefnur erlendis, á framfæri við félagsmenn. Sjá um útgáfu Fregna.
 2. Byggja upp skrifstofu félagsins, kaupa tölvu. Skipuleggja, byggja upp og halda við heimasíðu félagsins. Ganga frá skjölum fyrri félaga. Kanna fjárhagsgrundvöll fyrir ráðningu starfsmanns.
 3. Útfærsla á einkennismerki (logo) félagsins og prentun bréfsefnis og e.t.v. félagsskírteina og gefa félagsmönnum kost á að kaupa nafnspjöld með einkennismerki Upplýsingar.
 4. Félagaskráning: Senda út eyðublað vegna samræmdar skráningar félagsmanna. Ýmsar upplýsingar vantar í félagatal og hefur stjórnin hug á að skrá ákveðnar grunnupplýsingar um félagsmenn (svipað eyðublað og umsókn um félagsaðild) svo auðveldara verði að koma skilaboðum til tiltekinna markhópa innan þess.
 5. Stofnun póstlista fyrir félagsmenn Upplýsingar til að auðvelda dreifingu upplýsinga til félagsmanna og gera hana markvissari. Ennfremur er stefnt að áframhaldandi kynningu á félaginu.
 6. Halda fund næsta haust með fulltrúum nefnda og öðrum fulltrúum félagsins í nefndum og ráðum um starfsemi félagsins og framtíðarskipulag. Í framhaldi af þessum fundi halda tenglar í stjórn fundi með viðkomandi sviðum, sbr. 4. gr. laga félagsins og skipurit.
 7. Halda fræðslufund næsta haust þar sem nýútskrifuðum bókasafns- og upplýsingafræðingum verður gefinn kostur á að kynna lokaverkefni sín fyrir starfandi bókavörðum.
 8. Undirbúa fund formanna og framkvæmdastjóra norrænna bókavarðafélaga, Nordisk bibliotekforeningsmøte, sem haldið verður í Reykjavík 26. og 27. maí nk.
 9. Endurmenntun bókasafns- og upplýsingafræðinga í samstarfi við Endurmenntunarstofnun og Samstarfshóp háskólabókavarða.
 10. Menntunarmál ófaglærðra bókavarða. Áframhaldandi vinna við að byggja upp menntunarúrræði fyrir ófaglærða bókaverði í samvinnu við Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna, Fjölmennt og menntamálaráðuneytið. Vinna þarf að framgangi menntunarúrræða fyrir ófaglært starfsfólk á bókasöfnum sem tekið væri tilllit til við röðun í launaflokka. Bæði þarf að huga að menntunarmöguleikum fyrir þá sem þegar eru við störf sem aðstoðarmenn á bókasöfnum og eins þarf að skipuleggja formlegt starfsnám, t.d. innan framhaldsskólans, fyrir þá sem hyggjast starfa á bókasöfnum og upplýsingamiðstöðvum en hyggja ekki á langskólanám.
 11. Stefnt er að ritun sögu FB og BVFÍ ásamt aðildarfélögum þess (FBR og FAS). Sagan spanni sögu bókasafnsfræðinga- og bókavarðastéttarinnar frá stofnun Bókavarðafélags Íslands 4. des. 1960 fram til 4. desember 2000. Gert er ráð fyrir að sagnfræðingur verði ráðinn til verksins. Stofnun ritnefndar og ráðning sagnaritara.
 12. Stjórn Upplýsingar hefur á stefnuskrá sinni að félagsmenn njóti betri kjara en utanfélagsmenn á þeim námskeiðum og viðburðum sem staðið er fyrir innan vébanda félagsins.

f.h. stjórnar Upplýsingar – Félags bókasafns- og upplýsingafræða
Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður,
15. maí 2000


Skýrslur fulltrúa Upplýsingar í stjórnum og nefndum

Ráðgjafarnefnd um málefni almenningsbókasafna
Nefndina skipa:
Hulda Björk Þorkelsdóttir, formaður, tilnefnd af Upplýsingu
Auður Gestsdóttir, varaformaður, tilnefnd af Landsbókasafni Íslands -Háskólabókasafni
Björn Sigurbjörnsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga


Skýrsla um starfsárið 1999
Ráðgjafarnefndin hélt 8 stjórnarfundi á árinu. Ákveðið hafði verið á árinu 1998 að efna til samráðsfundar um málefni almenningsbókasafna í samstarfi við Menntamálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Undirbúningur þessa fundar var alfarið í höndum nefndarinnar. Fundurinn var haldinn 26. mars 1999 í ráðstefnusal Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafns okkur að kostnaðarlausu og bauð safnið einnig fundarmönnum veitingar. Frummælendur voru frá menntamálaráðuneytinu, almenningsbókasöfnum, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og sveitarstjórnarmönnum. Rætt var bæði um nýju lögin og viðhorf til þeirra og tölvuvæðingu almenningsbókasafna.
18 umsóknir bárust um styrki af fé því, sem skv. bráðabirgðaákvæði laga 36/1997 var til úthlutunar árið 2000, upp á rúmlega 9 milljónir króna. Níu söfn fengu styrki til kaupa á tölvubúnaði og námskeiða fyrir starfsfólk frá 150.000 – 250.000 kr., starfshópur um endurmenntun ófaglærðra bókavarða á vegum Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna fékk 300.000 kr. styrk til að skipuleggja nám og undirbúa námsgagnagerð og þrjú þróunarverkefni fengu styrki frá 300.000 – 500.000 kr. en það eru Vefbókasafnið til að ljúka við að koma safninu í gagnagrunn, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn vegna útgáfu flokkunarkerfis fyrir íslensk bókasöfn sem nýtist öllum bókasöfnum og Norræna húsið vegna hönnunar vefsíðu með völdum tengingum til hinna Norðurlandanna, sem auðveldar aðgang að efni frændþjóðanna á vefnum.
Nefndin ræddi einnig um hlutverk sitt og verksvið og hvernig hún geti sem best beitt sér í ýmsum málefnum sem upp koma og snerta almenningsbókasöfn. Það sem var efst á baugi hjá okkur var hvort og hvernig við gætum stuðlað að framboði á endurmenntun fyrir bókaverði og einnig hvort hægt væri að beita sér fyrir því að komið verði á þróunarsjóði bókasafna þegar úthlutun úr ,,sjóðnum góða“ fellur niður.
Nefndinni hafa ekki borist nein erindi til umfjöllunar nema frá ráðuneytinu sjálfu, en í 13. gr. laga 36/1997 segir: Ráðgjafarnefndin veitir umsögn um erindi sem menntamálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, einstaka sveitarstjórnir, bókasafnsstjórnir eða forstöðumenn almenningsbókasafna vísa til hennar. Nefndin getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum til þessara aðila.
Hulda Björk Þorkelsdóttir


 Skýrsla stjórnar Blindrabókasafns Íslands árið 1999
Stjórn Blindrabókasafnsins skipuðu árið 1999:
Sigtryggur Eyþórsson, formaður, tilnefndur af Blindrafélaginu, varamaður Sigrún Jóhannsdóttir,
Brynja Athúrsdóttir tilnefnd af Blindrafélaginu, varamaður Halldór S. Guðbergsson
Þóra Óskarsdóttir, varaformaður, tilnefnd af Menntamálaráðuneytinu, varamaður Þórunn J. Hafstein
Erla Kristín Jónasdóttir tilnefnd af Bókavarðafélagi Íslands, varamaður Ragnhildur Árnadóttir
Ragnhildur Björnsdóttir tilnefnd af Félagi íslenskra sérkennara, varamaður Ásta S. Lárusdóttir.


Fundir stjórnar voru haldnir að jafnaði mánaðalega að undanskildum júní, júlí og ágúst.
Starfsemi Blindrabókasafnsins árið 1999 var kraftmikil að venju og einkenndist m.a. af auknum útlánum til framhaldskólanema með sértæka lestrarörðugleika (dyslexíu), gerð námsgagna á blindraletri fyrir blind grunnskólabörn og gerð árangurssamnings í desember 1999 við Menntamálaráðuneytið, sem tekur til ársins 2000 til 2002. Námsgagnastofnun hefur haft framleiðslu námsgagna fyrir blind grunnskólabörn með höndum. Viðræður við Námsgagnastofnun og Menntamálaráðuneytið eru í gangi vegna þessarar framleiðslu.
Söluverkefni safnsins, Orð í eyra, hélt ótrautt áfram og jókst salan um 7% frá árinu áður. Hljóðbækur fyrir almenning njóta sívaxandi vinsælda.
Stjórn safnsins lauk endurskoðun laga safnsins frá 1982 og sendi breytingartillögur við úreltar lagagreinar til Menntamálaráðuneytisins sem mun ganga endanlega frá þeim til afgreiðslu á Alþingi.
Fjárveitingar til safnsins voru 39 milljónir kr., aðrar tekjur voru 5 milljónir og rekstrarkostnaður safnsins var 43,7 milljónir kr. Styrkir bárust frá ýmsum aðilum s.s. Kvennadeild Rauða kross Íslands og Vinafélagi blindra.
Útlán voru 47.412 og er það 2,2% aukning frá árinu áður.
Útlánum til stofnana hefur fækkað en þeim einstaklingum hefur fjölgað sem koma í safnið og fá lánað.
Ellefu starfsmenn störfuðu við safnið í 9,9 stöðugildum. Forstöðumaður safnsins er nú sem fyrr Helga Ólafsdóttir. 
Erla K. Jónasdóttir


Norrænt net barnabókavarða
Fulltrúar Íslands í Norrænu neti barnabókavarða (samstarfshópur norrænna barnabókavarða) eru Sigríður Matthíasdóttir og Þorbjörg Karlsdóttir. Kristín Viðarsdóttir mun taka sæti Sigríðar í maí. Aðalverkefni síðasta árs var undirbúningur ráðstefnu sem haldin verður í Osló dagana 18. – 21. maí 2000. Ráðstefnan, sem ber heitið Hin nýja ásjóna barnabókasafna, er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. Tveir undirbúningsfundir voru haldnir á árinu, annar hér á landi og hinn í Noregi. Fulltrúar Íslands sátu ekki fundinn í Noregi. Undirbúningur ráðstefnunnar hefur annars að mestu verið í höndum fulltrúa Noregs. Fyrirlesarar eru frá öllum Norðurlöndunum og er okkar fulltrúi Þuríður Jóhannsdóttir bókmenntafræðingur. Fyrirlestur hennar nefnist ?bókmenntir í sagnaheimi skjámiðla“. Vinnuhópar (workshops) verða einnig starfandi og í einum slíkum munu þær Kristín Viðarsdóttir, Sigríður Matthíasdóttir og Kristín Birgisdóttir kynna sumarlestur á Íslandi, þ.e. lessmiðju Borgarbókasafns, sumarlestur Bókasafnsins á Selfossi og ?sumarlíf“ Bókasafns Mosfellsbæjar.
Hópurinn tók einnig þátt í undirbúningi Norrænnar barnabókakaupstefnu dagana 18. 19. og 20. febrúar sl. sem haldin var í Öksnehallen í Kaupmannahöfn. Skipuleggjandi var Tine Garsdal f.h. fyrirtækisins Kulturkompagniet.
Félag íslenskra bókaútgefenda var með bás á svæðinu og þar voru íslenskar bækur til sýnis og sölu. Andri Snær Magnason, Kristín Steinsdóttir, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Guðrún Hannesdóttir, Sigrún Eldjárn og Þórarinn Eldjárn kynntu bækur sínar og lásu upp. Anna Pálína Árnadóttir og Aðalsteinn Ásberg fluttu söngdagskrána Berrössuð á tánum. Farandsýningin Veganesti var á staðnum en það er sýning á 57 íslenskum barnabókum sem var formlega opnuð í Stavanger í nóvember síðastliðnum. Fer hún á milli bókasafna í Noregi.
Á kaupstefnuna komu heldur færri forlög en búist hafði verið við, t.d. kom ekkert frá Svíþjóð. Norðmenn og Finnar voru með kynningu á sinni útgáfu svo og ýmis dönsk forlög. Að auki var ýmislegt skemmtilegt í boði fyrir börn auk þess sem höfundar kynntu sig eða voru kynntir.


Norræn bókasöfn voru með sameiginlegan bás. Þar fór fram kynning á starfsemi barnadeilda bókasafna og ýmsum lestrarhvetjandi verkefnum, bæði í máli og myndum.


Í tengslum við messuna var haldin málstofa þar sem bókmenntafræðingar og rithöfundar frá Noregi, Svíþjóð og Danmörku fluttu erindi og sátu fyrir svörum.


Um 10.000 manns komu á messuna, mest fjölskyldufólk.


Hópurinn Norrænt net barnabókavarða ræddi síðasta daginn um framtíð kaupstefnunnar; hvort það ætti að endurtaka hana, hvenær, hvernig og hvar. Ýmsar hugmyndir komu fram. Ein hugmyndin var að hafa hana árlega í Danmörku. Árvissir viðburðir eru auglýsing í sjálfu sér en það sem mælir gegn þessu er að þátttaka fyrir aðra en Dani er dýr. Önnur hugmynd var sú að kaupstefnan verði haldin til skiptist á Norðurlöndunum. Einnig var rætt um að hún þyrfti að hafa ákveðið þema. Sumum fannst einnig að nóg framboð væri af kaupstefnum, bæði væri ein árlega í London og svo önnur mjög stór í Bologna á Ítalíu.


Bók Andra Snæs Magnasonar, Blái hnötturinn, vakti mikla athygli og gerði Mál og menning útgáfusamning fyrir hans hönd í Danmörku og Færeyjum í kjölfar messunnar. Einnig vakti farandsýningin Veganesti hrifningu og voru þeir fjölmargir sem skoðuðu hana.


Íslenskir aðilar sem studdu kaupstefnuna voru Menntamálaráðuneytið, Bókmenntakynningasjóður og Upplýsing.
Þorbjörg Karlsdóttir


Skýrsla um starfsemi NORDBOK 1999 – Norrænu bókmennta og bókasafnanefndarinnar
NORDBOK er norræn bókmennta- og bókasafnanefnd á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Hún hefur það hlutverk að styðja og þróa norræna samvinnu á bókmennta- og almenningsbókasafnasviðinu. Nefndin er ráðgjafanefnd undir Norrænu ráðherranefndinni.


