Höfundaréttur og bókasöfn á netöld

Höfundaréttur og bókasöfn á netöld

Þegar ég var beðin um að tala hér um höfundarétt og hvernig það hugtak snerti okkar bókasöfn hér upp á Íslandi, þá svaraði ég því til að ég vissi nú ósköp lítið um þessi mál. Ég held að þetta sýni vel afstöðu okkar bókavarða til þessara mála. Allir vita eitthvað um höfundaréttargjöld og að ekki má ljósrita rit í heild sinni eða nota annarra verk á ósæmilegan hátt. Við höfum líka heyrt af Bókasafnasjóði höfunda og innheimtu gjalda hjá Fjölís.

Hins vegar treysta fáir sér til að segja eitthvað um túlkun höfundaréttarlaga um hina ýmsu miðla, hvað þá að henda reiður á þeirri óvissu sem ríkir í þessum málum eftir að netið kom til sögunnar. Það erum ekki bara við hér sem erum orðin áttavillt í þessum flókna upplýsingaheimi heldur virðist sama ástand vera ríkjandi á bókasöfnum í öðrum löndum.

Þessi mál hafa verið mjög ofarlega á baugi meðal bókavarða á hinum Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum, einkum vegna yfirlýsinga og reglna sem hafa komið frá Evrópusambandinu og alþjóðlegum samtökum hugverkaeigenda (World Intellectual Property Owners), sem eru samtök tengd Sameinuðu Þjóðunum og stóðu m. a. að Bernarsáttmálanum um höfundarétt á sínum tíma.

Upplýsingaiðnaðurinn og höfundaréttur
Nú á síðustu árum, samfara hinni geysihröðu þróun í upplýsingaiðnaði um allan heim og tilkomu internetsins , hefur það einnig gerst að yfirráð yfir hugverkum hafa í auknum mæli verið að færast á hendur stórra og voldugra útgáfufyrirtækja, gagnagrunnseigenda og annarra upplýsingaseljenda. Höfundarnir sjálfir, lítil forlög og smáfyrirtæki hverfa í skuggann og bilið breikkar milli notenda og þeirra sem skapa verkin.

Það má jafnvel segja, að stórfyrirtæki geti, sums staðar í heiminum, túlkað höfundaréttarlögin sér í hag, til að auka auð sinn og völd á upplýsingamarkaðnum.

Miklar breytingar hafa orðið á upplýsingamiðlun til bókasafna og einstaklinga við yfirfærslu hugverka af pappír yfir á rafræna miðla. Meiri áhersla er nú en áður lögð á dreifingu smærri upplýsingaeininga svo sem tímaritsgreina í stað heilla tímarita og hægt er að dreifa þeim á stafrænu formi beint til notenda í stað þess að slíkar pantanir fóru áður meira í gegnum bókasöfnin.

Menn sjá fram á, að það gengur ekki að allir geti prentað út greinar, leitað upplýsinga í gagnabönkum eða að bókasöfnin geti sloppið með ódýr millisafnalán, án þess að höfundaréttareigendur fái nokkuð fyrir sinn snúð.

Upplýsingarnar eru því seldar dýrum dómum, fyrst gagnabönkum sem selja greinar eða bókasöfnum sem láta í té millisafnalán en síðan öðrum bókasöfnum eða einstaklingum.

Hluti þeira gjalda, sem seljendur upplýsinganna taka, eru svo kölluð höfundaréttargjöld þó þau í mörgum tilvikum snúist ekki lengur um rétt höfunda.

Hið gamla góða orð höfundaréttur sýnir þó, svo ekki verður um villst, hvert inntak þess var í upphafi, þegar alþjóðlegir sáttmálar voru gerðir um verndun hugverka. Það snerist þá einkum um siðferðilegan, huglægan eða listrænan rétt höfundarins á verki sínu en ekki eins mikið og nú er orðið, a.m.k. í sumum löndum, að greiðslur komi fyrir notkun.

