Skýrsla stjórnar 2001

Skýrsla stjórnar 15. maí 2000 til 15. maí 2001 
 
Upplýsing – Félag bókasafns- og upplýsingafræða varð til 1. janúar 2000 við sameiningu íslenskra bókavarðafélaga. Stjórn félagsins, kosin á stofnfundi 26. nóvember 1999, skiptist þannig: Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður, Svava H. Friðgeirsdóttir varaformaður – formaður og varaformaður eru tengiliðir við stjórnunarsvið. Lilja Ólafsdóttir, gjaldkeri, tengiliður við fjármálasvið; Hólmfríður Tómasdóttir ritari, viðheldur félagatali; Hafdís Dögg Hafsteinsdóttir meðstjórnandi, vefstjóri og tengiliður við útgáfusvið; Jenný K. Valberg meðstjórnandi, tengiliður við ráðstefnu- og fræðslusvið; Þórhallur Þórhallsson meðstjórnandi, tengiliður við fagsvið.

Alls voru haldnir 14 stjórnarfundi á tímabilinu. Hér verður sagt almennt frá helstu verkefnum sem stjórn félagsins hefur unnið að. Mikill tími hefur farið í innra starf, skipulagningu, ýmis konar frágang og stefnumótunarvinnu vegna yfirtöku Upplýsingar á starfsemi forvera félagsins og samningu verklagsreglna fyrir ýmsa þætti í starfsemi félagsins. Stjórnin birtir reglulega á heimasíðu sinni og/eða í Fregnum niðurstöður þeirra verkefna sem unnið hefur verið að. Auk neðanritaðs vinnur stjórnin að uppbyggingu og skipulagningu félagsins.

Í janúar 2001 var skrifstofa félagsins opnuð og er afgreiðslutíminn tvær klukkustundir á viku á fimmtudögum kl. 15:30-17:30. Stjórnarmenn skiptast á um að vinna á skrifstofunni.

Stjórnin hefur veitt umsögn um tvö frumvörp til lagabreytinga á starfstímabilinu (Lög um Blindrabókasafn og Lög um bókasafnsfræðinga).

Sótt hefur verið um styrki til ýmissa sérverkefna, ráðstefnu- og fundaferða til menntamálaráðuneytisins, sem m.a. hefur veitt styrki til námsefnisgerðar vegna náms í bókasafnstækni, til að gefa út fræðsluefni um nýtingu upplýsingatækni og til að þýða The School Library Manifesto. Þá hefur verið sótt um ferðastyrki til NORDINFO og Norrænu ráðherranefndarinnar

Upplýsing gerðist fullgildur aðili að EBLIDA (European Bureau of Library Information and Documentation Associations. (Fregnir 1/2001, s. 44). Félagið er aðili að Bókasambandi Íslands, Fagráði um upplýsingatækni, IBBY, EBLIDA, IASL, IFLA og NVBF. Formaður kynnti félagið fyrir nemum í bókasafns- og upplýsingafræði við Háskóla Íslands.

Frá EBLIDA berst mikið af upplýsingum til félagsins bæði í tölvupósti og á prentuðu formi. Upplýsingar sem berast frá EBLIDA á tölvupósti eru sendar á Skruddu til fróðleiks. Stjórnarmenn tóku þátt í aðgerð EBLIDA vegna höfundarréttarmála (Fregnir 1/2001, s. 44). Eins hefur verið komið á framfæri á Skruddu upplýsingum um ráðstefnur og fundi sem borist hafa til stjórnar.

Á starfsárinu sóttu samtals 43 (57) um aðild að félaginu 3 (35) nemar, 36 (20) einstaklingar og 4 (2) stofnanir). Þessum aðilum hafa verið send bréf og lög félagsins. Alls bárust stjórn 8 (10) úrsagnir 3 (5) einstaklingar og 5 (5) stofnanir).

Stjórn Upplýsingar hefur á stefnuskrá sinni að félagsmenn njóti betri kjara en utanfélagsmenn á námskeiðum og viðburðum sem staðið er fyrir innan vébanda félagsins og stjórn og/eða félagsmenn eiga þátt í að skipuleggja. Gildir þetta m.a. um endurmenntunarnámskeið og Landsfund bókavarða.

Útgáfustarfsemi

Í maí ár hvert er tímaritið Bókasafnið gefið út sem er fagtímarit á sviði bókasafns- og upplýsingafræða. Sérstök ritnefnd hefur veg og vanda af útgáfu blaðsins. Blaðið er birt á Netinu undir slóðinni www.bokasafnid.is

Stjórn félagsins hefur gefið út þrjú tölublöð Fregna á starfsárinu. Núverandi stjórn breytti brotinu í A4 og á starfsárinu hefur umfang blaðsins aukist verulega. Í fréttabréfinu eru birtar frásagnir og skýrslur um starfsemi ýmissa fulltrúa og nefnda á vegum Upplýsingar auk frétta og greina um það sem er á döfinni í bókasafnaheiminum á Íslandi og erlendis, auk frásagna af forvitnilegum ráðstefnum sem félagsmenn hafa sótt. Stjórn Upplýsingar vill hér með lýsa ánægju sinni með hve ötulir félagsmenn eru við að skrifa áhugaverðar greinar í blaðið.