Vinnuhópar NORDBOK eru tveir:


1. NORDFOLK sem fjallar um málefni almenningsbókasafna


2. NABO sem er Norræni þýðingarsjóðurinn


Í nefndinni sitja tveir fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Auk þess einn fulltrúi frá Færeyjum, Grænlandi og samíska málsvæðinu. Auk undirritaðrar situr nú Árni Ibsen í nefndinni fyrir hönd Íslands, sem varamaður Jóhönnu Kristjónsdóttur. Hrafn Harðarson er varamaður undirritaðrar. Íslendingar voru í forsvari – ordförande – í norrænum nefndum árið 1999.


Nefndin hefur haft aðstöðu og skrifstofu hjá aðalskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn þar til um síðustu áramót. Fyrir tæpum tveimur árum kom sú hugmynd ,,ofan frá“ að aðskilja NORDBOK frá aðalskrifstofunni og flytja til annars lands. Seinni hluta árs 1998 var nefndarmönnum sagt að hefja undirbúning að flutningi skrifstofunnar. Sérstaklega var tekið fram að ekki ætti að stofna nýja skrifstofu eða nýjar stöður. Það átti að finna nefndinni stað þar sem norræn starfsemi væri fyrir hendi og tengja starfsemi NORDBOK þar við. Skyldi flutningi verða lokið fyrir árslok 1999. Nefndarmenn lögðu mikla vinnu í að skoða ýmsa möguleika, endurskoða markmið og marka nýja stefnu sem tengdist þessum flutningum. Lagði nefndin fram tillögur til ráðherranefndarinnar eftir fund sem haldinn var á Íslandi í maí 1999. Sama haust fór mikill tími í að fara yfir og meta umsóknir þeirra sem hýsa vildu NORDBOK. Að lokum mælti nefndin með Biblioteksstyrelsen i Danmark, sem staðsett er í Kaupmannahöfn og þar verður aðsetur NORDBOK a.m.k. til 31. des. árið 2002.


Önnur breyting hefur einnig verið gerð. Áður var alltaf kosið í nefndina til 3ja ára. Nú eru það 4 ár. Var því öllum núverandi nefndarmönnum gert að sitja ár í viðbót. Eftir formennsku í nefndinni þetta ár var ég eiginleega búin að fá nóg. Þessir flutningar og endurskoðun markmiða NORDBOK var mikil vinna og tók mikinn tíma. Fimm ferðir ýmist til Oslo, Kaupmannahafnar eða Helsinki, auk símafunda, bréfaskrifta, og yfirlestrar pappíra. Ég fer úr nefndinni um næstu áramót og menntamálaráðuneytið mun skipa nýjan fulltrúa til fjögra ára.


Vegna formennsku Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni á árið 1999 setti menntamálaráðuneytið fram eftirfarandi áhersluþætti á sviði menningarmála: 1. Að fylgja eftir stefnumörkun ráðherranefndar menningarmála um norrænt menningarsamstarf við árþúsundamót.
 2. Að stuðla að raunhæfri framkvæmd tillagna um norræna málstefnu, m.a. með aðgerðum til að efla gagnkvæma kynningu barna- og unglingabókmennta á Norður-löndum.
 3. Að hugað verði sérstaklega að stöðu jaðarsvæða og fámennra þjóðarsamfélaga í norrænu menningarsamstarfi.
 4. Að bæta hagnýtar upplýsingar um norræna menningarsamvinnu og þá möguleika sem hún býður.
 5. Að nýta nútímalega upplýsingatækni til að auka fjölbreytni samstarfsins og auðvelda aðgang að menningarverðmætum, m.a. verði lögð áhersla á samvinnu um margmiðlunarverkefni og stuðning við framleiðslu á norrænu efni fyrir slíka miðlun.
 6. Að tryggja öflugt framhald á starfi Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins.
 7. Að efla samstarf um norræna menningarkynningu utan Norðurlanda, m.a. í tengslum við þúsund ára minningu landafunda í Vesturálfu.

Persónulega finnst mér við ekki nærri nógu dugleg að sækja um styrki til NORDBOK og NORDFOLK. En til þess þurfum við auðvitað að aðhafast eitthvað styrkhæft!
Marta Hildur Richter


Skýrsla um starfssemi NVBF
Félag bókavarða í rannsóknarbókasöfnum (FBR) var stofnað 6. maí 1966 sem deild í Bókavarðafélagi Íslands og varð sama ár aðili að Nordisk vetenskapelig biblioteksförbund (NVBF). FBR varð sjálfstætt félag árið 1983. FBR var á sínum tíma stofnað beinlínis til þess að hægt væri að taka þátt í norrænu samstarfi félaga um rannsóknar- og sérfræðibókasöfn. Tilgangur félagsins var í meginatriðum að efla samstarf og samheldni bókavarða í íslenskum bókasöfnum, að stuðla að viðgangi þessara bókasafna, vinna að auknum skilningi á mikilvægi rannsóknarbókasafna og upplýsingamiðlunar í samfélaginu og eiga samskipti við hliðstæð samtök erlendis.


Tveir fulltrúar frá FBR hafa setið í stjórn NVBF en samtökin halda tvo stjórnarfundi á ári og eru þeir haldnir á Norðurlöndunum til skiptis. Til skamms tíma var Íslandi sleppt annað hvert skipti vegna þess að það þótti dýrara að koma hingað en til hinna Norðurlandanna. Á haustfundi í Kaupmannahöfn árið 1996 samþykkti stjórn NVBF að halda fundi á Íslandi jafn oft og á hinum Norðurlöndunum ásamt því að greiða tvö fargjöld á ári fyrir íslensku fulltrúana. Þetta var bein viðurkenning á gildi samstarfsins og sýndi í verki fullan vilja NVBF á að stjórnarmenn frá Íslandi tækju fullan þátt í stjórnarákvörðunum og starfi félagsins. FBR hefur staðið að kostnaði af einu fargjaldi og síðustu ár hefur Menntamálaráðuneyti veitt styrk fyrir einu fargjaldi. Þeir sem hafa sótt fundina hafa hingað til þurft að leggja út fyrir kostnaði af gistingu og öllu öðru en ferðum.


Til þessa hafa mannaskipti í stjórn félagsins verið alltof ör en reglum þar að lútandi var breytt fyrir tveimur árum. Ástæðan var sú að þegar fulltrúarnir hafa náð því að kynnast starfsemi NVBF og farnir að ná fram málum, þá hættu þeir. Stefnan var líka mörkuð árið 1996 að taka að fullu þátt í starfseminni og halda hér á Íslandi ráðstefnur, fundi, sumarskóla og annað það sem NVBF starfar að. Ábyrgð og umsjón með starfseminni gengur á milli landa í fastri röð. Íslendingar eru ekki síður í stakk búnir að undirbúa og halda norrænar ráðstefnur og þykir hagur af því fyrir alla að Íslendingar þurfi ekki alltaf að sækja vandaðar ráðstefnur á sínu sviði út fyrir landssteinana. Fulltrúar Íslands eru: Hrafnhildur Hreinsdóttir, Bókasafni Símans og Þórhildur Sigurðardóttir, Bókasafni Kennaraháskóla Íslands. Nú eftir stofnun Upplýsingar þarf að fylgja því vel eftir að fulltrúar verði valdir úr hópi rannsóknar- og sérfræðisafna til þess að uppfylla skilyrði NVBF.


Starfsemi NVBF er margþætt: • Haldnar eru að jafnaði tvær ráðstefnur á ári
 • Millisafnalán: Árleg ráðstefna, NORDFRI (samvinna um lán) og NORDILL-L (póstlisti)
 • Haldinn er sumarskóli á 3ja ára fresti
 • Farin er náms- og kynningarferð
 • Veittir styrkir
 • Upplýsingavefur NVBF
 • Útgáfumál

Haustið 1999 var haldinn stjórnarfundur og ráðstefna á Íslandi: Áskrift á rafrænum gögnum. Ráðstefnan tókst með ágætum og var fjölsótt. Styrkur var veittur Ingu Björgu Sverrisdóttur RUV til námsferðar til Osló. Hin stóra ráðstefna ársins var í Þrándheimi í júní: Sjálfsafgreiðsla á bókasöfnum. Millisafnaráðstefnan var haldin í Stokkhólmi í október. Farin var mikil og spennandi námsferð til USA, tveir þáttakendur voru frá Íslandi. Bókin Nordiske fjernlånsfakta 4. útg. kom einnig út. Árið 2000 hefst á ráðstefnu um Rafrænt upplýsingaborð og aðalfundi NVBF í Reykjavík 22.-23. maí. Um 80 manns hafa skráð sig til leiks. Þá er Sumarskóli um forvörslu í Finnlandi í júní. Millisafnaráðstefnan verður einnig þar í október. Í haust er á teikniborðinu ráðstefna um rafræna skjalastjórnun.
Hrafnhildur Hreinsdóttir


Skýrsla um starfsemi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns
Skipt var um starfsmannafulltrúa í stjórn safnsins í maí 1999 og tók Sjöfn Kristjánsdóttir við af Ingibjörgu Gísladóttur. Varafulltrúi var Ragnhildur Bragadóttir en síðar Elva Kristinsdóttir. Einar Sigurðsson var endurskipaður landsbókavörður til 30. mars 2002.

Safnið fagnaði fimm ára afmæli þann 1. des. 1999. Kom þá út skýrsla yfir starfsemina þessi ár og einnig stefnumótun undir heitinu Þekking, vísindi og menning við aldaskil. Menntamálaráðherra tilkynnti við þetta tækifæri að stefnt væri að því að byggja við Þjóðarbókhlöðuna hús sem auk þess að nýtast safninu gæti hýst stofnanir Háskólans um íslensk fræði. Landsbókavörður og Vésteinn Ólason hafa verið skipaðir í undirbúningsnefnd auk fulltrúa frá HÍ og menntamálaráðuneytinu.


Í árslok 1999 gerði menntamálaráðuneytið árangursstjórnunarsamning við safnið til þriggja ára og fékk landsbókaverði erindisbréf. Rekstur veitingasölu og mötuneytis var aðskilinn rekstri safnsins og gerður um hann þjónustusamningur.


Fjárveiting til safnsins úr ríkissjóði var 317,7 millj. að meðtöldu framlagi ritakaupasjóðs HÍ sem er 46,5 millj. Auk þess fær safnið styrki til einstakra verkefna.


Mikil óánægja hefur ríkt með launakjör.


Fjöldi samkoma og menningarviðburða var í safninu á árinu. Sýningar og dagskrár tengdar íslenskum skáldum og fræðimönnum svo sem Jóhannesi úr Kötlum og Einari Ólafi Sveinssyni og einnig dagskrár á ákveðnum dögum eins og degi íslenskrar tungu. Undirbúningur sýningarstarfs hefur verið óvenju umfangsmikill og mikil samvinna um það við aðrar stofnanir. Farandsýningin Stefnumót við íslenska sagnahefð var opnuð með veglegri dagskrá 1. mars en er nú farin vestur um haf þar sem hún verður á þremur stöðum, í Library of Congress, Cornell háskóla og háskólanum í Manitoba. Bókminjasafni hefur verið komið fyrir í gamla lestrarsalnum í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu og hefur þjóðdeild umsjón með því. Af viðburðum í safninu vakti þó mesta athygli þegar bréf Erlendar í Unuhúsi voru opnuð við upphaf menningarárs 2000. Ársrit safnsins, Ritmennt, kom út og hlaut góða dóma.


Mikil áhersla hefur verið lögð á varðveislumál af ýmsum toga. Undirbúningur flutnings varaeintakasafns upp í Reykholt er hafinn og er verið að tengja eintökin í Gegni og setja í sýrufríar umbúðir. Erlendur sérfræðingur var í safninu um tveggja mánaða skeið og skilaði skýrslu um bókband og ástand ritakosts. Á árinu var frumvarp lagt fram á Alþingi um skylduskil til safna en landsbókavörður var formaður nefndar sem undirbjó það.


Ýmislegt hefur orðið til hagsbóta fyrir stúdenta og kennara í Háskóla Íslands. Námsbókasafnið var fært á milli hæða og komið fyrir á sjálfbeina og nú er komin ársreynsla á lengdan opnunartíma. Safnið er nú opið tæpa 80 tíma á viku í stað tæplega 59 og greiðir HÍ fyrir lenginguna. Aðsókn hefur farið vaxandi og hafa gestir oft lýst ánægju sinni með fyrirkomulagið. Safnið hafði forgöngu um samkaup nokkurra safna að gagnasafninu Cambridge Scientific Abstracts frá áramótum og greiðir 70% kostnaðar.


Mikil vinna var lögð í undirbúning að vali nýs bókasafnskerfis en tafir hafa orðið á því. 10.000 samskrárfærslur í Gegni voru skráðar fyrir önnur söfn árið 1999.
Kristín Indriðadóttir


Skýrsla ritnefndar Bókasafnsins 1999-2000 (24. árgangur)Ritnefndarfulltrúar:
Ritnefnd var í vetur skipuð eftirfarandi fulltrúum:
Ritstjóri (BVFÍ): Áslaug Agnarsdóttir
Frá Bókavarðafélagi Íslands: Hadda Þorsteinsdóttir og Kristín Ósk Hlynsdóttir
Frá Félagi bókasafnsfræðinga: Sólveig Haraldsdóttir og Hildur Gunnlaugsdóttir
Ritnefndarfulltrúar skiptu þannig með sér verkum:
Hadda Þorsteinsdóttir, gjaldkeri
Sólveig Haraldsdóttir, ritari
Hildur Gunnlaugsstjóri, prófarkalesari
Kristín Ósk Hlynsdóttir, umsjónarmaður netútgafu

Vinna við efnisöflun og útgáfu
Að útgáfu 23. árgangs lokinni hafði undirrituð sagt starfi sínu sem ritstjóri lausu. Um haustið var sú slæma staða komin upp að enginn hafði fengist til að taka að sér ritstjórn blaðsins. Ákvað því undirrituð að taka að sér að ritstýra einu blaði í viðbót. Þetta olli því þó að farið var af stað með efnisöflun heldur seint en ef vel á að vera þarf að leggja línurnar strax að vori. Það er nauðsynlegt svo hægt sé að gefa höfundum góðan tíma til að semja sínar greinar en jafnframt koma blaðinu út fyrir páska. Þessi töf hefur haft keðjuverkandi áhrif, höfundar skiluðu sumir allt of seint, blaðið fór of seint í umbrot og þar af leiðandi fer það of seint í prentun. Blaðið er því miður ekki komið út enn en er væntanlegt á næstu dögum. Upplagið er 1000 eintök.