Hin miklu umsvif í upplýsingaiðnaði, yfirfærsla verka yfir á rafræna miðla og sú aukna áhersla sem hefur verið lögð á höfundaréttargreiðslur, getur orðið til þess að raska ákveðnu jafnvægi sem var í hinu gamla pappírssamfélagi á milli höfunda og lesenda. Nú er ég einkum að tala um skóla- og fræðasamfélög. Það hefur verið þegjandi samkomulag á þeim vettvangi að svo lengi sem ekki væri verið að misnota verk höfunda sér til framdráttar eða óverðskuldaðs gróða, þá yki það hróður höfundarins að verk hans væru sem mest skoðuð og notuð í fræðilegum tilgangi.

Enginn vill að verk sín séu lokuð niðri í skúffu engum til gagns, enda hafa fræðimenn verið manna fúsastir til að dreifa sérprentum af greinum sínum sem víðast, til að þær gætu komið að sem mestu gagni.

Það hefur verið sýnt fram á, að það er í stórum dráttum sami hópur manna sem framleiðir fræðilegar upplýsingar og notar þær.

Mjög sérhæfð fræði höfða ekki til margra. Það er því takmarkaður hópur manna sem notar upplýsingar á ákveðnum fræðasviðum.

Höfundar fræðirita eru oft menn sem vinna hjá háskólum eða öðrum vísindastofnunum og semja rit sín í vinnunni, Þó bísna algengt sé á Íslandi að menn sitji á kvöldin og um helgar við ritun verka sinna. Þeir eru yfirleitt ekki að þessu í gróðaskini, heldur fremur til að öðlast fræðilega viðurkenningu eða hærri stöðu.

Bókasöfnin og gjaldtaka vegna höfundaréttar
Með tilkomu rafrænu miðlanna er orðið enn erfiðara að hafa stjórn á notkun og meðferð hugverka. Höfundaréttarög þau sem hver þjóð hefur sett sér í samræmi við alþjóðlegar samþykktir, gagnast ekki lengur við hina nýju miðla, a.m.k. þarf að túlka þau á nýjan hátt.

Viðbrögðin í upplýsingaiðnaðinum hafa orðið þau, að það eru lögð á ný gjöld fyrir notkun þessara miðla. Það veldur ákveðnu misrétti, vegna þess að það verða þá aðeins þeir sem hafa efni á því, sem fá að nota verkin.

Nú er jafnvel svo langt gengið að farið er að tala um að greiða fyrir að fletta upp og skoða, hvernig sem á nú að framkvæma það.

Sú hefð hefur verið ríkjandi, a.m.k. í lýðræðislöndum að flestir eiga að geta aflað sér ódýrrar menntunar og stundað fræði sín án þess að það kosti stórar fjárfúlgur. Bókasöfn eru rekin með það að leiðarljósi, að veita sem besta þjónustu á sem ódýrastan hátt. Fjárveitingar til bókasafna hafa ekki aukist undanfarin ár nema síður sé og útgjöld vegna rafrænu gagnanna reynast þeim þung í skauti. Mörg bókasöfn hafa brugðist þannig við, að reyna að semja um sameiginlega notkun. Ég er líka þeirrar skoðunar að lítil fræðasamfélög muni með eigin rafrænum útgáfum og samskiptanetum reyna að sporna gegn þessari gjaldtöku.

Bókasöfn eru kannski sá staður þar sem auðveldast er að framfylgja höfundaréttarlögum. Bókaverðir eru í þeirri aðstöðu að geta komið á framfæri leiðbeiningum til notenda um löglega notkun hugverka. Það er því ekki óeðlilegt að þeir sem setja lögin og jafnframt eigendur hugverka stuðli að því að bókasöfnin verði eftir sem áður staður, sem allir geta leitað til og fengið ókeypis eða a.m.k. á ódýran hátt að nota þau verk sem þeir þurfa á að halda við nám eða störf.