Haldið hefur verið áfram uppbyggingu heimasíðu félagsins www.bokis.is . Ýmsar upplýsingar hafa verið settar inn á starfsárinu, s.s. félagatalið, verklagsreglur og lög og reglur um bókasafnsmál (Fregnir 1/2001, s. 42).

Lokið var við hönnun og útfærslu á einkennismerki (logo) fyrir félagið. (Fregnir 1/2001, s. 3). Bréfgögn fyrir félagið hafa verið prentuð og eru til sýnis hér á aðalfundinum og verða kynnt hér á eftir.

Stjórn Upplýsingar skilaði í júlí 2000, að beiðni FAIFE (Free Acess to Information and Freedom of Expression), skýrslu um bókasöfn og vitsmunalegt frelsi hér á landi (World Report: Libraries and Intellectual Freedom). Skýrslan er vistuð á heimasíðu FAIFE http://www.faife.dk sem og Yfirlýsing IFLA um bókasöfn og vitsmunalegt frelsi á íslensku. Krækjur eru í bæði skjölin af heimasíðu Upplýsingar.

Á starfstímabilinu hefur stjórn Upplýsingar unnið ýmis konar kynningarefni, verklagsreglur, eyðublöð og annað efni til að setja á heimasíðu félagsins. Auk þess birtist grein um sameiningarmálin í fréttbréfi EBLIDA Information Europe Summer 2000, s. 8 og í NORDINFO express, 2001. Væntanleg er grein í finnska blaðinu Tietopalvelu (Information Services) sem gefur út kynningarblað á ensku um norræn bókavarðafélög í tilefni af NORD IoD.

Ráðstefnur og fræðslufundir

Starfsárið nánast hófst með ráðstefnu NVBF um rafræna upplýsingaþjónustu sem haldin var í Reykjavík 22.-23. maí 2000 og þótti takast mjög vel (Fregnir 2/2000, s. 19). Gögn ráðstefnunnar eru á vefsetri Upplýsingar.

Í lok maí 2000 var árlegur fundur formanna og framkvæmdastjóra norrænna bókavarðafélaga (Nordisk bibliotekforeningsmøte) haldinn í Reykjavík. Fulltrúar úr stjórn Upplýsingar skipulögðu fundinn. (Fregnir 2/2000, s. 23). Norrænu gestirnir gerðu mjög góðan róm að skipulagningu og framkvæmd fundarins. Í lok apríl 2001 sóttu fulltrúar úr stjórn Upplýsingar sams konar fund í Stokkhólmi þar sem m.a. var rætt um sameiningu bókavarðafélaga, EBLIDA, IFLA og ýmis sameiginleg verkefni. Frásögn af fundinum verður í næstu Fregnum.

Í byrjun sept. var Landsfundur Upplýsingar haldinn á Akureyri. Landsfundur er haldinn annað hvert ár og er jafnan mjög fjölsóttur. Meginefni fundarins var Framtíðarsýn bókasafnsfólks, val á bókasafnskerfi á Íslandi, landsaðgangur að erlendum gagnagrunnum, fjarkennsla og streitustjórnun (Fregnir 3/2000, s. 22-25).

Formaður og ritari Upplýsingar sóttu 66. árlegu ráðstefnu IFLA sem haldin var í Jerúsalem í ágúst 2000. (Fregnir 25/3, s. 10-14). Þá sótti formaður sótti árlegan fulltrúaráðsfund EBLIDA sem haldinn var í Bremen að þessu sinni og sagt verður frá í næsta tölublaði Fregna.

Í febrúar var haldinn fræðslufundur þar sem Sveinn Ólafsson kynnti MA ritgerð sína: Iceland´s National Information Infrastrucure. (Fregnir 26/1, s. 41). Stjórnin stefnir að því að gefa þeim sem ljúka framhaldsgráðu í bókasafnsfræði kost á að halda fyrirlestur um lokaverkefni sín á vegum félagsins.

Nú í lok mars var haldinn annar fræðslufundur þar sem fjallað var um þær kröfur sem nemendur gera til bókasafna á 21. öld. Dr. Patricia L. Rogers, Fulbright kennari starfandi við KHÍ, flutti framsögu um málið. Í fyrsta sinn í sögu félagsins var notaður fjarfundabúnaður og var einnig hægt að njóta þess sem fram fór í Háskólanum á Akureyri.