Fyrsti fundur ritnefndar var haldinn í október en alls voru haldnir sex fundir yfir veturinn. Ákveðið var að reyna eins og árið áður að miða við 84 síðna blað og var hafist handa við að safna efni. Meginþema blaðsins skyldi vera menntun bókavarða og bókasafnsfræðinga. Búið var að fá höfunda til að skrifa um stöðu mála á Íslandi, bókavarðamenntun á Norðurlöndunum og gildi endurmenntunar fyrir bókaverði. Jafnframt samþykktu þrír nemar í MA-námi í Bretlandi að lýsa námi sínu og einn bókasafnsfræðingur sem hefur nýlokið MA-námi segir frá rannsókn sinni. Þrír bókasafnsfræðingar velta vöngum yfir námi, menntun og þekkingarstjórnun. Því miður bárust ekki greinarnar um stöðu mála á Íslandi og gildi endurmenntunar svo dálítil slagsíða er á heildarmyndinni. Af öðrum greinum má nefna grein um tréskurðarmyndir til bókaskreytinga, rannsókn um Internetnám og svo frásögn formanns Upplýsingar af sameiningu bókavarðafélaganna tveggja.


Netútgáfa
Umsjónarmaður netútgáfu er Kristín Ósk Hlynsdóttir eins og áður kom fram og hefur hún sett inn efni þessa blaðs eins og undanfarin ár. Það verður tilkynnt á Skruddu þegar þessi árgangur verður aðgengilegur. Slóðin er: http://www.bokasafnid.is.


Kostnaður
Snæbjörn Arngrímsson hjá Bókaútgáfunni Bjarti hefur séð um umbrot og prentun eins og undanfarin þrjú ár. Kostnaður verður nokkuð lægri í ár enda blaðið minna og færri litasíður. Endanlegur kostnaður er enn óljós en kostnaðaruppgjör verður sent til félagsins um leið og það liggur fyrir. Söfnun auglýsinga gekk ekki alveg eins vel og síðast og eru auglýsingatekjur um 200.000 kr. lægri en í fyrra. Áslaug Níelsen hjá Hæni sf. tók að sér að safna auglýsingum fyrir blaðið eins og undanfarin ár.


Fregnir
Þrjú tölublöð Fregna hafa komið út síðan á síðasta ársþingi. Í júní 1999 kom 2. tbl. þess árs í umsjá Félags um almennings- og skólabókasöfn. Í október 1999 kom 3. tbl. út í umsjá Félags bókasafnsfræðinga og svo í mars sl. kom fyrsta tbl. 25. árgangs í umsjá Upplýsingar.


Að lokum vil ég þakka öllum ritnefndarmeðlimum fyrir gott og vel unnið starf. Sömuleiðis þakka ég fyrir mig. Þetta hefur verið skemmtilegur og reynsluríkur tími en allt tekur enda um síðir. Ég óska svo nýjum ritstjóra og ritnefndinni alls góðs í starfinu framundan.
Áslaug Agnarsdóttir


Verkefnisstjórn um aðgang að gagnasöfnum
Menntamálaráðherra skipaði í janúar sl. nefnd til að annast verkefnisstjórn um aðgang að gagnasöfnum. Verkefnisstjórninni er ætlað að kanna tilboð um aðgang að gagnasöfnum og gera tillögur til menntamálaráðuneytis um kaup á aðgangi, fjármögnun, skipulagi og tilhögun aðgangs að gagnasöfnum. Í nefndinni eiga sæti eftirtaldir fulltrúar: fulltrúi menntamálaráðuneytis, Haukur Ingibergsson formaður verkefnisstjórnar, fulltrúi Upplýsingar, félags bókasafns- og upplýsingafræða, Sólveig Þorsteinsdóttir, fulltrúi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Þorsteinn Hallgrímsson, fulltrúi Rannsóknarráðs Íslands, Eydís Arnviðardóttir og fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Gísli Sverrir Árnason.


Fyrsti fundur verkefnisstjórnar um aðgang að gagnasöfnum var haldinn í menntamálaráðuneytinu 16. febrúar. Verkefnisstjórn hefur haldið 12 fundi.


Á málþinginu Stafræna bókasafnið sem haldið var í Háskólanum á Akureyri þann 10. mars kom fram sú ósk að fulltrúar frá hinum ýmsu bókasafnategundum mynduðu hópa sem hittu verkefnisstjórnina einu sinni til tvisvar á ári til að skýra frá þörfum og óskum hinna ýmsu bókasafna um aðgengi að gagnagrunnum og rafrænum tímaritum og einnig til að fylgjast með störfum Verkefnisstjórnarinnar. Verkefnisstjórnin lagði því til að myndaðir yrðu þrír hópar og í hverjum hópi væru 5-7 fulltrúar frá: háskólabókasöfnum, almennings- og framhaldsskólasöfnum, sérfræðisöfnum. Hóparnir hafa verið stofnaðir og voru fyrstu fundirnir með hverjum hópi haldnir 3. maí.


Á þeim fundum lagði Haukur fram erindisbréf fyrir hópana og ræddi helstu verkefni sem hópnum eru ætluð. Lagði hann til að verkefnisstjórnin hitti hópana tvisvar – þrisvar á ári en hefði samband þess á milli á netinu. Tóku fundarmenn undir það að myndun bakhópa væri rétta leiðin til að koma á formlegu tengslaneti.


Aðalefni fundanna var forgangsröðun gagnasafna. Voru ýmis gagnasöfn rædd og mismunandi þarfir safnanna. Einnig var lagt til að gera vísindalega könnun meðal notenda safnanna um hvað þeir hefðu helst áhuga á að fá. Töldu fundarmenn að ekki væri hægt að gera allsherjarkönnun vegna ókunnugleika margra notenda og að það væri ekki tímabært enn sem komið er. Var lögð áhersla á að það væri hlutverk hópanna að kynna sér þarfirnar hver á sínum vettvangi. Þegar eru í gangi nokkrir samningar um aðgang að gagnasöfnum á landinu. Það kom fram sterkur vilji hjá verkefnisstjórninni til að koma inn í þá samninga sem þegar eru í gangi með það fyrir augum að stækka aðildarhópana. Einnig kom fram að það væri mikilvægt að vita sem fyrst hvort eitthvað yrði gert í sameiginlegum kaupum rafrænna tímaritaáskrifta á vegum verkefnisstjórnarinnar. Nefndin lagði fram tillögur um matsblöð sem starfsmenn safna og notendum væri gert að fylla út þegar gagnagrunnar væru prófaðir. Hóparnir munu næst funda með verkefnisstjórninni í haust.


Sólveig sótti Norrænan samráðsfund um aðgang að gagnasöfnum 5. maí 2000, BIBSAM, Stokkhólmi sem fulltrúi verkefnisstjórnar. Aðrir þátttakendur voru: Bo Öhrström, Anders K. Jensen frá Danmörku, Kristiina Hormia frá Finnlandi, Anne Rogstad frá Noregi, Susanna Broms, Kari Strange og Karin Grönwall frá Svíþjóð. Fulltrúarnir sögðu frá stöðu mála í sínu landi. Á fundinum, sem var mjög gagnlegur var rædd fjármögnun, vinnuferlið, samningar, félög um samninga (consortia) (tegund, stærð), næstu skref og hugsanleg samvinna milli Norðurlandanna.


Verkefnisstjórnin hefur þegar átt undirbúningsviðræður við nokkra seljendur um að veita prufuaðgang í tiltekinn tíma, m.a. til að kanna þjónustu, þörf og undirtektir.


Prufuaðgangur var í mánuð fyrir alla landsmenn að Web of Science. Hann samanstendur af: Science Citation Index, Social Science Citation Index og Arts and Humanities Citation Index.


Prufuaðgangur að gagnasöfnum frá EBSCO fyrir alla landsmenn hófst 1. maí og stendur til 1. ágúst.


Ákveðið hefur verið að leita fyrst eftir samningum varðandi þá gagnagrunna sem þegar eru í áskrift hér á landi og þá í samráði við þá sem hafa áður séð um samn-ingana og biðja um tilboð á landsáskrift. Samningaviðræður eru í gangi við EBSCO.


Leita á eftir tilboði frá Bell & Howell um landsáskrift að ABI/Inform. Kanna á nánar önnur verkefni í júní og júlí. Áætlað er að sækja um fjármögnun fyrir valin verkefni til Verkefnisstjórnar um Upplýsingamál. Einnig er áætlað að sækja um fjárveitingu fyrir einn starfsmann sem áætlað er að starfi með verkefnisstjórninni.
Sólveig Þorsteinsdóttir


Skýrsla um störf Bókasambands Íslands
Stjórn Bókasambands Íslands skipa árið 1999-2000:
Anna Elín Bjarkadóttir, formaður Upplýsing, félag bókasafns og upplýsingafræða
Stefán Ólafsson, gjaldkeri Félag bókagerðamanna
Vilborg Harðardóttir, ritari Félag íslenskra bókaútgefanda
Þröstur Helgason Samtök Gagnrýnenda
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson Rithöfundasamband Íslands
Þórarinn Gunnarsson Samtök iðnaðarins
Magnús Guðmundsson Hagþenkir félag höfunda kennslu og fræðirita

Hlutverk Bókasambands Íslands er að beina athygli að bókum og bóklestri.


Félag íslenskra bókaútgefanda efndi til bókaviku dagana 11.-17. apríl, eins og gert var á síðasta ári. Í bókavikunni gaf Félag íslenskra bókaútgefanda út glæpasöguna Leyndardómar Reykjavíkur 2000 og Vorbókatíðindi þar sem öllum er höfðu eitthvað á dagskrá í bókavikunni gafst kostur á að auglýsa sitt framlag. Aðildarfélög Bókasambandsins stóðu fyrir fjölbreyttri dagskrá og nokkur almenningsbókasöfn voru með dagskrá í tilefni bókavikunnar.


Bókasambandið stóð fyrir þingi um spennu- og glæpasögur. Þingið var haldið í Kornhlöðunni 15. apríl frá 14-17. Þar héldu Kristinn Jóhannsson og Úlfhildur Dagsdóttir fyrirlestra um glæpa- og spennusögur í íslenskri sagnahefð. Höfundar glæpasögunnar Leyndardómar Reykjavíkur 2000, lásu upp úr bókinni og árituðu hana fyrir gesti. Þingið var velheppnað en ekki fjölmennt. Efni þess hefur verið flutt að hluta til í Ríkisútvarpinu. Einnig var gefið út veggspjald í tilefni af bókavikunni og því dreift til safna.


Bókasambandið hefur undanfarin ár séð um dagskrá á alþjóðlegum degi bókarinnar 23. apríl. Í ár bar þann dag upp á páskadag og því féll dagskráin niður að þessu sinni. Bókasambandið gerir ráð fyrir að hafa veglega dagskrá á alþjóðlega bókadaginn árið 2001. Allir félagsmenn Upplýsingar eru hvattir til að taka þátt í að halda upp á daginn, bæði á sínum söfnum og með því að mæta á þær samkomur sem auglýstar eru í tengslum við daginn. Og að lokum óska ég eftir að þeir félagsmenn sem hafa góða hugmynd um hvernig vekja má athygli á bókum og bóklestri hafi vinsamlegast samband við undirritaða.
Anna Elín Bjarkadóttir
[email protected]


Tækninefnd Fagráðs í upplýsingatækni um samræmda skráningu heimilda
Yfirlit um starf og stöðu, lagt fram á aðalfundi Fagráðs í upplýsingatækni (FUT) 7. október 1999. • Stofnfundur: Tækninefnd FUT um samræmda skráningu heimilda var stofnuð 6. júní 1997
 • Markmið: Markmið nefndarstarfsins var að leggja grunn að sameiginlegu skráningarsniði fyrir þá aðila hér á landi sem geyma heimildir um menningu og sögu þjóðarinnar. Skráningarsniðið yrði jafnframt notað sem staðlað viðmið og skráningarkerfi sem nota önnur snið yrðu samhæfð því
 • Tilgangur: Tilgangur slíkrar samhæfingar er að gera niðurstöður leita í skrám yfir mismunandi tegundir heimilda sambærilegar, gera mögulegar samtengingar skráa yfir mismunandi tegundir heimilda svo leita megi samtímis í skrám margra aðila og að gera þátttöku í upplýsingamiðlun á alþjóðavettvangi mögulega
 • Notagildi: Staðallinn mun nýtast þeim sem eru að skipuleggja skráningu gagna, aðilum við hugbúnaðargerð og þjónustu í tölvuiðnaði
 • Skráningarsniðið er unnið með hliðsjón af alþjóðlegum stöðlum

Í upphafi starfs voru haldnir tveir fundir með þátttöku allra nefndarmanna, stofn-fundur 6. júní 1997 og skipulagsfundur 13. nóvember sama ár. Á síðarnefnda fundinum var skipting í vinnuhópa ákveðin og skipað var í þá. Hópar voru upphaflega 6, síðan var þeim fækkað í fjóra og nú eru þeir 5.


Hópur 1: Skráning bóka, korta, nótna, tímarita og greiniskráning (útgefið prentað mál á pappír). Hópurinn hélt 3 fundi á tímabilinu 23. janúar til 6. febrúar 1998.


Hópur 2: Skráning mynd- og hljóðrita, hugbúnaðar, rafrænna gagna, myndbanda, kvikmynda, tölvugagna, skannaðs efnis, skjala, handrita og þjóðhátta (óútgefið efni á pappír og óútgefið efni á öðrum miðlum en pappír). Hópurinn hélt fjóra fundi á tímabilinu 3. janúar til 17. febrúar 1998.


Hópur 3: Skráning ljósmynda og listaverka ásamt skráningu slíkra gagna í rafrænu formi (frumgagna jafnt sem afleiddra og afritaðra gagna). Hópurinn hélt 5 fundi á tímabilinu 2. febrúar til 16. mars 1998.


Hópur 4: Skráning muna og minja (gripir, fornleifar, gömul hús og tóftir). Hópurinn hélt fjóra fundi á tímabilinu 4. febrúar til 13. mars 1998.