Nýlegar aðgerðir WIPO og EB í höfundaréttarmálum
Eins og ég sagði hér fyrr þá eru það einkum Evrópubandalagið og WIPO sem nú á síðustu árum hafa beitt sér fyrir hertari reglum um notkun hugverka, sem oftar en ekki hafa gert voldugum útgáfufyrirtækjum auðveldara að auka gjaldtökuna.

Þó að við Íslendingar séum ekki enn í Evrópubandalaginu þá erum við í Evrópska efnahagsbandalaginu og í því alþjóðlega umhverfi sem bókasöfnin hrærast í, snerta allar ákvarðanir sem teknar eru úti í heimi okkur líka. A.m.k. hefur budda íslenskra rannsóknarbókasafna ekki gildnað samfara þessum hertu reglum. Hver sem fer inn á heimasíðu t.d. British Library Document Supply Centre getur séð reglur sem þar gilda um ljósritun greina og gjaldtöku vegna höfundaréttar. Safnið þarf að standa skil á gjöldunum til innheimtuskrifstofu þar í landi. Það þarf líka að henda reiður á hvaða efni er undanþegið höfundaréttargjöldum.

Félög rannsóknarbókavarða í nágrannalöndunum og ECUP (European Copyright User Platform), samtök studd af EBLIDA og fleiri samtök starfsmanna bókasafna og upplýsingamiðstöðva, hafa sent frá sér harðorðar yfirlýsingar vegna samþykkta sem komið hafa frá ofangreindum samtökum á síðustu árum.

Þar má nefna samkomulag um samræmingu höfundaréttarlaga í Evrópubandalagsríkjum sem EB sendi frá sér árið 1997 og ályktun um gagnabanka sem lögð var fram á WIPO þingi 1996 og fáir vissu af fyrirfram. Á því þingi var m.a. lögð fram tillaga um bann við rafrænni afritun, sem reyndar var hafnað en grunur leikur á að muni ganga aftur í Evrópusamþykkt. Þar var hins vegar samþykkt að höfundaréttareigandi hefði rétt til að fylgjast með allri notkun á verki, sem gæti þýtt greiðslu fyrir að líta í bók „pay per view“. Einstök lönd geta þó takmarkað þann rétt bókasöfnunum í hag, ef þau vilja.

Danir voru svo fljótir á sér þegar þeir samþykktu breytingar á höfundaréttarlögunum 1996, að þeir ákváðu að taka inn hjá sér bann við rafrænni afritun, þ.e. af stafrænu formi yfir á stafrænt, sem þeir áttu von á að yrði samþykkt af WIPO og eru því nú eina ríkið í Evrópu með slíkt bann.

Yfirlýsing ECUP um höfundarétt og stafrænar útgáfur
Stjórn ECUP sendi frá sér yfirlýsingu um bókasöfn og höfundarétt á stafrænum útgáfum árið 1996. Þessari yfirlýsingu er ætlað að útskýra löglega notkun einstaklinga og bókasafna á höfundaréttarvernduðum verkum í rafrænu umhverfi og að vera heimild sem bókaverðir og aðrir sem vinna við upplýsingamiðlun geta leitað í, ef þeir eru í vafa.

Inngangurinn að henni hljóðar svona í lauslegri þýðingu:

„Á hverju ári veita bókasöfn í Evrópu milljónum fræðimanna, stúdenta og almenningi þjónustu sína.

Þessi þjónusta er í samræmi við höfundaréttarlög. Þróun nýrrar tækni hefur gert það mögulegt að veita enn betri þjónustu.

Það er viðurkennt á bókasöfnum að ný tækni og sérstaklega þeir möguleikar að afrita höfundaréttarvernduð verk á auðveldan hátt, skapar óvissuástand, þegar kemur að greiðslum til hugverkaeigenda.

