Segja má að Flataskóli sé mjög fjölþjóðlegur skóli því það eru  36 nemendur  sem tengjast öðrum löndum en Íslandi eða um 10% nemendafjöldans. Alls tengjast nemendur skólans 21 landi ef Ísland er meðtalið.


Í fyrra ákvað ég svo að bjóða foreldrum þessara nemenda að koma með þeim og bað þau að taka með sér ýmsa muni frá þeirra heimalandi. Þessi hópur átti notalega og skemmtilega stund saman þar sem foreldrar og nemendur sögðu frá ýmsu sem tengist menningu þeirra og siðum, sýndu myndir og hluti. Þessi litla hátíð á skólasafninu tókst mjög vel og var kveikjan að stórri og yfirgripsmikilli sýningu sem haldin var í Flataskóla nú í vetur.


Stjórn foreldrafélagsins fannst mikið til hátíðinnar í fyrra koma og tilnefndi hana m.a. til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla. Í framhaldi af því komu þau að máli við mig og stjórnendur skólans vildu vita hvort hægt væri að þróa þessa hugmynd enn frekar þannig að allir foreldrar og nemendur í skólanum gætu tekið þátt í slíkri hátíð eða viðburði byggt á grunni þeirrar vinnu sem ég hafði unnið við hátíðir á skólasafninu.


Markmiðið með verkefninu Þjóðardagur var að kynnast menningu og siðum þessara nemenda okkar en fyrst og fremst að kynnast hvert öðru betur.


Ég stýrði því þessu stóra verkefni með aðstoð frá Svanhvíti Guðbjartsdóttur og í samvinnu við stjórn foreldrafélagsins. Auk nemenda tóku því kennarar, starfsfólk og foreldrar virkan þátt í verkefninu.  Óskað var eftir því að allir sem hefðu tök á legðu fram hluti, myndir og annars hvaðeina sem gæti frætt um heimaland og menningu hlutaðeiðeigandi þjóðar. Afraksturinn var fullur hátíðasalur af þjóðbúningum og minjagripum frá yfir 20 löndum. Glæsileg þæfð blóm í öllum fánalitum, fánaborgir, alþjóðlegur matur og listaverk unnin í handmennt. Nemendur útbjuggju glærusýningu fyrir hvert land auk annarra verkefna sem þeir unnu um löndin. Það var sérstaklega eftirtektarvert hversu mikið þau börn sem eiga rætur að rekja til annarra landa en Íslands lögðu mikinn metnað í verkefnið og fylltust miklu stolti við það. Margir höfðu  á orði að það væri hreinlega eins og þessi börn stækkuðu um nokkra sentimetra við þetta. Aðrir nemendur höfðu einnig ánægju af verkefninu og foreldrar merktu að þeir töluðu mikið  um verkefnið heima fyrir.


Það var einnig dýrmætt að verða vitni að því hversu mikla ánægju það veitti  hinum erlendu börnum sem í skólanum eru að rætt sé um menningu þeirra og uppruna. Þau nutu þess að verða um stund miðpunktur athyglinnar, fá spurningar og geta frætt aðra nemendur og foreldra um þau lönd sem þau koma frá. Í heild er niðurstaðan afar jákvæð því þetta efldi skilning milli nemenda og foreldra þeirra sem og virðingu fyrir þeim menningarlega fjölbreytileika sem þessi börn og þeirra fjölskyldur þeirra standa fyrir. Allir voru mjög glaðir og ánægðir og töldu sig vera ríkari á eftir en fyrir hátíðina, en það var einmitt tilgangur og markmið þessa verkefnis.


 


Ingibjörg Baldursdóttir, bókasafnsfræðingur.