Hópur 5: Skráning rafrænnar útgáfu. Hópurinn hélt nokkra fundi.


Ritnefnd vann samræmdar tillögur að staðli úr niðurstöðum hópanna og sendi þær til meðlima hópanna 11. desember 1998. Ritnefnd fór yfir umsagnir sem bárust og ræddi við umsagnaraðila. Skriflegt svar var sent til þeirra í maí 1999. Síðan endurbætti ritnefnd tillögur að staðli í samræmi við athugasemdir sem ástæða þótti til að taka tillit til og sendi út í ágúst 1999. Ritnefnd ákvað að skipta tillögum fyrir Hóp 2 í tvennt: annars vegar tillögur fyrir handrit og hins vegar tillögur fyrir skjöl.


Með tillögunum fylgdi fundarboð á fund 16. september 1999. Þann dag fundaði ritnefnd sérstaklega með hverjum vinnuhóp.


Á fundinum 16. september lagði ritnefnd fram tillögu í tveimur hlutum: Í tillögunni felst að megináhersla er lögð á samræmingu skráningarhátta á þann hátt að skrár séu samhæfðar þótt ekki náist að staðla algerlega skráningarsnið sem gilt getur fyrir öll gögn og hvaða útgáfu- eða birtingarform sem er. Verði tillagan samþykkt í heild og eftir henni unnið, er tilgangi nefndarstarfsins náð. Notagildi vinnunnar verður það sem að var stefnt.


Fyrri hluti tillögunnar kveður á um að staðallinn nái til lágmarksskráningaratriða sem sameiginleg eru öllum sviðum, lágmarksleitaratriða sem sameiginleg eru öllum sviðum og að þessi atriði séu auðkennd við vistun í tölvukerfum. Þá yrði auðvelt að tengja saman skrár yfir margar tegundir heimilda. Tryggt yrði með þeim hætti að leit að sama leitaratriði í skrám yfir margs konar heimildir gæfi sannar niðurstöður“. Þetta þýðir að þær heimildir og gögn sem til eru um leitaratriði kæmu fram í leit svo framarlega sem gögn hefðu verið skráð. Með samtengingu skráa væri hægt að fá niðurstöður með einni leit. Birting atriða á hvaða formi sem er, t.d. á prenti og skjá er ekki stöðluð.


Í síðari hluta tillögunnar er tiltekið hver lágmarksskráningaratriði og lágmarksleitaratriði skuli vera. Ekkert hámark er skilgreint.


Tillagan var samþykkt í heild af hóp 1 og 5.


Fyrri hluta tillögunnar samþykktu fyrir sitt leyti fulltrúar í Hópum 1, 5, 3 og fulltrúar handritaskráningar í Hóp 2, síðari hlutann munu þeir fara yfir og ákveða síðar hvaða atriði skuli vera lágmarksskráningar- og leitaratriði.


Fulltrúar í Hóp 4 og fulltrúar skjalaskráningar í Hóp 2 komust ekki á fundinn en munu fara yfir tillögurnar.


Gert er ráð fyrir að síðan muni hver hópur setja fram frekari atriði sem eiga við skráningu gagna á hans sviði sérstaklega.


Eftir er vinna að skilgreiningu orðaskýringa. Skilyrði fyrir því að staðall virki er að allir skilji sömu orð á sama hátt.


Vinna sem þá er óunnin er m.a. gerð staðlaðra efnisorðaskráa og nafnmyndaskráa.


Kynningarstarf:


Formaður kynnti starf nefndarinnar á aðalfundi Félags bókasafnsfræðinga 8. apríl 1999 og skrifaði grein um samræmda skráningu í Bókasafnið, sem gefið var út af Bókavarðafélagi Íslands og Félagi bókasafnsfræðinga: Að beisla þekkinguna, Bókasafnið, 23. árg. (1999), s. 66-72.
7. október 1999
Stefanía Júlíusdóttir
formaður Tækninefndar FUT um samræmda skráningu heimilda

Viðbót 5. júní 2000


Árið 2000 stefnir ritstjórn að því að ljúka tillögum að staðlinum þannig að hægt verði að senda hann út til umsagnar. Verkið hefur tafist vegna anna ritstjórnarmeðlima í vinnunni. Formaður Tækninefndarinnar vonast til þess að geta varið hluta sumarleyfis í að ljúka verkinu að því marki sem þarf til þess að fá umsagnir á staðaldrögin.


Húsfélagið Ásbrú sf. – skýrsla fulltrúa Upplýsingar í aðalstjórn
Aðalstjórnarfundur húsfélagsins Ásbrúar sf. var haldinn 22. febrúar sl. að Lágmúla 7. Á fundinum var skrifað undir nýjan sameignarfélagssamning. Hefur verið mikið um tilfærslur milli herbergja og hafa félög verið að koma inn og flytjast út úr húsnæðinu. Alls eiga 10 félagsaðilar hlut í félaginu. Þeir eru: Bandalag háskólamanna, Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag íslenskra sjúkraþjálfara, Iðjuþjálfafélag Íslands, Meinatæknafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa og Útgarður – félag háskólamanna. Upplýsing á nú 3, 76% hlut í félag-inu. Það sem helst er á dagskrá félagsins næsta starfsár er að finna lausn á bílastæðavanda sem er gríðarlegur í Lágmúlanum.
Að lokum vill undirrituð hvetja félagsmenn að nýta sér þá fundaraðstöðu sem félagið hefur aðgang að Lágmúla 7.
Svava H. Friðgeirsdóttir


Skýrsla siðanefndar
Engum málum hefur verið vísað til siðanefndar og hafa því engir fundir verið haldnir.
Anna Torfadóttir
formaður Siðanefndar
 


Úthlutun úr Ferðasjóði Upplýsingar árið 2000
Stjórn ferðasjóðs Upplýsingar kom saman 25. apríl sl. Styrkúthlutanirnar voru kynntar á aðalfundi Upplýsingar þann 15. maí sl.


Að þessu sinni bárust sjóðnum 13 umsóknir um styrki. 12 af þessum umsóknum voru vegna ferðalags til útlanda og ein vegna ferðalags innanlands. Ein af þessum umsóknum barst sjóðnum of seint og tvær uppfylltu ekki þau skilyrði sem sjóðurinn setur.


Árið 2000 verða því veittir átta styrkir til ferðalags til útlanda og einn styrkur til ferðalags innanlands. Samtals gerir þetta kr. 190 þúsund.


Styrk fá að þessu sinni eftirtaldir félagar: • Auður Sigurðardóttir til að sækja ársfund ARLIS
 • Áslaug Agnarsdóttir til að sækja IFLA þingið í Jerúsalem
 • Guðjón Jensson til að kynna sér bókasafn Charles Rennie Mackintosh skólans í Glasgow
 • Guðlaug Fríður Sigurjónsdóttir til að sækja alheimsráðstefnu bókasafnsfræðinga á læknisfræðibókasöfnum í London
 • Helga Thorsteinsson til að sækja alheimsráðstefnu bókasafnsfræðinga á læknisfræðibókasöfnum í London
 • Hólmfríður Tómasdóttir til að sækja IFLA þingið í Jerúsalem
 • Kristín H. Pétursdóttir til að sækja ráðstefnu í Manitoba Library Association í Winnipeg
 • Sigríður Matthíasdóttir til að fara á Bóka- og bókasafnamessu í Gautaborg
 • Svanlaug Baldursdóttir til að fara á Landsfund Upplýsingar á Akureyri
 • Þorbjörg Karlsdóttir vegna námskeiðs um listasmiðjur fyrir ungt fólk haldið í Särö í Svíþjóð 

f.h. stjórnar Ferðasjóðs Upplýsingar
Lilja Ólafsdóttir

 


Nýtt einkennismerki fyrir Upplýsingu
Í síðasta tölublaði Fregna var auglýst hugmyndasamkeppni um einkennismerki (logo) fyrir Upplýsingu – Félag bókasafns- og upplýsingafræða. Jafnframt var tilkynnt að nýtt merki yrði kynnt á fyrsta aðalfundi félagsins nú í vor. Vegleg bókaverðlaun voru í boði sem vinningur.


Á aðalfundi félagsins þann 15. maí voru Aðalbjörgu Þórðardóttur afhent bókaverðlaun fyrir hugmynd sína að nýju einkennismerki. Verðlaunin voru ritverkið Kristni á Íslandi sem Alþingi gaf af þessu tilefni. Ritið, sem er hið vandaðasta að allri gerð og ríkulega myndskreytt, er gefið út í tilefni af 1000 ára afmæli kristni á Íslandi.


Stjórn Upplýsingar hefur ákveðið að ganga til samstarfs við höfund merkisins um nánari útfærslu þess m.a. á bréfsefni félagsins.


Nýja einkennismerkið prýðir forsíðu þessa blaðs og sést hér. 
Þórdís T. Þórarinsdóttir


Ráðstefna NVBF í Reykjavík 22. og 23. maí 2000
Ráðstefna NVBF um rafræna upplýsingaþjónustu var haldin í Reykjavík dagana 22. og 23. maí sl. Tæplega 90 manns sóttu ráðstefnuna og voru íslenskir þátttakendur rúmlega 30.


Fluttir voru tíu fyrirlestrar og var þema ráðstefnunnar, rafræn upplýsingaþjónusta, reifað frá ýmsum sjónarhornum. Ann M. Frenkel frá Bandaríkjunum sagði í inngangserindi ráðstefnunnar frá nýjungum í upplýsingaþjónustu við Brandeis University Libraries. Kynntar voru námsleiðir í notkun upplýsinganeta og upplýsingastjórnun (informasjonsforvaltning). Rætt var um rafrænan lestrarsal, rafrænt ?handbókasafn“, rafræna upplýsingaþjónustu við fjarnema, samskipti í rafrænu umhverfi, nýja tækni í bókasafnsþjónustu og nýjungar í samskiptatækni. Einnig var sagt var frá samvinnuverkefni um 20 almenningsbókasafna í Svíþjóð sem nefnt er ?spyrjið bókasafnið“ (fråga biblioteket). Í lok síðari ráðstefnudagsins voru tvær málstofur (workshops).


Á ráðstefnunni voru tveir íslenskir fyrirlesarar. Kristín Indriðadóttir frá Kennaraháskóla Íslands ræddi um upplýsingaþjónustu við fjarnema og Einar H. Reynis frá Landssíma Íslands sagði frá helstu nýjungum í samskiptatækni. Önnur málstofan var í höndum Lindu Erlendsdóttur frá Kennaraháskóla Íslands og sagði hún þar frá könnun sem hún hefur gert á bókasafns- og upplýsinganotkun starfsmanna við KHÍ.


Á heimasíðu ráðstefnunnar http://www.bokis.is/nvbf/Welcome.html er nú að finna útdrætti úr fyrirlestrunum ásamt glærum og öðru dreifildi sem fylgdi ráðstefnugögnum. Sumir fyrirlesarar vísuðu á vefslóðir safna sinna máli sínu til stuðnings og eru þær slóðir einnig tengdar við síðuna.
Þórhildur S. Sigurðardóttir


Nýr formaður stjórnar NVBF
NVBF, sem er skammstöfun fyrir Nordiske vitenskapelige biblioteksforeningers forbund (eða samband félaga norrænna bókavarða í rannsóknar- og sérfræðisöfnum), heldur almennan félagsfund (medlemsmøte) á þriggja ára fresti og er þá skipaður nýr stjórnarformaður til næstu þriggja ára. Á fundinum sem haldinn var í tengslum við ráðstefnuna 22. og 23. maí tók Hrafnhildur Hreinsdóttir bókasafni Landssíma Íslands, við stjórnarformennsku. Venjan er að ritari sé frá sama landi og formaðurinn og mun Þórhildur S. Sigurðardóttir bókasafni Kennaraháskóla Íslands gegna því embætti. Annar fulltrúi Finna í stjórn NVBF, Gunilla Häkli, er varaformaður.


Fram að þessu hafa íslenskir fulltrúar í stjórn NVBF verið óbreyttir liðsmenn í stjórninni og látið fulltrúum annarra Norðurlanda eftir að skiptast á að gegna formannsembættinu. Árið 1996 var hins vegar ákveðið að Íslendingar skyldu taka fullan þátt í þessu mikilvæga samstarfi og halda hér stjórnarfundi, ráðstefnur og sumarskóla til jafns við aðrar Norðurlandaþjóðir og skorast ekki undan neinni ábyrgð. Ábyrgð og umsjón með starfsemi NVBF gengur á milli Norðurlandanna í ákveðinni röð og nú var röðin komin að Íslandi.


Á fundinum flutti fráfarandi formaður; Harald Böhn frá Noregi, skýrslu um starfið síðustu þrjú árin, sú skýrsla mun innan skamms birtast á heimasíðu NVBF http://www.dlh.dk/dpb/df/nvbf_dan.html. Ýmislegt er á döfinni á næstunni, t.d. sumarskóli um forvörslu í bókasöfnum í Helsinki 18. – 22. júní nk. og ráðstefna um millisafnalán sem einnig verður haldin í Finnlandi í október. En nefna má að á vegum NVBF eru að jafnaði haldnar tvær ráðstefnur á ári auk reglulegra ráðstefna um millisafnalán. Sumarskóli er haldinn þriðja hvert ár og kynnisferðir hafa verið skipulagðar til Bretlands og Bandaríkjanna. Loks má nefna að NVBF býður árlega fram styrki til námsferða innan Norðurlandanna (einn fyrir hvert land), sá styrkur var auglýstur á Skruddu nú nýlega. Allir viðburðir á vegum NVBF eru kynntir á heimasíðu NVBF, á Skruddu og í Fregnum og eru áhugasamir hvattir til að fylgjast vel með.
Þórhildur S. Sigurðardóttir


Menntasmiðja Kennaraháskóla Íslands
Um síðustu áramót urðu rektoraskipti í Kennaraháskóla Íslands og dr. Ólafur Proppé tók við af Þóri Ólafssyni. Ólafur lýsti strax yfir því að hann vildi sameina bókasafn, gagnasmiðju og kennslumiðstöð skólans í því skyni að flétta betur saman og efla þá starfsemi sem þar fer fram. Þann 1. mars sl. var undirritaðri falið að vera framkvæmdastjóri sameinaðrar stoðþjónustu skólans og móta framtíðarstefnu hennar í samráði við rektor og háskólaráð ásamt því að bera ábyrgð á rekstri hennar og daglegri stjórnun. Háskólaráð hefur samþykkt að hin sameinaða starfseining verði framvegis kölluð menntasmiðja Kennaraháskólans.