Stjórnleysi rafrænu miðlanna veldur bókavörðum jafnt sem hugverkaeigendum áhyggjum. Viðbrögðin við því, mega samt ekki leiða til þess að aðgangur notenda og starfsfólks bókasafna og upplýsingamiðstöðva verði of takmarkaður að þeim.

Því má ekki gleyma að bókasöfn eru ákjósanlegur vettvangur til að hafa eftirlit með því að farið sé eftir höfundaréttarlögum, um leið og aðgangur er veittur að hugverkum.

Martröð bókasafnafólks er, að söfnin breytist í stað, þar sem ekkert má skoða, lesa, nota né afrita án leyfis eða greiðslu.

Þegar tekið er með í reikninginn að verð vísindarita og tímarita hefur hækkað um 10 % eða meira árlega virðist þetta enn óréttlátara. Verð á leyfum fyrir notkun gagna á stafrænu formi er almennt hærra en verð samsvarandi bóka eða tímarita og yfirleitt er stafræna ritið ekki látið í té nema pappírsbókin sé keypt líka.

Með síaukinni notkun efnis á stafrænu formi, gæti þetta þýtt að aðeins þeir einstaklingar eða stofnanir sem hafa efni á að borga, geti notað það.

Hið notendavæna umhverfi bókasafnanna myndi hverfa en í staðinn koma einhvers konar upplýsingafyrirtæki þar sem lögmál markaðarins ríkja ein.

Kaldranalegt upplýsingaþjóðfélagið myndi þá einkennast af mismunun milli þeirra ríku og fátæku.

Síðan á síðustu öld hafa verið í gildi höfundaréttarlög og reglur og venjur sem hafa mótast á löngum tíma fyrir prentmiðla til að tryggja jafnvægi milli réttar notenda og hugverkaeigenda.

Þessu jafnvægi ætti að leitast við að halda í hinu rafræna umhverfi.

Eftir því sem meira efni verður eingöngu tiltækilegt í stafrænu formi verður að tryggja rétt fólks til að nota það.

Allir, bæði almenningur, bókasöfn og hugverkaeigendur ættu að geta notið kosta hinnar nýju tækni. “ (ECUP 1996)

Í yfirlýsingunni eru svo leiðbeiningar um notkun hinna rafrænu miðla en í lok hennar er tekið fram, að samtökin álíti, að ekki þurfi að koma til meiriháttar breytinga á höfundaréttarlögum, vegna nýju miðlanna, heldur þurfi aðeins að móta nýjar reglur um notkun þeirra og það sé ákjósanlegt að gera á bókasöfnunum.

Höldum vöku okkar í höfundaréttarmálum!
Við bókasafns- og upplýsingafræðingar á Íslandi þurfum að fylgjast vel með því sem er að gerast í öðrum Evrópulöndum því enginn er eyland og allra síst bókasöfnin. Það hefur sýnt sig allsstaðar að það er ekki vanþörf á, að bókaverðir og samtök þeirra, standi vörð um hagsmuni notenda í þessu efni. Til þess að geta það, verðum við ævinlega að fylgjast með því sem er að gerast, í sambandi við lagasetningu um höfundarétt og gagnabanka, á meðan það er á vinnslustigi.

Þyrftum við t.d. ekki að taka afstöðu til þessa frumvarps um gagnagrunna á heilbrigðissviði, sem svo mikið hefur verið rætt um undanfarið. Umræddur gagnagrunnur á áreiðanlega eftir að verða mikilvægur á læknisfræðibókasöfnum, bæði hér á Íslandi og í öðrum löndum.

Í athugasemdum við frumvarpið er mælt með að fjársterkur aðili, kostaður af erlendu lyfjafyrirtæki fái starfsleyfi til að reka slíkan gagnagrunn og geti þar með öðlast einkaleyfi á gífurlegu magni verðmætra upplýsinga. Fyrirtækið ætlar svo að afhenda þjóðinni ókeypis lyf í staðinn eða „glerperlur fyrir gull“ svo vitnað sé til ályktunar Læknafélagsins um málið. Þar er jafnframt kveðið svo sterkt að orði, að sjálfstæðar vísindarannsóknir í læknisfræði myndu leggjast af, ef það næði fram að ganga.