Í lok maí verður ráðstefnan Nord I&D haldin í Reykjavík. Upplýsing á aðild að henni í gegnum einn af forverum félagsins, þ.e. Félag rannsóknarbókavarða og er heimasíða ráðstefnunnar hýst á vefsetri félagsins.

Nýútskrifuðum bókasafns- og upplýsingafræðingum var gefinn kostur á að kynna lokaverkefni sín fyrir starfandi bókavörðum á fræðslufundi en því miður sýndu þeir málinu ekki áhuga svo fundurinn féll niður.

Stjórnarmenn hafa setið ýmsa fundi sem fulltrúar félagsins, t.d. fundi með BHM varðandi húsnæðismálin og skipulagningu skrifstofu félagsins; fundi hjá Sameignarfélaginu Ásbrú, fund með fjármálaráðuneytinu um virðisaukaskatt af erlendum ritum (Fregnir 1/2001, s. 44), fund hjá menntamálanefnd um breytingu á lögum um lögverndað starfsheiti bókasafnsfræðinga (Fregni 1/2001, s. 40) en .stjórnin hafði áður skrifað menntamálaráðuneytinu og óskað eftir breytingu á lögunum (Fregnir 3/2000, 3. 37-39). Frumvarp að lagabreytingu er nú fyrir Alþingi. Nú hillir undir enn nýja norræna ráðstefnu (um millisafnalán) sem haldin verður haustið 2002.

Menntunarmál

Upplýsing stendur fyrir endurmenntunarnámskeiðum í samvinnu við Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Skuldlausir félagar í Upplýsingu fá 10% afslátt á námskeiðum á sviði bókasafns- og upplýsingafræði. Á haustönn voru haldin námskeiðin: Vefsmíðar, Þekkingarstjórnun, sem aðalráðgjafi Aslib í þekkingarstjórnun kenndi, og Þjónusta og viðmót starfsfólks á bókasöfnum. Á vorönn voru haldin námskeiðin: Vefsmíðar, Þjónusta og viðmót starfsfólks á bókasöfnum og Stjórn bókasafna og upplýsingamiðstöðva. Stefnt er að því að halda jafnan þrjú til fjögur endurmenntunarnámskeið á hvorri önn. Skipulagning haustannar stendur yfir.

Fulltrúar úr stjórn Upplýsingar hafa í samvinnu við fulltrúa frá Samtökum forstöðumanna almenningsbókasafna unnið að undirbúningi og skipulagningu náms fyrir ófaglærða bókaverði. Stjórnin fékk í þessu skyni styrk frá Starfsmenntaráði félagsmálaráðuneytis að upphæð kr. 500.000. Annars vegar er unnið að uppbyggingu náms sem fundið verður stað í framhaldsskólakerfinu og hins vegar er unnið að skipulagningu og útfærslu námsins fyrir starfandi bókaverði. Alls voru haldnir 27 fundir um málið á starfsárinu (Fregnir 3/2000, s. 19-20 og 1/2001, s. 4). Starfshópurinn hefur m.a. látið fara fram rannsókn á færnikröfum starfa ófaglærðra bókavarða hjá Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands (Fregnir 3/2000, s. 20-22). Í desember var skipaður fimm manna vinnuhópur til að vinna að námskrárgerð fyrir bókasafnstækni sem kennd verður sem sérnám á framhaldsskólastigi. Afrakstur þess starfs er að lokið er við vinnslu námskrár fyrir fjóra fimm eininga áfanga, Safnafræði, Skipulag safnkosts, Upplýsingatækni og Upplýsingaleiðir (Fregnir 1/2001, s. 5-12).

Nokkrir aðilar sem starfa fyrir hönd félagsins hafa sótt um styrki til stjórnar vegna starfseminnar og þar hefur enginn farið bónleiður til búðar. Auk þess hefur stjórnin úthlutað styrkjum til ráðstefnuferða úr Ferðasjóði.

Störf faghópa

Innan vébanda Upplýsingar fer fram öflugt starf í ýmsum nefndum og stjórnum sem fulltrúar félagsins taka þátt í og er það starf eðlilega drjúgur hluti hins faglega starfs félagsins. Skýrslur um þá starfsemi ásamt skýrslu stjórnar verða birtar í næsta fréttabréfi félagsins Fregnum. Ennfremur yfirlit yfir stjórn, nefndir, fulltrúa og ssamstarfsaðila Upplýsingar. Þar eru á blaði nöfn yfir 70 félaga sem taka þátt í félagsstarfinu.

Að lokum flytur stjórnin hér með öllum þeim sem starfa fyrir félagið á einn eða annan hátt alúðarþakkir og ennfremur öllum þeim félagsmönnum sem halda merki Upplýsingar á lofti með störfum í þágu félagsheildarinnar.

Að síðustu vill undirrituð þakka stjórnarmönnum gott samstarf.

f.h. stjórnar Upplýsingar –
Þórdís T. Þórarinsdóttir formaður