Á síðustu árum hefur svipuð þróun átt sér stað víða í erlendum háskólum. Hefðbundin bókasöfn áttu erfitt með að mæta kröfum tímans þegar fleiri og fleiri stunduðu háskólanám og endurmenntun, aukin áhersla var lögð á sjálfstætt nám, fjarnámsmöguleikar komu til og notkun tölvu og samskiptatækni varð almenn. Við höfum orðið vitni að því hvernig tölvurnar hafa haldið innreið sína í gamlar háskólabyggingar og verið komið fyrir mishaganlega bæði í bókasöfnunum sjálfum eða herbergjum í ákveðinni fjarlægð. Um leið og byggð eru ný hús yfir aukinn stúdentafjölda er tækifærið notað til að leggja saman og samþætta starfsemi sem mjög víða hefur þróast í ýmsum útgáfum hlið við hlið. Nú stendur einmitt til að byggja nýtt hús á lóð Kennaraháskólans við Stakkahlíð og verður það vonandi tekið í notkun á árinu 2002. Þá verður öll starfsemi í leikskólaskor og þroskaþjálfaskor flutt á háskólasvæðið við Stakkahlíð, þar á meðal bæði bókasöfnin. Nýja húsið mun hýsa menntasmiðjuna ásamt fyrirlestrasölum og nokkrum kennslustofum. Áfram verður lítið íþróttabókasafn í kennsluhúsnæði íþróttaskorar á Laugarvatni.


Hvað er menntasmiðja?
Markmið menntasmiðju Kennaraháskóla Íslands er að þróa og samhæfa þjónustu sem örvar nemendur til náms og eykur faglega hæfni kennara. Á ensku er talað um learning centre eða learning resource centre því megináhersla er lögð á stuðning við aðstoð við notkun upplýsingatækni í námi og kennslu hefur bæst við ný vídd í þjónustuna. Við teljum að íslenska orðið menntasmiðja nái að túlka meginhugsunina sem að baki býr. Smiðja er staður eða verkstæði þar sem smíðar fara fram og í menntasmiðju smíðar maður sjálfur menntun sína. Auk þess tölum við um að fara í smiðju til einhvers þegar við leitum aðstoðar.


Í menntasmiðju er mikilvægt safn upplýsinga og heimilda og sérfræðiþekking. Þar eru einnig gluggar út í alheiminn, línur til allra átta og um þær hægt að draga að og senda upplýsingar og þekkingu. Með góðri vinnuaðstöðu og tækjabúnaði í nýju byggingunni vill menntasmiðjan bjóða upp á starfsumhverfi sem stuðlar að vellíðan og bættum afköstum. Um leið á hún að vekja metnað til að vanda til allra verka og veita þá tilfinningu að nám og þekkingarleit séu æviverk.


Heimsóknir í erlendar menntasmiðjur
Ég hef að undanförnu fengið tækifæri til þess að skoða menntasmiðjur erlendis, t.d. þá þekktustu í Bretlandi, The Learning Centre í Sheffield Hallam University. Í háskólanum eru 22 þúsund nemendur auk fjarnema sem eru á þriðja þúsund. The Adsetts Centre var opnað haustið 1996 í 11.000 ferm. byggingu á sjö hæðum, með sætum fyrir 1600 manns. Við sama háskóla er þessa dagana verið að opna aðra mun minni menntasmiðju sem þjónar deildum sem eru utan meginháskólasvæðisins. Þá skoðaði ég einnig nýlega smiðju í háskólanum í Derby og heimsótti síðar háskólann í Malmö þar sem hugmyndir eru uppi um að feta í fótspor frumkvöðla í Sheffield.


Í heimsókn minni til Sheffield fannst mér einna mest koma til þess hvernig starfsemi menntasmiðjunnar var skipulögð. Starfsfólk vann í skipulögðum teymum, fremur litlum hópum, að ákveðnum verkefnum. Ábyrgð var vel skilgreind, starfslýsingar einfaldar og starfsmannaviðtöl voru með reglulegu millibili. Fólkið virðist ánægt með hið nýja fyrirkomulag enda hefur miklum fjármunum verið varið í endurmenntun og þjálfun þess. Það skiptir háskólann mjög miklu hvernig aðbúnaður og starfsemi menntasmiðjunnar er því hún þykir leggja grundvöllinn að góðum árangri nemenda og kennara bæði í námi og starfi.
Kristín Indriðadóttir
framkvæmdastjóri menntasmiðju KHÍ

Vorfundur Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna
Í byrjun maí var haldinn vorfundur Samtaka forstöðumanna almenningsbókasafna á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit. Á dagskrá fundarins var meðal annars umræða um þátt menningar í vali fólks á stað til búsetu, þjónustu bókasafna og hvaða væntingar stjórnvöld gera til almenningsbókasafna og bókasöfnin til stjórnvalda.


Meðal gesta á fundinum voru Guðrún Helgadóttir menningarfulltrúi Byggðastofnunar, Bjarni G. Hjarðar forstöðumaður rekstrardeildar Háskólans á Akureyri, Þórður Skúlason framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga og Ingólfur Ármannsson menningarfulltrúi Akureyrarbæjar. Framkvæmd fundarins var í höndum Hólmkels Hreinssonar amtsbókavarðar á Akureyri. Ný stjórn samtakanna var kjörin á fundinum. Hana skipa: Gísli Sverrir Árnason Höfn í Hornafirði formaður, Vilhelmína Héðinsdóttir Ólafsfirði varaformaður og Halldóra Jónsdóttir Akranesi gjaldkeri. Varamaður er Pálína Magnúsdóttir Seltjarnarnesi.
Gísli Sverrir Árnason


Upplýsingar um starfsemi Þjónustumiðstöðvar bókasafna, ses., tímabilið milli aðalfunda, frá 18. maí 1999 til 3. apríl 2000.
Í stjórn voru:
Formaður Nanna Bjarnadóttir,
varaform. Hulda Þorkelsdóttir,
ritari: Eiríkur Þ. Einarsson,
gjaldkeri: Pálína Magnúsdóttir,
meðstjórnandi: Margrét Ásgeirsdóttir.
Erna Egilsdóttir, framkvæmdastjóri og Regína Eiríksdóttir, bókasafnsfræðingur störfuðu áfram hjá stofnuninni og hluta úr árinu höfðu þær eina aðstoðarmanneskju.


Reksturinn á reikningsárinu gekk vel og var söluaukning svipuð og á milli áranna 1997 og 1998. Föst starfsemi og stuðningur við útgáfustarfsemi bókavarða var með svipuðum hætti og áður.


Sett voru ný lög nr. 33/1999 um sjálfseingarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, og tóku þau gildi 1. nóvember 1999 en aðlögunartími var gefin stofnunum sem fyrir voru til 30. apríl 2000 til að aðlaga skipulagsskrár að lögunum. Hefur mikið starf verið unnið bæði af stjórn og starfsmönnum við endurskoðun gömlu skipulagsskrárinnar og leitað til sérfróðra aðila um ýmis efni.


Byggt var á þeirri forsendu, að breyta gömlu skipulagsskránni eins lítið og mögulegt væri en aðlaga hana að nýjum lagaforsendum og nýjum tímum.


Ákveðið var að halda þeirri gömlu hugsun, að almennir félagar í félagi bókavarða, nú Upplýsingu, hefðu jafnframt kosningarétt og kjörgengi á aðalfundum Þjónustumiðstöðvar.


Í nýju lögunum er samt lögð áhersla á að hindra forréttindi stofnenda sjálfseignastofnana, hvorki einstaklingar né félög geta haft fjárhagslegan hagnað af rekstri og forðast verður hugsanleg hagsmunatengsl eða hagsmunaárekstra í stjórn og starfi stofnananna.


Tekjuafgang má eingöngu nota til að vinna að settum markmiðum sjálfseignarstofnunar, sem skv. 2. gr. skipulagsskrár Þjónustumiðstöðvar eru sameiginleg og samfélagsleg verkefni á svið bókasafns- og upplýsingafræða.


Eftirlit með starfsemi Þjónustumiðstöðvar verður hjá Hagstofu Íslands en reikningar hafa lengi farið til Ríkisendurskoðunar.


Ný skipulagsskrá var samþykkt á aðalfundi Þjónustumiðstöðvar 3. apríl 2000 og stofnunin skráð hjá Hagstofu Íslands 27. apríl. Stjórnin situr áfram næsta kjörtímabil, enda ekki að fullu lokið aðlögunarvinnu vegna nýju laganna.
11. maí 2000
F.h. stjórnar Þjónustumiðstöðvar bókasafna
Nanna Bjarnadóttir

formaður

Bókasafn Norræna hússins
Formlegt hlutverk Norræna hússins er að koma til móts við og örva áhuga á norrænum málefnum á Íslandi og miðla þekkingu um Ísland á öðrum Norðurlöndum. Hefur þetta verið hlutverk stofnunarinnar frá því hún hóf störf árið 1968. Bókasafnið styður þetta hlutverk með ýmsum hætti m.a. með því að lána út og veita aðgang að efni fyrir börn og fullorðna, fagurbókmenntum og fræðiritum, tímaritum, dagblöðum, myndböndum, tónlistarefni og grafíkmyndum.


Unnið hefur verið að því undanfarna mánuði að bæta tölvukost safnsins og hússins alls en aukafjárveiting til þessa fékkst hjá Norrænu ráðherranefndinni. Lokið er við að leggja nýtt tölvunet í húsið og tengja það neti Háskóla Íslands, en lektorar Háskólans í Norðurlandamálum hafa skrifstofur í húsinu og einnig fer hluti af kennslunni í Norðurlandamálum fram þar. Næsta verkefni í tölvuvæðingu hússins verður endurskoðun á heimasíðunni og hefur fengist styrkur til þessa frá menntamálaráðuneytinu.


Gerður var samningur við Tæknival um leigu til þriggja ára á tölvubúnaði og hefur Reiknistofnun Háskólans annast uppsetningu á búnaðinum og er hann kominn í notkun.


Bókasafnið býður nú gestum sínum aðgang að Interneti frá fjórum tölvum í safninu og er ein þeirra einkum ætluð börnum. Á þeirri tölvu mun einnig verða hægt að njóta góðra norrænna vina svo sem Línu Langsokks, Emils í Kattholti svo einhverjir af þeim margmiðlunardiskum sem safnið á séu nefndir. Safnið býður einnig afnot af margmiðlunartölvu sem ekki er tengd Interneti en er ætluð til að hlusta á tónlist og að nýta margmiðlunardiska með ýmsu upplýsingaefni sem safnið á. Þar má t.d. nefna sænsku Nationalencyklopedien, disk um Víkingana og ferðir þeirra, Íslandshandbókina og Norrænu tölfræðiárbókina.


Bókasafnið hefur lokið að mestu tölvuskráningu á gögnum sínum, ca. 30.000 bókatitlum, 1500 tónlistardiskum, 500 myndböndum og 500 grafíklistaverkum en allt er þetta efni lánað út og er safnið hið eina á Íslandi sem lánar út grafikmyndir. Hægt er að leita í skrám safnisins í gegnum veraldarvefinn (http://www.nordice.is). Bókasafnskerfið Mikromarc er notað í safninu og geta lánþegar afgreitt sig sjálfir með útlán í þar til gerðri útstöð.


Afgreiðslutími safnsins er frá kl. 12 til 17 alla daga vikunnar.
Sími 551 7090 – Tölvupóstfang: [email protected]
Andrea Jóhannsdóttir


Nordisk bibliotekforeningsmøte
Dagana 26. og 27. maí sl. var fundur formanna og framkvæmdastjóra norrænna bókavarðafélaga haldinn í Reykjavík og er þetta annar fundurinn sem haldinn er eftir endurvakningu funda norrænu bókavarðafélaganna.


Fundinn sóttu eftirfarandi aðilar: Frá Danmarks Biblioteksforening þau Mogens Damm og Winnie Vitzansky. Sinikka Sipila Frá Finlands Biblioteksförening. Frá Norsk Bibliotekforening þeir Tore Kr. Andersen og Frode Bakken. Frá Sveriges Almänna Bibliotekförening þær Christina Stenberg og Joneta Belfrage. Fyrir hönd Upplýsingar – Félags bókasafns- og upplýsingafræða sátu fundinn þær Lilja Ólafsdóttir Svava H. Friðgeirsdóttir og Þórdís T. Þórarinsdóttir sem sáu um undirbúning fundarins og skipulagningu og höfðu fundarstjórn með hendi.


Eftirfarandi málefni voru m.a. tekin fyrir á fundinum: Samvinna norrænu bókavarðafélaganna og þátttaka þeirra í verkefnum og rannsóknum. Einnig voru rædd hugsanleg samvinnuverkefni norrænu bókavarðafélaganna. Sagt var frá hringborðsfundi IFLA um stjórnun bókavarðafélaga sem haldinn var á Jamaica einnig rætt um IFLA almennt. Fjallað var um sameiningu bókavarðafélaga á Íslandi og í Svíþjóð og rætt almennt um sameiningu og samstarfsgrundvöll bókavarðafélaga. Á dagskránni voru lög um bókasöfn, sérstaklega lögin í Danmörku og á Finnlandi. Þá var rætt um framtíð FAIFE (Free Access to Information and Freedom of Expression), en starfsgrundvöllur stofnunarinnar hefur verið tryggður fram til næstu áramóta.


Á fundinum var samþykkt ályktun gegn því að leggja niður ríkisstyrki til bókabíla í Noregi og lýstu fundarmenn yfir áhyggjum sínum yfir því að það veikti bókasafnsþjónustu einmitt þegar kall tímans er aukin þjónusta.


Norrænu gestirnir gerðu góðan róm að skipulagningu og framkvæmd fundarins en að loknum fundinum bauð Upplýsing gestunum í stutta skoðunarferð um borgina.


Fulltrúar Upplýsingar eru sammála um að þeir telja mjög gagnlegt og mikilvægt að félagið taki þátt í þessum fundum og væntir góðs af samstarfinu í framtíðinni.