Dettur nokkrum í hug að þetta fyrirtæki myndi gefa upplýsingar úr gagnabankanum eða veita ókeypis aðgang að honum?

Hverjir eru hinir upphaflegu eigendur að þessum upplýsingum? Eru það ekki þær stofnanir sem framleiddu þær upprunalega eða starfsmenn þeirra eða kannski það séu sjúklingarnir sem verið er að fjalla um?

Víða hafa höfundaréttarlögin verið að breytast í samræmi við samþykktir Evrópubandalagsins einkum hvað varðar stafrænu gögnin. Hér á landi er líka smám saman verið að bæta inn lagagreinum til að ná yfir þessa miðla þó breytingar hér séu enn ekki eins víðtækar og í Evrópubandalagslöndunum. Þær taka enn sem komið er aðeins til tölvuforrita.

Leiðbeiningar um notkun hugverka fyrir íslensk bókasöfn
Íslensk bókasöfn þurfa að setja sér ákveðnar samræmdar starfsreglur í samræmi við gildandi lög um notkun hugverka, sérstaklega hvað varðar netið og hin ýmsu tölvugögn.

Við höfum höfundaréttarlögin og bæklinga frá Stefi, Myndstefi og Fjölís en upplýsingarnar eru dreifðar og ekki sérstaklega miðaðar við bókasöfn.

Sem dæmi má nefna að Statens bibliotekstjeneste í Danmörku hefur gefið út greinargóðan bækling með leiðbeiningum um höfundarétt á safngögnum “ Ophavsretten på biblioteket“. Þar eru fyrst almennar upplýsingar um höfundarétt og hvaða undantekningar gilda frá honum, því það eru oftast þær sem eru áhugaverðar fyrir bókasöfnin. Síðan er hver tegund safnefnis tekin fyrir og skilgreint hvaða reglur gilda um hverja um sig.

Þær efnistegundir sem eru teknar fyrir þar, gefa hugmynd um hve efnið getur verið fjölbreytilegt.

Þær eru eftirtaldar: Bækur og bókmenntaverk, geisladiskar, tölvuforrit gefin út með bókmenntaverki, sérstök tölvuforrit, kvikmyndir og myndbönd, ljósmyndir, leikin tónlist, Internetið, kort og teikningar, lista- og myndverk, hljóðbækur og hljóðdagblöð, leshringir þar sem efni gengur milli manna, tónlistarmyndbönd, nótur, opinber lög og reglugerðir og aðrar opinberar samþykktir, þýðingar og umritanir, útvarps- og sjónvarpsútsendingar, safnverk, söngtextar.

Á hverju bókasafn um sig verður líka að setja leiðbeiningar um notkun gagna, merkja þau í samræmi við reglur ef þörf er á og skilgreina hvort t. d. einhverjir notendur hafi notkunarrétt umfram aðra, hvort safnið þarf að innheimta gjöld af notendum, halda saman tölum um notkun o.þ.h.

Lbs/Hbs og stærstu almenningsbókasöfnin þurfa t.d. nú þegar að standa skil á tölum um útlán íslenskra rita vegna úthlutunar úr Bókasafnasjóði rithöfunda.

Ýmsar aðferðir er verið að þróa til að fylgjast með notkun stafrænna gagna, „Electronic Copyright Management Systems“ (ECMS). Hægt er að nota t.d. ISBN númer til að þekkja verndað verk og segulkort til að sækja skjalið og jafnvel borga um leið.