Næsti fundur norrænu bókavarðafélaganna verður haldinn í Stokkhólmi dagana 27. og 28. apríl árið 2001.
Þórdís T. Þórarinsdóttir


Samstarfshópur um bókasöfn á Akranesi
Starfandi er á Akranesi Samstarfshópur um málefni bókasafna á Akranesi (Sumba). Hópurinn var stofnaður á haustdögum 1998 af Akraneskaupstað í því sjónarmiði að skapa tengsl milli starfsfólks bókasafna bæjarins og að stuðla að hagkvæmni og virkari upplýsingamiðlun. Þátttakendur í hópnum voru í byrjun frá gunnskólunum tveimur, Brekkubæjarskóla og Grundaskóla, frá almenningssafninu og frá bókasafni fjölbrautaskólans (FVA). Í byrjun árs 1999 bættist svo bókasafn Landmælinga Íslands við og nú nýverið slóst bókasafn Heiðarskóla (í Leirár- og Melasveit) í hópinn. Við þessa stækkun hópsins og útvíkkun starfssvæðisins gæti hann kallast „Sumban“ eða Samstarfshópur um málefni bókasafna á Akranesi og nágrenni.


Fundir hafa verið mánaðarlega til skiptis í söfunum yfir veturinn. Formleg fundargerð hefur ekki verið haldin en allir hafa punktað hjá sér eitthvað af þeim fjölbreyttu umræðum sem borið hafa á góma. Fyrirfram ákveðin viðfangsefni eru í bland við umræður um það sem er á döfinni eða það sem hverjum og einum liggur á hjarta. Til að gefa dæmi má nefna aðstöðu safnanna og aðbúnað, tæknimál, innkaup og aðföng, tímaritakost og áskriftir, millisafnalán, þjónusu við nemendur, bókmennta-viðburði o.s.frv.


Næsta haust er fyrirhugað að gera samstarfið formlegra með markmiðum og verkefnaskrá.


Á söfnunum starfa einn (á tveimur), tveir (á tveimur) og svo fleiri (á tveimur) svo að fljótt kom í ljós gildi þess hve mikilvægt það er að hittast og bera saman bækur sínar. Sameiginlegir hagsmunir safnanna og bæjarfélagsins eru augljósir og samstarf skólasafnanna mikilvægt í öllum skilningi. Og nú liggur fyrir samstarf FVA og Landmælinga um skipulag námsbrautar á sviði landfræði. Almenningsbókasafnið þjónar svo öllum þessum aðilum og á þeim vettvangi er þjónusta við nágranna-sveitarfélögin og þau bókasöfn sem þar starfa í brennidepli.


Við sem höfum hist reglulega á fundum Sumbu erum mjög ánægðar með þetta samstarf og finnum hve mikilvægt það er að njóta stuðnings stjórnenda á hverjum stað.
Þórunn E. Sighvats
Bókasafn Landmælinga Íslands, Akranesi


Ráðstefna í Rómaborg 22.-23. október 1999 um menningar-starfsemi upplýsingaþjóðfélagsins
,,International Conference on Cultural Work within the Information Society“


Dagana 22. – 23. október sl. sat undirrituð ráðstefnu, sem haldin var af Evrópuráðinu í samstarfi við borgarstjórn Rómar. Ráðstefnan fjallaði, eins og yfirskrift hennar ber með sér, um starfsemi og þróun hinna ýmsu menningarstofnana í upplýsingaþjóðfélagi nútímans. Til ráðstefnunnar var boðið fólki úr flestum geirum menningar, þeim sem vinna að stefnumótun á menningarsviðinu í ríkjum Evrópu, sem og þeim sem vinna við miðlun upplýsinga og þekkingar. Í hópi þátttakenda voru ráðherrar og sendimenn ríkisstjórna þeirra landa sem aðild eiga að Evrópuráðinu og einnig fulltrúar fjölmargra alþjóðlegra félagasamtaka, svo sem frá IFLA, Alþjóðasambandi bókavarðafélaga, Evrópusambandi bókaútgefenda, Alþjóðaráði þjóðminja- og listasafna, Alþjóðaráði skjalasafna og Evrópusambandi útvarpsstöðva.


Daginn áður en hin formlega ráðstefna hófst, störfuðu vinnuhópar. Menntamálaráðherra Íslands, Björn Bjarnason, flutti ávarp og setti ráðstefnuna. Stjórnaði hann síðar um daginn pallborðsumræðum um bókasöfn, lista- og þjóðminjasöfn, útgáfu bóka, tón- og myndefnis. Þar leituðust menn við að fá framtíðarsýn á þróun starfa á menningarsviðinu.


Markmið ráðstefnunnar var tvíþætt: Annars vegar að ganga frá drögum að frumvarpi varðandi menningarstarfsemi í upplýsingaþjóðfélaginu og hins vegar að brjóta til mergjar áhrif hinnar viðtæku tilhneigingar til samleitni í menningariðnaðinum og hjá menningarstofnunum, hnattvæðingar og breytinga á skipulagi menningarstarfsemi á víðum grunni.


Rætt var um þá miklu endurmótun, sem er að verða varðandi upplýsingar og samskipti með tilkomu nýrra möguleika og miðla á sviði samskipta og fjarskipta. Luciana Castellina, blaðamaður, fyrrum forseti menningarnefndar Evrópuþingsins flutti afar fræðandi framsögu um þetta efni.


Nú verður æ algengara að gömlum og nýjum menningarverðmætum sé komið á stafrænt form (sbr. Sagnanetið hjá Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni) og miklar rannsóknir eru í gangi og þróun í tækni, til að varðveita þau og miðla þeim á fleiri vegu en hingað til hefur tíðkast. Verður þetta til þess, að mun fleiri hafa aðgang að þeim og eiga þess kost að njóta þeirra.


Tímarit koma nú í auknum mæli út á rafrænu formi og útlit er fyrir að bókaútgáfan fylgi á eftir, þótt hægar fari. Varðandi bókaútgáfuna glíma menn ennþá við hvernig hægt verði að tryggja höfundarrétt og ýmis fleiri tæknileg atriði.


Bókasöfn þurfa að vera undir það búin, að þessar miklu breytingar bresti á. Bendik Rugaas, landsbókavörður Noregs var með gott innlegg í umræðuna um rafrænan safnkost, og greindi frá því, hvar Norðmenn eru staddir á því sviði.


Stór hluti ráðstefnunnar var helgaður símenntun og endurmenntun. Lögð var áhersla á, að nú á dögum yrðu menn stöðugt að vera að bæta við þekkingu sína með símenntun og endurmenntun, til að fylgjast með þróuninni og vera færir um að mæta þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar í upplýsingaþjóðfélaginu. Menn voru á einu máli um það, að samtök vinnuveitenda og launþega þyrftu að stuðla markvisst að því, að allir ættu kost á því að halda við og bæta við kunnáttu sína og færni á því sviði sem þeir störfuðu.


Á seinni degi ráðstefnunnar voru pallborðsumræður um frumvarpsdrögin varðandi menningarstarfsemi í upplýsingaþjóðfélaginu og vinnuhópar gerðu grein fyrir starfi sínu.


Lokaumræðurnar fjölluðu um símenntun (lifelong learning), endurmenntun og atvinnustefnu á menningarsviðinu. Fluttu þar framsögu ítölsku ráðherrarnir Berlinguer, sem fer með mennta- og tæknimál, Cardinale, ráðherra samgöngu- og fjarskipta og Salvi, atvinnumálaráðherra, sömuleiðis D’Alema forseti ráðherraráðsins, Gago, ráðherra vísinda og rannsókna í Portúgal og Weber, forstöðumaður mennta-, menningar- og íþróttamála innan Evrópuráðsins. Voru erindi þessara manna bæði áhugaverð og upplýsandi.


Umræður voru líflegar á þinginu. Meðal þess sem þar bar á góma voru ýmis vandamál varðandi tækni- og fjarskipti. Greindi Björn Bjarnason frá samningi þeim, er hann gerði fyrir Íslands hönd við tölvufyrirtækið Microsoft, um að hugbúnaður frá fyrirtækinu yrði íslenskaður og að íslenskan fengi þar að standa jafnfætis tungumálum stórþjóðanna. Vakti það töluverða athygli ráðstefnugesta.


Bókasöfn Rómaborgar voru með öfluga kynningu á starfsemi sinni í tengslum við ráðstefnuna og tóku þátt í skipulagningu hennar. Þingfulltrúar fengu afhenta ýmsa bæklinga og gögn varðandi söfnin og tölvuver voru opin. Þar gátu menn sest niður og farið inn á net bókasafnanna og kynnt sér bókasöfn Rómar, svo og bókasöfn víðsvegar um Ítalíu. Slóðin er: http://www.comune.roma.it/cultura/biblioteche


Að sjálfsögðu stóð mönnum einnig til boða að heimsækja söfnin.
Einnig var boðið í skoðunarferð í hið fræga listasafn Galeria Borghese, sem var nýbúið að opna eftir margra ára gagngerar endurbætur.


Menn voru almennt sammála um, að ráðstefna þessi hefði heppnast vel og að nokkuð hefði þokast áleiðis með þau mál, sem þarna voru til umfjöllunar. Innan skamms er væntanleg bók, sem innihalda mun erindi þau sem flutt voru á ráðstefnunni. Þeir sem áhuga hafa, munu þá geta kynnt sér innihald hennar á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.


Undirrituð er mjög ánægð með að hafa átt þess kost að taka þátt í þessari ráðstefnu og telur að fróðleikur sá, sem þarna kom fram í erindum, umræðum og samræðum við ráðstefnugesti, komi tvímælalaust til með að nýtast vel í starfi.
Grímhildur Bragadóttir
Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.


Byggt yfir bókasafnið á Höfn í Hornafirði
Nú stendur yfir hönnun á nýju húsi á Höfn í Hornafirði. Húsið hefur fengið vinnuheitið Nýheimar. Þar verða Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu, upplýsingamiðstöð (þ.e. sameiginlegt almenningsbókasafn og bókasafn framhaldsskólans), aðstaða fyrir nýsköpunarfyrirtæki og mennta- og rannsóknarstofnanir s.s. Austurlandssetur Háskóla Íslands, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins og Þróunarstofu Austurlands. Húsinu hefur verið valinn staður í miðbæ Hafnar og bindur starfsfólk Héraðsbókasafnsins á Höfn miklar vonir við nýja húsnæðið. Áætlað er að það verði tekið í notkun haustið 2002.
Gísli Sverrir Árnason


Endurmenntun 
Stjórn Upplýsingar hefur fengið 10% afslátt hjá Endurmenntunarstofnum á námskeiðum í bókasafns- og upplýsingafræði fyrir skuldlausa félaga Upplýsingar.


Sem stendur er verið að skipuleggja námskeið næsta vetrar. Óskað var eftir eftir tillögum og hugmyndum að námskeiðum á Skruddu og bárust nokkrar tillögur sem unnið verður úr á næstu missirum.


Listi yfir skuldlausa félaga í Upplýsingu verður sendur Endurmenntunarstofnun í byrjun september. Stjórnin hvetur því félagsmenn til að greiða félagsgjöldin hið fyrsta.
f.h. stjórnar Upplýsingar
Þórdís T. Þórarinsdóttir 


Aðgangur að rafrænum bókfræðigagnasöfnum, tímaritum, handbókum og öðru efni á sviði heilbrigðisvísinda árið 2000
Forstöðumaður Bókasafns Landspítala Háskólasjúkrahúss Hringbraut samdi um rafrænan fjölnotendaaðgang á árinu 2000 við Ovid Technologis og MD Consult fyrir bókasöfn, og sjúkra- og heilbrigðisstofnanir og náði jafnframt samkomulagi við aðila innanlands um skiptingu kostnaðar við rafrænu áskriftirnar. Samningaviðræður við Ovid hófust í maí 1999 og skrifað var undir samning fyrir árið 2000 í desember 1999. Undir samning við MD Consult var skrifað í upphafi árs 2000. Aðild að samningunum eiga auk Bókasafns Landspítala Hringbraut, Bókasafn Geðdeildar, Bókasafn Landspítala Fossvogi, Fagbókasafn í öldrunarfræðum Landakoti, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Háskólinn á Akureyri, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Landlæknisembættið, en innan vébanda þess eru: Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Tryggingastofnun ríkisins, starfsfólk lítilla heilbrigðisstofnana, heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa og rannsóknastofnana. Skilyrði er að stofnanir séu ekki reknar í hagnaðarskyni.


Í krafti þessara samninga er í raun um landsaðgang að ræða árið 2000 fyrir starfsfólk stofnana, á sviði heilbrigðisvísinda, sem ekki eru reknar í hagnaðarskyni og aðild eiga að samningi. Meginaðgangur er vinnustaðaaðgangur, þ.e.a.s. aðgangur í tölvum á vinnustað og að sjálfsögðu í tölvum á bókasöfnum stofnananna. Allir safngestir geta notað rafræna efnið. Starfsfólk annarra stofnana þar með talið þeirra sem eru í samstarfi við aðildarstofnanir hefur ekki aðgang á sínum vinnustað. Fólk verður að koma á bókasafn einhverrar aðildarstofnunar til þess að fá aðgang að rafræna efninu. Vert er að taka fram að Lýðnetsaðgangur er ódýrari en geisladiskaaðgangur vegna þess kostnaðar sem rekstur diskastöðvar, uppfærsla diska og netþjóns hefur í för með sér. Einnig sparast aðflutningskostnaður sem er verulegur þegar margir diskar eru keyptir. Aðflutningsgjöld Bókasafns Landspítala Hringbraut námu t.d. um 1.100.000 kr. árið 1999 fyrir mun minna efni í geisladiskaáskrift en nú er fengið í Lýðnetsáskrift. Það ár var ekki aðgangur að MD Consult og aðeins að 15 rafrænum tímaritum. Sá kostur fylgir einnig Lýðnetsaðgangi að ævinlega er völ á allra nýjustu gerð rita og bókfræðigagnasafna. Með ofannefndum áskriftum er rafrænn aðgangur keyptur sérstaklega að um 150 tímaritum hjá Ovid og MD Consult árið 2000. Á Bókasafni Landspítala Hringbraut er auk þess rafrænn aðgangur innifalinn að pappírsáskrift rúmlega 100 tímarita. Þau eru mörg aðgengileg gegnum EBSCO Online. Rafrænar áskriftir tímarita skarast lítillega þegar tímarit eru bæði í tímaritasöfnum í Ovid og MD Consult.


Meginstefnan á Bókasafni Landspítala Hringbraut er sú að aðgangur er keyptur að sama efni á einum miðli. Örfá tímarit sem eru í rafrænu tímaritasafni eru þó jafnframt keypt í pappírsáskrift sem rafrænn aðgangur fylgir. Dæmi um þetta er British Medical Journal. Rafræn áskrift er að um 45 bókum, auk annarra rita, svo sem rita sem ætluð eru til sjúklinga- og alþýðufræðslu. Sem fyrr getur eru samningar um rafrænan aðgang við tvo aðila, annars vegar fyrirtækið Ovid en hjá því fyrirtæki fæst aðgangur að bókfræðigagnasöfnunum: CancerLit, CINAHL, Medline, PsycINFO og SocioFile. Einnig fæst þar aðgangur að níu textabókum á sviði heilsugæslu, í safni textabóka sem kallast á ensku Primary Care Online, rúmlega eitt hundrað tímaritum og að gagnasöfnunum EBM Reviews – Best Evidence og EBM Reviews – Cochrane Database of Systematic Reviews. Hins vegar er samningur við fyrirtækið MD Consult en hjá þeim fæst aðgangur að 35 texta- og handbókum og 45 tímaritum. Þar eru einnig verklagsreglur (practice guidelines), efni til sjúklingafræðslu (patient handouts) og lyfjaupplýsingar auk annars efnis. Vert er að geta þess að aðgangur er einnig að efnisyfirlitum og útdráttum allra rafrænna tímarita í Ovid kerfinu, en þau eru þrjú til fjögur hundruð, hvort sem keypt er að þeim rafræn áskrift eða ekki. Sömu sögu er að segja af EBSCO Online þar er aðgangur að efnisyfirlitum og útdráttum allra rafrænna tímarita en þau eru nokkur þúsund.
Stefanía Júlíusdóttir
forstöðumaður Bókasafns Landspítala Hringbraut
 


Hvað nú Þjóðarbókhlaða?
Föstudaginn 23. júní nk. kl. 9.30-12.00 verður haldið málþing í hátíðasal Háskóla Íslands á vegum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og málþingshóps starfsmanna. Hvað nú Þjóðarbókhlaða? er yfirskrift þingsins og umfjöllunarefni er staða Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns í háskólasamfélaginu.


Frummælendur verða úr hópi háskólakennara, stúdenta og fræðimanna. Meginviðfangsefni þeirra verður að fjalla um þær kröfur sem háskólakennarar, fræðimenn (innan og utan Háskólans) og stúdentar gera til safnsins. Einkum verður leitast við að svara spurningum á borð við þessar: 1. Hvaða kröfur gera háskólakennarar, fræðimenn og stúdentar til safnsins? Hvernig stenst það kröfur þeirra? Hvernig er líklegt að bæta megi þjónustu safnsins við þessa notendahópa?
 2. Er samstarf safnsins og Háskóla Íslands eins og best verður á kosið eða mætti bæta það með einhverju móti og þá hvernig?
 3. Hvaða áhrif hefur sameining Landsbókasafns og Háskólabókasafns haft á starfsemina?
 4. Ber háskólastofnun á borð við safnið að sinna rannsóknum til eflingar starfsemi sinni og þá hvers konar rannsóknum? Hvernig er safnið í stakk búið til að rækja slíkt hlutverk?

Málþinginu lýkur með pallborðsumræðum. Dagskrá verður birt á Skruddu.
Hildur Gunnlaugsdóttir


Fréttir frá Kerfisnefnd bókasafna
Kerfisnefndin komin til baka úr langri og strangri ferð um Bandaríkin, þar sem fimm kerfi (ALEPH, HORIZON, MILLENNIUM, UNICORN, VOYAGER) voru skoðuð í öllum tegundum bókasafna.


Stíf ferðaáætlun nefndarinnar gerði það að verkum að ekki reyndist unnt að gera skýrslu um heimsóknirnar jafnóðum eins og ráðgert hafði verið. Nefndin vinnur nú af krafti úr gögnum sem aflað var í ferðinni með það að markmiði að fækka kerfunum niður í tvö eða þrjú áður en rýnihóparnir taka til starfa, en ljóst er að sú vinna tekur nokkurn tíma. Því miður verður af þessum ástæðum ekki hægt að kynna nein kerfi í júní eins og áætlað hafði verið. Reiknað er með að starf rýnihópa hefjist um 6.-7. sept. og verði lokið u.þ.b. 13.-14.. sept.
f.h. kerfisnefndar
Elísabet Halldórsdóttir
Borgarbókasafni Reykjavíkur

Heimsganga kvenna 2000 – hvað er það?
Það er átak kvenna um allan heim í því skyni að knýja fram breytingar til batnaðar á högum kvenna. 4200 óopinber samtök og hópar í 150 þjóðlöndum hafa skráð sig til þáttöku og fjöldi þeirra vex með hverjum degi.


Opinber undirbúningur hófst sama dag um allan heim, hinn 8. mars, og aðgerðum lýkur víðast 17. október. Þær eru af ólíkum toga innan hvers lands, farnar eru göngur, haldnir fundir og undirskriftum safnað.


Frumkvæðið að göngunni höfðu sameinuð kvennasamtök í Kanada, sem lögðu fram hugmyndina um alheimsgöngu kvenna á fimmtu kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking 1995. Leiddi það til þess að kvennagöngur af ýmsum gerðum eru nú farnar og fundir haldnir í öllum fimm heimsálfum samtímis.


Von þátttakenda er að aðgerðir þessar knýi Sameinuðu þjóðirnar og aðildarlönd þeirra til markvissra aðgerða til að binda endi á örbirgð og tryggja réttláta skiptingu auðæfa heims og jafnrétti ríkra og fátækra, karla og kvenna.


Einnig er krafist aðgerða til að binda endi á það ofbeldi, bæði ljóst og leynt, sem viðgengst í garð kvenna .


Kröfurnar eru byggðar á sáttmála Sameinuðu þjóðanna og framkvæmdaráætlun Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Peking. Aðilar sameinast í kröfunni um uppgjöf skulda fátækustu landanna við stærstu iðnveldi heims.


Sem áður segir eru aðgerðir af ólíkum toga innan hvers lands og hverjum í sjálfsvald sett hvaða atriði eru sett á oddin í umræðunni og á hvaða hátt athyglinni er beint að baráttumálunum. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér mismunandi aðferðir ólíkra landa og allt annað varðandi heimsgönguna, er bent á heimasíðu göngunnar http://www.ffq.qc.ca


Þátttökulöndin gangast fyrir söfnun undirskrifta undir sameiginlegar kröfur GEGN ÖRBIRGÐ OG OFBELDI og er reiknað með að milljónir undirskrifta safnist. Lokaganga allra þjóða verður gengin 17. október að höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York. Þar verða komnir saman fulltrúar frá hverju landi og undirskriftalistarnir verða afhentir Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Fyrir lokagönguna verða fundir haldnir í hverjum heimshluta og evrópskar konur munu koma saman í Brussel 13. október.


Íslenskar konur úr ýmsum samtökum sem og einstaklingar hafa ákveðið að sýna konum allra landa samstöðu og nota þetta tækifæri til að taka þátt í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi þar sem ofbeldi og misrétti hvers konar er vísað á bug.


Við munum standa að undirskriftasöfnun GEGN ÖRBIRGÐ OG OFBELDI og sjá til þess að nöfn þeirra sem taka undir þær kröfur komist á leiðarenda.


Hinn 24. október næstkomandi eru liðin 25 ár frá kvennafrídeginum 1975. Við viljum minnast þeirra tímamóta og blása til göngu og stórfundar að henni lokinni í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þetta verður fagnaðarfundur þar sem íslenskar konur koma saman til að finna mátt sinn og megin og styðja hver aðra, jafnframt því að líta til kvenna annara landa .


Við fögnum þátttöku allra, bæði einstaklinga, félaga og félagasamtaka, kvenna og karla, sem vilja stuðla að afnámi fátæktar og ofbeldis í hvaða mynd sem það birtist.


Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna tóku að sér í upphafi að dreifa upplýs-ingum um gönguna og samræma aðgerðir. Nú hafa fleiri bæst í hópinn og við höfum haldið fundi til skrafs og ráðagerða. Þeir sem enn eru ekki í sambandi við okkur eða hafa ekki tök á að mæta á fund en vilja vita meira, geta haft samband við:


Eygló Bjarnadóttur Frostafold 60, sími: 567 5748 [email protected] 
Guðrúnu Hannesdóttur Sporðagrunni 15, sími: 553 6037 [email protected] eða símsvara MFÍK s. 553 7609
Komdu með! Vertu með!


Heyrst hefur … • að Anna S. Gunnarsdóttir bókasafnsfræðingur hafi hafið störf hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar sem skjalavörður.
 • að Ragnheiður Sigurðardóttir bókasafnsfræðingur á bókasafni Menntaskólans á Akureyri sé að fara í eins árs leyfi til Edinborgar.
 • að Brynhildur Frímannsdóttir bókasafnsfræðingur á Amtsbókasafninu á Akureyri hafi fengið árs leyfi til að leysa Ragnheiði af.
 • að Þórunn E. Sighvats hafi ráðist til bókasafns Landmælinga Íslands 1. febrúar sl., var áður við Bæjar- og héraðsbókasafn Akraness og við Héraðsskjalasafn Akraness.
 • að Guðrún Pálsdóttir bókasafnsfræðingur á Rannsóknarstofnun landbúnaðarins hafi fengið stöðu bókasafnsfræðings á Veðurstofu Íslands.
 • að Vala Nönn Gautadóttir bókasafnsfræðingur hafi verið ráðin í stöðu bókasafnsfræðings við bókasafn Íslenskrar erfðagreiningar hf. og hefur hún störf í haust. Vala vann áður á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni.
 • að Guðmundur Guðmarsson bókasafnsfræðingur sé komin í stöðu skjalavarðar hjá Íbúðalánasjóði.
 • að Axel Kristinsson sagnfræðingur sé orðinn forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar.
 • að Lilja Ólafsdóttir bókasafnsfræðingur sé orðinn forstöðumaður hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur, Foldasafni.

Ráðstefnur og fundir
Upplýsingu hefur borist upplýsingar um eftirfarandi ráðstefnur og fundi:


Ágúst 2000


13. – 18. JERÚSALEM, ÍSRAEL
IFLA 66th General Conference. Ráðstefna haldin á vegum IFLA (International Federation of Library Associations and Institutions). Ráðstefnugjald $425. Nánari upplýsingar: http://www.teumcong.co.il


17. – 18. LINKÖPING, SVÍÞJÓÐ
Den tredje svenska bokbussfestivalen. Ráðstefna haldin á vegum SAB Bussfilen og Linköpings stadsbibliotek. Ráðstefnugjald SEK 1500. Nánri upplýsingar Lotta Almquist tel. 0520-497658, [email protected]


Október 2000


16. – 19. BRIGHTON, ENGLAND
Global 2000 : The Information Age, challenges and opportunities. Ráðstefna haldin á vegum Special Libraries Association. Ráðstefnugjald $495. Nánari upplýsingar: http://www.slaglobal2000.org


Nóvember 2000


6. – 8. MONTEREY CONFERENCE CENTER, MONTEREY, CA, USA
Internet Librarian. Nánari upplýsingar: http://www.infotoday.com


Janúar 2001


29. – 31. VILNIUS UNIVERSITY, LITHÁEN
9th International BOBCATSSS Symposium on Library and Information Science. Ráðstefnuhaldarar: Oslo University College og Vilnius University. Nánari upplýsingar: http://www.bobcatsss.com


Maí -júní 2001


30.5. -1.6 REYKJAVÍK, ÍSLAND
11th Nordic Conference on Information and Documentation.


Stjórn, nefndir og fulltrúar Upplýsingar
Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða varð til 1. janúar 2000 við sameiningu FB (Félags bóka-safnsfræðinga stofnað 1973) og BVFÍ (Bókavarðafélags Íslands. Sambands bókavarða og bókasafna stofnað 1960) ásamt aðildarfélögum: FAS (Félagi um almenningsbókasöfn og skólasöfn) og FBR (Félagi bókavarða í rannsóknarbókasöfnum)


Stjórn Upplýsingar kosin á stofnfundi 26. nóvember 1999:
Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður, Menntaskólanum við Sund (frá 2000 til 1 1/2 árs)
Svava H. Friðgeirsdóttir varaformaður, Skjalasafni Landsbankans (frá 2000)
formaður og varaformaður eru tengiliðir við stjórnunarsvið
Lilja Ólafsdóttir gjaldkeri, tengiliður við fjármálasvið, Borgarbókasafni – Foldasafni (frá 2000)
Hólmfríður Tómasdóttir ritari, viðheldur félagatali, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni (frá 2000)
Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir meðstjórnandi, tengiliður við útgáfusvið, Fjölbrautaskóla Vesturlands (frá 2000)
Jenný K. Valberg meðstjórnandi, tengiliður við ráðstefnu- og fræðslusvið, Bókasafni Selfoss (frá 2000)
Þórhallur Þórhallsson meðstjórnandi, tengiliður við fagsvið, Borgarbókasafni – Sólheimasafni (frá 2000)
Inga Rún Ólafsdóttir varamaður, Þjónustuskrifstofu BHM félaga (frá 2000)
María Hrafnsdóttir varamaður, Skólasafni Garðaskóla (frá 2000)


Umsjónarmaður vefsíðu Upplýsingar:
Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir, Bókasafni Fjölbrautaskóla Vesturlands, Akranesi


Fulltrúar í Sameignarfélaginu Ásbrú:
Svava H. Friðgeirsdóttir aðalfulltrúi, Skjalasafni Landsbankans (frá 2000)
Þórdís T. Þórarinsdóttir varafulltrúi, Bókasafni Menntaskólans við Sund (frá 2000)


Skoðunarmenn reikninga:
Halldóra Þorsteinsdóttir, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni (frá 2000)
Guðrún Pálsdóttir, Bókasafni Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins (frá 2000)
Ingvi Þór Kormáksson (varamaður), Borgarbókasafni Reykjavíkur – Aðalsafni (frá 2000)


Lagabreytinganefnd :
Eydís Arnviðardóttir, Upplýsingaþjónustu frumkvöðla og fyrirtækja (frá 2000)
Sigurður Þ. Baldvinsson, Skjalasafni Utanríkisráðuneytisins (frá 2000)Ída M. Jósepsdóttir, Kaupþingi hf. (frá 2000)