Evrópuverkefnið CITED (Copyright in Transmitted Electronic Documents) gengur út á að þróa þess konar búnað. Vera má að stór bókasöfn þurfi í framtíðinni að verða sér úti um slíkt kerfi.

Ég ætla ekki að fara að setja fram neinar reglur um beitingu höfundaréttarlaga fyrir íslensk bókasöfn hér, en vona að t.d. Landsbókasafn – Háskólabókasafn, sem forystusafn okkar, láti útbúa slíkan bækling t.d. í samráði við t.d. Fjölís og haldi honum við eftir því sem lög og reglugerðir breytast.

Svona reglur fyrir bókasöfnin er ekki hægt að semja nema í samvinnu bókavarða og fulltrúa rétthafa.

Loks vil ég hvetja alla til að skoða vefslóðirnar um höfundarétt sem vísað er í hér að neðan, einkum samþykkt ECUP, prenta hana út og nota til að styðjast við þegar settar eru reglur um notkun stafræns efnis á bókasöfnunum.

© Ólöf Benediktsdóttir. Maí 1998

Heimildir:

Andersen, Jakob: Ophavsretten i praksis. DF. Revy 21(1998), 1: 15-16

Bettig, Ronald V.: Copyrighting culture: the political economy of intellectual property. Boulder, 1996. [Ritdómur] College & Research Libraries. Nov. 1997: 578-580.

Bókun 28 um hugverkaréttindi. EES-samningurinn. Utanríkisráðuneytið. URL: http://www.utn.stjr.is

The British Library Document Supply Centre. Copyright Fee Paid Photocopy Service. Special update – september 96/3b.
URL: http://portico.bl.uk/services/bsds/dsc/

Copyright. Information Europe. Dec. 1996. Issue 04 og Spring 1998. Issue 01.

Copyright crisis: ASLIB responds to new EC proposal. Managing Information April 98-5:3: 14-17.

Davenport, Elisabeth: Perceptions of copyright in a group of UK information scienthists. Aslib Proceedings 46(1994), 11/12: 267-274.

European Copyright User Platform (E©UP).
URL: http://www.kaapeli.fi/eblida/ecup

Frumvarp til laga um gagnagrunna á heilbrigðissviði. Þskj. 1134
URL: http://www.althingi.is

Hielmcrone, Harald V.: Ophavsretlige problemer. DF-Revy 20(1997), 7: 197.

Um heimildir til að ljósrita úr útgefnum verkum. Rv. FJÖLÍS, án árs.

Höfundalög 1972, nr. 73, 29. maí
URL: http://www.stjr.is/mrn

Höfundaréttur. Rv. Myndstef, 1993

Ljósritar þú löglega [veggspjald]. Rv. FJÖLÍS og Menntamálaráðuneytið, án árs.

Lög um bókasafnasjóð höfunda 1997, nr. 33, 16. maí.
URL: http://www.stjr.is/mrn

Lov om ophavsret 1996.
URL: http://www.ctu.dk/service/ophav/lov/index.htm

Nordic Conference on Copyright Issues. Proceedings of a conference organised by NORDINFO 1994. (NORDINFO publikation ; 30)

Ophavsretten & DPB.
URL: http://www.dlh.dk/dpb/ophavsret

Samþykktir fyrir FJÖLÍS. 30. desember 1995

Tøttrup, Margarethe: Ophavsretten på biblioteket. Kbh. Statens bibliotekstjeneste, 1997.

United States Copyright Office.
URL: http://lcweb.loc.gov/copyright/

United States Copyrigt Office. Copyright Internet Resources.
URL: http://lcweb.loc.gov/copyright/resces.html

Wall, Ray: Copyright forum. Managing Information. March 96-3:3: 25-26

Wiped out by WIPO (Propesed WIPO protocol – ASLIB responses; FID statement; ECIA; European Copyright User Platform: Position on user rights in electronics publications). Managing Information. Dec. 96-3:12: 24-32 WIPO.
URL: http://www.wipo.org/  

<