Fræðslu- og skemmtinefnd:
Margrét Björnsdóttir, Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur (frá 2000)
Sigurður J. Vigfússon, Borgarbókasafni – Aðalsafni (frá 2000)
Þórhallur Þórhallsson, Borgarbókasafni – Aðalsafni (frá 2000)Anna Sigríður Guðnadóttir (varamaður), Bókasafni Landlæknis (frá 2000)
Svava H. Friðgeirsdóttir (varamaður), Skjalasafni Landsbankans (frá 2000)


Fagráð um upplýsingatækni (FUT):
Stefanía Júlíusdóttir Bókasafni Landsspítalans

Landsfundarnefnd fyrir árið 2000 – (haldinn á Akureyri 1.-2. sept. nk.):
Hólmkell Hreinsson, formaður, Amtsbókasafninu Akureyri
Helga Thorlacius, Bókasafni Glerárskóla
Margrét Björnsdóttir, Bókasafni Háskólans á Akureyri
Ragnheiður Kjærnested, Bókasafni Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri Ragnheiður Sigurðardóttir, Bókasafni Menntaskólans á Akureyri
Sigríður Sigurðardóttir, Bókasafni Verkmenntaskólans á Akureyri
Sigrún Magnúsdóttir, Bókasafni Háskólans á Akureyri


Lesið í Norðri:
Kristín Birgisdóttir, Bókasafni Mosfellsbæjar/Skólasafni Varmárskóla
Sigríður Matthíasdóttir, Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi

Ritnefnd Bókasafnsins:
Dögg Hringsdóttir (ritstjóri) Borgarbókasafni – Aðalsafni
Gróa Finnsdóttir, Bókasafni Þjóðminjasafns Íslands
Hadda Þorsteinsdóttir (gjaldkeri), Borgarbókasafni – Aðalsafni
Kristín Ósk Hlynsdóttir (umsjónarmaður netútgáfu), Glitni hf.
Sólveig Haraldsdóttir (ritari), Safnadeild Ríkisútvarpsins

Siðanefnd:
Anna Torfadóttir, Borgarbókasafni – Aðalsafni
Ingibjörg Árnadóttir, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
Bryndís Áslaug Óttarsdóttir, Morgunblaðinu


Stjórn Ferðasjóðs Upplýsingar:
Lilja Ólafsdóttir, gjaldkeri Upplýsingar (formaður), Borgarbókasafni
Svava H. Friðgeirsdóttir, varaformaður Upplýsingar
Þórdís T. Þórarinsdóttir, formaður Upplýsingar


Nefnd um val á bestu fræðibók ársins fyrir börn:
Ása Sigríður Þórðardóttir (formaður), Bókasafni Kennaraháskóla Íslands  Þroskaþjálfaskor
Lilja Ólafsdóttir, Borgarbókasafni – Foldsafni
Þorbjörg Karlsdóttir, Borgarbókasafni – Aðalsafni

Nefnd um val á bestu fræðibók ársins fyrir fullorðna:
Þórdís T. Þórarinsdóttir (formaður), Bókasafni Menntaskólans við Sund Bryndís Áslaug Óttarsdóttir, Morgunblaðinu
Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir, Bókasafni Fjölbrautaskóla Vesturlands


Stjórn NVBF (íslenskir stjórnarmenn):
Hrafnhildur Hreinsdóttir, Landssíma Íslands hf. (frá 1998)
Þórhildur Sigurðardóttir, Bókasafni Kennaraháskóla Íslands (frá 1999)

Útgáfustjórn Fregna:
Fulltrúar úr stjórn Upplýsingar
Nanna Lind Svavarsdóttir, Bókasafni Iðnskólans í Hafnarfirði


Verkefnisstjórn um aðgengi að gagnagrunnum:
Sólveig Þorsteinsdóttir, Háskólanum í Reykjavík (frá 1999)

Fulltrúar Íslands í Nordbok (og Nordfolk):
Marta Hildur Richter, Bókasafni Mosfellsbæjar
Hrafn A. Harðarson (varafulltrúi), Bókasafni Kópavogs

Ráðgjafarnefnd um almenningsbókasöfn (Stofnuð 1997 skv. Lögum nr. 36/1997) :
Hulda Björk Þorkelsdóttir, Bókasafni Reykjanesbæjar
Hólmkell Hreinsson, Amtsbókasafninu á Akureyri (varafulltrúi)


Norrænt net barnabókavarða :
(Nordisk netværk for børnebiblioteker & -kultur, stofnað á IFLA-þingi
197)
Kristín Viðarsdóttir, Borgarbókasafni Reykjavíkur – Aðalsafni
Þorbjörg Karlsdóttir, Borgarbókasafni Reykjavíkur – Aðalsafni

Stýrihópur fyrir Norræna barnabókakaupstefnu (Skandinavisk børnebogmesse):
Þorbjörg Karlsdóttir, Borgarbókasafni Reykjavíkur – Aðalsafni

Stjórn Blindrabókasafnsins (Skv. Lögum nr. 35/1982 um
Bindrabókasafn Íslands):
Erla K. Jónasdóttir, Borgarbókasafni Reykjavíkur – Aðalsafni (frá 1998)
Ragnhildur Árnadóttir, Bókasafni Reykjanesbæjar (frá 1998)


Stjórn Bókasambands Íslands:
Anna Elín Bjarkadóttir (formaður Bókasambandsins), Bókasafni Landsvirkjunar
Anna Jensdóttir, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
Varamaður)


Stjórn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns (Samkvæmt Lögum nr. 71/1994):
Kristín Indriðadóttir (aðalfulltrúi), Bókasafni Kennaraháskóla Íslands
frá 1998 til 4ra ára)
Anna Torfadóttir (varafulltrúi), Borgarbókasafni Reykjavíkur – Aðalsafni (frá 1998 til 4ra ára)


Undirbúningsnefnd fyrir NORD IoD ráðstefnu, 30. maí – 1. júní 2001 í Reykjavík:
Kristín Geirsdóttir (formaður) Bókasafni Alþingis
Anna Magnúsdóttir, Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf.
Gunnhildur Manfreðsdóttir, Bóka- og skjalasafni Landsvirkunar
Hrafnhildur Hreinsdóttir, Landssíma Íslands hf.
Sigrún Hauksdóttir, Landsbókasafni Íslands-Háskólabókasafni
Þóra Gylfadóttir, Sjálfstætt starfandi

Undirbúningsnefnd fyrir ráðstefnu og félagafund NVBF, Reykjavík 22.-23. maí 2000:
Hrafnhildur Hreinsdóttir, Landssíma Íslands hf.
Eydís Arnviðardóttir, Upplýsingaþjónustu frumkvöðla og fyrirtækja
Ólöf Benediktsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar
Þórhildur Sigurðardóttir, Bókasafni Kennaraháskóla Íslands

Undirbúningsnefnd fyrir Nordisk bibliotekforeningsmøte, Reykjavík 26.-27. maí 2000:
Þórdís T. Þórarinsdóttir (formaður) Bókasafni Menntaskólans við Sund
Svava H. Friðgeirsdóttir, Skjalasafni Landsbankans
Lilja Ólafsdóttir, Borgarbókasafni – Foldasafni

Vinnuhópur um tónlistarútlán og höfundarréttarmál – Stofnuð 2000:
Anna Jensdóttir, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni (frá 2000)Áslaug Eiríksdóttir, Bókasafni Norræna hússins (frá 2000)

Þöll. Samstarfsópur um barnastarf á íslenskum bókasöfnum (Stofnaður 1997):
Kristín Birgisdóttir (forsvarsmaður), Bókasafni Mosfellsbæjar/Skólasafni Varmárskóla
Sigríður Matthíasdóttir (gjaldkeri), Bæjar- og héraðsbókasafninu á Selfossi

Samstarfshópar bókavarða:


Áhugahópur um rannsóknir og kennslu í bókasafns- og upplýsingafræði – Stofnaður 2000
Tengill: Guðrún Pálsdóttir, Bókasafni Rannsóknastofnunar Landbúnaðarins


Millisafnalánahópur:
Tengill: Pálína Héðinsdóttir, Bókasafni Náttúrufræðistofnunar


Myndbandahópur:
Tengill: Sigurður J. Vigfússon, Borgarbókasafni – Aðalsafni


Náttúrufræðisafnahópur:
Tengill: Eiríkur Þ. Einarsson, Sjávarútvegsbókasafninu


Samstarfshópur ARLIS/Norden á Íslandi:
Tengill: Ólöf Benediktsdóttir, Stofnun Árna Magnússonar


Samstarfshópur bókasafnsfræðinga í framhaldsskólum (SBF) – (Stofnaður 1985)
Tengill: Þórdís T. Þórarinsdóttir, Bókasafni Menntaskólans við Sund


Samstarfshópur háskólabókavarða:
Tengill: Sigrún Magnúsdóttir, Bókasafni Háskólans á Akureyri


Stjórnsýslu- og lagahópur:
Tengill: Auður Gestsdóttir, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni


Tónlistarbókasafnahópur:
Tengill: Anna Jensdóttir, Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni


Ýmis félög bókavarða


Félag um skjalastjórn:
Formaður: Sigurður Þór Baldvinsson, Skjalasafni Utanríkisráðuneytisins


Félag um vefbókasafn – (Stofnað 1998)
Formaður: Hulda Björk Þorkelsdóttir, Bókasafni Reykjanesbæjar


Samstarf bókasafna og upplýsingamiðstöðva í heilbrigðisvísindum (SBUH)
Formaður: Anna Sigríður Guðnadóttir, Bókasafni Landlæknis


Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna – Stofnuð 1999
Formaður: Gísli Sverrir Árnason, Sýslusafni Austur-Skaftfellinga, Höfn í Hornafirði

Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU) – Stofnað 1999
Formaður: María Frímannsdóttir, Sýslumanninum í Reykjavík


Þjónustumiðstöðvar
Skólasafnamiðstöð Reykjavíkur, Lindargötu 46, 101 Reykjavík
Forstöðumaður: Margrét Björnsdóttir


Þjónustumiðstöð bókasafna, Laugavegi 163, 105 Reykjavík
Framkvæmdastjóri: Erna Egilsdóttir
Stjórn, varmamenn og skoðunarmaður reikninga Þjónustumiðstöðvar bókasafna (Stofnuð 1978)
Nanna Bjarnadóttir (formaður), Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
Pálína Magnúsdóttir (varaformaður og gjaldkeri), Bókasafni
Seltjarnarness
Eiríkur Þ. Einarsson (ritari), Sjávarútvegsbókasafninu
Hulda B. Þorkelsdóttir (meðstjórnandi), Bókasafni Reykjanesbæjar
Margrét I. Ásgeirsdóttir (meðstjórnandi), Bókasafni Selfoss
Marta Hildur Richter (varamaður), Bókasafni Mosfellsbæjar
Pálína Héðinsdóttir (varamaður), Bókasafni Náttúrufræðistofnunar
Hallfríður Baldursdóttir (skoðunarmaður reikninga), Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni

Upplýsing greiðir fyrir aðild að eftirfarandi félögum:
Börn og bækur, Íslandsdeild IBBY (International Board on Books for Young People)


Fagráð um upplýsingatækni (FUT)


EBLIDA (European Bureau of Library, Information and Documentation Associations)


IASL (International Association of School Librarianship)


IFLA (International Federation of Library Associations and Institutions) – (Stofnað 1927)


NVBF (Nordiske videnskabelige biblioteksforeningers forbund)


Veffang heimasíðu Upplýsingar: http//www.bokis.is


Þórdís T. Þórarinsdóttir tók saman


Landsfundur 2000
Fyrsti landsfundur Upplýsingar, sem er 15. landsfundur bókavarða, verður haldinn á Akureyri daganna 1. og 2. september á Fosshótel KEA.
Allur undirbúningur fundarins er á höndum Landsfundarnefndar sem skipuð er bókavörðum starfandi á Akureyri.
Stefnt er að því að setja ítarlegar upplýsingar um landsfundinn á vefinn og verður það tilkynnt sérstaklega á Skruddu síðar.
Rétt er að minna bókaverði á að húsnæðismálin eru í þeirra höndum og ítreka að gisting sé pöntuð tímanlega.
 


Hér að neðan getur að líta drög að dagskrá Landsfundar:
Föstudagur 1. september
9:00 Ávarp formanns landsfundarnefndar Hólmkell Hreinsson
9:15 Ljóð Erlingur Sigurðarson
9:30 Ávarp formanns Upplýsingar Þórdís T. Þórarinsdóttir
Greinargerð um stefnu og markmið félagsins
10:00 Kaffihlé
10:25 Nefnd um val á bókasafnskerfi fyrir Ísland Arnór Guðmundsson
11:00 Verkefnisstjórn um gagnagrunna Haukur Ingibergsson
12:00 Matarhlé
13:30 Framtíðarsýnin Jens Thorhauge
14:15 Framtíðarsýnin Einar Sigurðsson
14:30 Framtíðarsýnin Sigrún K. Hannesdóttir
14:45 Framtíðarsýnin Anna K. Torfadóttir
15:00 Framtíðarsýnin Margrét Gunnarsdóttir
15:15 Kaffihlé
15:45 Framtíðarsýnin Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir
16:00 Pallborðsumræður Framsögumenn
17:00 Hlé
18:30 Móttaka í Listasafni Akureyrar
20:00 Hátíðarkvöldverður á KEA


Laugardagur 2. september
09:30 Bókmenntavefurinn Ingibjörg Rögnvaldsdóttir,Kristín Viðarsdóttir
10:00 Streitustjórnun Svali Björgvinsson
11:00 Kaffihlé
11:25 Streitustjórnun frh. Svali Björgvinsson
12:30 Matarhlé
13:30 Fjarkennsla, símenntun bókasöfn Haukur Ágústsson
Fjarkennsla, símenntun bókasöfn Sigrún Magnúsdóttir
15:00 Kaffihlé
15:30 Fjarkennsla, símenntun bókasöfn Kristín Indriðadóttir, Þórhildur Sigurðardóttir
16:15 Umræður
17:00 Landsfundarslit
f.h. Landsfundarnefndar
Sigrún Magnúsdóttir
Bókasafni Háskólans á Akureyri